Sveinstindur-Skælingar

Þessi leið er helsta skrautfjöður Útivistar. Ferðin hefst með göngu á Sveinstind. Útsýnið yfir hinn margrómaða Langasjó, sem kúrir upp við Vatnajökul, er hreint ólýsanlegt. Í góðu skyggni má líta yfir bróðurpart hálendis Íslands. Leiðin liggur svo um fáfarnar slóðir, söndugar og mosavaxnar; meðfram Skaftá og um leynistigu með Uxatindum og fram grösuga Skælinga. Ganga á Gjátind og um sjálfa Eldgjá er góður lokakafli á þessari margbreytilegu göngu sem lýkur í Hólaskjóli. Rétt er að vekja athygli ferðalanga á því að í upphafi ferðar er ekið framhjá Hólaskjóli og því geta þeir sem vilja gera sér dagamun í lok ferðar skilið þar eftir vistir. 

Trúss   
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.

Skipulag ferðar 
Hver dagleið í þessari ferð er um 18 km.

Dagur 1   
Brottför frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju) kl. 08:00. Ekið austur fyrir fjall, upp Skaftártungu og að Langasjó. Þaðan er gengið á Sveinstind og niður að Skaftá þar sem gist er í skála Útivistar. Frá Sveinstindi er útsýni og fjallasýn einstök. Í góðu skyggni sést til Öræfajökuls í austri og Heklu í vestri. Haukfránir telja sig jafnframt geta greint Eiríksjökul yfir slakkann í Langjökli. Útsýni yfir 25 km langan Langasjó og græna og svarta tinda Fögrufjalla lætur engan ósnortinn. 

Skálinn við Sveinstind

Dagur 2   
Gengið með Skaftá, framhjá stórfenglegum flúðum og áfram um Hvanngil og Uxatindagljúfur milli Uxatinda og Grettis.  Þegar upp úr gljúfrinu er komið er gengið fram Skælingana sjálfa að skála Útivistar í Stóragili.  Tilfinningin að koma í Skælinga að kvöldi er ólýsanleg. Staðurinn stendur á bökkum Skaftár og er sérstakur vegna hraunmyndana úr Skaftáreldum. 

Skálinn á Skælingum

Dagur 3   
Gengið að börmum Eldgjár, farið er ofan í hana og hinn frægi Ófærufoss skoðaður. Síðan er gengið eftir gjánni og í skálann í Hólaskjóli þar sem gist er síðustu nóttina. 

Dagur 4   
Farið í stutta göngu í nágrenni Hólaskjóls. Hægt er að ganga upp hraunið með Syðri-Ófæru og skoða fossinn sem sumir kalla Litla-Gullfoss. Frá Hólaskjóli er haldið heimleiðis og er brottför frá Hólaskjóli milli kl. 13 og 14.


TRÚSSFERÐ

Hér fyrir neðan er listi sem hafa má til viðmiðunar þegar pakkað er fyrir trússferð þar sem sofið er í skála. Í trússferðum er hægt að vera með ívið meira með sér en í bakpokaferðum, en þó ber að stilla farangri í hóf því trússbílar eru ekki mjög stórir.

 

Búnaður

  • Bakpoki 30-35 lítra
  • Svefnpoki (ef til vill einnig lakpoki)
  • Hitabrúsi u.þ.b. 1/2 lítra
  • Drykkjarílát
  • Vatnsbrúsi/vatnspoki
  • Skyndihjálparbúnaður s.s. plástur á hælsæri (second skin), teygjubindi og verkjalyf
  • Hreinlætisvörur, s.s. tannbursti, sápa, salernispappír
  • Eldfæri (meðal annars til að brenna notaðan salernispappír)
  • Höfuðljós
  • Handklæði, annaðhvort dry fit handklæði eða taubleyja
  • Sólarvörn og varasalvi
  • Sólgleraugu
  • Flugnanet
  • Regnjakki og –buxur
  • Húfa og vettlingar

 

 Klæðnaður

  • Mjúkir/hálfstífir gönguskór, vatnsheldir og styðja vel við öklann
  • Auka skóreimar
  • Legghlífar, ef búast má við bleytu eða göngu í snjó
  • Göngubuxur úr gerviefnum
  • Ullarnærföt; langermabolur og síðar buxur
  • Göngusokkar – gott er að vera í þunnum sokkum (liner) undir þykkum sokkum
  • Aukasokkar
  • Bolir, peysur
  • Dún- eða primaluft-úlpa
  • Regnjakki og –buxur
  • Húfa og vettlingar
  • Vaðskór eru nauðsynlegir ef vaða þarf ár (strigaskór/sandalar/neoprene-skór, skórnir verða að vera vel fastir á fætinum)

Gallabuxur og annar bómullarfatnaður er bannaður á fjöllum. Ef slíkur fatnaður blotnar er hann lengi blautur og verður mjög kaldur. 

Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór.  Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann. 

Ef farangur er sendur í Bása skal merkja hann skálaverði í Básum og eiganda og taka skal fram í hvaða ferð eigandi er. Pakkaafgreiðsla BSÍ sér um flutninginn og greiða þarf sérstaklega fyrir sendinguna.

 

 

MATUR OG NÆRING

Mataræði er eitt af undirstöðuatriðum ánægjulegrar ferðar.  Nauðsynlegt er að huga vel að því hvaða matar skal neytt í ferðinn.  Mikill munur er á því sem borðað er á morgnana og því sem neytt er á kvöldin að göngu lokinni.

Morgunverður:
Á morgnana er gott að neyta matar sem er ríkur af kolvetnum, s.s. gróft korn og ávextir.  Einnig er gott að neyta próteinríkrar fæðu, en prótein fást úr kjöti, fiski, eggjum og mjólkurvörum. Dæmi um morgunmat er súrmjólk með 100-150 gr af músli eða hafragrautur, hrökkbrauð með smjöri og osti og svo er ágætt að drekka te eða kaffi.

 

Hádegismatur:
Í hádegismat er gott að borða flatbrauð eða gróft brauð með kæfu eða osti, heita pakkasúpu og orkuríkt nasl á eftir.

 

Kvöldverður:
Á kvöldin er gott að borða fituríka fæðu, því þá hefur líkaminn nægan tíma til að melta fæðuna. Vinsælt er að nota frostþurrkaðan mat sem fæst í útilífsverslunum.  Þessi matur er frekar dýr og því má einnig mæla með pasta og sósu, sem gjarnan má betrumbæta með rjóma/rjómaosti.  Eftir kvöldmatinn er gott að hita vatn í kakó og borða kex eða súkkulaði með.

 

Snarl yfir daginn:
Gott er að hafa eitthvert nasl til að grípa í yfir daginn, svo sem harðfisk, rúsínur, þurrkaða ávexti, hnetur, súkkulaði eða kex. 

 

Drykkir:
Nauðsynlegt er að hafa nóg af vatni til að drekka yfir daginn. Ef vitað er um læki á gönguleiðinni er óþarfi að bera allt vatn með sér að heiman, heldur má fylla á vatnsílát í lækjunum. Gætið þess að drekka jafnt og þétt yfir daginn. 
Nauðsynlegt er að hafa með sér heitt vatn á brúsa, sérstaklega ef kalt er eða hráslagalegt. Kakó er mjög góður hitagjafi en einnig er hægt að hafa með sér kaffi, te eða pakkasúpur.

Gætið þess að borða vel kvöldið fyrir göngu!