Saga Útivistar

Félagið Útivist var stofnað sunnudaginn 23. mars 1975 á fundi í Lindarbæ í Reykjavík þar sem mættir voru 54 stofnfélagar. Á fundinum voru samþykkt lög félagsins og kosnir 25 félagar í Kjarna og 6 til vara. Að loknum þeim fundi hélt Kjarninn sinn fyrsta fund og kaus 3ja manna stjórn félagsins sem skipuð var Einari Þ. Guðjohnsen, Jóni I. Bjarnasyni og Þór Jóhannssyni. Síðan fundaði stjórnin í fyrsta skipti og skipti með sér verkum þannig að Þór var formaður, Jón ritari en Einar meðstjórnandi og jafnframt framkvæmdastjóri félagsins.

Sótt var um starfsleyfi til ráðuneytis og viðurkenningu á félaginu sem ferðafélagi. Var sú umsókn staðfest og barst stjórn Útivistar hinn 13. maí 1975. Fyrsta húsnæði félagsins var að Lækjargötu 6a í Reykjavík.

Fyrsta ganga Útivistar var á Keili hinn 6. apríl 1975. Fararstjóri í þeirri ferð var Gísli Sigurðsson sem var reyndur fararstjóri, fróður og manna kunnugastur á þessum slóðum. Allar götur síðan hefur verið farin afmælisganga á Keili.

Árið 1981 var lögum breytt í því skyni að fjölga í stjórn félagsins. Stjórnarmenn urðu þá fimm talsins og þrír til vara. Sú skipan stjórnar hefur verið óbreytt síðan. Varamenn sitja stjórnarfundi og hafa þar málfrelsi og tillögurétt, en ekki atkvæðisrétt nema þeir leysi af fjarverandi stjórnarmann.

Í 2. gr. laga félagsins, sem samþykkt voru á stofnfundi, segir að tilgangur félagsins sé að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi. Í 3. gr. laganna er kveðið á um hvernig félagið hyggist ná þeim tilgangi sínum. Þar á meðal er að “koma upp gistiskálum, sem auðvelda ferðir og útivist á Íslandi”. Strax á stofnfundi beindust sjónir manna að Þórsmörk, en skiptar skoðanir voru um staðarval í Mörkinni. Niðurstaðan varð sú að Skógrækt ríkisins var skrifað bréf í maímánuði 1975 og óskað eftir aðstöðu fyrir félagið í Goðalandi. Endanlegar lyktir þeirrar málaleitunar voru að félagið fékk úthlutað svæði í Básum á Goðalandi.

Sumarið 1980 hófust byggingarframkvæmdir við skála í Básum og unnu Útivistarfélagar að byggingunni í sjálfboðavinnu. Í ágúst 1983 var síðan skálinn vígður. Auk skálans hafði þá verið byggt salernishús og leitt vatn á svæðið. Síðan var annar og minni skáli byggður á svæðinu og var hann tilbúinn til notkunar á 10 ára afmæli félagsins.

Allt frá því Útivist kom upp aðstöðu í Básum hefur hjarta félagsins slegið þar. Síðar kom félagið sér upp fleiri skálum eða gekk til samstarfs við heimamenn um nýtingu skála sem þegar voru til staðar. Skálarnir eru nú orðnir sjö talsins; í Básum, á Fimmvörðuhálsi, við Sveinstind, í Skælingum, við Álftavötn, Strútsskáli og Dalakofinn.

Frá upphafi hefur Útivist boðið upp á fjölda ferða á hverju ári og eykst úrvalið og fjölbreytnin ár frá ári. Þó eru alltaf nokkrir fastir punktar í starfsemi félagsins, til dæmis afmælisferðin á Keili sem áður var nefnd, Jónsmessunæturganga yfir Fimmvörðuháls og kirkjuferð í upphafi árs. Fjöldi fólks leggur hönd á plóg í sjálfboðavinnu, bæði við nefnda- og stjórnarstörf, vinnuferðir í skála og hvaðeina sem gera þarf. Fjöldi fararstjóra leiðir ferðir félagsins og tveir starfsmenn starfa á skrifstofu félagsins.

Ítarlegri frásögn af starfsemi félagsins fyrstu tíu starfsárin má lesa í grein Sigurgeirs Þorgilssonar Útivist 10 ára