Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 2.000 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Everest hópur Útivistar mun fara aftur af stað með nýju sniði í ársbyrjun 2023. Farið verður á þrjá jökla á tímabilinu. Áður en farið er í jöklaferðirnar verða undirbúningsgöngur á áhugaverð fjöll í nágrenni Reykjavíkur, sem eru m.a. Esjan, Skarðsheiði, Botnsúlur og Hengill.
Umsjónaraðilar: Ingvar Júlíus Baldursson, Auður Jónasdóttir og Steinar Sólveigarson.
Fjallfarar Útivistar er hópur sem gengur saman eina dagsgöngu og eina kvöldgöngu í mánuði. Hópurinn er fyrir fólk sem hefur reynslu af gönguferðum og vill ganga dagleiðir sem eru í meðallagi langar og með nokkurri hækkun. Dagskráin yfir árið er tvískipt; annars vegar frá janúar til maí og hins vegar frá september til desember. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar að lengd og á hinum ýmsu svæðum.
Göngur Fjallfara eru frá miðlungs erfiðum upp í erfiðar göngur (2-3 skór). Mikilvægt er að hafa viðeigandi útbúnað og fatnað og hafa reynslu af að nota hann. Þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallfara eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar Fjallfara eru Hrönn Baldursdóttir, Margrét Harðardóttir, Ingvar Baldursson og Guðrún Svava Viðarsdóttir.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Dagskrá Útivistargírsins vorið 2023 hefst 11. apríl og stendur til 30. maí. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist jafnt sem vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá vor 2023
Fjallabrall er nýr hópur hjá Útivist og er ætlaður fólki sem hefur einhverja reynslu á fjallgöngum sem og þeim sem eru lengra komnir. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 500 metrar. Gengið verður reglulega fram til 7. desember eða 2-3 sinnum í mánuði en dagskrá hópsins hefst 24. ágúst með opinni ferð á Meðalfell þar sem fólki er velkomið að mæta og máta sig við fararstjóra og hópinn. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir og Fríða Brá Pálsdóttir.
Vörðutindur (1057 m.y.s.) liggur milli Heinabergsjökuls og Fláajökuls og er hæsti tindur Heinabergsfjalla. Þessi ganga liggur um leiðir sem fáir fara um og er fyrir vant göngufólk.
Ekið austur á eigin vegum á föstudeginum og sér hver og einn um sína gistingu. Á laugardeginum hittist hópurinn kl. 8:00 á bílastæðinu við Heinabergslón og dagurinn nýttur í göngu á Vörðutind. Farið er um jökulurð, skriður, gil og læki og gengið að hluta til á snjó. Heimferð á sunnudegi. Nánari upplýsingar
Um Jónsmessuhelgina er mikið um að vera á Fimmvörðuhálsi og í Básum. Þá er hin árlega Jónsmessuganga Útivistar yfir Fimmvörðuháls. Þessi ferð er einn af hápunktunum í starfi Útivistar ár hvert og allt kapp lagt á að gera hana ánægjulega fyrir alla þátttakendur. Lagt er af stað frá Reykjavík á föstudagskvöldi og gengið yfir Hálsinn um nóttina. Á leiðinni er stoppað á völdum stöðum og boðið upp á hressingu. Í dögun á laugardegi koma göngumenn niður í Bása þar sem tími gefst til að hvílast um stund. Um kvöldið er slegið upp grillveislu og kveiktur varðeldur þar sem Útivistargleðin ríkir.
Nánari upplýsingar
English version
Í Tindfjöllum rísa hæst tindarnir Ýmir (1464m) og Ýma (1448m). Í góðu veðri er stórkostlegt útsýni þaðan yfir Þórsmörk og Fjallabak, allt til Hrafntinnuskers og Háskerðings.Einnig blasir Suðurland við og Hekla virðist næstum innan seilingar.
Brottför á föstudagskvöldi kl. 18. Ekið á eigin bílum í Fljótsdal. Þaðan er gengið í Tindfjallasel sem er um 2 tíma gangur en farangur verður trússaður í skála.
Gengið á Ými og Ýmu á laugardeginum. Leiðin liggur um Saxaskarð og Brúarskarð, yfir jökulskallann að sunnanverðum Ými og upp skarðið sem skilur að tindana tvo. Á sunnudeginum verður farin léttari ganga áður en haldið verður í til byggða.
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Í þessari ferð er lögð áhersla á að hafa rúman tíma í gönguna þannig að hægt sé að njóta náttúrunnar í rólegheitum. Lagt af stað að morgni dags á föstudegi og gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls og gist þar í skála Útivistar. Á laugardegi verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim á leið. Athugið að farangur er trússaður í Bása en ekki er hægt að keyra í Fimmvörðuskála og því þarf að bera svefnpoka og mat fyrir fyrsta sólarhringinn.
Fararstjórar eru Helga Harðar og Guðrún Frímannsdóttir
ATH! Uppselt er í hópinn. Sendið tölvupóst á utivist@utivist.is ef þið viljið fara á biðlista.
Jógagönguferð, þar sem blandað er saman gönguferð í fallegri náttúru og jógaæfingum, öndun og hugleiðslu, er góð leið til að kúpla sig út úr amstri hins daglega lífs og hlaða batteríin. Jóga stuðlar að betra jafnvægi bæði andlega og líkamlega og passar einstaklega vel að gera jóga úti í náttúrunni þar sem áhrifin magnast enn frekar upp.
Í sumar mun Útivist bjóða upp á jógaferð í Þórsmörk dagana 7. - 9. júlí. Lagt verður af stað með rútu frá Reykjavík snemma á föstudagsmorgni og komið í Þórsmörk fyrir hádegi. Farið verður í gönguferðir um þetta einstaklega fallega og stórbrotna landslag alla þrjá dagana; föstudag, laugardag og sunnudag og svo haldið heim eftir hádegi á sunnudeginum. Þórsmörk er einstök perla þar sem fallegt landslag, fjöll, jöklar, gljúfur, gil og gróður mynda góðan ramma fyrir gönguferðir og jógaæfingar. Jóga er gert kvölds og morgna og einnig eftir aðstæðum yfir daginn. Öllum er velkomið að taka þátt og ekki er krafist neinnar fyrri reynslu af jógaiðkun.
Gengið yfir Fimmvörðuháls í einum áfanga á laugardegi og gist í Básum. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en rúta flytur hópinn heim.
Fararstjóri er Páll Arnarsson
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Í þessari ferð er lögð áhersla á að hafa rúman tíma í gönguna þannig að hægt sé að njóta náttúrunnar í rólegheitum. Lagt af stað að morgni dags á föstudegi og gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls og gist þar í skála Útivistar. Laugardag verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim á leið.Athugið að farangur er trússaður í Bása en ekki er hægt að keyra í Fimmvörðuskála og því þarf að bera svefnpoka og mat fyrir fyrsta sólarhringinn.
Lagt af stað að morgni laugardags og gengið rólega í Fimmvörðuskála þar sem verður gist. Á sunnuegi verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Heimferð úr Básum um kl. 13:00 á mánudegi (frídagur verslunarmanna), en áður gefst færi á að njóta paradísarinnar í Básum. Tilvalið að taka stálpaða krakka í þessa göngu. Nánari upplýsingar
Að loknu góðu ferðasumri liggja allar leiðir í Bása til að taka á móti haustinu. Á þeim tíma er einstakt að heimsækja Goðaland því þá gleðja haustlitirnir augað hvert sem litið er. Gönguferðir og holl útivist er einkenni ferðarinnar og því verður farið í góða göngu um Goðaland. Gönguleið verður valin eftir veðri og aðstæðum. Á laugardagskvöldi verður grillveisla og varðeldur að hætti Útivistar.
Í þessari ferð eru heimsóttir tveir einstakir staðir að Fjallabaki, hinn frægi Grænihryggur og einstakt náttúrufyrirbæri þar sem Rauðufossakvísl sprettur upp úr jörðinni.
Fararstjóri er Steinar Sólveigarson
Aðventuferðirnar í Bása eru alltaf frábær skemmtun bæði fyrir börn og fullorðna. Vetrarríkið skartar sínu fegursta og einhverjum sögum fer af því að jólasveinum bregði fyrir í fjöllunum og jafnvel fleiri meðlimum þeirrar fjölskyldu. Þegar skyggja tekur verður sest að jólahlaðborði og blásið til kvöldvöku.
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2023 er komin út. Kynningarblað fyrir áætlunina verður fljótlega sent félagsmönnum ásamt dreifingu í ýmsa vel valda staði en ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Jafnframt er hægt að sækja pdf útgáfu af blaðinu eða fletta því rafrænt.