Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Everest hópur Útivistar hefur göngu sína á ný!
Everest hópur Útivistar fer hærra og lengra með það að markmiði að njóta en ekki að þjóta.
Everest hópurinn er hópur fyrir göngufólk sem vill fara hærra, lengra og takast á við krefjandi aðstæður. Gert er ráð fyrir að þátttakendur hafi reynslu af göngum á „hærri“ fjöll þar sem flestar ferðirnar eru miðaðar við þriggja og fjögurra skóa ferðir.
Hópurinn ætlar, á árinu 2021, að fara samanlagt jafn marga hæðarmetra og tvö af hæstu fjöllum tveggja heimsálfa, Elbrus í Evrópu og Kilimanjaro í Afríku. Samanlögð hæð þeirra fjalla er um 11.600 metrar.
Farið verður í dagsferðir síðasta laugardag flesta mánuði ársins og einnig verða farnar helgarferðir í sumar og haust. Einhverjar ferðir eru farnar með öðrum hópum innan félagsins.
Þátttökugjald er 49.000 kr. Reynt verður eftir fremsta megni að sameinast í bíla en þegar það er ekki hægt er farið saman í rútu og er greitt sérstaklega fyrir þær ferðir. Í helgarferðum bætist einnig gistikostnaður við.
Ávallt eru minnst tveir reyndir fararstjórar í hverri ferð.
Fjöldi þátttakenda eru 30.
Fjallfarar Útivistar er samhentur hópur sem gengur saman 20 skipulagðar göngur frá ágúst fram í júní ár hvert. Að jafnaði er ein kvöldganga í mánuði og ein dagsferð með undantekningum þó en dagskránni lýkur með helgarferð . Í kvöldgöngum og einstaka dagsferðum sameinast hópurinn í bíla en í öðrum ferðum verður ferðast í rútu. Allajafna er brottför í kvöldgöngur kl. 18:00 á miðvikudegi og helgarferð kl. 8:00 á laugardegi.
Fjallfarar henta þeim sem þegar hafa tekið sín fyrstu skref í fjallgöngum og útivist og vilja ferðast drjúgar dagleiðir og krefjandi kvöldgöngur í góðra vina hópi. Byrjendum og skemur komnum bendum við á Útivistarlífið Rík áhersla er lögð á liðsheild og félagsanda meðal Fjallfara.
Fararstjórar Fjallfara eru Björgólfur Thorsteinsson, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Jóhanna Fríða Dalkvist og Guðmundur Örn Sverrisson.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Útivistarlífið er ný, spennandi og fjölbreytt þriggja mánaða dagskrá fyrir byrjendur og lengra komna í útivist. Þátttakendum gefst kostur á að prufa ýmsar greinar útivistar og erfiðleikastig miðast við byrjendur, 1-2 skór, léttar og miðlungs erfiðar ferðir sem flestir geta tekið þátt hafi þeir réttan útbúnað og líkamlega getu til þess.
Fjölbreytni ferða og samheldni hópsins verður í fyrirrúmi í Útivistarlífinu sem er kjörin dagskrá fyrir fólk sem vill njóta náttúrunnar í góðum hópi og prufa eitthvað nýtt í bland við klassískar Útivistarferðir.
Dagskrá Útivistarlífsins hefst í aftur í ágúst 2020.
Fararstjórar Útivistarlífsins eru Auður Jóhannsdóttir, Hanna Guðmundsdóttir, Ólöf Sigurðardóttir Kristjana Kristjánsdóttir, Ragnheiður Valgarðsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson.
Þrekhópur Útivistar fer nú aftur í gang 1. september n.k. og er nú opið fyrir skráningu. Skráning fer fram hér á vefnum en einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu Útivistar
Þrekhópur Útivistar er nýr dagskrárliður Ferðafélagsins Útivistar sem hentar þeim sem vilja koma sér í eða vilja halda sér í fjallgönguformi. Með þátttöku í Þrekhópi Útivistar geta þátttakendur tekið þátt í þrekæfingum á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18. Einnig eru þrekæfingarnar brotnar upp og farið í styttri ferðir á sömu dögum ca. tvisvar í mánuði fyrir fast, lágt mánaðargjald.
Fararstjórateymi Þrekhóps Útivistar samanstendur af sjúkraþjálfurum, yogakennurum og reyndum fararstjórum sem stýra ferðum með markvissum en ekki síst líflegum hætti. Eins og í öðru hópastarfi Útivistar er rík áhersla lögð á samheldni, öryggi og gleði.
Smelltu hér til að skrá þig í Þrekhóp Útivistar.
Tindfjallasel er tilvalinn til skíðaiðkunar, hvort heldur er fjallaskíði eða gönguskíði. Ekið á eigin bílum að Fljótsdal í Fljótshlið og gengið í Tindfjallasel þar sem er gist í tvær nætur. Laugardagur og sunnudagsmorgun nýttur til skíðaferða og verður bæði í boði ferðir fyrir gönguskíði og fjallaskíði.
Á Ströndum eru oft góð snjóalög þó jörð sé auð sunnan jökla og styttra að aka þangað en margur heldur. Ekið verður á einkabílum í Bjarnarfjörð á fimmtudagskvöld og gist að Laugarhóli í þrjár nætur. Farið verður í gönguskíðaferðir út frá Bjarnarfirði.
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls að kvöldi föstudags og gist þar í skála Útivistar. Á laugardegi verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi.
Um Jónsmessuhelgina er mikið um að vera á Fimmvörðuhálsi og í Básum. Þá er hin árlega Jónsmessuganga Útivistar yfir Fimmvörðuháls. Þessi ferð er einn af hápunktunum í starfi Útivistar ár hvert og allt kapp lagt á að gera hana ánægjulega fyrir alla þátttakendur. Lagt er af stað frá Reykjavík á föstudagskvöldi og gengið yfir Hálsinn um nóttina. Á leiðinni er stoppað á völdum stöðum og boðið upp á hressingu. Í dögun á laugardegi koma göngumenn niður í Bása þar sem tími gefst til að hvílast um stund. Um kvöldið er slegið upp grillveislu og kvöldvöku þar sem Útivistargleðin ríkir.
Gengið yfir Fimmvörðuháls í einum áfanga á laugardegi og gist í Básum. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en rúta flytur hópinn heim.
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Í þessari ferð er lögð áhersla á að hafa rúman tíma í gönguna þannig að hægt sé að njóta náttúrunnar í rólegheitum. Lagt af stað að morgni dags á miðvikudegi degi og gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls og gist þar í skála Útivistar á miðri leið. Fimmtudag verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á föstudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim á leið.
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls að kvöldi föstudags og gist þar í skála Útivistar. Á laugardegi verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim.
Gengið yfir Fimmvörðuháls í einum áfanga á laugardegi og gist í Básum. Á sunnudegi verður gengið um stórbrotið landslag í Teigstungum og Guðrúnartungum inn undir Mýrdalsjökli. Á mánudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi.
Lagt af stað að morgni föstudags og gengið rólega í Fimmvörðuskála þar sem verður gist. Laugardag er gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Heimferð úr Básum um kl. 13, en áður gefst færi á að njóta paradísarinnar í Básum. Tilvalið að taka stálpaða krakka í þessa göngu. Börn undir 18 ára aldri fá 50% afslátt.
Að loknu góðu ferðasumri liggja allar leiðir í Bása til að taka á móti haustinu. Á þeim tíma er einstakt að heimsækja Goðaland því þá gleðja haustlitirnir augað hvert sem litið er. Gönguferðir og holl útivist er einkenni ferðarinnar og því verður farið í góða göngu um Goðaland. Gönguleið verður valin eftir veðri og aðstæðum. Á laugardagskvöldi verður grillveisla og varðeldur að hætti Útivistar.
Aðventuferðirnar í Bása eru alltaf frábær skemmtun bæði fyrir börn og fullorðna. Vetrarríkið skartar sínu fegursta og einhverjum sögum fer af því að jólasveinum bregði fyrir í fjöllunum og jafnvel fleiri meðlimum þeirrar fjölskyldu. Þegar skyggja tekur verður sest að jólahlaðborði og blásið til kvöldvöku.
Það er fátt sérstakara en að kveðja gamla árið og fagna nýju í fögrum fjallasal umkringdum stórbrotinni náttúru, jöklum og eldfjöllum. Áramót í Básum eru ógleymanleg upplifun með gönguferðum, góðum mat, blysför, áramótabrennu, flugeldum og fleiru skemmtilegu. Allt góðum félagsskap manna, álfa og trölla eins og vera ber um áramót.
Ferðaáætlun Útivistar 2021 er komin út. Kynningarblað liggur frammi á skrifstofu Útivistar en ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Jafnframt er hægt að sækja pdf útgáfu af blaðinu eða fletta því rafrænt.