Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 2.000 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Everest hópur Útivistar mun fara aftur af stað með nýju sniði í ársbyrjun 2023. Farið verður á þrjá jökla á tímabilinu. Áður en farið er í jöklaferðirnar verða undirbúningsgöngur á áhugaverð fjöll í nágrenni Reykjavíkur, sem eru m.a. Esjan, Skarðsheiði, Botnsúlur og Hengill.
Umsjónaraðilar: Ingvar Júlíus Baldursson, Auður Jónasdóttir og Steinar Sólveigarson.
Fjallfarar Útivistar er hópur sem gengur saman eina dagsgöngu og eina kvöldgöngu í mánuði. Hópurinn er fyrir fólk sem hefur reynslu af gönguferðum og vill ganga dagleiðir sem eru í meðallagi langar og með nokkurri hækkun. Dagskráin yfir árið er tvískipt; annars vegar frá janúar til maí og hins vegar frá september til desember. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar að lengd og á hinum ýmsu svæðum.
Göngur Fjallfara eru frá miðlungs erfiðum upp í erfiðar göngur (2-3 skór). Mikilvægt er að hafa viðeigandi útbúnað og fatnað og hafa reynslu af að nota hann. Þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallfara eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar Fjallfara eru Hrönn Baldursdóttir, Margrét Harðardóttir, Ingvar Baldursson og Guðrún Svava Viðarsdóttir.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Dagskrá Útivistargírsins vorið 2023 hefst 11. apríl og stendur til 30. maí. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist jafnt sem vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá vor 2023
Fjallabrall er nýr hópur hjá Útivist og er ætlaður fólki sem hefur einhverja reynslu á fjallgöngum sem og þeim sem eru lengra komnir. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 500 metrar. Gengið verður reglulega fram til 7. desember eða 2-3 sinnum í mánuði en dagskrá hópsins hefst 24. ágúst með opinni ferð á Meðalfell þar sem fólki er velkomið að mæta og máta sig við fararstjóra og hópinn. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir og Fríða Brá Pálsdóttir.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Kálfstindar eru 826 m.y.s. og blasa við frá Þingvöllum. Gangan hefst við Laugarvatnsvelli og gengið um Barmaskarð og vestan við Reyðarbarm. Gengið á hæsta tindinn. Til baka niður á Laugarvatnsvelli verður farið um Flosaskarð. Þar á Flosi á Svínafelli að hafa riðið með fylgdarlið sitt til að forðast fyrirsát Kára Sölmundarsonar.
Nánari upplýsingar
Baula er tignarlegt og frægt fjall í uppsveitum Borgarfjarðar. Hún rís 917 metra yfir sjó og er brött og frekar erfið uppgöngu. Gangan byrjar við Bjarnadalsá við leiðina yfir Bröttubrekku. Gengið er meðfram ánni og haldið á brattan við mynni Mælifellsgils. Gott útsýni er af fjallinu.
Jarlhettur er tilkomumikil fjallaröð sem ber í Langjökul þegar horft er í norður frá Gullfossi. Sú tignarlegasta ber nafnið Stóra Jarlhetta og er einnig kölluð Tröllhetta. Gengið er frá Hagavatnsvegi í norður að Stóru Jarlhettu og austurhlíðin klifin. Staldrað verður við á toppnum því þar er gott að njóta útsýnis og nesta sig ef veður leyfir. Af fjallinu er víðsýnt til flestra átta. Af toppnum er haldið niður í Jarlhettudal og Jarlhettukvísl fylgt niður að Einifelli, þar sem rútan bíður okkar við skála F.Í.
Austur af Eldborg á Mýrum rísa tvö glæsileg blágrýtisfjöll, Fagraskógarfjall og Kolbeinsstaðafjall. Hæsti hluti þess sem fjær er, Kolbeinsstaðafjalls, nefnist Tröllakirkja. Skýringar nafnsins er ekki langt að leita því bæði er þessi kambur líkur kirkju að lögun og einnig eru greinileg „tröll” framan við kirkjudyrnar. Frá þjóðveginum virðist Tröllakirkja algerlega ókleif en svo er þó ekki. Gangan hefst við bæinn Mýrdal. Gengið verður upp bratta hlíð um nýfallna skriðu uns komið er á sillu sem Snjódalur nefnist. Með því að smeygja sér gegnum skarð í kambinum má komast út á mosavaxnar klettasillur hinum megin hans og þræða þær allt þangað til toppnum er náð. Á toppnum er aðeins pláss fyrir lítinn hóp í einu.
Smjörhnjúkar í Hítardal eru ægifagrir tindar upp af Þórarinsdal inn af Hítardal. Tindarnir skaga upp úr landslaginu og líta út fyrir að vera snarbrattir. Þaðan er mjög gott útsýni til allra átta yfir það sem sumir kalla snæfellsku alpana. Ekið verður inn að Hítarvatni. Gengið upp úr Þórarinsdal og þaðan um Löngubrekkur og hryggnum fylgt upp að tindunum.
Gangan á Geirhnjúk hefst við suðurenda Hítarvatns, nánar tiltekið við Fjallhús. Gangan á fjallið er auðveld en löng. Leiðin liggur upp hlíðina um Skálarkamb, Snjódali og Þrætumúla. Þaðan er leiðin smáhækkandi norður á hátindinn. Í björtu veðri er útsýni vítt til allra átta. Eftir að toppnum er náð verður haldið niður að Hítarvatni og gengið norðan með vatninu áleiðis að Fjallhúsi.
Lagt verður af stað frá bílastæðinu bakvið Endurhæfingarmiðstöð Reykjalundar í Mofellsbæ kl. 9:30. Gengið verður uppá Reykjafell og tinda þar í kring. Ef veður verða válynd þá munum við halda okkur á láglendi í Skammadal og nágrenni.
Austarlega á Snæfellsnesi rétt við þjóðveginn rís Hafursfell. Fjallið er umfangsmikið og tindótt og inn í það skerast margir dalir. Í næsta nágrenni eru mörg áberandi fjöll og umhverfið er fagurt. Gengið verður á Hafursfell frá bænum Dalsmynni, um Þverdal og á toppinn.
Ekið upp á Hellisheiði að vegamótum að Ölkelduhálsi. Lagt af stað frá Ölkelduhálsi og gengið yfir gjallgíginn Tjarnarhnúk á leið um Lakaskarð á Hrómundartind. Fjallsbrúnin er mjó og því getur verið ögrandi að horfa niður með hlíðum fjallsins.
Gangan hefst við Hrafnhóla. Stefnan tekin á austasta tind Móskarðshnúka yfir á Trönu og síðan norður á Möðruvallaháls niður í Kjós.
Mjög víðsýnt er af Kvígindisfelli. Gangan hefst rétt sunnan við Biskupsbrekku og farin þægileg gönguleið á Kvígindisfell (783m.y.s.). Þegar haldið verður niður af fjallinu er stefnan tekin norður fyrir Hvalvatn á lítið fell sem heitir Veggir. Þaðan liggur leiðin niður með Glym og endar við Stóra Botn í Botnsdal.
Gangan hefst við veg sem liggur að eyðibýlinu Arnarfelli. Gengið er eftir veginum og upp fjallið að vestanverðu. Þegar upp er komið sést tjörn eða lítið vatn sem heitir Stapatjörn. Gott útsýni er af fellinu.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Gangan hefst og endar á bílastæðinu við námuna undir Vífilsfelli. Gengið er upp austan megin á Sauðahnjúka. Leiðin liggur um skriður, móberg og mela. Einstakir kaflar af leiðinni geta reynt á lofthrædda.
Litli- og Stóri Meitill liggja á suðurhluta Hengilssvæðisins austan við Þrengslaveg. Þeir eru að mestu úr móbergi og umhverfis eru nútímahraun sem runnu fyrir um 2000 árum. Þetta er geysistór gígur sem hefur orðið til við gos undir jökli.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Gengið frá bílastæði við Grænavatn í Krýsuvík að Austurengjahver. Þaðan liggur leiðin á Stóra-Lambafell. Síðan er gengið fram hjá Fúlapolli, Svuntulæk og að Grænavatni þar sem gangan hófst.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Gengið er frá litlu bílastæði sem er staðsett hægra megin við Bláfjallaveg rétt fyrir neðan Eldborg. Vel merktur stígur er upp á Eldborgina og er gengið að hluta til ofan á henni. Þegar niður er komið er gengið á milli Eldborgar og Drottningar. Gengið er vestan megin upp á Drottningu og sömu leið til baka. Þegar komið er niður er þokkalega stikaður stígur í átt að Stóra-Kóngsfelli. Gangan á það hefst að norðanverðu en komið er upp á topp að sunnanverðu. Sama leið er gengin til baka.
Klóarvegur er gömul þjóðleið á milli Ölfuss og Grafnings. Farið verður frá Gufudal ofan Hveragerðis og gengið með Sauðá inn að Klóarfjalli. Þaðan verður haldið niður Tröllaháls með Kyllisfell á vinstri hönd. Á leiðinni sjást Kattartjarnir sem eru fornir hyldjúpir gígkatlar. Gengið um Laxárdal og niður með Súlufelli að Króki í Grafningi. Þar má sjá ummerki um stöðu Þingvallavatns til forna.
Segja má að Ingólfsfjall blasi við augum hvaðan sem er á Suðurlandi og á sama hátt má segja að allt Suðurland blasi við af fjallinu. Lagt verður til uppgöngu við Þórustaðanámu við fjallið sunnanvert og komið til byggða við Torfastaði í Grafningi. Hvort farið verður með brúnum fjallsins eða haldið sem leið liggur á Inghól fer eftir veðri og vindum.
Eyrarfjall er fremst í Hvalfirði og stendur stakt því Miðdalur nær hringinn í kringum það. Af fjallinu er gott útsýni yfir Hvalfjörð og nágrenni og er það frekar létt uppgöngu. Gangan hefst við gatnamót við túnið á Kiðafelli. Þar sjást gamlar leifar af járnbrautarvagni frá því í stríðinu. Gengið er eftir veginum inn Miðdal, inn fyrir tún, upp með girðinguni og upp vesturenda Eyrarfjalls. Þegar komið er upp á öxlina sést að fjallið er klofið af dalvepi, Stardal, og þarf að fara yfir litla á í botni hans til þess að komast á toppinn.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Gangan hefst þar sem keyrt er af Breiðholtsbraut inn að Dýraspítlanum. Gengið er í kringum vatnið og komið á sama stað aftur.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Við Kasthúsatjörn á Álftanesi er bílastæði og þar hefst gangan. Gengið verður meðfram sjónum í stórum hring kringum Bessastaðatjörn.
Gangan hefst við bílastæði við Heiðmerkurveg suðaustan við Vífilsstaðahlíð í Garðabæ. Þar er gott skilti sem fjallar um leiðina og helstu kennileiti. Gangan endar við Kaldársel.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Gangan hefst við gamla félagsheimilið við Klébergsskóla. Gengið er með ströndinni út á Kjalarnestá og til baka.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Gangan hefst við Haukahúsið á Ásvöllum. Gengið er vestan íþróttasvæðis niður að tengibrú stígs sem liggur umhverfis Ástjörn og að Ásfjalli. Á fjallinu er falleg vel hlaðin varða sem gaman er að príla upp á.
Sameinast í bíla hjá Mjódd og ekið á upphafsstað göngunnar. Ríkishringur byrjar og endar við brúna yfir Elliðavatn þar sem maður kemur frá Rauðhólum á leið upp í Heiðmörk. Lagt er af stað frá bílastæðinu vinstra megin. Þetta er einn lengsti mögulegi hringur í Heiðmörkinni. Til þess að fara hann þarf að hafa augun opin og beygja helst alltaf til vinstri miðað við að farið sé réttsælis.
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2023 er komin út. Kynningarblað fyrir áætlunina verður fljótlega sent félagsmönnum ásamt dreifingu í ýmsa vel valda staði en ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Jafnframt er hægt að sækja pdf útgáfu af blaðinu eða fletta því rafrænt.