Frábær ferð frá upphafi til enda

11. júlí 2012
Rögnurnar á Sveinstindi
Vinkonurnar Ragna Þórhallsdóttir og Ragna Briem fóru sumarið 2011 í fjögurra daga sumarleyfisferð Útivistar um gönguleiðina Sveinstind - Skælingar. Að þeirra sögn var ferðin frábær frá upphafi til enda þar sem gengið var eftir stórkostlegri gönguleið sem liggur niður með Skaftá um fáfarnar slóðir, söndugar og mosavaxnar.

„Við fórum að tala saman um að hvorug okkar hefði gengið þessa leið þrátt fyrir að hafa báðum langað í ferðina. Því ákváðum við að fara saman tvær vinkonurnar og sáum svo sannarlega ekki eftir því,“ segir Ragna Þórhallsdóttir, aðspurð um hvernig það kom til að þær fóru í ferðina.

„Við byrjuðum að ganga á Sveinstind, en þar er ægifagurt útsýni, eitt það fegursta á landinu og í heiminum held ég, sagði Ragna Briem.

Fararstjórinn í ferðinni var Hörður Hilmarsson og segja þær hann hafa staðið sig með prýði. 

„Daginn eftir þurftum við að vaða nokkuð djúpa á og fara upp brattar skriður til að komast hjá að vaða leirugan og ljótan ál úr Skaftá. Það var nokkuð óvænt og úr leið en Skaftáin hafði færst til og við það breyttist leiðin. En fararstjórinn stýrði þessu prýðilega og allt gekk vel bætir Ragna Briem við. Síðan gengum við um Hvanngil og Uxatinda og á þriðja degi upp Gjátind og meðfram börmum Eldgjár og að hinum magnaða Ófærufossi. Við fengum gott veður nánast alla leiðina, nema að það rigndi og svo var þoka hluta úr degi á öðrum degi, sem gerði ferðina bara ennþá eftirminnilegri,“ segir Ragna Briem.

godir_ferdafelagar_a_gjadtindi.jpg

Þær segja sjö göngugarpa hafa verið í ferðinni og þar á meðal var maður frá Oregon í Bandaríkjunum. „Hann hafði aldrei upplifað svona fallega og óspillta náttúru og víðerni,“ segja þær nánast í kór.

„Það sem stóð upp úr á þessu svæði, og ég er nú búin að ganga mikið, voru litbrigði jarðarinnar, þessi sterku litir á mosanum og andstæðurnar við fjöllin. Þetta heillaði mig alveg ótrúlega og var mjög ólíkt því sem ég hef séð á stöðum eins og Hornströndum eða á Tröllaskaga. Þetta var eitthvað allt annað. Svo fengum við bónus á heimleiðinni þegar við fórum Fjallabak. Veðrið var svo ótrúlega gott,“ bætir Ragna Þórhallsdóttir við.

litbrigdi_jardar.jpg

„Á kvöldin voru síðan sagðar sögur og spjallað og kastað fram vísum og farið í kvöldgöngur. Hún Ragna Briem vinkona mín er ansi dugleg að kasta fram vísum og hér er ein sem hún fór með í ferðinni:

Skaftáin er skelfileg. 
Skal ei hana vaða. 
Upp á Gjátind ætla ég 
á ógnarmiklum hraða.

Það gerðist hér uppi við Gjátind 
sem gjarnan má flokk‘ undir smásynd 
að þar kom einn svanni 
með sínum manni 
og leysti úr læðingi smávind.


„Við vorum ánægðar með skipulagninguna á ferðinni. Fólk hristist vel saman í svona hóp og þetta var orðinn mjög samstilltur hópur í lokin„ segir Ragna Briem.


Höfðuð þið stundað fjallgöngur áður en þið fóruð að ganga með Útivist?

„Já, við erum báðar með mikla reynslu af fjallaferðum og eigum satt að segja fáa staði eftir. Við erum búnar að stunda fjallgöngur í áratugi og ætlum að halda áfram í sumar með því að fara m.a. frá Hólaskjóli og ganga Strútsstíginn, en sú gönguleið er framhald af leiðinni frá því síðasta sumar,“ segir Ragna Þórhallsdóttir.

Aðspurðar um hvernig þær halda sér í gönguformi á veturna segjast þær vera duglegar að ganga og synda. „Ég geng einu sinni í viku á eitthvað fjall og svo syndum við á hverjum morgni. Síðast gekk ég á þriðjudaginn á Úlfarsfellið og þar á undan á Esjuna og Vífilsfellið,“ segir Ragna Þórhallsdóttir.


Ætlið þið í aðrar gönguferðir í sumar?

„Já það er í bígerð hjá mér að fara í Svarfaðardalinn, í góða ferð þar, og það er með gönguhóp sem ég hef tilheyrt í um 20 ár. Sá hópur gengur stundum með Útivist en í þetta sinn ætlum við að ganga á eigin vegum.“

langisjor.jpg