Beint í leiðarkerfi vefsins.
Ferðafélagið Útivist stendur fyrir fjölbreyttum ferðum árið um kring. Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.
Útivist býður upp á dagsferðir, helgarferðir, sumarleyfisferðir og kvöldfgöngur með Útivistargírnum. Einnig býður jeppadeildin upp á margar mismunandi ferðir jafnt sumar sem vetur. Allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi allt frá léttum gönguferðum upp í erfiðar fjallaferðir að sumri og vetri fyrir vel þjálfað fólk.
Helgarferðir eru eins og nafnið gefur til kynna ferðir sem taka heila helgi. Göngur yfir Fimmvörðuháls eru klassískar helgarferðir en einnig hafa margar aðrar ferðir hjá Útivist fest sig svo rækilega í sessi að þær eru fastur liður á ferðaáætluninni.
Lengri ferðir eru göngur þar sem gengið er í þrjá daga eða meira. Í þessari dagskrá má finna bæði þekktar gönguleiðir eins og Strútsstíg og Sveinstind-Skælinga, en einnig eru þarna nokkrar spennandi nýjungar.
Kaffi- og myndanefnd voru settar á stofn fljótlega eftir stofnun Útivistar. Markmið þeirra er að halda myndakvöld þar sem félagsmenn koma saman til að skoða myndir og hlýða á ferðasögur frá ferðum sem Útivist hefur staðið fyrir. Auk þess eru kynntar ferðir á nýjum slóðum. Oft eru fengnir utanaðkomandi aðilar til að kynna áhugaverð svæði.
Glæsilegar kaffiveitingar eru eitt aðalsmerki myndakvöldanna. Félagslegi þátturinn er stór. Útivistarfélagar hittast, rifja upp góðar stundir og gæða sér á kræsingum af kökuhlaðborðinu.
Myndakvöld eru haldin fimm sinnum yfir vetrarmánuðina og njóta mikilla vinsælda. Allur ágóði af myndakvöldunum er nýttur til að efla félagið. Lengst af var hann settur í uppbyggingu aðstöðu félagsins í Básum á Goðalandi. Nú síðustu ár hefur ágóðanum verið varið í kaup og uppsetningu útsýnisskífu á Réttarfelli og glæsileg fræðsluskilti í Básum.
Öll herlegheitin kosta aðeins 1.500 kr. Gestir eru vinsamlegast beðnir að hafa handbært reiðufé því ekki er hægt að taka við greiðslukortum.
Hjólaræktin hefur starfað í allnokkur ár, en sífellt fleiri uppgötva hvað reiðhjólið er frábært til ferðalaga. Fastir liðir eru hjólatúrar á höfuðborgarsvæðinu á laugardögum yfir vetrartímann en þegar kemur fram á sumar er stefnan gjarnan tekin á lengri túra.
Fjallfarar Útivistar er samhentur hópur sem gengur saman 20 skipulagðar göngur frá ágúst 2019 fram í júní 2020. Að jafnaði er ein kvöldganga í mánuði og ein dagsferð með undantekningum þó en dagskránni lýkur með trússaðri helgarferð . Í kvöldgöngum og einstaka dagsferðum sameinast hópurinn í bíla en í öðrum ferðum verður ferðast í rútu. Allajafna er brottför í kvöldgöngur kl. 18:00 á miðvikudegi og helgarferð kl. 8:00 á laugardegi.
Fjallfarar henta þeim sem þegar hafa tekið sín fyrstu skref í fjallgöngum og útivist og vilja ferðast drjúgar dagleiðir og skemmtilegar kvöldgöngur í góðra vina hópi. Byrjendum og skemur komnum bendum við á Útivistarlífið Rík áhersla verður lögð á liðsheild og félagsanda.
Fararstjórar Fjallfara eru Björgólfur Thorsteinsson, Guðrún Svava Viðarsdóttir, Jóhanna Fríða Dalkvist og Guðmundur Örn Sverrisson.
Í jeppaferðum koma þátttakendur á eigin jeppum. Ferðast er í hóp undir leiðsögn fararstjóra sem hefur góða reynslu af þessari tegund ferðamennsku. Bæði er um að ræða vetrarferðir þar sem gerðar eru tilteknar kröfur um búnað jeppanna, svo og sumar- og haustferðir sem henta lítið breyttum eða óbreyttum jeppum.
Stakkar og skór er nýr, lokaður gönguhópur hjá Útivist fyrir þau sem vilja fara hærra og lengra en aðrir hópar innan Útivistar. Nafn hópsins vísar í að hér er á ferðinni fólk með reynslu og þekkingu. Hópurinn veit hvernig á að klæðast við ólíkar aðstæður og vanmetur ekki gildi þess að ferðast með góðan búnað og fer lengra og hærra en aðrir hópar innan Útivistar. Þú þarft því að vera í þokkalegu gönguformi og kunna að útbúa þig fyrir lengri sem styttri göngur sumar sem vetur. Hópurinn hentar því þeim sem eru fjallavanir og vilja leita á nýjar slóðir með samheldnum, glöðum og hressum hópi fólks.
Dagskrá hópsins samanstendur af þrenns konar göngum; kvöldgöngum, laugardagsgöngum og svo helgarferðum:
Þriðjudagsgöngur: Fyrstu þrjá mánuði ársins göngum við á þriðjudagskvöldum á fjöll og fell í nágrenni höfuðborgarsvæðisins. Gönguferðum hópsins verður síðan fram haldið að hausti þ.e. í september, október og nóvember. Samtals 24 þriðjudagsgöngur.Fyrsti þriðjudagur í vetur er 7.1.2020 og fyrsti þriðjudagur að hausti er 8.9.2020.
Laugardagsgöngur: Laugardagsgöngurnar verða níu talsins þ.e. frá janúar fram í desember en frí frá þeim í júní, júlí og ágúst. Lagt er upp með að leggja af stað ekki seinna en kl. 8:00 og verður þá sameinast í bíla og ráðgert að koma aftur í bæinn síðdegis.
Helgarferðir: Tvær helgarferðir eru á dagskránni sem þátttakendum býðst að fara í og verða þær í júní og ágúst.
Þátttaka í öðrum gönguferðum: Farnar verða nokkrar ferðir með öðrum hópum hjá Útivist, m.a. afmælisferð Útivistar í mars og á Eyjafjallajökul í vor.
Í kvöldgöngum hittist fólk á fyrirfram ákveðnum stað. Upplýsingar um það koma í tölvupósti og í sameiginlegum hóp á facebook. Í dagsgöngum er sameinast í bíla á leið úr bænum. Farþegar deila aksturskostnaði með bílstjóra.
Þátttökufjöldi er takmarkaður svo það er um að gera að skrá sig strax! Sum stéttarfélög greiða niður þátttökugjöld og önnur selja gjafabréf frá Útivist svo við hvetjum alla til þess að kanna hvað er í boði hjá sínu félagi.
Skráningargjald: Skráningargjald í hópinn er 59.990 kr. ef bókað er fyrir 15. des. 2019 en 65.000 kr. eftir og innifalið í því eru kvöld- og laugardagsgöngur. Greitt er aukalega fyrir helgarferðir. Gert ráð fyrir að þátttakendur fari á einkabílum að upphafsstað göngu nema í ferðina á Fimmvörðuháls.
Kæri lesandi, Ef þig langar að slást í för með þessum stórskemmtilega hópi hafðu endilega samband við Útivist. Einnig er hægt að hafa samband við einn af fararstjórunum hér að neðan, en þær munu svara öllum spurningum með glöðu geði.
Fararstjórar eru Hrönn Baldursdóttir, Kristjana Ósk Birgisdóttir, Eydís Sigurðardóttir og Hanna Kristín Másdóttir.
Við hlökkum til að heyra í þér og vonandi fáum við að sjá þig eftir áramótin. Gerum þetta að frábæru gönguári!
Útivistarlífið er ný, spennandi og fjölbreytt þriggja mánaða dagskrá fyrir byrjendur og lengra komna í útivist. Þátttakendum gefst kostur á að prufa ýmsar greinar útivistar og erfiðleikastig miðast við byrjendur, 1-2 skór, léttar og miðlungs erfiðar ferðir sem flestir geta tekið þátt hafi þeir réttan útbúnað og líkamlega getu til þess.
Fjölbreytni ferða og samheldni hópsins verður í fyrirrúmi í Útivistarlífinu sem er kjörin dagskrá fyrir fólk sem vill njóta náttúrunnar í góðum hópi og prufa eitthvað nýtt í bland við klassískar Útivistarferðir.
Dagskrá Útivistarlífsins hefst í aftur í febrúar en við bendum áhugasömum á að taka þátt í Nýársþreki Útivistar í janúar og halda svo áfram í Útivistarlífinu. Opnað verður fyrir skráningu þann 17. október klukkan 9:00.
Fararstjórar Útivistarlífsins eru Auður Jóhannsdóttir, Hanna Guðmundsdóttir, Hrönn Baldursdóttir, Jóhanna Fríða Dalkvist, Kristjana Kristjánsdóttir, Ragnheiður Ýr Grétarsdóttir, Sverrir Árnason og Guðmundur Örn Sverrisson.
Tökum nýárið með trompi í þéttri útivistardagskrá þar sem blandað er saman þrekæfingum, dagsferðum og kvöldgöngum svo úr verður sannkölluð hreyfi- og útivistarveisla!
Nýársþrek Útivistar hentar bæði byrjendum og lengra komnum en þrekæfingar eru skalanlegar og þannig geta þátttakendur með mismikið þol tekið þátt í sömu æfingunum. Hér er frábært tækifæri til að rífa sig í gang eftir hátíðirnar, losa sig við jólalögin og njóta bæði samveru og útiveru í góðum hópi fólks.
Athugið að þátttökufjöldi er takmarkaður.
Fararstjórar Nýársþreks Útivistar 2020 eru Hanna Guðmundsdóttir, Kristjana Kristjánsdóttir og Guðmundur Örn Sverrisson.
Ferðaáætlun Útivistar 2019 er komin á vefinn. Kynningarblað liggur frammi á skrifstofu Útivistar en jafnframt er hægt að feltta því í vefútgáfu.