Vísur úr Jónsmessuferð

23. júní 2015

Sú skemmtilega menning sem fellst í að yrkja tækifærisvísur í ferðum Útivistar lifir enn.  Helgi R. Einarsson tók þátt í Jónsmessuferð Útivistar 2015 og sendi hann okkur þessar skemmtilegu vísur úr ferðinni. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir að deila þessu með okkur.

Vísur sem urðu til í ferð um Goðaland með Útivist á Jónsmessu 2015

Fimmvörðuhálsinn ófær er,
allt á kafi í snjó,
um Goðalandið frekar fer
af fegurð þar er nóg.

Ég yfir fjöllin arkaði
og æ er þvarr minn kraftur
spúsan í mig sparkaði
þá sprækur varð ég aftur.

Limra

Um gildrög og upp um ásana
við æddum og nutum krásanna.
Hver einasti kjaftur
komst síðan aftur
brosandi‘ og alsæll í Básana.

Við varðeldinn

Syngjum dátt við bál í Básum,
býsna sátt við ylinn hér,
stjórnast láttu´ af lífsins krásum
loks svo háttaðu hjá mér.

Rómantíkin ríkir hér,
rauðu sprekin braka.
Nú er lag að leika sér
og leggja drög að maka.

Er rjómalöguð rómantík
með rembingskossi hann valdi
hann vaknaði upp í engri flík
í ókunnugu tjaldi.

Útivistin eflir mann,
eykur lífsins gæði.
Mörkinni því margur ann,
meiriháttar svæði.

Ort í Þórsmörk 20. júní 2015, Helgi R. Einarsson