Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Við gleymum ekki maganum. Kaffi og vöfflur á boðstólum!
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 2.000 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Hefur þig alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en veist ekki hvar á að byrja? Eða er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp.
Námskeiðið „Með allt á bakinu – byrjendanámskeið í bakpokaferðum“ er þá fyrir þig!
Hvort sem þú ert að byrja í því að ganga með allan búnað á bakinu eða hefur ekki gert það í langan tíma og vilt rifja það upp, þá færðu á þessu námskeiði þá þekkingu og reynslu sem þarf til að takast á við lengri ferðir á eigin vegum.
Námskeiðið fer yfir grunnatriði bakpokaferðalaga með skemmtilegum fyrirlestrum og dagsferðum, þar sem þú lærir allt frá því að velja réttan bakpoka og pakka snjallt, til að tjalda, elda úti og velja leiðir í náttúrunni. Þú færð tækifæri til að prófa búnaðinn þinn í öruggu og skipulögðu umhverfi og undirbúa þig fyrir lengri ferðir, allt undir leiðsögn reynslubolta
Fararstjórar eru Hrönn Baldursdóttir og Íris Hrund Halldórsdóttir
Eldri borgarar á fjöllum
Á undanförum áratug hefur aldurssamsetningu landsmanna breyst talsvert; börnum hlutfallslega fækkað og eldra fólki fjölgað. Í upplýsingum frá Hagstofunni kemur fram að hlutfall eldra fólks hefur aldrei verið hærra á Íslandi en nú er.
Sumarið 2022 ákvað Ferðafélagið Útivist að bregðast við þessari þróun og bjóða uppá bækistöðva ferðir fyrir einstaklinga sem náð hafa sextugsaldri. Það er skemmst frá því að segja að ferðirnar hafa slegið í gegn þessi þrjú sumur sem þær hafa verið í boði; valinn maður í hverju rúmi.
Bækistöðvaferð í Bása hefur verið fastur liður öll sumrin, auk ferða í Strútsskála og Dalakofann. Gist er í tvær nætur og boðið uppá gönguferðir við allra hæfi auk þess sem sumir velja að njóta kyrrðarinnar í og við skálann. Þrír fararstjórar; Guðbjartur, Emilía og Jóhanna, sem öll eru 60+, fylgja hópnum þannig að hægt sé að mæta óskum þátttakenda um erfiðleikastig gönguferðanna. Konur voru duglegri að mæta framan af en karlarnir hafa sótt í sig veðrið og komu sterkari inn síðast liðið sumar.Skálarnir sem gist hefur verið í, hvort heldur er í Básum, Strút eða Dalakofanum hafa ekki verið aðgengilegir öðrum gestum á meðan 60+ hópur er þar á ferð. Sameiginlegar kvöldmáltíðir, hafragrautur í morgunmat, kaffi, te og heitt súkkulaði, vöfflur og rjómi eru meðal þess sem boðið hefur verið uppá í bækistöðvaferðunum.
Útivistarfélagar til fjölda ára og aðrir náttúruunnendur hafa verið duglegir að mæta og upplifa kunnugleg landssvæði og endurnýja vináttu eða jafnvel að stofna til nýrrar. Spil eru dregin fram og gjarnan spiluð kínaskák, einhverjir prjóna, aðrir lesa eða dunda í krossgátu, en aðallega er spjallað og hlegið. All margir hafa farið úr fyrir eigin þægindaramma í 60+ ferðunum og upplifað að geta mun meira en þeir héldu þegar lagt var af stað. Slíkir sigrar toga fólk gjarnan á ný til fjalla til að endurupplifa náttúruna og auka þol og þrek. Hvers kyns útivera er til þess fallið að styrkja líkamlega heilsu fólks og góður félagsskapur er gulls í gildi fyrir andlega næringu. Ferðafélagið Útivist er því að leggja sitt að mörkum til að bæta lífskjör þeirra einstaklinga sem velja að taka þátt í 60+ ferðum félagsins.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti sem og nýliðum í útivist og hvetjum við einnig þá sem vanari eru göngum að taka þátt nema annað sé tekið fram. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum og öðrum að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá
Hópastarf Útivistar
Hópastarfið skipar stóran þátt í starfsemi Útivistar. Boðið er upp á fjölbreytta hópa þar sem allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Fjallabrall hefur fest sig í sessi sem gríðarlega vinsæll gönguhópur innan Útivistar síðan hann fór í gang á haustdögum 2022 og starfar af krafti á vorönn 2026
Hópurinn er ætlaður öllum þeim sem hafa einhverja reynslu af útivist og fjallgöngum. Erfiðleikastig ferða er 1-2 skór. Miðað er við að dagsferðir séu ekki meira en um 15 km og uppsöfnuð hækkun í ferðum ekki meiri en um 600 metrar.* Boðið er upp á að taka þátt í öllum styttri ferðunum sér en einnig að bæta við helgarferð í Bása í byrjun sumars 2026
Með allt á bakinu: Byrjendanámskeið í bakpokaferðum er fyrir þá sem hefur alltaf langað að prófa bakpokaferðir, en vita ekki hvar á að byrja? Eða kannski er einfaldlega bara of langt síðan síðast og þú vilt rifja þetta upp. Námskeiðið verður alla vorönn 2026
Bláfjallahreysti er hópur sem starfar í rúman mánuð frá apríl til maí 2026 og er ætlaður þeim sem vilj koma sér í form fyrir sumarið með skemmtilegum göngum um falleg fjöll á Bláfjallasvæðinu.
Fjallabrall er hópur fyrir öll þau sem hafa einhverja reynslu af fjallgöngum og vilja nota meiri tíma í að njóta íslenskrar náttúru. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 600 metrar. Að jafnaði eru farnar tvær ferðir í mánuði, ein dagsferð og ein kvöldferð á miðvikudagskvöldi. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar nema annað sé tekið fram. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir, Fríða Brá Pálsdóttir og Tryggvi Guðmundsson.
Þrettándastuð í Þórsmörk. Jeppa- og gönguskíðaferð.
Hvað er betra en að enda jólin í Básum á Goðalandi og fagna með því nýbyrjuðu ferðaári? Þórarinn Eyfjörð er fararstjóri í þessari skemmtilegu ferð og víst er að gítarinn verður með í för (a.m.k. tveir). Brenna, flugeldar, áramótasöngvar og kvöldvaka.Fararstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Við skráningu þegar ökumaður skráir sig þarf eftirfarandi að koma fram í athugasemdum:BílnúmerGerð bílsLitur bílsDekkjastærðÁætlaður fjöldi í bíl, ökumaður talinn með. ATH! Það þarf alltaf að bóka farþega til að taka frá plássið.
Við skráningu farþega þarf eftirfarandi að koma fram í athugasemdum:Að viðkomandi sé farþegiBílnúmer
Athugið að gist verður í litla skála og takmarkað pláss, best að panta sem fyrst
Eyfirðingaleið norðan jökla
Fyrir jeppaáhugamenn er leiðin frá Kjalvegi yfir á Sprengisand einkar spennandi, með fjölmörgum áskorunum og leiðum. Farið verður inn að Hveravöllum á föstudagskvöldið og gist og laugað fyrir ævintýri helgarinnar. Á laugardeginum verður dagurinn tekinn snemma og farið inn á Eyfirðingaleiðina yfir Blöndu og svo sem leið liggur norðan Hofsjökuls yfir Ströngukvísl við Sátu og áfram austur yfir Vestari og Austari jökulföllin. Komið verður við í Ingólfsskála, farið hjá Illviðrahnjúkum og staldrað við í Miðjunni áður en komið verður í Laugafell þar sem gist verður í skála Ferðafélags Eyfirðinga. Á sunnudeginum verður farið suður með Hofsjökli að Þjórsárjökli og niður á Kvíslarveituveg og niður í Hrauneyjar.Fararstjóri: Gylfi Jónu Arnbjarnarson
Fjallabak syðra
Ekið inn á Fjallabaksleið hjá Gunnarsholti, komið við í Hungurfitjum ef aðstæður eru góðar, þaðan farið í Dalakofann þar sem gist verður um nóttina. Á sunnudeginum verður farin hin stórskemmtilega leið inn í Álftavatn, Hvanngil, inn á Emstruleið og niður í Fljótshlíð.Fararstjóri: Sveinn Sigurður Kjartansson
Eyjafjallajökull - Fimmvörðuháls - Mýrdalsjökull - jeppaferð
Farið upp á Eyjafjallajökul og Toppgígurinn skoðaður sem og útsýni yfir Þórsmörk og gist í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi þar sem verður grill og gaman. Á sunnudeginum verður farið yfir á Mýrdalsjökul og hann þveraður yfir á Mýrdalssand þaðan sem ekið verður til byggða niður í Fljótshlíð.Fararstjóri: Þorsteinn Pálsson
Vestur Vatnajökull - Jeppaferð
Vatnajökull heillar alltaf og ef vorið verður kalt og hagstætt þá er um að gera að nota tækifærið. Ekið frá Hrauneyjum í mildri vorbirtunni sem leið liggur í hinn frábæra skála Jöklarannsóknarfélagsins í Jökulheimum. Snemma á laugardagsmorgun tökum við glímuna við jökulinn og stímum að Grímsfjalli með viðkomu á Pálsfjalli. Gufubaðið og grillið tekið af fullri alvöru. Eftir indælan nætursvefn í einum mest sjarmerandi skála á Íslandi, verður lagt af stað í morgunroðanum áleiðis heim. Hamarinn og fleiri áhugaverðir staðir teknir á leiðinni, allt eftir því hvað veður leyfir.Fararstjóri: Gylfi Jónu Arnbjarnarson
Vorferð jeppadeildar á Vatnajökul - eystri hópur
Í hinni stórskemmtilegu vorferð Útivistar verður boðið upp á tvo hópa, annar sem fer austurleiðina um Skálafellsjökul og hinn sem fer um Grímsfjall. Í Sigurðarskála gista hóparnir saman og halda grillveislu að hætti Útivistar á föstudagskvöldið.
Eystri hópurinn leggur af stað að morgni fimmtudags frá Smyrlabjörgum en gisting nóttina áður er á ábyrgð hvers og eins. Ekið verður á Goðabungu og í Snæfellsskála, þar sem verður gist. Á föstudeginum verður dagurinn tekin snemma og ekið í Kverkfjöll þar sem farið verður í bað í Hveragili og Sigurðarskála þar sem hópurinn sameinast hinum hópnum. Á laugardeginum verður svo haldið áfram á Grímsfjall og freistað þess að fara í gufubað. Á sunnudeginum verður ekið til byggða um Jökulheima.Fararstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Vorferð jeppadeildar á Vatnajökul - vestari hópur
Vestari hópurinn leggur af stað frá Olís við Rauðavatn á fimmtudagsmorgni og verður ekið á Grímsfjall þar sem gist verður. Á föstudeginum verður farið yfir Vatnajökul og stefnan tekin á Sigurðarskála í Kverkfjöllum þar sem gist verður í tvær nætur og hóparnir sameinast á föstudeginum. Á laugardeginum verður farið sem leið liggur í Hveragil í bað. Á sunnudeginum verður ekið til byggða annað hvort yfir Vatnajökul eða sem leið liggur vestur fyrir jökulinn.Fararstjóri: Sveinn Sigurður Kjartansson.
Sumarferð á Vatnajökull
Við skráningu þegar ökumaður skráir sig þarf eftirfarandi að koma fram í athugasemdum:BílnúmerGerð bílsLitur bílsDekkjastærðÁætlaður fjöldi í bíl, ökumaður talinn með.
Fjallabak syðra, Hungurfit – Strútur
Þessi ferð er fyrir óbreytta eða lítið breytta jeppa, þar sem farið er inn á Fjallabak um Keldur og inn fyrir Hafrafell með fram Eystri Rangá upp í Hungurfit þar sem gist verður. Á laugardeginum er ferðinni heitið um Syðra Fjallabak, eftir stutt stopp við nafnlausa fossinn í Markárfljótinu. Komið verður við í Álftavatni og Hvanngili og kíkt á gljúfrin þar sem Kaldsklofskvísl fellur í Markárfljótið á leið okkar í Strút, þar sem gist verður í skála Útivistar á laugardagskvöldið. Á sunnudeginum verður ekið austur fyrir Mælifellshnjúk og farið yfir Brennivínskvísl og yfir Hólmsá og gengið að Rauðabotn áður en haldið er til byggða.Fararstjóri: Skúli Skúlason
Vonarskarð og Bárðargata
Hér er um einhverja skemmtilegustu jeppaleið sem til er að ræða, en ávallt er einhver dulúð yfir Vonarskarðinu. Glíman við brattar brekkur og straumharðar ár gleymist fljótt þegar hið stórkostlega útsýni af hæstu hæðum leiðarinnar blasir við. Eftir að stjórn Vatnajökulsþjóðgarðs samþykkti að opna Vonarskarð í tilraunaskyni verður farið um þetta svæði með tvennum hætti.Farið verður um Kvíslarveiturnar yfir Sprengisand og norður fyrir Tungnafellsjökul á föstudagskvöldið og gist í Gæsavatnaskála. Á laugardeginum verður ekið suður Vonarskarð og Bárðargötu að Jökulheimum þar sem gist verður í gamla skála Jöklarannsóknarfélagsins þar sem hópurinn sameinast Bárðargötuhópnum. Á sunnudeginum verður skoðað að aka með Langasjó eða um Breiðbak, með möguleika á viðkomu við Faxasund, Faxafit eða Skælinga á heimleið.Fararstjóri: Sveinn Sigurður Kjartansson
Bárðargata
Hér er um styttri og hefðbundna útgáfu af þessari skemmtilegu jeppaleið. Farið verður að morgni laugardags í Hrauneyjar þar sem fyllt verður á tankanna. Þaðan verður haldið norður Sprengisandsleið og að Svarthöfða við norðurenda Hágöngulóns. Gist verður í nýrri skála Jöklarannsóknafélagsins í Jökulheimum þar sem hópurinn sameinast Vonarskarðshópnum. Á sunnudeginum verður skoðað að aka með Langasjó eða um Breiðbak, með möguleika á viðkomu við Faxasund, Faxafit eða Skælinga á heimleið.Fararstjóri: Þórarinn Eyfjörð
Fjallabak nyrðra – Mælifellssandur
Ferðin hefst á Landvegamótum, upp Landssveit inn á Dómadalsleið að Landmannalaugum þar sem gist verður og laugað. Þaðan verður farið um Fjallabaksleið nyrðri, inn á Mælifellssandi og sem leið liggur Strútsskála þar sem gist verður á laugardagskvöldið. Tekin verðu staðan á Strútslaug og umhverfi, og tánum stungið í bað ef aðstæður eru hagstæðar. Á sunnudeginum verður farið vestur Mælifellssand og niður í Fljótshlið eða um Álftavatn, Rangárbotna að Keldum.Fararstjóri: Þorsteinn Pálsson
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2026 er komin út. Að þessu sinni kemur áætlunin út á vef Útivistar, www.utivist.is. Ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Yfirlit yfir ferðirnar er einnig hægt að skoða á PDF formi