Sveinstindur-Skælingar

Þessi leið er helsta skrautfjöður Útivistar. Ferðin hefst með göngu á Sveinstind. Útsýnið yfir hinn margrómaða Langasjó, sem kúrir upp við Vatnajökul, er hreint ólýsanlegt. Í góðu skyggni má líta yfir bróðurpart hálendis Íslands. Leiðin liggur svo um fáfarnar slóðir, söndugar og mosavaxnar; meðfram Skaftá og um leynistigu með Uxatindum og fram grösuga Skælinga. Ganga á Gjátind og um sjálfa Eldgjá er góður lokakafli á þessari margbreytilegu göngu sem lýkur í Hólaskjóli. Rétt er að vekja athygli ferðalanga á því að í upphafi ferðar er ekið framhjá Hólaskjóli og því geta þeir sem vilja gera sér dagamun í lok ferðar skilið þar eftir vistir. 

Trúss   
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.

Skipulag ferðar 
Hver dagleið í þessari ferð er um 18 km.

Dagur 1   
Brottför frá BSÍ kl. 08:30. Ekið austur fyrir fjall, upp Skaftártungu og að Langasjó. Þaðan er gengið á Sveinstind og niður að Skaftá þar sem gist er í skála Útivistar. Frá Sveinstindi er útsýni og fjallasýn einstök. Í góðu skyggni sést til Öræfajökuls í austri og Heklu í vestri. Haukfránir telja sig jafnframt geta greint Eiríksjökul yfir slakkann í Langjökli. Útsýni yfir 25 km langan Langasjó og græna og svarta tinda Fögrufjalla lætur engan ósnortinn. 

Skálinn við Sveinstind

Dagur 2   
Gengið með Skaftá, framhjá stórfenglegum flúðum og áfram um Hvanngil og Uxatindagljúfur milli Uxatinda og Grettis.  Þegar upp úr gljúfrinu er komið er gengið fram Skælingana sjálfa að skála Útivistar í Stóragili.  Tilfinningin að koma í Skælinga að kvöldi er ólýsanleg. Staðurinn stendur á bökkum Skaftár og er sérstakur vegna hraunmyndana úr Skaftáreldum. 

Skálinn á Skælingum

Dagur 3   
Gengið að börmum Eldgjár, farið er ofan í hana og hinn frægi Ófærufoss skoðaður. Síðan er gengið eftir gjánni og í skálann í Hólaskjóli þar sem gist er síðustu nóttina. 

Dagur 4   
Farið í stutta göngu í nágrenni Hólaskjóls. Hægt er að ganga upp hraunið með Syðri-Ófæru og skoða fossinn sem sumir kalla Litla-Gullfoss. Frá Hólaskjóli er haldið heimleiðis. 

Undirbúningsfundur   
Haldnir eru undirbúningsfundir fyrir hverja ferð þar sem fararstjóri kynnir leiðina og veitir ráð um útbúnað o.fl. Undirbúningsfundir eru yfirleitt haldnir viku fyrir brottför.