Gönguferðaleikur - nokkrar dagsferðir

Selfjall - Heiðarból

Útivist hefur í samstarfi við Skógræktarfélag Kópavogs hafið uppgræðslu við Heiðarból innan við Selfjall. Því er tilvalið að ganga yfir Selfjallið og líta augum þennan framtíðar sælureit Útivistarfélaga. Ekið eftir Suðurlandsvegi þar til komið er upp svokallaða Lögbergsbrekku þar sem beygt er til hægri í átt að Waldorfsskólanum. Gangan hefst við bílastæði rétt ofan við Waldorfskólann í Lækjarbotnum. Gengið er upp á hrygg sunnan skólans og hann þræddur upp á efstu bungu Selfjalls. Þar má sjá steyptan stöpul sem líklega hefur verið fyrir útsýnisskífu sem tilvalið væri að endurnýja. Áfram liggur leiðin til vesturs, niður hlíðar Selfjalls. Þegar komið er niður á vegslóða vestan fjallsins er honum fylgt þar til komið er að rústum gamla skálans, Heiðarbóls. Ekkert er eftir nema grunnur skálans en þarna hafa Útivistarfélagar þegar gróðursett nokkra trjágræðlinga. Á bakaleið er haldið beint yfir fjallið og komið í Lækjarbotna nokkuð vestan við Waldorfskólann. Vegalengd 3,6 km og göngutími 1 - 1,5 klst. Athugið að ekki er skýr gönguslóð á þessari leið, þó svo að á köflum megi finna sæmilega skýran troðning.

Vífilsfell

Vífilsfellið er 655 m hátt og býður upp á klassíska fjallgöngu. Hefðbundin leið er liggur upp að norðaustan og er gengið frá námunum. Eftir stutta göngu að fjallinu tekur við brekka upp á sléttan stallinn. Því næst tekur við fjölbreytileg ganga að klettóttum toppnum. Frá toppinum fæst skemmtilegt útsýni að höfuðborginni í næsta nágrenni fjallsins. Vegalengd 5,5 km og göngutími 2,5-3 klst.

Helgafell í Mosfellsbæ

Létt og stikuð gönguleið liggur upp á Helgafell í Mosfellsbæ. Ekið er í gegnum Mosfellsbæ og inn Þingvallaveg skamman spöl þar til komið er að bílastæði þar sem heitir Ásar. Göngustígurinn liggur á ská upp fjallið og eins og öll leiðin er hann merktur með appelsínugulum stikum. Þegar upp er komið er um 3–400 m gangur að hæsta punkti fjallsins. Rétt er að benda á að besta útsýnið er frá suðurbrún fjallsins. Eftir að upp er komið er hægt að halda sömu leið til baka eða fara niður fjallið að sunnanverðu og þar hring í kringum það til austurs. Hækkun 120 metrar. Sé farinn hringurinn er heildarvegalengd um 6 km.

Grímannsfell

Ekið inn Mosfellsdal, upp að afleggjara að eyðibýlinu Bringum um 3 km ofan við Gljúfrastein og beygt þar til hægri. Vegurinn ekinn til enda þar sem sjá má tóftir eyðibýlisins en þar var búið fram á sjöunda áratug síðustu aldar. Eftir stutta göngu er komið að Helgufossi í Köldukvísl en farið er yfir ánna á göngubrú. Aðra læki á leiðinni ætti að vera hægt að stikla. Þá er haldið á brattann en gangan upp er þokkalega jöfn og þétt og ekki mjög brött, hæfir því öllum göngumönnum í sæmilegu formi. Efst er komið á Stórhól sem er í 484 m.y.s. Vegalengd fram og til baka er um 5,5 km og göngutími áætlaður 2,5 klst. Þeir sem vilja ganga lengri leið geta farið niður fjallið til vesturs niður í Helgadal og gengið eftir vegi að Gljúfrasteini og þaðan meðfram hlíð fjallsins að Helgufossi. Heildarvegalengd verður þá um 13 km.

Búrfellsgjá og Búrfell

Gönguleiðin úr Heiðmörk í Búrfellsgjá er ein af þeim fallegri í nágrenni borgarinnar og ber glögg merki jarðsögunnar. Ekið meðfram Vífilsstaðahlíð í átt að Hjöllum. Rétt áður en þangað er komið, stuttu eftir að malbiki sleppir, er brött beygja á veginum. Þar á hægri hönd er varða og örfáum metrum síðar er bílastæði á vinstri hönd. Gengið er eftir nokkuð skýrum stíg. Ganga við allra hæfi, hækkun óveruleg, vegalengd 5-6 km.

Keilir

Fyrsta ferð Útivistar eftir stofnun var á Keili og allar götur síðan hefur félagið verið með göngu á Keili í kringum afmæli félagsins. Sú ganga féll þó niður í ár vegna sóttvarnaráðstafana. Því er upplagt fyrir Útivistarfélaga að skella sér á fjallið á eigin vegum. Vegalengd 8-10 km. Hækkun 200 m. Göngutími 4 klst.

Mosfell

Ekið eftir Vesturlandsvegi og inn í Mosfellsdal. Gangan hefst við kirkjuna á Mosfelli og er gengið upp með gili þar sem talið er að Egill hafi forðum falið gull sitt. Áfram er haldið upp á hæsta punkt fjallsins og gengið með brúnum þess til baka. Vegalengd 4-5 km. Hækkun 150 m.

Gálgahraun og Gálgaklettar

Í Garðabæ er skemmtileg gönguleið um Gálgahraun sem kallast Fógetastígur. Lagt er af stað frá bílastæðinu við hringtorgið þar sem Vífilstaðavegur og Hraunholtsbraut mætast. Gangan liggur í hring og er fyrst gengið með ströndinni og að Gálgaklettum. Þegar komið er að Lambhúsatjörn sveigir stígurinn til suðurs og síðan er gengið í átt að upphafsstað. Vegalengd um 5 km.

Bessastaðatjörn

Gangan hefst við óformlegt bílastæði við Kasthúsatjörn. Ekið er eftir Norðurnesvegi til að komast þangað. Þaðan er gengið í norðaustur eftir malarstíg. Farið framhjá húsagötu og er þá komið á malarveg sem er fylgt meðfram Seylunni. Bessastaðatjörn er þá á hægri hönd og sjórinn á þá vinstri. Stígum fylgt umhverfis tjörnina og yfir á Bessastaðanes. Bessastaðavegi er svo að lokum fylgt að hringtorginu og gengið eftir malarstígnum að Kasthúsatjörn. Létt og skemmtileg ganga.

Reykjafell í Mosfellsbæ

Ekið eftir Vesturlandsvegi og beygt til hægri á hringtorginu í Mosfellsbæ inn Reykjaveginn. Stuttu eftir að farið framhjá Hafravatnsafleggjara er beygt til vinstri inn Bjargsveg. Gangan hefst við hestagerði sem er við veginn. Farið á Reykjafell og Æsustaðafjall. Komið niður í Skammaskarð og út Skammadal. Gott er að þar bíði bílar. Vegalengd 6-7 km. Hækkun 250 m. Einnig er hægt að ganga á Reykjafell beint upp frá Reykjalundi. Leiðin þar fram og til baka er rúmir 4 km.

Húsfell

Ekið í gegnum Hafnarfjörð og í átt að Kaldárseli. Gangan hefst skömmu áður en að Kaldárseli er komið. Húsfell er ofan Hafnarfjarðar, norðaustan við Helgafell. Leiðin liggur eftir alldjúpu misgengissvæði sem haft er á hægri hönd uns komið er að hlaðinni steinbrú. Staldrað við í Valabóli sem er aðsetur Farfugla. Gengið suðvestan megin á fjallið. Á leið til baka verður gengið um skarðið milli Valahnúka og Helgafells að Kaldárseli. Vegalengd 9 km. Hækkun 200 m.

Eldborg - Drottning - Stóra-Kóngsfell

Gengið er frá litlu bílastæði sem er staðsett rétt fyrir neðan Eldborg á hægri hönd á Bláfjallavegi. Vel merktur stígur er upp á Eldborgina og er gengið að hluta til ofan á henni. Þegar niður er komið er gengið á milli Eldborgarinnar og Drottningar. Gengið er vestan megin upp á Drottningu og sömu leið til baka. Þegar komið er niður er þokkalega stikaður stígur í átt að Stóra-Kóngsfelli. Uppgangan þar hefst að norðanverðu en komið er upp á topp að sunnanverðu. Best er að ganga sömuleið til baka. Hækkun um 600 m, gönguvegalengd um 8 km.

Akrafjall

Ekið sem leið liggur í átt að Akranesi en farið til hægri rétt áður en komið er niður á Akranes. Beygt aftur til hægri við skilti sem á stendur Akrafjall. Gengið upp norðanmegin Berjadals og farið þar með brúnum. Hægt er að fara hring á fjallinu og niður aftur sunnan Berjadals. Hækkun er um 500 m og áætlaður göngutími er 5-6 klst.