Ferðaáætlun 2026

09. desember 2025

Ferðaáætlun Útivistar 2026 er fjölbreytt og skemmtileg. Hægt er að skoða ferðirnar og bóka hér á ferðahluta heimasíðunnar. Einnig má skoða yfirlit yfir ferðirnar á PDF formi hér

Það er fjölbreytt úrval dagsferða hjá Útivist árið 2026 og eitthvað við allra hæfi. Við viljum sérstaklega nefna raðgöngurnar um Kóngsveg sem verða átta, frá janúar fram í september. Bæði er hægt að skrá sig í allar ferðirnar sem og eina í einu. Einnig verðum við með ókeypis kynslóðagöngur þar sem áherslan er að eldri og yngri sameinist í skemmtilegum ferðum. Í vinaferðum geta félagar í Útivist tekið með sér vin að kostnaðarlausu. Jöklaferðir eru á sínum stað auk klassískra ganga um Leggjarbrjót og skemmtileg fjöll.

Helgarferðir Útivistar eru af öllu tagi, Hellismannaleið er tekin í tveimur helgaráföngum í sumar, tvær ferðir eru í Tindfjöll, skíðaferð og sumarferð, Fimmvörðuhálsferðir og Grænahryggsferð eru á sínum stað. Að sjálfsögðu verður haldið í Bása um Jónsmessu auk aðventu- og áramótaferða svo eitthvað sé nefnt.

Langferðirnar 2026 eru fjölbreyttar. Það eru nokkrar ferðir um Sveinstind Skælinga auk Strútsstígs, tvær ferðir í langgöngunum Horn í Horn, Laugavegsferð og bækistöðvaferð í Tindfjöll sem endar í Hungurfitum. Af öðrum spennandi ferðum má nefna afar áhugaverða göngu um Gerpissvæðið með öllu inniföldu, bækistöðvaferð í Reykjarfjörð og göngu frá Reykjarfirði í Ingólfsfjörð samhliða, Vatnaleiðin verður gengin, við endurtökum vinsæla ferð í kringum Kerlingarfjöll og förum í tvær metnaðarfullar gönguferðir: Hraðgönguna Halldórsgil – Básar og bakpokaferð í kringum Langasjó. 60+ ferðir verða í bæði Bása og Strút en þær ferðir hafa verið afar vinsælar. Og kynslóðirnar fara saman í fjölskyldugönguferð í Lóni.  

Jeppaferðir Útivistar hafa aldrei verið vinsælli og dagskráin er full af spennandi ferðum fyrir allar gerðir jeppa. Árið byrjar snemma, með jeppaferð í Bása og svo tekur hver ferðin við af annarri. Í haust ætlum við til dæmis að sjá hvort ekki verði opið í gegnum Vonarskarð auk hinnar vinsælu Bárðargötu. Vorferð á Vatnajökul verður í tveimur hópum sem hittast í Sigurðarskála. Nokkrar ferðir eru á Vatnajökul og sumarleyfisferðin er á sínum stað en nú er farið á Fjallabak.