Kjalvegur hinn forni

Dags:

fim. 8. júl. 2021 - sun. 11. júl. 2021

Brottför:

kl. 8:00

  • Skáli / tjald

Kjalvegur hinn forni er um 41 km og liggur frá Hveravöllum að Hvítárnesi. Þessi gönguleið er ein af klassískum gönguleiðum á hálendinu og liggur um vestanverðan Kjöl nærri Langjökli um fallegt og fjölbreytt landslag.

Dagur 1: Hveravellir - Þjófadalir

Ekið að Hveravöllum. Þar gefst færi á að fara í laugina og borða hádegismat áður en ganga hefst á Kjalveg hinn forna. 

Fylgt er stikaðri og varðaðri leið til suðurs að hæsta punti Kjalhrauns, Strýtum sem er fallegur gígur. Þaðan liggur leiðin til vesturs í Þjófadali. Gist í tjöldum við skálann í tvær nætur. Vegalengd 12 km.

Dagur 2: Gengið á Rauðkoll 1075 m og í Jökulkróka

Gengið á Rauðkoll sem er rétt við skálann í Þjófadölum. Þar er gott útsýni yfir Kjöl og Langjökul.  Farið er niður af Rauðkolli suðvestan megin inn í Jökulkróka og inn að Langjökli. Þá er gengið meðfram Fögruhlíð að fossinum Lokk sem nýlega kom í ljós eftir að jökullinn fór að hopa. Einnig er farið inn að Hengilbjörgum áður en haldið er á ný í skála þar sem gist er aðra nótt. Æskilegt er að hafa með sér vaðskó þennan dag. Vegalengd 15 km, hækkun 400 m.

Dagur 3: Þjófadalir - Þverbrekknamúli

Haldið frá skála í suðvestur frá Þjófadölum á milli Þverfells og Þjófafells. Gengið er á milli varða í suðurjaðri Kjalhrauns með Fúlukvísl á hægri hönd. Hrútfell er sunnan kvíslarinnar en niður hlíðar þess má sjá skriðjökla frá Regnbúðajökli. Á þessum slóðum rennur kvíslin í þröngu gljúfri sem hún hefur grafið í hraunið. Göngubrú er á Fúlukvísl á móts við Múlana þar sem gljúfrið er þrengst. Farið er yfir brúna og síðan upp á Múlana til suðurs í skálann sunnan við Þverbrekknamúla. Gist í skála og/eða tjöldum. Vegalengd 14 km.

Dagur 4: Þverbrekknamúli - Hvítárnes

Gengið er í austur frá skálanum og yfir göngubrú á Fúlukvísl og síðan í suðvestur og ánni fylgt suður fyrir Hrefnubúðir. Gengið er um gróið land eftir djúpum hestagötum. Sunnan Baldheiðar má finna kristaltærar lindir. Vegalengd 15 km.

Göngu lokið og fólk sameinast í rútu sem ekur til Reykjavíkur

Aðbúnaður í skálum

Þjófadalir

Skálinn í Þjófadölum er lítið sæluhús reist sumarið 1939. 

Gengið er inn í anddyri sem hýsir eldhúsaðstöðuna og þaðan inn í lítinn svefnskála með kojum til sitt hvorrar handar. Fyrir ofan hálfan skálann er lítið svefnloft. Alls geta 11 manns sofið í skálanum. 

Ekkert rennandi vatn. Kamar stendur skammt frá.

Eldunaraðstaða, ekki skálavörður.

Góð aðstaða fyrir tjöld.

 

Þverbrekknamúli

Sæluhúsið í Þverbrekknamúla er hlýlegur skáli þar sem 20 manns geta sofið í 10 tvíbreiðum kojum. 

Gengið er inn í anddyri og þaðan inn í opið rými sem hýsir bæði svefnaðstöðu og eldhús. Langborð og stólar eru í miðju rýmisins. 

Í eldhúsinu er rennandi vatn sem pumpað er í vaskinn úr tanki við húsið, gashellur og ágætt úrval eldhúsáhalda. Salernishús er rétt hjá og vetrarkamar uppi í hlíðinni fyrir aftan skálann. 

Skálavörður.

Skálinn í Þverbrekknamúla var reistur árið 1980.

Aðstaða fyrir tjöld.

Nr.

2107L04
  • Miðhálendi