Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Everest hópur Útivistar hefur göngu sína á ný!
Everest hópur Útivistar fer hærra og lengra með það að markmiði að njóta en ekki að þjóta.
Everest hópurinn er hópur fyrir göngufólk sem vill fara hærra, lengra og takast á við krefjandi aðstæður. Gert er ráð fyrir að þátttakendur hafi reynslu af göngum á „hærri“ fjöll þar sem flestar ferðirnar eru miðaðar við þriggja og fjögurra skóa ferðir.
Hópurinn ætlar, á árinu 2021, að fara samanlagt jafn marga hæðarmetra og tvö af hæstu fjöllum tveggja heimsálfa, Elbrus í Evrópu og Kilimanjaro í Afríku. Samanlögð hæð þeirra fjalla er um 11.600 metrar.
Farið verður í dagsferðir síðasta laugardag flesta mánuði ársins og einnig verða farnar helgarferðir í sumar og haust. Einhverjar ferðir eru farnar með öðrum hópum innan félagsins.
Þátttökugjald er 49.000 kr. Reynt verður eftir fremsta megni að sameinast í bíla en þegar það er ekki hægt er farið saman í rútu og er greitt sérstaklega fyrir þær ferðir. Í helgarferðum bætist einnig gistikostnaður við.
Ávallt eru minnst tveir reyndir fararstjórar í hverri ferð.
Fjöldi þátttakenda eru 30.
Fjallfarar Útivistar er samhentur hópur sem gengur saman 20 skipulagðar göngur frá ágúst fram í júní ár hvert. Að jafnaði er ein kvöldganga í mánuði og ein dagsferð með undantekningum þó en dagskránni lýkur með helgarferð . Í kvöldgöngum og einstaka dagsferðum sameinast hópurinn í bíla en í öðrum ferðum verður ferðast í rútu. Allajafna er brottför í kvöldgöngur kl. 18:00 á miðvikudegi og helgarferð kl. 8:00 á laugardegi.
Fjallfarar henta þeim sem þegar hafa tekið sín fyrstu skref í fjallgöngum og útivist og vilja ferðast drjúgar dagleiðir og krefjandi kvöldgöngur í góðra vina hópi. Byrjendum og skemur komnum bendum við á Útivistarlífið Rík áhersla er lögð á liðsheild og félagsanda meðal Fjallfara.
Fararstjórar Fjallfara eru Björgólfur Thorsteinsson, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Jóhanna Fríða Dalkvist og Guðmundur Örn Sverrisson.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Útivistarlífið er ný, spennandi og fjölbreytt þriggja mánaða dagskrá fyrir byrjendur og lengra komna í útivist. Þátttakendum gefst kostur á að prufa ýmsar greinar útivistar og erfiðleikastig miðast við byrjendur, 1-2 skór, léttar og miðlungs erfiðar ferðir sem flestir geta tekið þátt hafi þeir réttan útbúnað og líkamlega getu til þess.
Fjölbreytni ferða og samheldni hópsins verður í fyrirrúmi í Útivistarlífinu sem er kjörin dagskrá fyrir fólk sem vill njóta náttúrunnar í góðum hópi og prufa eitthvað nýtt í bland við klassískar Útivistarferðir.
Dagskrá Útivistarlífsins hefst í aftur í ágúst 2020.
Fararstjórar Útivistarlífsins eru Auður Jóhannsdóttir, Hanna Guðmundsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir, Ragnheiður Ýr Grétarsdóttir, Snorri Guðjónsson, Steinunn S. Ólafardóttir, Þórlaug Sveinsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson.
Þrekhópur Útivistar fer nú aftur í gang 1. september n.k. og er nú opið fyrir skráningu. Skráning fer fram hér á vefnum en einnig er hægt að hafa samband við skrifstofu Útivistar
Þrekhópur Útivistar er nýr dagskrárliður Ferðafélagsins Útivistar sem hentar þeim sem vilja koma sér í eða vilja halda sér í fjallgönguformi. Með þátttöku í Þrekhópi Útivistar geta þátttakendur tekið þátt í þrekæfingum á þriðjudögum og fimmtudögum kl. 18. Einnig eru þrekæfingarnar brotnar upp og farið í styttri ferðir á sömu dögum ca. tvisvar í mánuði fyrir fast, lágt mánaðargjald.
Fararstjórateymi Þrekhóps Útivistar samanstendur af sjúkraþjálfurum, yogakennurum og reyndum fararstjórum sem stýra ferðum með markvissum en ekki síst líflegum hætti. Eins og í öðru hópastarfi Útivistar er rík áhersla lögð á samheldni, öryggi og gleði.
Smelltu hér til að skrá þig í Þrekhóp Útivistar.
ATH. ferðin fellur niður vegna hvassviðris á gönguleiðinni.
Gangan hefst í Herdísarvík. Frá Herdísarvík liggur leiðin að Stakkavík meðfram Hlíðarvatni fram hjá Vogsósum að Strandarkirkju. Strandarkirkja í Selvogi var fyrst byggð á 13. öld. Sagan segir frá sjómönnum sem lentu í sjávarháska á leið til Íslands og hétu á Guð að ef þeir kæmust heilir í land myndu þeir byggja kirkju á þeim stað sem þeir kæmu að.
Göngulýsingar fyrir Everest hópinn
kl. 9:30.
Gangan hefst við Hvalneskirkju. Gengið verður að Stafnesi og til Hafna. Svæðið er ákaflega fallegt með miklu fuglalífi og mikilli friðsæld. Rétt sunnan við Stafnes eru Básendar þar sem var mikil verslun. Yfir Básenda gekk „Básendaflóðið“ árið 1799 og lagði staðinn í rúst. Lagðist þá verslun þar af svo og öll byggð. Stafnesviti var byggður árið 1925.
Hér er hægt að skrá sig í Þrekhóp Útivistar. Ganga þarf frá bókun með kortagreiðslu og er þá greitt fyrir fyrsta mánuðinn. Skrifstofa Útivistar mun í kjölfarið hafa samband til að ganga frá reglubundnum boðgreiðslum sem verða gjaldfærðar með sjálfvirkum hætti mánaðarlega af kortinu. Segja þarf upp í þrekhópnum með eins mánaðar fyrirvara.
Í byrjun febrúar ráða snjólög og veður miklu í vali á gönguleiðum. Ætlunin er að eyða þessum degi á og við Úlfarsfell.
08:00 Olís í Mosfellsbæ
Þessi næststærsti jökull landsins hefur löngum heillað íslenska jöklafara. Farið verður á jökulinn frá Jaka, síðan ekið norður eftir honum á Hveravelli. Þar verður hægt að skola af sér ferðarykið í einni vinsælustu fjallalaug landsins. Heimferð fer eftir aðstæðum, en stefnt er á að fara í Setur og þaðan um Kisubotna og Gljúfurleit að Flúðum, eða fara austur yfir Þjórsá á Sóleyjarhöfðavaði.
Gangan hefst í Höfnum. Hafnir tilheyra nú Reykjanesbæ og eiga sér 1100 ára sögu sem gaman er að kynna sér. Frá Höfnum verður gengið um Merkines að Hafnarbergi og að Stóru Sandvík. Stóra Sandvík er afar vel gerð vík af náttúrunnar hendi. Fyrir einhverjum árum var sáð melgresi til að hefta sandfok.
Akrafjall er ekki ýkja hátt (643 m. y.s.) en þaðan er ljómandi fallegt útsýni þegar veður leyfir. Þjóðsaga segir frá því hvernig fjallið myndaðist, en samkvæmt henni fór Jóka tröllkona suður á land að sækja sér fjall sem henni þótti fallegt. En af því fjallið var þungt var hún svo lengi á leiðinni heim á Snæfellsnes að sólin kom upp þegar kerla var stödd á Akranesi. Henni brá svo að hún missti fjallið, það klofnaði í tvennt og Berjadalur myndaðist. Sjálf varð Jóka að steini og er nú þar sem heitir Jókubunga í fjallinu.
Gengið verður upp norðanmegin Berjadals og farið þar með brúnum. Farinn verður hringur á fjallinu og niður aftur sunnan Berjadals.
kl. 09:00 frá Hrauneyjum
Ferðin hefst í Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum. Farið verður inn í Landmannalaugar, þaðan um Fjallabaksleið nyrðri, inn á Mælifellssand og í Strútsskála. Tekið tékk á Strútslaug og umhverfi, og tánum stungið í bað ef aðstæður eru góðar. Á sunnudeginum verður farið vestur Mælifellssand og niður í Fljótshlið eða um Mýrdalsjökul ef færi er gott.
Gangan hefst við Valahnúk á Reykjanesi og farið verður út á Öngulbrjótsnef. Þar má finna stórfenglega móbergsskúlptúra. Gengið meðfram ströndinni að Sandvíkum og yfir Reykjanesveginn að Prestastíg. Honum verður fylgt að Rauðhól og stefnan þaðan tekin á Eldvörp.
Vegalengd 16-17 km. Göngutími 6 klst. Hækkun óveruleg.
Húsfell er lágt fell inn af Heiðmörk sem rís 288 metra yfir sjávarmál. Af fjallinu er mjög víðsýnt. Gangan er létt á fótinn en nokkuð löng og liggur um falleg nútíma hraun. Á leiðinni verður m.a. kíkt við í Valabóli, gömlu aðsetri leitarmanna.
kl. 08:00 frá Olís við Rauðavatn
Farið verður frá Reykjavík að morgni laugardags og ferðinni heitið á Kjöl. Á Kjalvegi verður afleggjarinn til austurs í átt að Kerlingafjöllum ekinn og stefnan tekin á Gýgjarfoss. Í Fjöllunum verður síðan áð og notið. Að kaffisopa loknum liggur leiðin til austurs fyrir norðan Snækoll og Loðmund, yfir Illahraun í átt að Setri, þar sem gist verður um nóttina. Á sunnudagsmorgni liggur leiðin í suður undir Þverbrekkum í átt að Kisubotnum. Eftir vaðið á Kisu verður haldið upp á suðursvæði Kerlingafjalla með viðkomu í Klakksskála og Kerlingagljúfri. Leppistungurnar verða eknar og áð í Svínárnesi.
Haldið verður suður Hrunamannaafrétt og á leið okkar er Gullfoss í vesturátt. Leiðin liggur síðan gegnum Flúðir og heimleiðis.
Frá fallegu umhverfi í Eldvörpum, sem breytist verulega ef virkjunaframkvæmdir verða að veruleika, verður gengið að Þorbirni. Þaðan verður haldið yfir Grindavíkurveg að Hagafelli og hinum mögnuðu Gálgaklettum. Síðan liggur leiðin með Hrafnshlíð í átt að sunnanverðu Borgarfjalli og í Leirdal.
Fyrsta ferð Útivistar eftir stofnun félagsins var á Keili. Á hverju ári síðan þá hefur verið farin afmælisferð á fjallið. Farið frá Höskuldarvöllum yfir hraunið að fjallinu.
Ekið inn á Fjallabaksleið hjá Gunnarsholti, komið við í Hungurfitjum ef aðstæður eru góðar. Þaðan verður farið í Dalakofann þar sem gist verður um nóttina. Á sunnudeginum verður farin hin stórskemmtilega leið inn að Álftavatni, í Hvanngil, inn á Emstruleið og niður í Fljótshlíð.
Frá Leirdal verður gengið meðfram Núpshlíðarhálsi. Á vegi okkar verða tvö, gömul sel frá Grindavík, Hraunssel og Selsvellir. Farið verður yfir hálsinn sunnan við Spákonuvatn, norðan við Grænavatnseggjar og niður að Djúpavatni.
Farið upp á Eyjafjallajökul og gígurinn skoðaður sem og útsýni yfir Þórsmörk. Gist í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi þar sem verður grill og gaman. Á sunnudeginum verður farið yfir á Mýrdalsjökul og hann þveraður yfir á Mýrdalssand þaðan sem ekið verður til byggða í Fljótshlíð.
Farastjóri: Þorsteinn Pálsson
Frá Djúpavatni verður gengið meðfram Hrútfelli og að Hrútagjá. Hún er með fallegri gjám á Reykjanesi. Þaðan liggur leiðin sunnan við Fjallið eina og verður Undirhlíðum fylgt að Kaldárseli.
Krefjandi fjallganga á eitt af betri útsýnisfjöllum á suðvesturhorninu. Haldið á fjallið frá Botnsdal í Hvalfirði.
kl. 08:30 frá Smyrlabjörgum
Hin stórskemmtilega árlega vorferð um Vatnajökul er ein vinsælasta ferð jeppadeildarinnar. Ferðinni er nú heitið á austurjökulinn. Ferðin hefst að morgni fimmtudags frá Smyrlabjörgum en gisting nóttina áður er á ábyrgð hvers og eins. Ekið verður á Goðabungu og þaðan haldið í Snæfellsskála þar sem verður gist. Á föstudeginum verður ekið um öræfin austur af Vatnajökli með viðkomu í Egilsseli og Tröllakrókum. Kannaðar verða leiðir á Þrándarjökul og Hofsjökul eystri.
Farið verður niður Hraun, yfir Eyjabakkastíflu og um Snæfellsfjallgarð aftur í Snæfellsskála.
Laugardaginn verður lagt snemma af stað og ekið í Kverkfjöll þar sem farið verður í bað í Hveragili. Þaðan verður svo ferðinni haldið áfram á Grímsfjall og gist þar. Sunnudagurinn verður notaður til heimferðar frá Grímsfjalli, hefðbundna leið um Jökulheima í Hrauneyjar þar sem ferðinni lýkur.
Gangan hefst við Kaldársel. Gengið verður meðfram Valahnúkum að austanverðu og Selvogsgötu fylgt áfram yfir Kerlingaskarð. Þaðan verður stefnan tekin á Bláfjöll.
kl. 20.00 frá Hrauneyjum
Vatnajökull heillar alltaf og ef vorið verður kalt og hagstætt til jöklaferða er um að gera að nota tækifærið. Ekið frá Hrauneyjum í mildri vorbirtunni sem leið liggur í hinn frábæra skála Jöklarannsóknarfélagsins í Jökulheimum. Snemma á laugardegi tökum við glímuna við jökulinn og stímum að Grímsfjalli með viðkomu á Pálsfjalli. Gufubaðið og grillið tekið af fullri alvöru. Eftir indælan nætursvefn í einum mest sjarmerandi skála á Íslandi, verður lagt af stað í morgunroðanum áleiðis heim. Hamarinn og fleiri áhugaverðir staðir heimsóttir á leiðinni, allt eftir veðri.
Gengið verður sunnan við Bláfjallahorn og inn Kerlingardal. Stefnt verður á Syðri- og Nyrðri-Eldborg. Þetta svæði er eins og undraveröld með fallegum mosa á fallegu hrauni. Áfram verður haldið um skarðið við Lambafell og endar gangan í Sleggjubeinsdal.
Ísland stækkar að meðaltali um 2 cm á ári vegna gliðnunar. Reykjanesskagi er hluti af Atlantshafshryggnum en þar er líka styst niður á kviku. Í þessari ferð um Reykjanesskagann er sjónum beint að eldvirkni og háhitasvæðum. Austurengjahver sem er einn stærsti leirhver landsins verður skoðaður, kíkt á Eldborg undir Geitahlíð og síðan liggur leiðin út á Reykjanes. Þar ber margt fyrir augu m.a. Brimketill, Háleyjarbunga og Gunnuhver.
Eyjafjallajökull er með hæstu fjöllum landsins þar sem hann rís tignarlegur yfir Eyjafjöllum. Upp á jökulinn verður farin svokölluð Skerjaleið frá Þórsmerkurvegi. Í fyrstu er bratt upp á Litlu Heiði en síðan aflíðandi upp með Skerjunum að gígbarminum hjá Goðasteini í 1580 m hæð. Gengið verður yfir jökulinn og komið niður að Seljavallalaug.
Á Reykjaveginum hefur verið gengið um fallegt umhverfi frá Reykjanestá og ekki tekur síðra svæði við hér. Upphaf göngunnar verður í Sleggjubeinsdal og farið verður framhjá Draugatjörn að Engidal og þaðan í Marardal. Áfram liggur leiðin í gegnum Dyradal og meðfram veginum að Nesjavöllum.
Hér er um nokkuð krefjandi göngu í nágrenni Reykjavíkur að ræða þar sem gengið er í stórgrýti efst á toppi fjallsins. Á þessari leið er þörf á góðum gönguskóm með góðan stuðning við ökla. Gangan mun hefjast nálægt eyðibýlinu Ártúni sem stóð við Blikadalsá. Þaðan verður svo lagt á syðri hrygg Esjunnar um Smáþúfur, upp á Kambshorn og Kerhólakamb. Þar verður áð og útsýnis notið. Af Kerhólakambi verður svo gengið á Hábungu, þaðan niður og fyrir Þverárdal um Laufskörð og upp á Móskarðahnúk(a). Að lokum þegar síðasta tindi hefur verið náð verður gengið niður að Hrafnhólum þar sem gangan endar.
Skriðutindar er tindaskagi austan við fjallið Skriðu. Þar sem tindarnir liggja alveg upp að Skriðu er þröngt dalverpi sem sagt er að sé hverju kvikindi ófært og þar þarf að fara með gát. Gangan hefst austan við Gullkistu sem er hæð á Miðdalsfjalli. Þaðan eru um 4 km að Skriðutindum. Tindarnir eru margbreytilegir að lögun og skemmtilegir að skoða. Þegar komið er austur fyrir tindaröðina er gott útsýni til Hlöðufells, Högnhöfða og Skriðu. Milli Skriðutinda og Skriðu er Litli Skriðukrókur og verður haldið þar inn að fyrrnefndu dalverpi. Þaðan verður gengið niður á veg þar sem gangan hófst.
Árleg sumarnæturganga Útivistar hinn 17. júní yfir Leggjabrjót. Gengið verður frá Svartagili upp með Öxará yfir hinn eiginlega Leggjabrjót að Sandvatni. Farið verður fram á brúnir Brynjudals og horft niður á Skorhagafoss í Brynjudalsá. Síðan liggur leiðin yfir Hrísháls niður í Botnsdal. Þessi ferð er góð upphitun fyrir Jónsmessugöngu Útivistar.
kl 17:00
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls að kvöldi föstudags og gist þar í skála Útivistar. Á laugardegi verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi.
Af tindum Snæfellsjökuls er ógleymanlegt að upplifa sumarsólstöður þegar sólargangur er lengstur hér á norðurhveli jarðar.
Gengið verður frá Jökulhálsi og hefst gangan kl. 21. Markmiðið er að vera á toppi jökulsins, milli þúfna um kl. 00:30, og sjá sólina setjast en rísa jafnharðan aftur.
Þessi skráning er einungis fyrir skráða Fjallfara sem vilja kaupa skálagistingu í lokaferð Fjallfara vorið 2021.
kl. 17:00.
Um Jónsmessuhelgina er mikið um að vera á Fimmvörðuhálsi og í Básum. Þá er hin árlega Jónsmessuganga Útivistar yfir Fimmvörðuháls. Þessi ferð er einn af hápunktunum í starfi Útivistar ár hvert og allt kapp lagt á að gera hana ánægjulega fyrir alla þátttakendur. Lagt er af stað frá Reykjavík á föstudagskvöldi og gengið yfir Hálsinn um nóttina. Á leiðinni er stoppað á völdum stöðum og boðið upp á hressingu. Í dögun á laugardegi koma göngumenn niður í Bása þar sem tími gefst til að hvílast um stund. Um kvöldið er slegið upp grillveislu og kvöldvöku þar sem Útivistargleðin ríkir.
kl. 17:00
kl. 18:00
kl 18:00
kl. 8:00
Hér er klassísk Laugavegsferð þar sem leiðin er gengin í fjórum þægilegum áföngum. Ekið í Landmannalaugar að morgni dags og samdægurs gengið sem leið liggur í Hrafntinnusker þar sem gist er fyrstu nóttina. Úr Hrafntinnuskeri er haldið suður eftir sléttum vestan Reykjafjalla og um Jökultungur í Hvanngil. Frá Hvanngili er gengið um slétta sanda, með Mýrdalsjökul á vinstri hönd, í Emstrur þar sem gist er í Botnaskála. Frá Emstrum liggur leiðin yfir Syðri-Emstruá á göngubrú í fallegu gili og áfram sem leið liggur um Almenninga í Þórsmörk. Í Básum á Goðalandi bíður göngumanna grillveisla í einstöku umhverfi, en þar er gist í notalegum skála. Á sunnudegi er farið í stutta göngu um nágrenni Bása áður en haldið er heim.
Beljandi jökulá, viðkvæmar mosabreiður, eldfjallajarðvegur og stórbrotnar hraunmyndanir eru það sem einkenna þessa sérstöku gönguleið. Gangan hefst við eitt fegursta fjallavatn landsins, Langasjó. Þar er gengið á Sveinstind, en í góðu skyggni er útsýni yfir sunnanvert hálendið og um breiður Vatnajökuls. Gist í Sveinstindsskála sunnan við fjallið. Þaðan er haldið niður með Skaftá í Skælinga þar sem einstakar hraunmyndanir setja svip á umhverfið. Frá Skælingum er gengið á Gjátind og niður í Eldgjá. Gangan endar í Hólaskjóli þar sem gist er síðustu nóttina.
Í víðum fjallasal breiðir Hólmsárlón úr sér en yfir því gnæfa Svartahnjúksfjöll og Torfajökull. Í suðri má sjá tindinn á fjallinu Strút, en af honum er nafn leiðarinnar dregið.
Gangan hefst í Hólaskjóli en þaðan er um tveggja klukkustunda gangur í skálann við Álftavötn þar sem gist er fyrstu nóttina. Frá Álftavötnum er gengið með Svartahnjúksfjöllum í Hólmsárbotna og þar gefst jafnan tækifæri til að skola af sér ferðarykið í hinni rómuðu Strútslaug. Úr lauginni er gengið í Strútsskála þar sem gist er tvær nætur. Þann dag sem dvalið er í skálanum er gengið um einstakt umhverfi skálans. Á lokadegi liggur gönguleiðin um Mælifellssand í Hvanngil þar sem rúta tekur upp hópinn.
Elliðatindar eru á sunnanverðu Snæfellsnesi, nokkuð vestan við Vegamót. Hæsti tindurinn er 864 m.y.s. Elliðahamrar er svipmikið hamraþil sem blasir við frá veginum út á Snæfellsnes. Þetta er áhugavert fjall sem fáir hafa gengið á.
Gengið yfir Fimmvörðuháls í einum áfanga á laugardegi og gist í Básum. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en rúta flytur hópinn heim.
Dalastígur er ný gönguleið á fáförnum en virkilega áhugaverðum slóðum að Fjallabaki. Farið með rútu að Mosum skammt frá Markarfljóti. Þaðan verður gengið í Þverárgil og komið við í sérstæðum gististað gangnamanna í hellisskúta. Áfram er haldið í skálann í Hungurfitjum þar sem gist verður fyrstu nóttina. Frá Hungurfitjum er gengið upp Skyggnishlíðar að Skyggnisvatni, síðan að Laufavatni í Laufahrauni og áfram í Dalakofann þar sem verður gist. Leiðin frá Dalakofanum liggur yfir norðanverðan Svartakamb að Rauðufossafjöllum. Þar er sérkennileg uppspretta Rauðufossakvíslar og verður ánni fylgt niður fyrir Rauðufossa. Þaðan verður gengið í Landmannahelli og gist þar. Leiðin Í Landmannalaugar liggur um Hellismannaleið.
auglýst síðar.
Að þessu sinni þá verður ferðinni heitið á hálendið norðan Hofsjökuls. Lagt verður upp frá Varmahlíð í Skagafirði mánudaginn 5. júlí kl. 10.00. Ekið er suður Skagafjarðarveg í átt að Goðdalafjalli, en vegurinn upp á fjallið er eilítið sunnan við Svartárdal í Skagafirði. Ferðinni er heitið í Skiptabakkaskála, en sá skáli er í eigu 4x4 klúbbsins í Skagafirði og er einstaklega vistlegur. Á þriðjudeginum er ekið í átt að Hofsjökli og stefnt á Eyfirðingaveg hjá Jökultungum rétt vestan við Krókafell. Hjá Sátu er aftur stefnt norðureftir Eyvindarstaðaheiði, framhjá Syðra- og ytra Skiptafellum og stefnt á Bugavatn (Aðalmannsvatn) og gist í Bugaskála. Á miðvikudeginum verður síðan haldið yfir í Mælifellsdal þaðan í Kiðaskarð með viðkomu á Þrándarhlíðarfjalli. Síðan liggur leiðin í Svartárdal í A-Húnavatnssýslu og komið við í Stafnsrétt. Upp á Eyvindarstaðaheiði er haldið enn á ný og hún ekin suður, framhjá Galtará og Blöndulóni og fram að Ströngukvíslarskála þar sem gist verður síðustu nóttina. Um morguninn verður haldið að stíflunni á Blöndulóni og þar endar ferðin. Áhugasamir hafa þá möguleika á að velja Kjalveg til heimfarar ef ferðalangar stefna á Suðurland.
Kjalvegur hinn forni er um 41 km og liggur frá Hveravöllum að Hvítárnesi. Þessi gönguleið er ein af klassískum gönguleiðum á hálendinu og liggur um vestanverðan Kjöl nærri Langjökli um fallegt og fjölbreytt landslag.
kl. 9:00
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Í þessari ferð er lögð áhersla á að hafa rúman tíma í gönguna þannig að hægt sé að njóta náttúrunnar í rólegheitum. Lagt af stað að morgni dags á föstudegi og gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls og gist þar í skála Útivistar á miðri leið. Laugardag verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim á leið.
Útivist býður upp á þriggja daga (tveggja nátta) jógaferð í Kerlingarfjöll þar sem gist verður í notalegum skála, farið í gönguferðir um nágrennið alla dagana auk þess að stunda jóga. Jógað verður gert kvölds og morgna og eftir stað og stund yfir daginn.
Lagt verður af stað úr Reykjavík á eigin bílum kl. 8:30 á föstudagsmorgninum og ekið upp í Kerlingarfjöll (fært flestum bílum, allar ár brúaðar). Náttúrufegurð Kerlingarfjalla er margrómuð og munum við ganga um hverasvæði, á fjöll í nágrenninu, baða okkur í heitri uppsprettu og njóta náttúrunnar. Fararstjórar eru Þórlaug Sveinsdóttir og Ragnheiður Ýr Grétarsdóttir, báðar sjúkraþjálfarar, jógakennarar og leiðsögumenn.
Í þessari ferð er gist í Landmannalaugum fyrstu nóttina og gefst því tækifæri til að skoða umhverfið og jafnvel fara í fjallabað í lauginni. Að morgni næsta dags eru gönguskórnir reimaðir og gengið yfir Laugahraun og hjá Brennisteinsöldu í Hrafntinnusker. Áfram er haldið í suður eftir sléttum vestan Reykjafjalla og um Jökultungur að Álftavatni og gist þar. Þaðan liggur leiðin framhjá Hvanngili í Emstrur þar sem gist er í Botnaskála. Þennan dag þarf að vaða ár sem þó ættu ekki að vera erfiður farartálmi. Frá Emstrum liggur leiðin yfir Syðri-Emstruá á göngubrú í fallegu gili og áfram sem leið liggur um Almenninga í Þórsmörk. Í Básum á Goðalandi bíður göngumanna grillveisla í einstöku umhverfi, en þar er gist í notalegum skála. Áður en haldið er heim á leið á sunnudegi er farið í stutta göngu um nágrenni Bása.
Í ár vígjum við nýja gönguleið um ótroðnar slóðir. Gengið er um Tindfjöll og ofanverða Rangárvelli að Rjúpnavöllum. Þaðan liggur leiðin um hina rómuðu Hellismannaleið. Spennandi valkostur fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt.
Hinar svokölluðu Víknaslóðir eru margrómað gönguland sem enginn verður svikinn af að skoða. Þátttakendur koma sér á eigin vegum á Bakkagerði í Borgarfirði eystri þar sem gangan hefst og líkur.
Langleiðin heldur áfram en hún hófst í fyrra hjá Fonti á Langanesi. Þetta er í þriðja sinn sem þessi raðganga er í boði hjá Útivist en ólíkt fyrri göngum er nú gengið úr norð-austri til suð-vesturs. Nú í ár liggur leiðin um hálendið norðan Vatnajökuls. Yfir þurrasta og óbyggilegasta hluta landsins sem jafnframt er sá stórbrotnasti og mest framandi.
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls að kvöldi föstudags og gist þar í skála Útivistar. Á laugardegi verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim.
Þessi Laugavegsferð er ætluð allri fjölskyldunni og sniðin að þörfum barna. Hér er því upplagt tækifæri til að kynna börnunum fyrir dásemdum útivistar. Ekið í Landmannalaugar að morgni dags og samdægurs gengið sem leið liggur í Hrafntinnusker þar sem gist er fyrstu nóttina. Úr Hrafntinnuskeri er haldið suður eftir sléttum vestan Reykjafjalla og um Jökultungur í Hvanngil. Frá Hvanngili er gengið um slétta sanda, með Mýrdalsjökul á vinstri hönd, í Emstrur þar sem gist er í Botnaskála. Frá Emstrum liggur leiðin yfir Syðri-Emstruá á göngubrú í fallegu gili og áfram sem leið liggur um Almenninga í Þórsmörk. Í Básum á Goðalandi bíður göngumanna grillveisla í einstöku umhverfi, en þar er gist í notalegum skála. Á sunnudegi er farið í stutta göngu um nágrenni Bása áður en haldið er heim.
Útivist býður núna í fyrsta sinn upp á skemmtilega hringleið eða þríhyrningsleið þar sem gengið er milli þriggja skála. Ekið er á eigin bílum að eyðibýlinu Fossi á Rangárvöllum. Bærinn er staðsettur ofan við Keldur við upphaf Fjallabaksleiðar syðri. Þangað er fært fyrir alla bíla en aka þarf rólega síðasta spölinn. Frá Fossi er gengin einstaklega falleg leið upp með Eystri-Rangá í Hungurfit þar sem gist er fyrstu nóttina. Á öðrum degi er gengið úr Hungurfitjum á Tindfjöll og jaðri jökulsins fylgt í Tindfjallasel þar sem er gist. Síðasti göngudagurinn er svo frá Tindfjallaskála að bænum Fossi þar sem gangan hófst og gist þar síðustu nóttina. Leiðin liggur sunnan við Vörðufell og stefnan tekin á Litla Bláfell. Komið er að eyðibýlinu Rauðnefsstöðum sem fór í eyði eftir Heklugosið 1947. Farið á vaði yfir Eystri Rangá áður en komið er að Fossi.
Bækistöðvarferð fyrir krakka, mömmur, ömmur, pabba, afa, frænkur og frændur. Hálendið í kringum Strútsskála verður kannað, farið í Strútslaug, ætt upp og niður fjöll, stiklað yfir ár og leitað að hellisskútum. Gil og krókar í nágrenni skálans verða skoðuð hátt og lágt. Farið verður í ratleik, föndrað og poppað við varðeld. Það verður glens og gaman. Síðasta kvöldið verður sameiginlegur matur.
Börn undir 18 ára aldri fá 50% afslátt.
Gengið yfir Fimmvörðuháls í einum áfanga á laugardegi og gist í Básum. Á sunnudegi verður gengið um stórbrotið landslag í Teigstungum og Guðrúnartungum inn undir Mýrdalsjökli. Á mánudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi.
Á Skarðsheiði eru margar spennandi gönguleiðir. Ein sú áhugaverðasta er að ganga eftir fjallinu endilöngu. Frá Geldingadraga verður haldið á fjallið og hreppamarkalínunni fylgt lengst af. Farið verður eftir fjallshryggnum og topparnir þræddir að hæsta tindi, Heiðarhorni sem er 1053 m.y.s. Göngunni lýkur við Efra-Skarð í Skarðsdal.
Vegalengd 17-19 km. Hækkun 800 m. Göngutími 8-9 klst.
Lagt af stað að morgni föstudags og gengið rólega í Fimmvörðuskála þar sem verður gist. Laugardag er gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Heimferð úr Básum um kl. 13, en áður gefst færi á að njóta paradísarinnar í Básum. Tilvalið að taka stálpaða krakka í þessa göngu. Börn undir 18 ára aldri fá 50% afslátt.
Norðan Landmannaleiðar blasir fjallið Löðmundur við, grasi vaxið frá fjallsrótum. Af fjallinu er víðsýnt til allra átta. Segja má að allt hálendið milli Langjökuls, Hofsjökuls og Vatnajökuls blasi við. Gengið verður frá Landmannahelli og farinn hringur um fjallið.
Vegalengd 9 km. Hækkun 700 m. Göngutími 5 klst.
Stóra-Jarlhetta (943 m.y.s.), sem stundum er nefnd Tröllhetta er nyrst í tindaröð sem einu nafni heita Jarlhettur.
Jarlhettur er móbergshryggur með um 20 misháum tindum, myndaður við sprungugos undir jökli. Eftir göngu á Stóru-Jarlhettu verður farið upp að Hagavatni og hið magnaða náttúrufyrirbæri Farið (útfall Hagavatns) skoðað.
Esjan að norðanverðu er mjög skemmtileg. Í þetta sinn hefst gangan við bæinn Flekkudal við Meðalfellsvatn.
Gengið verður upp á Nónbungu og Skálatind sem er í rúmlega 800 metra hæð. Kannski verður farið á Hátind líka ef vel viðrar. Reiknað er með að fara hring á fjallinu og til baka austan Flekkudals. Nánari ferðatilhögun ræðst þó af veðri.
Í Tindfjöllum rísa hæst tindarnir Ýmir og Ýma. Í góðu veðri er stórkostlegt útsýni þaðan yfir Þórsmörk og Fjallabak, allt til Hrafntinnuskers og Háskerðings. Einnig blasir Suðurland við og Hekla virðist næstum innan seilingar. Ekið verður eins langt og fært er, að minnsta kosti að Tindfjallaseli. Þaðan verður gengið um Saxaskarð og Brúarskarð, yfir jökulskallann að sunnanverðum Ými og upp skarðið sem skilur að tindana tvo. Að lokinni göngu á báða tindana verður haldið til baka norðan þeirra.
Vegalengd 14–18 km. Hækkun 700-900 m. Göngutími 7-8 klst.
kl. 18.
Hraðferð um Laugaveginn er tilvalin fyrir þá sem eru í þokkalegu gönguformi og vilja fara þessa fjölförnu leið á þeim tíma þegar fáir eru á ferli. Farið með rútu í Landmannalaugar á fimmtudagskvöldi og gist í skálanum þar. Á föstudegi verður gengið um Hrafntinnusker og niður í Hvanngil þar sem er gist. Þaðan verður gengið um Emstrur niður í Þórsmörk þar sem gist verður í skála í Básum. Þar bíður göngumanna grillveisla, varðeldur og ósvikin Básastemming. Á sunnudegi gefst færi á göngu um Goðaland áður en lagt verður af stað heim á leið.
kl. 19:00
Að loknu góðu ferðasumri liggja allar leiðir í Bása til að taka á móti haustinu. Á þeim tíma er einstakt að heimsækja Goðaland því þá gleðja haustlitirnir augað hvert sem litið er. Gönguferðir og holl útivist er einkenni ferðarinnar og því verður farið í góða göngu um Goðaland. Gönguleið verður valin eftir veðri og aðstæðum. Á laugardagskvöldi verður grillveisla og varðeldur að hætti Útivistar.
Skjaldbreiður er formfögur dyngja sem varð til í löngu hraungosi fyrir um 10.000 árum. Gangan hefst við gíghólinn Hrauk og verður að mestu farið um sendið hraun og hraunrima að gíg fjallsins. Þaðan liggur leiðin til austurs í átt að Hlöðufelli.
Frá Stóra-Botni í Botnsdal liggur leiðin upp með Botnsá að austanverðu að brún Glyms sem er hæsti foss landsins. Þaðan verður stefnt á topp Hvalfells. Af fjallinu er ágætis útsýni og gaman að kíkja af austurbrún þess yfir Hvalvatn. Farið verður niður aftur að vestanverðu í Hvalskarð milli Hvalfells og Botnssúlna.
Gengið verður sem næst fjöruborði Þingvallavatns frá stíflunni við útfall vatnsins í Sogið upp á Skinnhúfuhöfða. Þaðan liggur leiðin með vatninu um Hellisvík út á Lambhaga og inn í botn Hagavíkur.
Hin forna leið frá Svarthöfða í suðurenda Vonarskarðs að Jökulheimum er einhver skemmtilegasta jeppaleið sem til er. Glíman við brattar brekkur og straumharðar ár gleymist fljótt þegar hið stórkostlega útsýni af hæstu hæðum leiðarinnar blasir við. Farið að morgni laugardags í Hrauneyjar þar sem fyllt er á tanka. Þaðan verður haldið norður Sprengisandsleið og að Svarthöfða við norðurenda Hágöngulóns. Gist verður í skála Jöklarannsóknafélagsins í Jökulheimum. Möguleiki á að aka um Breiðbak á heimleið.
Dalaleið kallast gamla þjóðleiðin milli Kaldársels og Krýsuvíkur. Gengið verður um Fagradal og yfir Vatnshlíð. Þaðan er fagurt útsýni yfir Kleifarvatn og Krýsuvíkurfjöll. Sunnan við Hvammahraun verður götunni fylgt áfram með hraunkantinum að Gullbringu. Gangan endar við Krýsuvíkurveg.
Frá Hagavík liggur leiðin um gamla götu norður með Þingvallavatni yfir Nesjahraun að Nesjum. Áfram norður Grafning um Hestvík og Símonarbrekku, undir Jórukleif að Svínanesi. Göngunni lýkur við Heiðarbæ.
Hækkun nánast engin. Vegalengd 11-12 km.
Við norðaustanverðan Hvalfjörð rísa tvö samtengd líparítrík fjöll. Haldið verður meðfram Miðsandsá vestanverðri upp Sauðafjall á brún Brekkukambs. Gengið vestur með fjallsbrúninni út á Eystra-Kambshorn. Af fjallinu er útsýni sem kemur mörgum á óvart. Farið verður niður í skarðið á milli fjallanna og upp á háhæð Þúfufjalls og komið niður við réttina vestan Bjarteyjarsands.
kl. 10:00. frá Hrauneyjum
Hin fornu vöð frumkvöðlanna könnuð, svo sem Bjallavað og Hófsvað í Tungnaá. Hlynur Snæland er fararstjóri í þessari ferð en hann er þaulvanur björgunarsveitarmaður og vatnamaður. Farið verður yfir öryggisatriði og annað sem hafa þarf í huga þegar glímt er við hin stóru fljót. Gist í Strútsskála. Farastjóri: Hlynur Snæland
Frá Heiðarbæ verður vatnsbakka Þingvallavatns fylgt inn á Kárastaðanes. Á leiðinni verður komið að Hrútagjá, Lambagjá og síðan Hestagjá. Þá er stutt í sjálfan Þjóðgarðinn og þangað sem Valhöll stóð. Göngu lýkur á Efri-Völlum.
Í þessari ferð er blágrýtismyndun í öndvegi með ísaldarívafi. Við lærum um mótun og myndun fjalla eins og Botnsúlna, Hvalfells og Skarðsheiðar. Leitum að fallegum steinum og útfellingum í fornum hraunlögum. Skoðum lághitasvæði. Spennandi og öðruvísi jarðfræðiferð þar sem margt fróðlegt ber fyrir augu.
Í þessari fjórðu göngu verður gengið að mestu innan þjóðgarðsins. Lagt verður af stað frá Neðri Völlum við Öxará þar sem Valhöll stóð. Gengið út á Lambhaga og áfram sem leið liggur um Garðsendavík að Vatnskoti. Síðan að Vatnsvík og Vellankötlu og áfram að Arnarfelli.
Gengið verður upp úr Brynjudal og farið sunnan megin við Myrkavatn og stefnan tekin á Kjöl (785m). Þaðan verður stefnt á Skollhóla og gengið niður með Grjótá að Stíflisdalsvatni.
Aðventuferðirnar í Bása eru alltaf frábær skemmtun bæði fyrir börn og fullorðna. Vetrarríkið skartar sínu fegursta og einhverjum sögum fer af því að jólasveinum bregði fyrir í fjöllunum og jafnvel fleiri meðlimum þeirrar fjölskyldu. Þegar skyggja tekur verður sest að jólahlaðborði og blásið til kvöldvöku.
Fimmta og síðasta Þingvallagangan hefst við Arnarfell og liggur leiðin eftir fjallinu niður að Þingvallavatni við enda þess. Gengið að Mjóanesi og undir Múla við suðurenda Miðfells. Göngunni lýkur síðan á sama stað og hún hófst, við útfall Þingvallavatns í Sogið.
Það er fátt sérstakara en að kveðja gamla árið og fagna nýju í fögrum fjallasal umkringdum stórbrotinni náttúru, jöklum og eldfjöllum. Áramót í Básum eru ógleymanleg upplifun með gönguferðum, góðum mat, blysför, áramótabrennu, flugeldum og fleiru skemmtilegu. Allt góðum félagsskap manna, álfa og trölla eins og vera ber um áramót.
Ferðaáætlun Útivistar 2021 er komin út. Kynningarblað liggur frammi á skrifstofu Útivistar en ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Jafnframt er hægt að sækja pdf útgáfu af blaðinu eða fletta því rafrænt.