Ferðaáætlun Útivistar 2026 er fjölbreytt og skemmtileg. Hægt er að skoða ferðirnar og bóka hér á ferðahluta heimasíðunnar.
Í dagsferðum má nefna spennandi raðgöngu um Kóngsveg sem verður í átta áföngum frá janúar til september. Félögum býðst einnig að fara í allar ferðirnar á góðu verði og komast í hóp sem ætlar sér það sama. Einnig má nefna Kynslóðagöngur Útivistar þar sem kynslóðirnar hittast í skemmtilegum ókeypis ferðum, ásamt vinagöngum þar sem félagar í Útivist geta tekið með sér gest að kostnaðarlausu. Jöklaferðir eru á sínum stað auk klassískra ganga um Leggjarbrjót og skemmtileg fjöll.
Helgarferðir eru af öllu tagi, Hellismannaleið er tekin í tveimur helgaráföngum í sumar, tvær ferðir eru í Tindfjöll, skíðaferð og sumarferð, Fimmvörðuhálsferðir og Grænahryggsferð er á sínum stað auk klassiskra ferða í Bása um Jónsmessu auk Aðventu- og Áramótaferða svo eitthvað sé nefnt.
Langferðirnar eru fjölbreyttar, það eru nokkrar ferðir um Sveinstind Skælinga auk Strútsstígs, tvær ferðir í langgöngunum Horn í Horn, Laugavegsferð og bækistöðvaferð í Tindfjöll sem endar í Hungurfitum. 60-plús ferðirnar eru á sínum stað. Af öðrum spennandi ferðum má nefna afar áhugaverða göngu um Gerpissvæðið með öllu inniföldu, Bækistöðvaferð í Reykjarfjörð og göngu frá Reykjarfirði í Ingólfsfjörð í framhaldinu, Vatnaleiðin verður gengin, við endurtökum vinsæla ferð í kringum Kerlingarfjöll og förum í tvær metnaðarfullar bakpokaferðir, Halldórsgil – Básar og ferð í kringum Langasjó.
Jeppaferðir Útivistar eru aldrei vinsælli og dagskráin full af spennandi ferðum fyrir allar gerðir jeppa. Í haust ætlum við til dæmis að sjá hvort ekki verði opið í gegnum Vonarskarð auk Bárðargötu. Sjón er sögu ríkari, kíkið á dagskrána.