Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Við gleymum ekki maganum. Kaffi og vöfflur á boðstólum!
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 2.000 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Hefur þig alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en veist ekki hvar á að byrja? Eða er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp.
Námskeiðið „Með allt á bakinu – byrjendanámskeið í bakpokaferðum“ er þá fyrir þig!
Hvort sem þú ert að byrja í því að ganga með allan búnað á bakinu eða hefur ekki gert það í langan tíma og vilt rifja það upp, þá færðu á þessu námskeiði þá þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við lengri ferðir á eigin vegum.
Námskeiðið fer yfir grunnatriði bakpokaferðalaga með skemmtilegum fyrirlestrum og dagsferðum, þar sem þú lærir allt frá því að velja réttan bakpoka og pakka snjallt, til að tjalda, elda úti og velja leiðir í náttúrunni. Þú færð tækifæri til að prófa búnaðinn þinn í öruggu og skipulögðu umhverfi og undirbúa þig fyrir lengri ferðir, allt undir leiðsögn reynslubolta
Fararstjórar eru Hrönn Baldursdóttir og Íris Hrund Halldórsdóttir
Fjallfarar Útivistar er hópur sem gengur saman eina dagsgöngu og eina kvöldgöngu í mánuði. Hópurinn er fyrir fólk sem hefur reynslu af gönguferðum og vill ganga dagleiðir sem eru í meðallagi langar og með nokkurri hækkun. Dagskráin yfir árið er tvískipt; annars vegar frá janúar til maí og hins vegar frá september til desember. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar að lengd og á hinum ýmsu svæðum.
Göngur Fjallfara eru frá miðlungs erfiðum upp í erfiðar göngur (2-3 skór). Mikilvægt er að hafa viðeigandi útbúnað og fatnað og hafa reynslu af að nota hann. Þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallfara eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar Fjallfara eru Ingvar Júlíus Baldursson og Hrönn Baldursdóttir
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Dagskrá Útivistargírsins haustið 2023 hefst 29. ágúst og stendur til 3. október. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti sem og nýliðum í útivist og hvetjum við einnig þá sem vanari eru göngum að taka þátt nema annað sé tekið fram. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá vor 2023
Hópastarf Útivistar
Hópastarfið skipar stóran þátt í starfsemi Útivistar. Boðið er upp á fjölbreytta hópa þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Fjallabrall hefur fest sig í sessi sem gríðarlega vinsæll gönguhópur innan Útivistar síðan hann fór í gang á haustdögum 2022 og starfar af krafti á vorönn 2025
Hópurinn er ætlaður öllum þeim sem hafa einhverja reynslu af útivist og fjallgöngum. Erfiðleikastig ferða er 1-2 skór. Miðað er við að dagsferðir séu ekki meira en um 15 km og uppsöfnuð hækkun í ferðum ekki meiri en um 600 metrar.*
Fjallfarar munu á vorönn 2025 æfa sig fyrir göngu á Snæfellsjökul í lok maí eða byrjun júní. Fjöldi ferða eru 10 sem skiptist í 5 kvöldferðir og 5 dagsferðir. Markmið með hópnum er að bjóða upp á fræðandi og skemmtilegar göngur í góðum félagsskap. Göngur Fjallfara eru 2 - 3 skór og eru þær frá miðlungserfiðum upp í erfiðar göngur, og munu taka mið af getustigi hópsins. Byrjað verður á auðveldum göngum og síðan verður erfiðleikastigið aukið jafnt og þétt.
Með allt á bakinu: Byrjendanámskeið í bakpokaferðum er fyrir þá sem hefur alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en vita ekki hvar á að byrja? Eða kannski er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp. Námskeiðið verður alla vorönn 2025
Fjallabrall er hópur fyrir öll þau sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum og vilja nota meiri tíma í að njóta íslenskrar náttúru. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 600 metrar. Að jafnaði eru farnar tvær ferðir í mánuði, ein dagsferð og ein kvöldferð á miðvikudagskvöldi. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar nema annað sé tekið fram. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir, Fríða Brá Pálsdóttir og Tryggvi Guðmundsson.
Brottför: kl. 17:00 frá Olís við Rauðavatn.
Fyrir jeppaáhugamenn er leiðin frá Kjalvegi yfir á Sprengisand einkar spennandi, með fjölmörgum áskorunum og leiðum. Farið verður inn að Hveravöllum á föstudagskvöldið og gist og laugað fyrir ævintýri helgarinnar. Á laugardeginum verður dagurinn tekinn snemma og farið inná Eyfirðingaleiðina yfir Blöndu og svo sem leið liggur norðan Hofsjökuls yfir Ströngukvísl við Sátu og áfram austur yfir Vestari og Austari jökulföllin. Komið verður við í Ingólfsskála, farið hjá Illviðrahnjúkum og staldrað við í Miðjunni áður en komið verður í Laugafell þar sem gist verður í skála Ferðafélags Eyfirðinga. Á sunnudeginum verður farið suður með Hofsjökli að Þjórsárjökli og niður á Kvíslarveituveg og niður í Hauneyjar.
Farastjóri: Gylfi Jónu Arnbjarnarson
Fjallabrall hefur fest sig í sessi sem gríðarlega vinsæll gönguhópur innan Útivistar síðan hann fór í gang á haustdögum 2022.
Gengið er 2 sinnum í mánuði að meðaltali, ein kvöldferð og ein dagsferð. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í ferðir (nema í Leggjarbrjótsferðina þar sem farið verður í rútu). Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 og í dagsgöngunum hittist hópurinn ýmist kl.8 eða kl. 9, í báðum tilvikum er boðið að sameinast í bíla og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu.
Í ferðunum er aðal áherslan á að öllum líði vel. Allir eiga að geta notið sín í hópnum og mikið er lagt upp úr því að njóta útiverunnar saman. Þátttakendur fræðast um ýmsa hluti tengda göngum og útivist auk þess sem lagt er upp úr því að deila fróðleik tengdum svæðinu sem ferðast er um.
Innifalið í skráningu er fararstjórn í allar ferðir og rúta í dagsferð á Leggjarbrjót.
Fararstjórar eru Fríða Brá Pálsdóttir, Hanna Guðmundsdóttir og Tryggvi Guðmundsson.
Með allt á bakinu: Byrjendanámskeið í bakpokaferðum
Hefur þig alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en veist ekki hvar á að byrja? Eða er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp.Námskeiðið „Með allt á bakinu – byrjendanámskeið í bakpokaferðum“ er þá fyrir þig!Hvort sem þú ert að byrja í því að ganga með allan búnað á bakinu eða hefur ekki gert það í langan tíma og vilt rifja það upp, þá færðu á þessu námskeiði þá þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við lengri ferðir á eigin vegum.Námskeiðið fer yfir grunnatriði bakpokaferðalaga með skemmtilegum fyrirlestrum og dagsferðum, þar sem þú lærir allt frá því að velja réttan bakpoka og pakka snjallt, til að tjalda, elda úti og velja leiðir í náttúrunni. Þú færð tækifæri til að prófa búnaðinn þinn í öruggu og skipulögðu umhverfi og undirbúa þig fyrir lengri ferðir, allt undir leiðsögn reynsluboltaDagskrá námskeiðsins:
Skráðu þig núna! Takmarkað pláss og einstakt tækifæri til að fá heildræna þjálfun í bakpokaferðalögum í fallegu íslensku umhverfi og góðum og öruggum félagsskap.
Fararstjórar eru Íris Hrund Halldórsdóttir og Hrönn Baldursdóttir
Dagskrá
Hist kl 9:30 við Litlu Kaffistofuna.
Að heiman og heim – afmælisraðganga
Annar leggur: Frá Rauðhólum að Litlu Kaffistofu
Annar áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Rauðhólum að Litlu Kaffistofu.
Hjarta Útivistar slær í Básum á Goðalandi í Þórsmörk. Útivist byggði fyrsta skála sinn þar um 1980 og hafa félagar átt þar ófáar gleðistundir við leiki og störf. Árið 1990 var farin raðganga frá Reykjavík í Bása sem enn er í minnum höfð. Og nú á 50 ára afmæli Útivistar ætlum við að endurtaka leikinn. Áfangarnir eru tíu. Við hefjum leik í janúar og síðasta gangan endar í Básum á afmælishátíð félagsins 21. júní. Fyrirkomulagið verður þannig að farið verður á eigin bílum og safnast saman við endastöð göngunnar. Sameinast í bíla og ekið að upphafsstað. Verði er haldið í algjöru lágmarki og vonum við að sem flestir gangi með okkur að hluta eða alla leið. Leiðarlýsing og áfangar miðast við aðstæður og geta breyst.
Sjá nánar
Allar ferðirnar í einum pakka
Boðið er upp á að taka allar 10 göngurnar í einum afmælispakka! Og það á hálfvirði, bara 22.500kr. fyrir félagsmenn.
Brottför: kl. 08:00 frá Olís við Rauðavatn.
Ekið inn á Fjallabaksleið hjá Gunnarsholti, komið við í Hungurfitjum ef aðstæður eru góðar, þaðan farið í Dalakofann þar sem gist verður um nóttina. Á sunnudeginum verður farin hin stórskemmtilega leið inn í Álftavatn, Hvanngil, inn á Emstruleið og niður í Fljótshlíð.
Farastjóri: Sveinn Sigurður Kjartansson
Hist kl. 9:00 við Bónus í Hveragerði
Þriðji leggur: Frá Litlu Kaffistofu að Hveragerði
Þriðji áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Litlu Kaffistofu til Hveragerðis.
Með rútu frá Mjódd kl. 9
Afmælisganga á Keili
Fyrsta gönguferð Útivistar eftir stofnun félagsins var á Keili. Á hverju ári síðan þá hefur verið farin afmælisferð á fjallið. Farið er frá Höskuldarvöllum yfir hraunið að fjallinu. Og nú þegar haldið er upp á 50 ára afmæli Útivistar höldum við að sjálfsögðu í hefðina og bjóðum upp á köku og kakó fyrir þátttakendur. Við verðum með varaplan ef aðstæður á Reykjanesi eða veður krefjast þess og förum þá á annað fjall eða á sunnudegi. Farið með rútu kl 9. frá Mjódd.
Vegalengd 8 km. Hækkun 200 m. Göngutími 4 klst.
Brottför: kl. 08:00 frá Olís við Rauðavatn
Farið upp á Eyjafjallajökul og Topgígurinn skoðaður sem og útsýni yfir Þórsmörk og gist í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi þar sem verður grill og gaman. Á sunnudeginum verður farið yfir á Mýrdalsjökul og hann þveraður yfir á Mýrdalssand þaðan sem ekið verður til byggða niður í Fljótshlíð.
Farastjóri: Þorsteinn Pálsson
Brottför: kl. 18.00 frá Hálendismiðstöðinni í Hrauneyjum.
Vatnajökull heillar alltaf og ef vorið verður kalt og hagstætt þá er um að gera að nota tækifærið. Ekið frá Hrauneyjum í mildri vorbirtunni sem leið liggur í hinn frábæra skála Jöklarannsóknarfélagsins í Jökulheimum. Snemma á laugardagsmorgun tökum við glímuna við jökulinn og stímum að Grímsfjalli með viðkomu á Pálsfjalli. Gufubaðið og grillið tekið af fullri alvöru. Eftir indælan nætursvefn í einum mest sjarmerandi skála á Íslandi, verður lagt af stað í morgunroðanum áleiðis heim. Hamarinn og fleiri áhugaverðir staðir teknir á leiðinni, allt eftir því hvað veður leyfir.
Tindfjöll eru undraland vetrarins. Þar eru einstakar aðstæðir til skíðaiðkunar, hvort sem er gönguskíði eða fjallaskíði. Í þessari ferð notum við gönguskíðin.Í þessari ferð er dvalið í skála Útivistar, Tindfjallaseli í tvær nætur og skíðað um fjöllin. Við látum aðstæður ráða för og munum setja inn nánari lýsingu þegar við sjáum hver snjóalög eru í fjöllunum.
Þátttakendur koma sér sjálfir í Fljótsdal og gengið er upp í skálann með allt á bakinu.
Hist á Hakinu kl 9:00
Við förum í tvær dagsferðir með íslendingasöguþema í vor og nú er komið að þeirri fyrri.
Farið er um Þiingvelli í fylgd fróðra manna og slóðir Njáls, Egils og Snorra skoðaðar. Nánari ferðalýsing kemur þegar nær dregur.
Farið er á eigin bílum og hist á Hakinu kl 9:00
Hist kl 9:00 Staðsetning auglýst síðar
Vísindapakkinn – Dagsferðir í samstarfi við HÍN
Í 50 ára starfi Útivistar hefur gjarnan verið blandað saman góðum gönguferðum og skemmtilegri fræðslu. Í tilefni afmælisins efnir Útivist í samstarfi við Hið íslenska náttúrufræðifélag til skemmtilegra og fræðandi vísindaferða þar sem allir eru velkomnir. Farið er á eigin bílum á valda staði í nágrenni höfuðborgarinnar. Staðsetning er valin eftir aðstæðum og verður auglýst vel. Sérfræðingar frá HÍN verða með í för og fræða þátttakendur um undur náttúrunnar. Sumar ferðirnar eru mjög hentugar sem fjölskylduferðir og við vekjum athygli á að í þessar ferðir verður frítt fyrir börn og unglinga upp að 17 ára aldri.
Í jarðfræðiferðinni verður haldið á Reykjanesskagann og staðsetning valin eftir aðstæðum til að sem mest fáist úr ferðinni. Nánari staðsetning verður auglýst síðar.
12.april
Jarðfræðiferð
3.maí
Fuglaskoðun
31.maí
Grasafræði
24.ágúst
Sveppaferð
20.sept
Undur fjörunnar
Hist á planinu við Hótel Selfoss
Fjórði leggur: Frá Hveragerði til Selfoss
Fjórði áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Hveragerði til Selfoss.
Brottför: kl. 08:30 frá Smyrlabjörgum
ATH!. Þessi ferð gistir í Snæfelli, Sigurðarskála og Jökulheimum.
Boðið verður upp á tvo hópa, annar sem fer austurleiðina um Skálafellsjökul, Snæfell í Sigurðarskála og hinn sem fer í Jökulheima í Sigurðarskála, þar sem hóparnir gista saman og halda grillveislu að hætti Útivistar á föstudagskvöldið. Fyrri hópurinn fer síðan í Jökulheima og seinni hópurinn í Snæfell og niður Skálafellsjökul.
Hin stórskemmtilega árlega vorferð um Vatnajökul er ein vinsælasta ferð jeppadeildarinnar. Ferðinni er nú heitið á austurjökulinn.
Fyrri hópurinn leggur af stað að morgni fimmtudags frá Smyrlabjörgum en gisting nóttina áður er á ábyrgð hvers og eins. Ekið verður á Goðabungu og í Snæfellsskála, þar sem verður gist. Á föstudeginum verður dagurinn tekin snemma og ekið í Kverkfjöll þar sem farið verður í bað í Hveragili og Sigurðarskála þar sem hópurinn sameinast hinum hópnum.
Seinni hópurinn leggur af stað frá Olís við Rauðavatn á fimmtudagsmorgni og verður ekið inn í Jökulheima þar sem gist verður. Stoppað verður við Hamarinn til að njóta útsýnisins. Á föstudeginum verður farið yfir Vatnajökul og stefnan tekinn á Sigurðarskála í Kverkfjöllum, þar sem hóparnir sameinast.
Á laugardeginum verður svo ferð fyrri hópsins haldið áfram á Jökulheima og freistað þess að fara í gufubað., en seinni hópurinn fer sem leið liggur í Hveragil í bað og síðan yfir Brúarárjökul í Snæfellsskála. Sunnudagurinn verður notaður til heimferðar frá Jökulheimum í Hrauneyjar og frá Snæfellsskála niður Skálafellsjökul þar sem ferðinni lýkur.
Farastjórar: Þórarinn Eyfjörð
Brottför: kl. 08:30 frá Olís við Rauðavatn.
ATH! Þessi hópur gistir í Jökulheimum, Sigurðarskála og Snæfelli.
Boðið verður upp á tvo hópa, annar sem fer austurleiðina um Skálafellsjökul, Snæfell í Sigurðarskála og hinn sem fer í Jökulheima/Grímsfjall í Sigurðarskála, þar sem hóparnir gista saman og halda grillveislu að hætti Útivistar á föstudagskvöldið. Fyrri hópurinn fer síðan í Jökulheima/Grímsfjall og seinni hópurinn í Snæfell og niður Skálafellsjökul.
Seinni hópurinn leggur af stað frá Olís við Rauðavatn á fimmtudagsmorgni og verður ekið inn í Jökulheima/Grimsfjall þar sem gist verður. Stoppað verður við Hamarinn til að njóta útsýnisins. Á föstudeginum verður farið yfir Vatnajökul og stefnan tekinn á Sigurðarskála í Kverkfjöllum, þar sem hóparnir sameinast.
Á laugardeginum verður svo ferð fyrri hópsins haldið áfram á Grímsfjall/Jökulheima og freistað þess að fara í gufubað., en seinni hópurinn fer sem leið liggur í Hveragil í bað og síðan yfir Brúarárjökul í Snæfellsskála. Sunnudagurinn verður notaður til heimferðar frá Grímsfjalli/Jökulheimum í Hrauneyjar og frá Snæfellsskála niður Skálafellsjökul þar sem ferðinni lýkur.
Farastjórar: Sveinn Sigurður Kjartansson.
Kl. 14:00 frá Reykjavík
Komdu með okkur í nærandi náttúruhelgi í Básum með Mumma og Önnu Guðnýju!
Helgina 25. - 27. apríl býðst þér einstakt tækifæri á að upplifa töfra Þórsmerkur í algjörri ró og stillu. Markmið ferðarinnar er að aðstoða þig við að hlaða batteríin burt frá öllu áreiti á einum fallegasta stað landsins. Það er draumi líkast að fá að vera í mörkinni á þessum árstíma þar sem fáir eru á ferli og náttúran umlykur mann & nærir.
Hist við vesturenda gömlu Þjórsárbrúar
Fimmti leggur: Frá Selfossi að gömlu Þjórsárbrú
Fimmti áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Selfossi að gömlu Þjórsárbrú.
Farið á eigin bílum
Hengilshreysti
Hengilshreysti er lokaður gönguhópur fyrir vant göngufólk. Gengnar verða fjölbreyttar leiðir á Hengilssvæðinu og í nágrenni Nesjavalla. Hengilssvæðið er einstaklega fallegt og fjölbreytt svæði og gaman að ganga þar um. Hengilshreysti er fimm vikna gönguprógram og verða göngurnar sex, fjórar kvöldferðir og tvær dagsferðir. Fyrsta ferðin verður síðustu helgina í apríl. Erfiðleikastig er 2 skór og munu alltaf tveir fararstjórar vera með hópnum. Þátttakendur fara á eigin bílum.
Gönguleiðir með vara um veður og færð. Vegalengdir geta breyst:
27 apríl - sunnudagur - Dagsferð – Dyradalur – Marardalur – Engidalur – Húsmúli. 16-18km30. apríl – miðvikudagur - Kvöldferð – Sporhelludalir með tvisti 6-7km5. maí – mánudagur - Kvöldferð – Á eða í kringum Skarðsmýrarfjall 10km11. maí – sunnudagur - Dagsferð – Dyrafjöll - Botnadalur, Nesjahraun 19-21km14. maí – miðvikudagur - Kvöldferð – Litla Sandfell frá Efri Grafningsvegi 6-7km19. maí – mánudagur - Kvöldferð – Dyradalur – Háhryggur 7-8km
Hist kl. 9:00 Staðsetning auglýst síðar
Í fuglaskoðunarferðinni verður staðsetning valin eftir aðstæðum til að sem mest fáist úr ferðinni. Nánari staðsetning verður auglýst síðar.
Með okkur í för verður Sölvi Rúnar Vignisson vistfræðingur hjá Þekkingarsetri Suðurnesja og formaður Hins íslenska náttúrufræðifélags.
Hist á bílasttæði við verslunarmiðstöðina á Hellu
Sjötti leggur: Frá Gömlu Þjórsárbrú að Hellu
Sjötti áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Gömlu Þjórsárbrú til Hellu.
Engidalur kl 9:00
Nú höldum við á slóðir Gunnars, Hallgerðar, Njáls og Bergþóru og göngum á Þríhyrning í Rangárvallasýslu í samfylgd fróðra manna. Farið er á eigin bílum og hist við Engidal innan við bæinn Vatnsdal. Ekið er inn Fljótshlíð og beygt við Tumastaði inn að Vatnsdal og svo spölkorn áfram að bílastæði við Engildal þar sem gangan hefst.
Þríhyrningur í Rangárvallasýslu ber nafn sitt af þremur hornum eða tindum. Fjallið leynir á sér og kemur á óvart hversu víðsýnt er af því. Áhugavert er að skoða og ganga með bröttum hamraveggjum Þríhyrnings og sjá sérkennilega sorfnar móbergsmyndanir þess. Þríhyrningur er sögufrægt fjall og þar er fjöldi örnefna. Mætti til dæmis nefna Flosadal en þar leyndist Flosi með mönnum sínum með á annað hundrað hesta eftir Njálsbrennu. Ganga á Þríhyrnging telst ekki erfið fyrir fólk sem eitthvað hefur stundað fjallgöngur. Vegalengd 12 km. Hækkun 500 m. Göngutími 5 - 6 klst.
Hist á bílastæði við N1 kl 9:00
Söundi leggur: Frá Hellu að Hvolsvelli
Sjöundi áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Hellu að Hvolsvelli.
Í grasafræðiferðinni verður staðsetning valin eftir aðstæðum til að sem mest fáist úr ferðinni. Nánari staðsetning verður auglýst síðar.
Með í för verður Jóhannes Bjarki Urbancic líffræðingur og Ólafur Patrick Ólafsson líffræðingur
Staðsetning auglíst síðar
Með okkur í för verður Jóhannes Bjarki Urbacic líffræðingur og Ólafur Patrick Ólafsson líffræðingur.
Hist við vesturenda gömlu Markarfljótsbrúar kl. 9:00
Áttundi leggur: Frá Hvolsvelli að Gömlu Markarfljótsbrú
Áttundi áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Hvolsvelli að gömlu brúnni yfir Markarfljót.
Brottför frá Mjódd kl. 18
Af tindum Snæfellsjökuls er ógleymanlegt að upplifa sumarsólstöður þegar sólargangur er lengstur hér á norðurhveli jarðar. Gengið verður frá Jökulhálsi og hefst gangan kl. 21. Markmiðið er að vera á toppi jökulsins, milli þúfna um kl. 00:30, og sjá sólina setjast en rísa jafnharðan aftur. Göngutími 3-4 klst. Hækkun 1000 m.
Athugið að við höfum sunnudaginn 15. júní til vara ef veður verður mjög slæmt þann 14 júní.
Hist við Fremri Akstaðaá kl.9:00
Nýjundi leggur: Frá gömlu Markarfjótsbrú að Gígjökli
Nýjundi áfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá gömlu Markarfljótsbrú að Gígjökli.
Brottför frá Mjódd kl. 19:00
Árleg næturganga Útivistar yfir Leggjabrjót um sumarnótt. Það er fátt betra en að vera á ferðinni á björtum sumarkvöldum. Þetta er greiðfær leið þó nafnið gefi annað til kynna. Frá Svartagili liggur leiðin um Öxarárdal að Myrkavatni og upptökum Öxarár. Síðan verður gengið um Leggjabrjót, með Sandvatni og um Hrísháls niður í Botnsdal. Þessi ferð er góð upphitun fyrir Jónsmessugönguna yfir Fimmvörðuháls. Vegalengd 16-18 km. Hækkun 500 m. Göngutími 6-7 klst.
Tíundi og lokaleggur: Frá Gígjökli í Bása
Lokaáfangi raðgöngunnar frá Reykjavík í Bása. Nú er gengið frá Gígjökli í Bása. Það er afmælishátíð Útivistar í Básum um þessa helgi og verður þeim sem vilja koma í ferðina úr Básum skutlað að Gígjökli. ÞÞað ræðst eftir aðstæðum hvort fólksbílafært verður fyrir aðra að Gígjökli en annars verður fólk sótt að Fremri Akstaðaá og skutlað til baka eftir göngu.
frá Mjódd kl. 09:00
Gönguleiðin yfir Fimmvörðuháls er mörgum kær, enda ekki óalgengt að fyrstu kynnin af útivist séu í Fimmvörðuhálsgöngu. Í þessari ferð er lögð áhersla á að hafa rúman tíma í gönguna þannig að hægt sé að njóta náttúrunnar. Lagt af stað að morgni dags á föstudegi og gengið frá Skógum á Fimmvörðuháls og gist þar í skála Útivistar. Laugardag verður gengið í Bása og gist þar seinni nóttina. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en haldið er heim á leið.
Athugið að farangur er trússaður í Bása en ekki er hægt að keyra í Fimmvörðuskála og því þarf að bera svefnpoka og mat fyrir fyrsta sólarhringinn.
Brottför: 4. júlí kl. 9:00 frá Mjódd/bíómegin
Heimkoma: 6. júlí á milli kl. 17:00 og 18:00
Innifalið: Akstur, leiðsögn, tvær skálagistingar, heit sturta og sameiginleg kvöldmáltíð í Básum
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir og Helga Harðardóttir
Almennar upplýsingar um Fimmvörðuhálsferðir Útivistar og útbúnaðarlisti.
frá Mjódd kl. 08:00
Í víðum fjallasal breiðir Hólmsárlón úr sér en yfir því gnæfa Svartahnjúksfjöll og Torfajökull. Í suðri má sjá tindinn á fjallinu Strút, en af honum er nafn leiðarinnar dregið. Gangan hefst í Hólaskjóli en þaðan er um tveggja klukkustunda gangur í skálann við Álftavötn þar sem gist er fyrstu nóttina. Frá Álftavötnum er gengið með Svartahnjúksfjöllum í Hólmsárbotna og þar gefst jafnan tækifæri til að skola af sér ferðarykið í hinni rómuðu Strútslaug. Úr lauginni er gengið í Strútsskála þar sem gist er tvær nætur. Þann dag sem dvalið er í skálanum er gengið um einstakt umhverfi skálans. Á lokadegi liggur gönguleiðin um Mælifellssand í Hvanngil þar sem rúta tekur upp hópinn.
Brottför er frá Mjódd. Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir, flutningur á farangri milli skála og allar skálagisting.
Ferðalýsing
Þessi leið er ein helsta skrautfjöður Útivistar. Ferðin hefst með göngu á Sveinstind. Útsýnið yfir hinn margrómaða Langasjó, sem kúrir upp við Vatnajökul, er hreint ólýsanlegt. Í góðu skyggni má líta yfir bróðurpart hálendis Íslands. Leiðin liggur svo um fáfarnar slóðir, söndugar og mosavaxnar, meðfram Skaftá og um leynistigu með Uxatindum og fram grösuga Skælinga. Ganga á Gjátind og um sjálfa Eldgjá er góður lokakafli á þessari margbreytilegu göngu sem lýkur í Hólaskjóli. Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum.
Fararstjóri er Páll Arnarson
Hér er klassísk Laugavegsferð þar sem leiðin er gengin í fjórum þægilegum áföngum. Undanfarin ár hefur Ferðafélagið Útivist staðið fyrir velheppnuðum fjölskylduferðum um Laugaveginn. Þarna hafa ungir sem aldnir slegist í för og notið sín. Ferðin er ætluð allri fjölskyldunni og sniðin að þörfum barna. Hér er því upplagt tækifæri til að kynna dásemdir útivistar fyrir yngri kynsklóðinni. Æskilegt að börn hafi náð átta ára aldri.
Ekið úr Mjódd í Landmannalaugar að morgni dags og samdægurs gengið sem leið liggur í Hrafntinnusker þar sem gist er fyrstu nóttina. Úr Hrafntinnuskeri er haldið suður eftir sléttum vestan Reykjafjalla og um Jökultungur í Hvanngil. Úr Hvanngili er gengið um slétta sanda, með Mýrdalsjökul á vinstri hönd, í Emstrur þar sem gist er í Botnaskála. Frá Emstrum liggur leiðin yfir Syðri-Emstruá á göngubrú í fallegu gili og áfram sem leið liggur um Almenninga í Þórsmörk. Í Básum á Goðalandi bíður göngumanna grillveisla í einstöku umhverfi, en þar er gist í notalegum skála. Á sunnudegi er farið í stutta göngu um nágrenni Bása áður en haldið er heim.
Nánari upplýsingar
Ævintýrið við Strút er bækistöðvarferð fyrir krakka, mömmur, ömmur, pabba, afa, frænkur og frændur.
Hálendið í kringum Strútsskála verður kannað, farið verður í Strútslaug, ætt upp og niður fjöll og firnindi, stiklað yfir ár og leitað að hellisskútum. Farið í ratleik, föndrað, haldnar kvöldvökur og kveiktur varðeldur. Það verður glens og gaman. Öll gil og krókar í nágrenni skálans verða skoðuð hátt og lágt, stunduð listsköpun úti í náttúrunni, teiknaðar myndir, búnar til sögur, samin lög og sungið, lesnar sögur og samin ljóð. Síðasta kvöldið verðum sameiginlegur kvöldmatur.
Fýlupúkar eru vinsamlegast beðnir um að fara ekki í þessa ferð en allir hinir hjartanlega velkomnir ;)
Siglt frá Bolungarvík í Hornvík þar sem settar verða upp tjaldbúðir og gengið út frá þeim.Farið verður um Hornbjarg og Hornbjargsviti í Látravík heimsóttur. Gengið verður um einstigi í Hvannadal. Þá verður farið um Rekavík bak Höfn, Atlaskarð og í Hælavík á æskuslóðir Jakobínu Sigurðardóttur og Þórleifs Bjarnasonar og e.t.v. lesið úr minningabókum þeirra. Bátur sækir farangur en hópurinn gengur um Hafnarskarð í Veiðileysufjörð og hittir á bátinn þar. Hámarksfjöldi 20 manns.Þátttakendur koma sér sjálfir á upphafstað í bátinn.
Fararstjóri er Steinar SólveigarsonInnifalið er sigling, fararstjórn og flutningur á farangri. Gist er í eigin tjöldum.
Þetta er skemmtileg ganga á fáförnum en virkilega áhugaverðum slóðum að Fjallabaki.
Brottför frá Mjódd, kirkjumegin á bílaplaninu fyrir framan Sambíóin og ekið sem leið liggur í Landmannahelli þar sem gist er fyrstu nóttina. Áður en gengið er til náða verða tindar Löðmundar sigraðir.
Eftir góðan nætursvefn hefst gangan með stefnuna á Dalakofa. Margt áhugavert verður á leið göngumanna þennan dag og ber þar hæst hið svokallaða „Auga“ þar sem Rauðufossakvísl sprettur upp úr jörðinni.
Frá Dalakofa liggur leiðin í Hungurfit. Vert er að byrja á að skoða nafnlausa fossinn í Markarfljóti norðan Laufafells. Þó svo foss þessi sé jafnan þekktur sem nafnlausi fossinn hefur hann gengið undir ýmsum nöfnum, svo sem Rúdolf og Hróðólfur, en fjallmenn á Rangárvallaafrétti kalla hann jafnan Laufa. Gengið er meðfram Skyggnishliðarvatni og niður í Hungurfit þar sem gist verður í vistlegum skála.
Úr Hungurfitjum liggur leiðin í Sultarfit áður en áin Hvítmaga er vaðin og því gott að hafa vaðskóna klára þennan dag. Gengið í Þvergil og komið við í sérstæðum hellisskúta sem var gististaður gangnamanna á fyrri tíð. Leiðinni lýkur svo við Markarfljót hjá Mosum þar sem rúta sækir hópinn.
Brottför frá Mjódd kl 07:00
Dagsferð á Grænahrygg.
Í göngunni að náttúruperlunni Grænahrygg nýtur litadýrð Fjallabaks sín einkar vel. Lagt er af stað frá Kýlingavatni, sem er ekki ýkja langt frá Landmannalaugum, og haldið um Halldórsgil og Sveinsgil. Leiðin er nokkuð strembin og ganga þarf upp og niður gil og vaða en það er allt vel þess virði þegar komið er að hinum blágræna Grænahrygg. Sama leið verður farin til baka. Nauðsynlegt er að vera með góða vaðskó.
Gera má ráð fyrir 7-8 tímum í akstur.
Gönguleið 16-18 km. Hækkun 7-800 metrar. Göngutími 7-9 tímar.
Innifalið er rúta frá Reykjavík og fararstjórn.
frá Mjódd kl. 10:00
Eftir velheppnaðar bækistöðvaferðir í Bása síðast liðin sumur verður leikurinn endurtekinn.
Stundum er talað um að hjarta Ferðafélagsins Útivistar slái í Básum á Goðalandi, en þar eiga jafnt yngri sem eldri Útivistarfélagar margar sælar minningar. Þessi ferð er tilvalin fyrir eldri félaga sem vilja endurupplifa góðar minningar, sem og nýja félaga á virðulegum aldri sem langar að kynnast þessari paradís undir leiðsögn kunnugra.
Lagt verður af stað frá Mjódd kl. 10:00 á þriðjudegi og ekið í Bása. Eftir að hafa komið sér fyrir í skála er farið í tveggja tíma göngu í nágrenni skálans, gengin Básahringur með viðkomu í Fjósafuð.
Daginn eftir verður boðið uppá göngur við allra hæfi. Hvert haldið verður kemur í ljós síðar. Farið verður í ca fimm tíma göngu. Einnig verður farin léttari ganga í nágrenni Bása fyrir þá sem það vilja. Þeir sem ekki fara í gönguferð geta haldið kyrru fyrir í Básum og notið kyrrðarinnar. Varðeldur með sögn og dans um kvöldið.
Heimfarardag verður stoppað á leiðinni og tekin um tveggja tíma gönguferð á einhverjum af þeim náttúruperlum sem þar eru.
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir, Guðbjartur Guðbjartsson og Jóhanna BenediktsdóttirInnifalið: Leiðsögn, akstur, heit sturta og tvær skálagistingar auk sameiginlegra kvöldmáltíða bæði kvöldin
Brottför: 15. júlí kl. 10.00 frá MjóddHeimkoma: 17. júlí á milli kl. 17.00 og 18.00
Kl. 08:00 frá Mjódd
Síðasta sumar hóf hópur frá Útivist fjögurra ára göngu sína frá Horni í Horn. Sá hópur mun halda áfram göngu sinni þaðan sem frá var horfið og mun ganga legg II næst. Vegna mikils áhuga á leiðangrinum Horn í Horn á síðasta ári var ákveðið að annar leiðangur hæfi göngu sína á þessu ári frá Eystra - Horni. Ef næg þátttaka fæst mun nýr hópur ganga legg eitt í sumar.
Leiðin liggur þvert yfir landið frá suðaustri til norðvesturs. Einn leggur verður genginn á hverju sumri og mun hver leggur taka átta til tíu göngudaga. Ferðin hefst við Eystra-Horn sumarið 2025 og endar í Hornvík 2028. Gist verður í skálum þar sem þeir standa til boða en annars staðar er gert ráð fyrir gistingu í tjöldum. Ferðin verður trússuð eftir því sem við verður komið.
Fyrsti leggur, sumar 2025:
Ekið er frá Reykjavík að Lóni með viðkomu á Höfn í Hornafirði þann 16.júlí og tjöldum slegið upp. Að morgni 17. júlí er hópnum ekið að Eystra-Horni þar sem gangan hefst. Ferðin er trússuð fyrir utan tvo daga þegar gengið er um Lónsöræfi en þá þarf að bera svefnpoka og mat til tveggja daga. Gist er í skálum þar sem þeir eru en annars er tjaldað. Mælt er með 4. árstíða tjöldum. Verð er væntanlegt.
Nánari ferðalýsing
Nú er komið að öðrum legg í Horn í Horn leiðangrinum sem hófst síðasta sumar. Að þessu sinni verður gengið í 7 gönguáföngum frá Snæfelli og um hraun og sanda allt austur að Fjórðungsöldu við Sprengisandsleið.
Við tökum rútu frá Reykjavík 18. júlí og tjöldum í Snæfelli. Frá Snæfelli er haldið að stíflu við Kárahnjúka, svo er haldið um Þríhyrningsfjallgarð og Grænavatn í norðaustur að brúnni yfir Kreppu. Gengið austan Jökulsár að brúnni við Upptyppinga og svo sunnan Vaðöldu framhjá Holuhrauni. Farið yfir hraunið milli Trölladyngju og Þríhyrnings og svo stefnt í suðvestur að Hitulaug. Síðasta göngudaginn, 25. júlí er haldið beint í vestur og endað við sunnanvert Fjórðungsvatn. Þaðan tökum við rútuna aftur til Reykjavíkur. Ferðin er trússuð og stefnt að því að hitta bílinn og búnaðinn öll kvöld. Gist er í eigin tjöldum og er mælt með 4. árstíða tjöldum.
Gengið yfir Fimmvörðuháls í einum áfanga á laugardegi og gist í Básum. Á sunnudegi verður farið í létta göngu á Goðalandi áður en rúta flytur hópinn heim.
Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir, flutningur á farangri í Bása, skálagisting og grillveisla á laugardagskvöldið.
Nánari upplýsingar og ferðalýsing.
Skemmtileg blanda af bækistöðvarferð og göngu yfir Tindfjallajökul.
Í þessari ferð er farið í Tindfjöll. Dvalið er tvær nætur í skála Útivistar, Tindfjallaseli og stundaðar fjallgöngur. Svo er gengið yfir Tindfjallajökul og Ásgrindur og niður í Hungurfit þar sem gist er síðustu nóttina. Þessi ferð er nokkuð krefjandi og þurfa göngumenn að vera í góðu formi.Farið er á eigin bílum í Fljótshlíð. Ferðin er trússuð.
Lagt af stað frá Mjódd kl 8:00
Í þessari ferð er leiðin gengin á einum degi. Lagt er af stað á laugardagsmorgni með rútu frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju kl. 08:00 og keyrt að Skógum þar sem gangan hefst. Gengið er yfir hálsinn og niður í Bása þar sem rútan bíður og rekur fferðalanga beint aftur í bæinn.
Sjá nánar hér.
Frá Mjódd kl 8:00
Gönguleiðin á milli Landmannalauga og Þórsmerkur (Bása) kallast Laugavegur. Útivist býður á hverju sumri upp á nokkrar ferðir og er oftast um að ræða 5 daga trússferðir og er gist ýmist í skálum eða tjöldum á leiðinni. Í ferðinni gefst ferðafólki kostur á að kynnast ótrúlega fjölbreyttu og fögru landslagi. Má þar nefna heitar laugar, hveri og jökla. Litadýrðin og fegurð svæðisins er slík að ekki verður lýst með orðum.
Nánari lýsing.
Í þessari ferð er farið í Tindfjöll. Dvalið er tvær nætur í skála Útivistar, Tindfjallaseli og stundaðar fjallgöngur. Svo er gengið yfir Tindfjallajökul og Ásgrindur og niður í Hungurfit þar sem gist er síðustu nóttina. Þessi ferð er nokkuð krefjandi og þurfa göngumenn að vera í góðu formi.
Farið er á eigin bílum í Fljótshlíð. Ferðin er trússuð.
Tveggja daga ferð yfir Fimmvörðuháls
Í þessari ferð er hugað sérstaaklega að þörfum barna og unglinga. Ekki er mælt me a börn séu yngri en átta ára.
Athugið að farangur er trssaður í Bása en ekki er hægt að keyra í Fimmvörðuskála og því þarf að bera svefnpoka og mat fyrir fyrsta sólarhringinn.
Brottför kl. 10:00 frá Hrauneyjum
Þriggja daga jeppaferð um slóðir norðan Vatnajökuls. Ferðin hefst í Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum og er ekið þaðan norður um Kvíslarveituveg með viðkomu við Hallgrímsvörðu, en hana hlóðu Útivistarfélagar til heiðurs Hallgrími Jónassyni sem var mikilsvirkur í starfi félagsins á sínum tíma og skrifaði meðal annars margar greinar í ársrit Útivistar. Einnig verður höfð viðkoma við forna vörðuþyrpingu þá sem kölluð er “Beinakerling og sjö dætur” og velt vöngum um tilkomu þeirra. Náttstaður fyrstu nóttina verður í Laugafelli þar sem færi gefst á að skola af sér ferðarykið í náttúrulaug.
Úr Laugafelli liggur leiðin niður í Eyjafjörð og ef aðstæður leyfa verður farið um fáfarna slóð út Hólafjall. Þá tekur við nokkur malbiksakstur á Mývatn þar sem upplagt er að fylla eldsneytisgeyma áður en ekið er að Heilagsdal þar sem gist er næstu nótt. Þaðan liggur leiðin um Krákárbotna í Dyngjufjalladal, en dagurinn endar í Herðubreiðarlindum. Lok formlegrar ferðar eru í Herðubreiðarlindum en þaðan er hægt að halda þægilega leið til byggða eða halda áfram að njóta einstakrar náttúru á hálendinu norðan Vatnajökuls.
Ferðin er skipulögð sem tjaldferð en jafnan er gist í nágrenni við fjallaskála og geta þeir sem það kjósa frekar pantað sér gistingu í skálunum.
Fararstjórar: Skúli Skúlason og Egill Rúnar Hjartarsson
Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir, flutningur á farangri í Bása, skálagisting og grillveisla um kvöldið í Básum.
Frá Mjódd kl 9:00
Eldgjá endilöng – afmælisferð
Í tilefni 50 ára afmælis Útivistar verður í ágúst farin afar spennandi afmælisferð eftir endilangri Eldgjá frá norðri til suðurs. Eldgjá er 40 km löng og myndaðist í risagosi um árið 939.Hún er eitt af mestu nátturuundrum landsins. Margir kannast við hana þar sem hún sker Fjallabaksleið nyrðri en fáir hafa skoðað hana endilanga. Hér gefst einstakt tækifæri til að skoða í návígi þetta stórbrotna landslag í fylgd fararstjóra sem þekkja svæðið eins og handarbakið á sér og gista í huggulegum skálum Útivistar á leiðinni. Ferðin er trússferð. Vaðskó þarf alla göngudaga. Fararstjóri: Hákon Gunnarsson.
Landmannalaugar – Strútur - afmælisferð
Tjaldferð með allt á bakinu frá Landmannalaugum í Strút um Grænahrygg, Hattver, Muggudal og Hólmsárbotna í Strútslaug og þaðan í Strút. Þar er sameinast gönguferð um Eldgjá og grillað að hætti Útivistar.
Fararstjóri: Páll Arnarson
Brottför kl. 9:00 Þáttakendur koma sér sjálfir á Borgarfjörð eystri
Víknaslóðir - kvennaferð
Upplifðu kyrrláta fegurð Víknaslóða – Hægferð fyrir þær sem vilja njóta í rólegheitum
Víknaslóðir eru margrómað gönguland þar sem óviðjafnanleg náttúrufegurð og friðsæld sameinast í einstaka upplifun. Þetta er ferð fyrir þá sem vilja draga andann djúpt, ganga með hóflegu tempói og njóta augnabliksins. Gangan hefst og endar í Bakkagerði í Borgarfirði eystri, þar sem þú getur dregið þig í hlé frá ys og þys hversdagsins og leyft þér að sökkva inn í einstaka náttúru Austfjarða. Við köllum þetta hægferð þar sem dagleiðirnar eru vel viðráðanlegar – lengstu dagleiðirnar um 15 km – og mesta hækkunin er 920 metrar. Ferðin er sérstaklega vel til þess fallin fyrir konur sem vilja sameina útivist og afslöppun í fallegu umhverfi. Þetta er ekki kapphlaup heldur ferð þar sem áhersla er lögð á að skoða, upplifa og njóta. Vertu með í ferð sem fyllir hugann ró og hjartað gleði á þessum einstaka hluta Íslands. Kynntu þér kyrrláta en stórbrotnu Víknaslóðir – þú munt ekki verða svikin.
Fararstjóri: Íris Hrund Halldórsdóttir
Margir yngri sem eldri Útivistarfélagar eiga minningar frá gönguferðum að Fjallabaki. Ferðafélagið Útivist bíður nú aftur upp á bækistöðvaferð í skála félagsins, Strút, á syðra Fjallabaki. Þessi ferð er tilvalin fyrir eldri félaga sem vilja endurupplifa góðar minningar, sem og nýja félaga á virðulegum aldri sem langar að kynnast fagurri náttúru undir leiðsögn kunnugra.
Ferðin er núna þrjár nætur
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir og Jóhanna Benediktsdóttir
Frá Mjódd kl. 9:00
Jafnt yngri sem eldri Útivistarfélagar eiga minningar frá gönguferðum að Fjallabaki. Ferðafélagið Útivist tekur áskorun frá hópi 60+ þátttakenda frá síðastliðnu sumri og bíður uppá bækistöðvaferð í skála félagsins, Strút, að syðra Fjallabaki. Þessi ferð er tilvalin fyrir eldri félaga sem vilja endurupplifa góðar minningar, sem og nýja félaga á virðulegum aldri sem langar að kynnast fagurri náttúru undir leiðsögn kunnugra.
Lagt af stað frá Mjódd á mánudegi og ekið í Strút. Eftir að hafa komið sér fyrir í skála er farið í ca tveggja tíma göngu inn í Krókagil sem liggur inn í á milli fjalla skammt frá skálanum. Næstu tvo daga verður gengið annars vegar í Strútslaug og hins vegar umhverfis fjallið Strút. Hvor ferð um sig er ca 12km. Einnig verður boðið uppá léttari göngur fyrir þá sem það vilja. Þeir sem ekki fara í gönguferð geta haldið kyrru fyrir í skálanum og notið kyrrðarinnar.
Heimferðadag verður lagt af stað kl: 9:00. Stoppað á leiðinni og tekin stutt ganga.
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir, Guðbjartur Guðbjartsson og Jóhanna Benediktsdóttir.Innifalið: Leiðsögn, akstur, þrjár skálagistingar, heit sturta, auk sameiginlegra kvöldmáltíða öll kvöldin.
Brottför: 11.ágúst kl. 08.00 frá Mjódd/bíómeginHeimkoma 14. ágúst milli kl. 18.00 og 19.00
kl. 07:00 frá Mjódd
Ferð á Grænahrygg og Augað, gist verður í eina nótt í Landmannalaugum.
Lagt verður af stað kl. 7 úr Reykjavík og ekið inn að Kýlingum þar sem gangan hefst. Gengið verður um Halldórsgil inn að Grænahrygg. Nokkuð er um hækkun og lækkun á leiðinni um stórkostlegt og litríkt landslag þar til Grænahrygg er náð. Ef ekki eru vatnavextir í Jökulgilskvísl verður gengið frá Grænahrygg um Jökulgilið og Uppgönguhrygg í Landmannalaugar. Annars verður gengið til baka að upphafsstað göngu og rúta ekur hópnum inn að Landmannalaugar þar sem gist verður. Tilvalið að taka slaka á eftir göngu dagsins í heitum laugunum.
Reikna má með 16-20 km göngu sem tekur ca. 8-10 klst. Nokkuð er um vöð á leiðinni og góðir vaðskór því nauðsynlegir. Ganga um Uppgönguhrygg getur verið krefjandi fyrir lofthrædda.
Á fimmtudagsmorgun er haldið af stað eftir morgunmat og ekið um Dómadalsleið að upphafsstað göngu fyrir neðan Rauðafoss. Gengið er upp með Rauðafossi að upptökum Rauðufossakvíslar þar sem sjá má dulmagnaða náttúrusmíð er nefnist Augað.
Gangan tekur um 4 klst. og er 10 km löng.
Hér er gengið um Arnardalsskarð, gamla þjóðleið yfir Snæfellsnesfjallgarð á milli Grundarfjarðar og Staðarsveitar. Veður ræðir hvort við göngum yfir skarðið frá suðri eða norðri. Það er jú alltaf gott að hafa vindinn í bakið. Rútan sækir okkur þegar yfir er komið. Gangan er 13-14km, tekur um 6 -7 klst og hækkun er alls um 700m
Brottför kl. 07 frá Mjódd
Á sunnudagsmorgun er haldið af stað eftir morgunmat og ekið um Dómadalsleið að upphafsstað göngu fyrir neðan Rauðafoss. Gengið er upp með Rauðafossi að upptökum Rauðufossakvíslar þar sem sjá má dulmagnaða náttúrusmíð er nefnist Augað. Gangan tekur um 4 klst. og er 10 km löng.
Útivist býður upp á jóga-, göngu- og sjósundsferð til Vestmannaeyja dagana 22. - 24. ágúst í sumar. Lagt verður af stað á einkabílum frá Reykjavík snemma á föstudagsmorgni og Herjólfur tekinn til Vestmannaeyja. Gist verður í Hraunprýði sem er stór og rúmgóður skáli Skátafélagsins Faxa á Skátastykkinu í Eyjum. Farið verður í gönguferðir alla dagana um þessa fallegu eyju og náttúrunnar notið. Jóga verður iðkað kvölds og morgna og synt í sjónum eftir hentugleika. Öllum er velkomið að taka þátt og ekki er krafist neinnar fyrri reynslu af jógaiðkun. Innifalið í verði er fararstjórn, kvöldverður á veitingahúsinu Gott og skálagisting.
Fararstjóri er Auður Jónasdóttir gönguleiðsögukona og jógakennari og Eyrún Lind Magnúsdóttir gönguleiðsögukona
Í sveppaferðinni verður staðsetning valin eftir aðstæðum til að sem mest fáist úr ferðinni. Nánari staðsetning verður auglýst síðar.
Hist í Fljótsdal kl 18:00
Snörp helgarferð í hina frábæru fjallgönguparadís í Tindfjöllum.
29/8 Hist við innsta bæ í Fljótshlíðinni, Fljótsdal kl 18 Svo er gengið upp Tindfjallasel, huggulegan skála Útivistar. Við höfum allt á bakinu sem þarf til helgarinnar. Ganga í Tindfjallasel: Hækkun 550m Vegalengd 6-7km
30/8 Nú ráða aðstæður og veður för en við stefnum t.d. á að ganga góðan hring um fjöllin neðan jökuls, Haka, Saxa og Bláfell og jafnvel Hornklofa og Gráfell ef tækifæri og veður gefst. Vegalengd 16-18km, hækkun uþb 1000 -1100m
31/8 Stutt ganga fyrir hádegi og svo tygjum við okkur niður í bíla upp úr hádeginu.
Brottför frá Mjódd kl 9:00
Bjarnarfell drottnar yfir hverasvæðinu í Haukadal giljum skorið. Haldið á fjallið að sunnan, skammt frá bænum Austurhlíð stuttu áður en kemur að Geysi. Vegalengd 12-14 km. Hækkun 600 m. Göngutími 6 klst.
kl. 18:00 frá Mjódd
Hraðferð um Laugaveginn er tilvalin fyrir þá sem eru í þokkalegu gönguformi og vilja fara þessa fjölförnu leið á þeim tíma þegar fáir eru á ferli.
frá Mjódd kl. 18:00
Að loknu góðu ferðasumri liggja allar leiðir í Bása til að taka á móti haustinu. Á þeim tíma er einstakt að heimsækja Goðaland því þá gleðja haustlitirnir augað hvert sem litið er. Gönguferðir og holl útivist er einkenni ferðarinnar og því verður farið í góða göngu um Goðaland. Gönguleið verður valin eftir veðri og aðstæðum. Á laugardagskvöldi verður grillveisla og varðeldur að hætti Útivistar. Brottför frá Mjódd, sami brottfararstaður og í dagsferðum.
Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir og skálagisting og grillveisla á laugardagskvöldi
Brottför kl. 18:00 frá Olís við Hellu.
Þessi ferð er fyrir óbreytta eða lítið breytta jeppa, þar sem farið er inn á Fjallabak um Keldur og inn fyrir Hafrafell meðfram Eystri Rangá upp í Hungurfit þar sem gist verður. Á laugardeginum er ferðinni heitið um Syðra Fjallabak, eftir stutt stopp við nafnlausa fossinn í Markárfljótinu. Komið verður við í Álftavatni og Hvanngili og kíkt á gljúfrin þar sem Kaldsklofskvísl fellur í Markárfljótið á leið okkar í Strút, þar sem gist verður í skála Útivistar á laugardagskvöldið. Á sunnudeginum verður ekið austur fyrir Mælifellshnjúk og farið yfir Brennivínskvísl og yfir Hólmsá og gengið að Rauðabotn áður en haldið er til byggða.
Fararstjóri: Skúli Skúlason
Í fjöruferðinni verður staðsetning valin eftir aðstæðum til að sem mest fáist úr ferðinni. Nánari staðsetning verður auglýst síðar.
frá Mjódd kl. 17:00
Lagt af stað frá Mjódd á föstudegi kl. 17:00 og ekið um Þingvelli, Uxahrygg og að Kvígindisfelli. Gengið er með allt á bakinu í um 2 km og tjaldað. Daginn eftir verður gengið um 16 km vestur fyrir fellið og að Hvalvatni. Gengið austur með vatninu og tjaldað næstu nótt við sunnanvert Hvalvatn með stórbrotið útsýni til Hvalfells og Botnsúlna. Á sunnudeginum er gengið um 15 km um Hvalskarð niður á gönguleiðina yfir Leggjarbrjót og henni fylgt að Svartagili í Þingvallasveit.
Fararstjóri - Hrönn Baldursdóttir
Hist kl 9:00 á upphafsstað
Hafnarfjall er bæjarfjall Borgnesinga líkt og Esjan er bæjarfjall höfuðborgarbúa. Á Hafnarfjall eru margar gönguleiðir þó svo að flestir kjósi að ganga eftir hryggnum sem liggur samsíða þjóðveginum. Nú verður farin sérlega spennandi leið upp Klausturtunguhól og um þrönga geil í hamrabeltinu. Síðan verða tindar fjallsins þræddir í vesturátt á hæsta tindinn, Gildalshnúk og svo niður hrygginn norðan við að upphafstað aftur. Vegalengd 9 km. Hækkun 1000 m. Göngutími 5-6 klst.
Brottför kl. 09:00 frá Hrauneyjum.
Hin forna leið frá Svarthöfða í suðurenda Vonarskarðs að Jökulheimum er einhver skemmtilegasta jeppaleið sem til er. Glíman við brattar brekkur og straumharðar ár gleymist fljótt þegar hið stórkostlega útsýni af hæstu hæðum leiðarinnar blasir við. Farið að morgni laugardags í Hrauneyjar þar sem fyllt er á tanka. Þaðan verður haldið norður Sprengisandsleið og að Svarthöfða við norðurenda Hágöngulóns. Gist verður í skála Jöklarannsóknafélagsins í Jökulheimum. Möguleiki á að aka um Breiðbak á heimleið.
Helgina 31/10 - 2/11 býðst þér einstakt tækifæri á að upplifa töfra Þórsmerkur í algjörri ró og stillu. Markmið ferðarinnar er að aðstoða þig við að hlaða batteríin burt frá öllu áreiti á einum fallegasta stað landsins. Það er draumi líkast að fá að vera í mörkinni á þessum árstíma þar sem fáir eru á ferli og náttúran umlykur mann & nærir.
Ferðin hefst í Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum, farið inn í Landmannalaugar, þaðan um Fjallabaksleið nyrðri, inn á Mælifellssandi og í Strútsskála. Tekið tékk á Strútslaug og umhverfi, og tánum stungið í bað ef aðstæður eru hagstæðar. Á sunnudeginum verður farið vestur Mælifellsand og niður í Fljótshlið eða um Mýrdalsjökul ef færi er gott.
Aðventuferðirnar í Bása eru alltaf frábær skemmtun bæði fyrir börn og fullorðna. Vetrarríkið skartar sínu fegursta og einhverjum sögum fer af því að jólasveinum bregði fyrir í fjöllunum og jafnvel fleiri meðlimum þeirrar fjölskyldu. Þegar skyggja tekur verður sest að jólahlaðborði og blásið til kvöldvöku.
Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir og skálagisting.
Athugið að það er frítt fyrir börn 6 ára og yngri og 50% afsláttur fyrir börn 7-17ára.
Fararstjórar eru Guðrún Hreins og Marrit
Kortið sýnir gönguleiðir í Þórsmörk og á Goðalandi.
Á bakhlið eru einföld kort af gönguleiðunum um Laugaveg og Fimmvörðuháls.
Kortið er endurnýjuð útgáfa frá 2007 og 2012 og er gefið út af Útivist og Fí.
Kortagerð annaðist Loftmyndir ehf.Hönnun annaðist Björg Vilhjálmsdóttir: bjorgvilhjalms.is
Póstlagning kortsins er innifalin í verði.
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2025 er komin út. Kynningarblað fyrir áætlunina verður sent félagsmönnum í pósti og í dreifingu í ýmsa vel valda staði. Ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Hér er hægt að skoða blaðið okkar á PDF formi og hér er hægt að fletta blaðinu rafrænt.