Beint í leiðarkerfi vefsins.
Almennar dagsferðir hafa allt frá stofnun félagsins verið einn af hornsteinunum í starfsemi Útivistar. Dagsferðir geta fallið niður ef þátttaka er ekki nægjanleg, en núna bjóðum við þátttakendum að skrá sig fyrirfram fyrir kl. 15 á föstudögum og fá þá góðan afslátt af þátttökugjaldi. Engu að síður er hægt að mæta að morgni ferðadags á BSÍ, en þá er alltaf hætta á að ferðin hafi verið felld niður vegna ónógrar þátttöku.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Hjólaræktin hefur starfað í allnokkur ár, en sífellt fleiri uppgötva hvað reiðhjólið er frábært til ferðalaga. Fastir liðir eru hjólatúrar á höfuðborgarsvæðinu á laugardögum yfir vetrartímann en þegar kemur fram á sumar er stefnan gjarnan tekin á lengri túra.
Fjallfarar Útivistar er samhentur hópur sem gengur saman 20 skipulagðar göngur frá september 2018 fram í júní 2019. Að jafnaði er ein kvöldganga í mánuði og ein dagsferð með undantekningum þó en dagskránni lýkur með helgarferð yfir Fimmvörðuháls á Jónsmessu. Í kvöldgöngum og einstaka dagsferðum sameinast hópurinn í bíla en í öðrum ferðum verður ferðast í rútu. Allajafna er brottför í kvöldgöngur kl. 18:00 á miðvikudegi og helgarferð kl. 8:00 á laugardegi.
Fjallfarar henta þeim sem þegar hafa tekið sín fyrstu skref í fjallgöngum og útivist og vilja ferðast drjúgar dagleiðir og skemmtilegar kvöldgöngur í góðra vina hópi. Rík áhersla verður lögð á liðsheild og félagsanda.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Á námskeiðum Fjallarefa er gönguþrek markvisst byggt upp og þátttakendur kynnast fjölbreyttum gönguleiðum.
Námskeið Fjallarefa er ætlað þeim sem áður hafa tekið þátt í námskeiðum og/eða eru í ágætis gönguformi. Námskeiðið felur í sér þrekgöngutíma, dagsferðir og helgarferð. Samhliða göngunum verður fræðsla þar sem þátttakendur safna í sarpinn hagnýtum upplýsingum sem tengjast útivist, til dæmis varðandi klæðnað, næringu, útbúnað og leiðarval.
Þrekgöngutímar eru á þriðjudögum og dagsferðir á laugardögum. Þátttakendur koma á eigin bílum á upphafsstað göngu en geta sameinast í bíla eftir hentugleikum.
Þrekhópur Útivistar er þétt göngudagskrá og gefur gott start inn í nýtt gönguár. Hér er tvinnað saman tveimur kvöldgöngum, fjórum þrekæfingum utandyra og tveimur dagsferðum svo úr verður frábær hreyfiveisla úti í náttúrunni sem henta byrjendum sem lengra komnum.
Ókeypis göngur í nágrenni höfuðborgarinnar
Komdu þér í Útivistargírinn fyrir sumarið með samheldnum hópi Útivistarfólks og nýrri tólf vikna dagskrá.
Útivistargírinn heldur af stað fjórða árið í röð og hefur starfið notið mikilla vinsælda frá því starfið hóf göngu sína árið 2016. Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í Útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum jafnt þaulvönu Útivistarfólki.
Dagskráin hefst 3. apríl og stendur til 19. júní. Hópurinn hittist vikulega á miðvikudögum klukkan 18:00 og gengur spennandi gönguleiðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist jafnt sem vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í þessum kvöldgöngum er lögð áhersla á vinalegt andrúmsloft og kynningu á grunnatriðum í útivist og gönguferðum. Fjölbreytt starfsemi Útivistar, þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi, verður einnig kynnt þátttakendum.
Flestar göngurnar taka 2 – 4 klukkustundir. Þátttakendur sameinast í bíla og deila eldsneytiskostnaði.
Kynningarfundur verður haldinn kl. 20:00 þann 20. mars.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en skrá þarf þátttöku. Áhugasömum er bent á upplýsingar um skráningu á heimasíðu Útivistar en skráning og upplýsingar um göngurnar fara að mestu fram á Facebook. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og tekur röð þeirra mið af veðri og færð hverju sinni. Auglýst verður á vef Útivistar, á Facebook síðu félagsins og á póstlista hvert verður farið hverju sinni.
Fjórir fararstjórar, Auður Jóhannsdóttir, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson leiða þátttakendur Útivistargírsins. Óhætt er að segja að fararstjórahópurinn sé fjölbreyttur en samhentur og hlakkar til að taka vel á móti öllum þeim sem vilja komast í Útivistargírinn.
Fylgstu með og skráðu þig á Facebook síðu Útivistargírsins.
Myndir úr aðventuferð og áramótaferð í Bása í desember 2012.Myndirnar tók Anna Soffía Óskarsdóttir
Ferðasaga eftir Steinar Frímannsson
Myndir: Grétar W. Guðbergsson og Steinar Frímannsson
Ferðasaga og myndir: Marrit Meintema.
Myndir: Kristíana Baldursdóttir
Myndir: Ingvi Stígsson
Myndir: Guðmundur Þorri Jóhannesson
Myndir: Ingvi Stígsson og Grétar William Guðbergsson
Myndir: Marrit Meintema
Myndir: Ingvi Stígsson og Arinbjörn Jóhannesson
Ferðaáætlun Útivistar 2019 er komin á vefinn. Kynningarblað liggur frammi á skrifstofu Útivistar en jafnframt er hægt að feltta því í vefútgáfu.