Skyndihjálparnámskeið

27. apríl 2013

Útivist stendur með jöfnu millibili fyrir námskeiði í skyndihjálp fyrir fararstjóra félagsins þar sem farið er yfir grunnatriði í fyrstu hjálp ef slys eða veikindi verða hjá farþegum í ferðum félagsins. Ekki þarf að orðlengja hversu nauðsynlegt er að fararstjóri kunni skil á hvernig bregðast skuli við í slíkum aðstæðum og segja má að þetta sé einn af mikilvægustu þáttum í öryggisstefnu félagsins.  Námskeiðin eru sérstaklega sniðin að þörfum fararstjóra félagsins sem oft eru í þeim aðstæðum að leiða ferðir fjarri alfaraleiðum.

Námskeið ársins 2013 var haldið fyrri hluta apríl og voru leiðbeinendur þeir Fjallbræður Örvar og Ævar Aðalsteinssynir. Þeir hafa langa reynslu af fjallaferðum og þar með viðbrögðum við óvæntum uppákomum af ýmsu tagi, auk þess sem þeir hafa góða sérhæfða þekkingu á skyndihjálp.

Á námskeiðinu var farið yfir ýmsa þætti skyndihjálpar. Sem dæmi má nefna að kennt var að greina hugsanlega áverka eftir slys og helstu sjúkdóma sem hrjáð gætu ferðalangana, ásamt því hvernig bregðast á við viðkomandi atviki. Mikilvægt er að þekkja einkennin sem sjúklingur sýnir og var farið vel yfir það.  Þátttakendur voru látnir fara í gegnum ýmsar verklegar æfingar, t.d. búa um sár, greina sjúkdóma, búa um sjúkling á börum og flytja hann.

Þátttakendur voru mjög ánægðir með námskeiðið og höfðu á orði að það hefði verið afskaplega gagnlegt. Allir höfðu þeir setið skyndihjálparnámskeið áður en engu að síður er nauðsynlegt að rifja þetta reglulega upp til að vera ávallt viðbúinn.

Myndir frá námskeiðinu má sjá hér.