Fjallhress göngumaður

12. apríl 2012

Everest-hópurinn er ætlaður fólki sem er í þokkalega góðu formi og vill takast á við snarpa áreynslu í lokuðum hópi undir leiðsögn reyndra fararstjóra. Þátttakendur greiða hóflegt þáttökugjald og síðan sanngjarnt verð fyrir hverja ferð sem farið er í. Ekið er á eigin bílum en mælst til að fólk safnist saman í bíla til að lágmarka ferðakostnað. Allan búnað fyrir ferðirnar þurfa þátttakendur að sjá um sjálfir en hægt er að fá leigðan jöklabúnað frá Útivist.

Helgi Valdimarsson, göngugarpur, kom ásamt eiginkonu sinni, Jónu Ólafsdóttur, nýr inn í Everest-hópinn á síðasta ári og Útivist hafði samband við hann og fékk að forvitnast um reynslu hans af ferðum hópsins.

„Okkur líkaði þetta mjög vel og þar af leiðandi ákváðum við að halda áfram í gönguhópnum. Eftir síðustu áramót var bætt við miðvikudagsgöngum og þær eru kærkomin viðbót við hópastarfið frá því í fyrra þegar einungis var farið á eitt fjall í mánuði á laugardögum,“ segir Helgi Valdimarsson.

Höfðuð þið stundað fjallgöngur áður en þið genguð í Everest-hópinn?

„Já, við höfðum gengið talsvert á fjöll og stutt okkur við bók Ara Trausta og Péturs Þorleifssonar, „Íslensk fjöll: Gönguleiðir á 151 tind“. Í Everest-hópnum stóð okkur til boða að fara á fjöll sem við höfðum ekki farið á áður og við nýttum þá tækifærið til að sigra þá tinda.“

Hvaða ferðir voru skemmtilegastar á síðasta ári?

„Við fórum t.d. á Hrútfell á Kili, sem var mjög skemmtileg ferð. Síðan má nefna aðra skemmtilega ferð á Loðmund í Kerlingarfjöllum. Og það mætti svo sem nefna fleiri,“ segir Helgi.

Aðspurður um hversu margir hafi farið í hverja ferð svarar hann að um 20-25 manns hafi mætt að meðaltali. „Það myndaðist ákveðinn kjarni í hópnum sem var duglegur að mæta. Og ferðirnar hafa fram að þessu einkennst af góðri stemmingu og góðum fararstjórum sem standa sig allir með prýði.“

Hvaða göngur eru á næstunni?

„Framundan eru ferðir á Þórisjökul og Eiríksjökul, og ég er mjög spenntur fyrir þeim. Síðan er stefnan sett á Herðubreið eða Arnarfellið í Hofsjökli, en það fer eftir veðri í júlí, en ég veit að  margir eru spenntir fyrir því að fara á Herðubreið.

Hafa ferðirnar bætt gönguformið?

„Já, tvímælalaust, og þá sérstaklega miðvikudagsferðirnar því þær hafa bætt þrekið í hópnum öllum og þar á meðal hjá okkur hjónum,“ segir Helgi að lokum.