Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 2.000 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Everest hópur Útivistar mun fara aftur af stað með nýju sniði í ársbyrjun 2023. Farið verður á þrjá jökla á tímabilinu. Áður en farið er í jöklaferðirnar verða undirbúningsgöngur á áhugaverð fjöll í nágrenni Reykjavíkur, sem eru m.a. Esjan, Skarðsheiði, Botnsúlur og Hengill.
Umsjónaraðilar: Ingvar Júlíus Baldursson, Auður Jónasdóttir og Steinar Sólveigarson.
Fjallfarar Útivistar er hópur sem gengur saman eina dagsgöngu og eina kvöldgöngu í mánuði. Hópurinn er fyrir fólk sem hefur reynslu af gönguferðum og vill ganga dagleiðir sem eru í meðallagi langar og með nokkurri hækkun. Dagskráin yfir árið er tvískipt; annars vegar frá janúar til maí og hins vegar frá september til desember. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar að lengd og á hinum ýmsu svæðum.
Göngur Fjallfara eru frá miðlungs erfiðum upp í erfiðar göngur (2-3 skór). Mikilvægt er að hafa viðeigandi útbúnað og fatnað og hafa reynslu af að nota hann. Þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallfara eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar Fjallfara eru Hrönn Baldursdóttir, Margrét Harðardóttir, Ingvar Baldursson og Guðrún Svava Viðarsdóttir.
Athugið að dagskrá getur tekið breytingum með hliðsjón af veðurspá og aðstæðum hverju sinni.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Hefur þig alltaf langað til að geta gengið á fjöll og/eða taka þátt í lengri göngum en ekki látið verða af því? Þá er Útivistargírinn fyrir þig! Fjölmargir hafa tekið sín fyrstu skref í útivist og fjallgöngum með Útivistargírnum þar sem saman koma nýliðar og reynsluboltar í útivistinni.
Dagskrá Útivistargírsins vorið 2023 hefst 11. apríl og stendur til 30. maí. Göngurnar henta flestum sem geta hreyft sig með góðu móti og eru nýliðar í útivist jafnt sem vant fólk hvatt til þess að taka þátt. Í kvöldgöngum er farið yfir grunnatriði í útivist og gönguferðum og fjölbreytt starfsemi Útivistar kynnt þar sem allir geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Gönguleiðirnar eru fjölbreyttar og er tekið mið af veðri og færð hverju sinni.
Göngurnar taka 2–4 klukkustundir og koma þátttakendur sér á staðinn á einkabílum.
Þátttaka í göngunum er félagsmönnum Útivistar að kostnaðarlausu en æskilegt er að skrá þátttöku í hverja göngu fyrir sig í viðburði á Facebook. Kynntu þér Útivistargírinn á utivist.is, þar má finna dagskrá ásamt upplýsingum um skráningu.
Dagskrá vor 2023
Fjallabrall er nýr hópur hjá Útivist og er ætlaður fólki sem hefur einhverja reynslu á fjallgöngum sem og þeim sem eru lengra komnir. Gráðun ferðanna er 1-2 skór en í flestum ferðum er einhver gönguhækkun þó að hámarki 500 metrar. Gengið verður reglulega fram til 7. desember eða 2-3 sinnum í mánuði en dagskrá hópsins hefst 24. ágúst með opinni ferð á Meðalfell þar sem fólki er velkomið að mæta og máta sig við fararstjóra og hópinn. Miðað er við að fólk fari á eigin bílum í göngurnar. Í kvöldgöngunum hittist hópurinn kl. 18 en í dagsgöngunum hittist hópurinn kl. 9 (einstaka sinnum kl. 8) og svo keyrir hópurinn í samfloti að upphafstað göngu. Í göngunum er farið yfir grunnatriði í útivist en auk þess fá þátttakendur fá útbúnaðarlista og nánari upplýsingar um hverja göngu í sérstökum facebook hópi Fjallabralls eða með tölvupósti fyrir þau sem þess óska.
Fararstjórar eru Hanna Guðmundsdóttir, Fríða Brá Pálsdóttir og Edda Sól Ólafsdóttir.
Í þriðja og síðasta áfanga Langleiðarinnar er farangur trússaður og gist í tjöldum. Frá Krýsuvíkurvegi er haldið eftir stikuðum leiðum að Djúpavatni og þaðan að Núpshlíð. Aftur er tekið mið af náttúrunni við endanlegt leiðaval þegar nær dregur. Frá Núpshlíð er stefnan tekin fram hjá gosstöðvunum að Þorbirni og meðfram Eldvörpum. Að lokum endar gangan á Reykjanestá þar sem göngugörpum verður fagnað enda sumir að ljúka því að krossa yfir landið og aðrir að þvera landið frá norð-austri til suð-vesturs.
Nánari upplýsingar
Ath!! Fullbókað er í þessa ferð - Fleiri ferðir eru í boði dagana 25.-28. júlí sjá hér og 6.-9. ágúst sjá hér.
Beljandi jökulá, viðkvæmar mosabreiður, eldfjallajarðvegur og stórbrotnar hraunmyndanir eru það sem einkenna þessa sérstöku gönguleið. Gangan hefst við eitt fegursta fjallavatn landsins, Langasjó. Þar er gengið á Sveinstind, en í góðu skyggni er þar útsýni yfir sunnanvert hálendið og um breiður Vatnajökuls. Gist í Sveinstindsskála sunnan við fjallið. Þaðan er haldið niður með Skaftá í Skælinga þar sem einstakar hraunmyndanir setja svip á umhverfið. Frá Skælingum er gengið á Gjátind og niður í Eldgjá. Gangan endar í Hólaskjóli þar sem gist er síðustu nóttina.
Fararstjóri er Páll Arnarsson
Í víðum fjallasal breiðir Hólmsárlón úr sér en yfir því gnæfa Svartahnjúksfjöll og Torfajökull. Í suðri má sjá tindinn á fjallinu Strút, en af honum er nafn leiðarinnar dregið.
Hér er á ferðinni spennandi nýjung þar sem gengið er um ótroðnar slóðir. Gengið er um Tindfjöll og ofanverða Rangárvelli, suður fyrir Heklu og að Rjúpnavöllum.
Fararstjóri er Steinar Sólveigarson
Um er að ræða þriggja daga ferð frá Heklurótum að Landmannalaugum. Á fyrsta göngudegi er gengið frá Rjúpnavöllum upp með Ytri-Rangá, að upptökum hennar og yfir Sölvahraun í Áfangagil þar sem gist verður í skála.
Þessi Laugavegsferð er ætluð allri fjölskyldunni og sniðin að þörfum barna. Hér er því upplagt tækifæri til að kynna dásemdir útivistar fyrir börnunum. Ekki er þó mælt með því að taka yngri börn en 8 ára með.
Fararstjórar eru Helga Harðardóttir og Guðrún Frímannsdóttir
Dalastígur liggur um fáfarnar en heillandi slóðir að Fjallabaki. Í ár tökum við upp nýtt skipulag ferðarinnar með upphaf í Landmannahelli og endar gangan í Básum. Farið er með rútu og ekið að Landmannahelli þar sem gist er fyrstu nóttina. Þar yfir gnæfir Löðmundur sem býður upp á gott útsýni. Dagurinn er því nýttur til göngu á fjallið. Annan dag ferðarinnar er gengið undir Rauðufossafjöllum í Dalakofa þar sem er gist. Þaðan er svo gengið í skálann að Mosum skammt frá Markarfljóti. Loks er svo haldið yfir göngubrýr á Fremri-Emstruá og síðasti spölurinn í Bása genginn um lokaáfanga Laugavegarins.
Vatnaleiðin er þriggja daga gönguferð þar sem gist verður í tjöldum við vötn og læki.
Siglt verður frá Ísafirði í Hornvík þar sem settar verða upp tjaldbúðir og gengið út frá þeim. Farið verður um Hornbjarg og Hornbjargsviti í Látravík heimsóttur.
Gengið inn fyrir Langasjó og fram Fögrufjöll með viðkomu í Grasveri, Fagrafirði og á Sveinstindi
Eftir vel heppnaða þriggja daga bækistöðvaferð í Bása síðast liðið sumar verður leikurinn endurtekinn.
Stundum er talað um að hjarta Ferðafélagsins Útivistar slái í Básum á Goðalandi, en þar eiga jafnt yngri sem eldri Útivistarfélagar margar góðar minningar. Þessi ferð er tilvalin fyrir eldri félaga sem vilja endurupplifa góðar minningar, sem og nýja félaga á virðulegum aldri sem langar að kynnast þessari paradís undir leiðsögn kunnugra.
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir, Sverrir Andresson og Steinar Frímannsson
Tindfjallahringurinn er skemmtileg ný hringleið eða þríhyrningsleið þar sem gengið er milli þriggja skála. Ekið að kvöldi á eigin bílum að eyðibýlinu Fossi á Rangárvöllum, brottför kl 18.
Beljandi jökulá, viðkvæmar mosabreiður, eldfjallajarðvegur og stórbrotnar hraunmyndanir eru það sem einkenna þessa sérstöku gönguleið.
Laugavegsferðir eru alltaf sérstök upplifun hvað sem öðru líður og eitthvað sem allir ættu að upplifa minnsta kosti einu sinni á lífsleiðinni. Óhætt er að segja að Laugavegurinn sé þekktasta gönguleið landsins og þó víða væri leitað.
Hér er klassísk Laugavegsferð þar sem leiðin er gengin í fjórum þægilegum áföngum.
Fararstjóri er Kristjana Birgisdóttir
Bækistöðvarferð fyrir krakka, mömmur, ömmur, pabba, afa, frænkur og frændur. Hálendið í kringum Strútsskála verður kannað, farið í Strútslaug, ætt upp og niður fjöll, stiklað yfir ár og leitað að hellisskútum.
Margir yngri sem eldri Útivistarfélagar eiga minningar frá gönguferðum að Fjallabaki. Ferðafélagið Útivist tekur áskorun frá hópi 60+ þátttakenda frá síðastliðnu sumri og bíður uppá bækistöðvaferð í skála félagsins, Strút, á syðra Fjallabaki. Þessi ferð er tilvalin fyrir eldri félaga sem vilja endurupplifa góðar minningar, sem og nýja félaga á virðulegum aldri sem langar að kynnast fagurri náttúru undir leiðsögn kunnugra.
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir, Sverrir Andresson og Steinar Frímannsson.
Austurdalur í Skagafirði er einstaklega gróðursæll og fagur. Þar vex skógur í hvað mestri hæð yfir sjávarmáli á Íslandi. Allnokkur byggð var í dalnum á árum áður en við andlát Helga Jónssonar bónda á Merkigili hvarf á braut síðasta sóknarbarn Ábæjarsóknar.
Fararstjóri er Skagfirðingurinn Gísli Rúnar Konráðsson.
Hraðferð um Laugaveginn er tilvalin fyrir þá sem eru í þokkalegu gönguformi og vilja fara þessa fjölförnu leið á þeim tíma þegar fáir eru á ferli.
Skráðu þig og fáðu vikuleg fréttabréf um það sem er á döfinni hjá félaginu.
Skráning á póstlista
Ferðaáætlun Útivistar 2023 er komin út. Kynningarblað fyrir áætlunina verður fljótlega sent félagsmönnum ásamt dreifingu í ýmsa vel valda staði en ferðir í áætluninni er hægt að skoða með lýsingum hér á vefnum. Jafnframt er hægt að sækja pdf útgáfu af blaðinu eða fletta því rafrænt.