Gamlar þjóðleiðir

Áhugavert er að ganga leiðir sem fólk fór fyrrum á milli sveita og landshluta. Þær eru oft fjarri núverandi alfaraleiðum. Farnar voru þær leiðir sem stystar voru á milli staða og oft voru þær um fjallvegi og sumar ekki hættulausar. Nú eru akvegir hins vegar lagðir með það fyrir augum að þeir þjóni sem flestum og einnig er krækt fyrir fjöll fremur en fara yfir þau. Í raðgöngunni um gamlar þjóðleiðir verður reynt að ganga þjóðleiðir og tengja þær þannig að úr verði samfelld ganga.

 

Gangan byrjar í Djúpadal við jaðar Mosfellsheiðar, þar sem lagt var upp hvort heldur sem var á leið vestur eða á Suðurland. Upp í Hvalfjörð var gjarnan farið um Seljadalsbrúnir, yfir að Hrafnhólum og áfram um Kjósarskarð og þaðan niður að Fossá. Stundum voru menn ferjaðir yfir Hvalfjörð ef leiðin lá í Andakíl eða vestur á Mýrar. Að öðrum kosti var næsti fjallvegur Síldarmannagötur úr Hvalfirði í Skorradal.