Bárðargata - FULLBÓKAÐ

Dags:

lau. 5. okt. 2024 - sun. 6. okt. 2024

Brottför:

Brottför kl. 09:00 frá Hrauneyjum

  • Skáli
Þessi viðburður er liðinn.

FULLBÓKAÐ sendið tölvupóst á utivist@utivist.is ef þið viljið fara á biðlista.

Hér er á ferðinni ein af skemmtilegri og fáfarnari jeppaleiðum landsins sem liggur um afar hrjóstrugt og stórbrotið landslag undir vestanverðum Vatnajökli, frá Svarthöfða við suðurenda Vonarskarðs til Jökulheima. Við tökumst á við brattar brekkur, óbrúaðar jökulár og þræðum þrönga og á stundum nær ósýnilega slóða með viðkomu í Hamarskrika þar sem stórbrotið útsýni bíður okkar ef veður og skyggni leyfir.

 

Á sunnudeginum bíður okkar svo ekki síður skemmtilegt ferðalag frá Jökulheimum yfir Tungnaá á Gnapavaði ef fært er, yfir á Breiðbak eða um Langasjó niður að Sveinstindi þar sem við höfum um nokkra valmöguleika að ræða; Skælinga um Blautuver, Faxasund eða Faxafit meðfram Tungnaá sem er einnig afar fáfarin og stórbrotin leið.

 

Leiðarlýsing - Laugardagur

Ferðin hefst að morgni laugardags í Hrauneyjum og haldið sem leið liggur inn á Sprengisandsleið að Hágöngulóni og Svarthöfða þar sem við nærum okkur. Fyrsta áin á leið okkar er Kaldakvísl sem alla jafna er ekki til vandræða ólíkt Sveðju sem er ólíkindatól, getur verið ófær eða jafnvel vatnslaus með öllu og allt þar á milli. Sylgja hefur heldur ekki verið til trafala undanfarin ár og oftar en ekki nánast þurr eða mjög vatnslítil. Mókollar og Hamarskriki er stórbrotið svæði sem skartar bröttum og skemmtilegum brekkum, hrikalegri jökulurð, lóni og stórbrotnu útsýni ef veður leyfir. Á leiðinni yfir í Sylgjufell hlykkjast slóðinn um Tröllahraun þar sem möguleiki er á að skoða stórbrotna gígaröð áður en haldið er áfram á milli Bláfjalla og Jökulgrinda í Jökulheima þar sem verður gist.

 

Leiðarlýsing - Sunnudagur

Á sunnudeginum stefnum við á að þvera Tungnaá á Gnapavaði og aka svo um Botnaver sem leið liggur á Breiðbak þar sem um tvær leiðir er að velja; Breiðbak sem getur skartað stórkostlegu útsýni yfir Langasjó eða að aka eftir og ofan í Langasjó norðanverðum niður að Sveinstindi. Þaðan er hægt að velja um þrjár leiðir, hverja annarri stórkostlegri; Skælinga um Blautuver, Faxasund eða Faxafit meðfram Tungnaá. Sama hvaða leið er valin frá Sveinstindi þá ökum við um gullfallegu Jökuldali og Kýlinga inn í Landmannalaugar þar sem ferðinni er formlega lokið og hver fer á sínum vegum.

Fararstjóri: Sveinn Sigurður Kjartansson

Verð 20.000 kr.

Nr.

2410J01