Ályktun stjórnar Ferðafélagsins Útivistar um bann við göngum á Kirkjufell

14. nóvember 2022

Ályktun stjórnar Ferðafélagsins Útivistar um bann við göngum á Kirkjufell

 

Nú nýverið tóku eigendur lands við Kirkjufell hjá Grundarfirði ákvörðun um að banna gönguferðir á fjallið í vetur eða allt þar til varptíma lýkur næsta vor. Þetta er gert í ljósi mikillar slysahættu á fjallinu og þeirra dauðaslysa sem þar hafa orðið á síðustu árum.

Áhyggjur af slysahættu á fjallinu eru skiljanlegar. Vaxandi umferð af óvönum og illa búnum göngumönnum hefur haft hörmulegar afleiðingar á undanförnum árum eins og fram kemur í tilkynningu landeiganda. Jafnframt hafa björgunaraðilar þurft að setja sig í mjög erfiðar aðstæður í kjölfar þessara slysa. Fram hjá þessu verður ekki litið og því skiljanlegt að nærsamfélag Kirkjufells hafi talið nauðsynlegt að grípa til einhverra aðgerða.

Engu að síður telur stjórn Útivistar rétt að minna á almannaréttinn sem fjallað er um í IV kafla náttúruverndarlaga. Bann landeiganda við göngu á fjallið er ekki í samræmi við lög um almannarétt. Jafnframt bendir stjórnin á að ekki er hægt að setja undir sama hatt gönguferðir óvanra illa búna göngumanna, sem ekki þekkja aðstæður, og ferðir skipulagða hópa sem sem búa að mikilli þekkingu til að tryggja öryggi og meta aðstæður. Ferðafélagið Útivist hefur staðið fyrir ferðum á Kirkjufell og þá ávallt staðið þannig að málum að öryggi sé tryggt sem best. Stjórn Útivistar ítrekar skilning sinn á þeim aðgerðum sem landeigendur hafa gripið til í ljósi sérstakra aðstæðna, en telur að sama skapi ekki ástæða til að takmarka aðgengi velbúinna og þjálfaðra gönguhópa og áréttar að það er ekki hlutverk landeiganda að meta hættu á gönguleiðum í náttúrunni, né heldur að þeir beri ábyrgð á öryggi göngufólks.  

Í þessu ljós telur stjórn Útivistar mikilvægt að tíminn framundan verði nýttur til að finna aðrar og heppilegri leiðir til að draga úr slysum og dauðsföllum á Kirkjufelli, m.a með uppsetningu upplýsingaskilta um þær hættur sem kunna að leynast á fjölsóttum stöðum.

 

Gylfi Arnbjörnsson,
formaður stjórnar Ferðafélagsins Útivistar