Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Everest hópur Útivistar mun fara aftur af stað með nýju sniði í ársbyrjun 2023. Farið verður á þrjá jökla á tímabilinu. Áður en farið er í jöklaferðirnar verða undirbúningsgöngur á áhugaverð fjöll í nágrenni Reykjavíkur, sem eru m.a. Esjan, Skarðsheiði, Botnsúlur og Hengill.
Umsjónaraðilar: Ingvar Júlíus Baldursson, Auður Jónasdóttir og Steinar Sólveigarson.
Fjallfarar Útivistar er hópur sem gengur saman eina dagsgöngu og eina kvöldgöngu í mánuði. Hópurinn er fyrir fólk sem hefur reynslu af gönguferðum og vill ganga dagleiðir sem eru í meðallagi langar og með nokkurri hækkun. Dagskráin yfir árið er tvískipt; annars vegar frá janúar til maí og hins vegar frá september til desember. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar að lengd og á hinum ýmsu svæðum.
Göngur Fjallfara eru frá miðlungs erfiðum upp í erfiðar göngur (2-3 skór). Mikilvægt er að hafa viðeigandi útbúnað og fatnað og hafa reynslu af að nota hann. Þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallfara eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar Fjallfara eru Hrönn Baldursdóttir, Margrét Harðardóttir, Ingvar Baldursson og Guðrún Svava Viðarsdóttir.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Dagskrá Útivistargírsins vorið 2023 hefst 11. apríl og stendur til 30. maí. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist jafnt sem vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá vor 2023
Fjallabrall er nýr hópur hjá Útivist og er ætlaður fólki sem hefur einhverja reynslu á fjallgöngum sem og þeim sem eru lengra komnir. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 500 metrar. Gengið verður reglulega fram til 7. desember eða 2-3 sinnum í mánuði en dagskrá hópsins hefst 24. ágúst með opinni ferð á Meðalfell þar sem fólki er velkomið að mæta og máta sig við fararstjóra og hópinn. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir og Fríða Brá Pálsdóttir.
ATH!. Ferðin fellur niður
Ekið inn á Fjallabaksleið hjá Gunnarsholti, komið við í Hungurfitjum ef aðstæður eru góðar og þaðan farið í Dalakofann þar sem gist verður um nóttina. Á sunnudeginum verður farin hin stórskemmtilega leið inn að Álftavatni, í Hvanngil, inn á Emstruleið og niður í Fljótshlíð.
Nánari upplýsingar
Farið upp á Eyjafjallajökul og toppgígurinn skoðaður sem og útsýni yfir Þórsmörk. Gist í skála Útivistar á Fimmvörðuhálsi þar sem verður grill og gaman. Á sunnudeginum verður farið yfir á Mýrdalsjökul og hann þveraður yfir á Mýrdalssand þaðan sem ekið verður til byggða niður í Fljótshlíð.
ATH! Uppselt er í ferðina.
Hin stórskemmtilega árlega vorferð um Vatnajökul er ein vinsælasta ferð jeppadeildarinnar. Ferðinni er nú heitið á austurjökulinn. Ferðin hefst að morgni fimmtudags frá Smyrlabjörgum en gisting nóttina áður er á ábyrgð hvers og eins. Ekið verður á Goðabungu og ef veður og tími vinna með okkur verður ekið um öræfin austur af Vatnajökli með viðkomu í Egilsseli og Tröllakrókum. Kannaðar verða leiðirnar á Þrándarjökul og Hofsjökul eystri. Farið verður niður Hraun, yfir Eyjabakkastífluna og um Snæfellsfjallgarðinn í Snæfellsskála, þar sem verður gist. Á föstudeginum verður dagurinn tekin snemma og ekið í Kverkfjöll þar sem farið verður í bað í Hveragili. Á laugardeginum verður svo ferðinni haldið áfram á Grímsfjall og ástund lögð á gufubað og grill og verður gist þar. Sunnudagurinn verður notaður til heimferðar frá Grímsfjalli, hefðbundna leið um Jökulheima í Hrauneyjar þar sem ferðinni lýkur.
Vatnajökull heillar alltaf og ef vorið verður kalt og hagstætt þá er um að gera að nota tækifærið. Ekið frá Hrauneyjum í mildri vorbirtunni sem leið liggur í hinn frábæra skála Jöklarannsóknarfélagsins í Jökulheimum. Snemma á laugardagsmorgun tökum við glímuna við jökulinn og stímum að Grímsfjalli með viðkomu á Pálsfjalli. Gufubaðið og grillið tekið af fullri alvöru. Eftir indælan nætursvefn í einum mest sjarmerandi skála á Íslandi, verður lagt af stað í morgunroðanum áleiðis heim. Hamarinn og fleiri áhugaverðir staðir heimsóttir á leiðinni, allt eftir því hvað veður leyfir.
Vatnajökull heillar alltaf og ef vorið verður kalt og hagstætt þá er um að gera að nota tækifærið. Ekið frá Hrauneyjum í mildri vorbirtunni sem leið liggur í hinn frábæra skála Jöklarannsóknarfélagsins í Jökulheimum. Snemma á laugardagsmorgun tökum við glímuna við jökulinn og stímum að Grímsfjalli með viðkomu á Pálsfjalli. Gufubaðið og grillið tekið af fullri alvöru. Eftir indælan nætursvefn í einum mest sjarmerandi skála á Íslandi, verður lagt af stað í morgunroðanum áleiðis heim. Hamarinn og fleiri áhugaverðir staðir teknir á leiðinni, allt eftir því hvað veður leyfir.
Sögur af útilegumönnum á Íslandi eru í senn heillandi og ævintýralegar. Um tvenns konar sögur er að ræða. Annars vegar þær sem eru hluti af þjóðsagnaarfinum, sögur af grimmum mönnum sem lifðu sældarlífi í grösugum dölum inn á hálendinu. Draup þar smjör af hverju strái og voru sauðir stórir sem naut. Hins vegar eru þær sögur sem byggja á sönnum atburðum og raunverulegu fólki. Þar koma þau Fjalla-Eyvindur og Halla mikið við sögu. Í þessari ferð skoðum við nokkra þeirra staða þar sem útilegumenn bjuggu sér ból eða talið er að þeir hafi hafist við. Ferðin hefst í Hrauneyjum þaðan sem haldið er í Veiðivötn og síðan áfram norður Sprengisand og inn á hálendið norðan Vatnajökuls með viðkomu á nokkrum sögulegum slóðum. Ferðalok eru á tjaldsvæðinu í Atlavík.
Ferðin er skipulögð sem tjaldferð en jafnan er gist í nágrenni við fjallaskála og geta þeir sem það kjósa frekar pantað sér gistingu í skálunum. Verð er pr. bíl.
Þessi ferð er fyrir óbreytta eða lítið breytta jeppa. Farið er inn á Fjallabak um Keldur og inn fyrir Hafrafell meðfram Eystri Rangá upp í Dalakofa þar sem gist verður í skála Útivistar. Á laugardeginum er ferðinni heitið um Syðra Fjallabak, eftir stutt stopp við nafnlausa fossinn í Markarfljótinu. Komið verður við í Álftavatni og Hvanngili og kíkt á gljúfrin þar sem Kaldaklofskvísl fellur í Markarfljótið á leið okkar í Strút, þar sem gist verður í skála Útivistar. Á sunnudeginum verður ekið austur fyrir Mælifellshnjúk og farið yfir Brennivínskvísl og Hólmsá og í Álftavatnakrók.
Hin forna leið frá Svarthöfða í suðurenda Vonarskarðs að Jökulheimum er einhver skemmtilegasta jeppaleið sem til er. Glíman við brattar brekkur og straumharðar ár gleymist fljótt þegar hið stórkostlega útsýni af hæstu hæðum leiðarinnar blasir við. Farið að morgni laugardags í Hrauneyjar þar sem fyllt er á tanka. Þaðan verður haldið norður Sprengisand og að Svarthöfða við norðurenda Hágöngulóns. Gist verður í skála Jöklarannsóknafélagsins í Jökulheimum. Möguleiki á að aka um Breiðbak á heimleið.
Hin fornu vöð frumkvöðlanna könnuð, svo sem Bjallavað og Hófsvað í Tungnaá. Hlynur Snæland er þaulvanur björgunarsveitarmaður. Farið verður yfir öryggisatriði og annað sem hafa þarf í huga þegar glímt er við hin stóru fljót. Gist í Strútsskála.
Ferðin hefst í Hálendismiðstöðinni Hrauneyjum. Farið verður inn í Landmannalaugar, þaðan um Fjallabaksleið nyrðri, inn á Mælifellssandi og í Strútsskála. Tekið tékk á Strútslaug og umhverfi, og tánum stungið í bað ef aðstæður eru góðar. Á sunnudeginum verður farið vestur Mælifellsand og niður í Fljótshlið eða um Mýrdalsjökul ef færi er gott.
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2023 er komin út. Kynningarblað fyrir áætlunina verður fljótlega sent félagsmönnum ásamt dreifingu í ýmsa vel valda staði en ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Jafnframt er hægt að sækja pdf útgáfu af blaðinu eða fletta því rafrænt.