Tvær stórkostlegar og fallegar gönguleiðir teknar saman. Gengið um Hvanngil, Mælifellssand, Hólmsárbotna, upp með Skaftá og á Sveinstind. Á leiðinni verður slakað á í Strútslaug, heitri náttúrulegri laug. Á góðum degi er víðsýnt af Sveinstindi yfir einstakt landslag mótað af eldvirkni, jöklum og beljandi jökulám.
Trúss
Ferðirnar eru trússferðir. Farangur er fluttur á milli náttstaða, svo að þátttakendur þurfa aðeins að bera bakpoka með nesti og hlífðarfötum. Þótt ferðirnar séu trússferðir er gott að hafa í huga að trússbíllinn er ekki mjög stór. Því skal takmarka umfang þess farangurs sem tekinn er með. Ágætt er að taka ekki meira með en í hefðbundinni ferð þar sem gengið er með allan farangur. Ganga verður þannig frá öllum farangri að hann blotni ekki þó rigni á hann.
Dagur 1.
Vegalengd um 18 km, göngutími um 6 klst. Farið frá Hvanngili yfir Kaldaklofskvísl, þaðan yfir Mælifellssand hjá Slysaöldu og austur yfir Veðurháls með Mýrdalsjökul á hægri hönd. Gist er í Strútsskála.
Strútsskáli
Dagur 2.
Vegalengd um 20 km, göngutími um 7 klst. Frá Strútsskála er gengið að Strútslaug og um Hólmsárbotna. Áfram liggur leiðin undir hlíðum Svartahnúksfjalla og með Syðri-Ófæru að endurbyggðum gangnamannaskála við Álftavötn.
Álftavötn
Dagur 3.
Vegalengd um 25 km, göngutími um 9 klst. Frá Álftavötnum er haldið meðfram Syðri-Ófæru að Hólaskjóli og þaðan tekin stefnan á Eldgjá. Gengið að Ófærufossi og síðan upp á barm Eldgjár. Ef útsýni er gott er tilvalið að taka aukakrók upp á Gjátind. Þaðan er gengið niður í skála Útivistar á Skælingum.
Skælingar
Dagur 4.
Vegalengd um 20 km, göngutími um 7 klst. Gengið frá Skælingum með fjallinu Gretti, um Uxatinda og Hvanngil að skála Útivistar við Sveinstind þar sem gist er síðustu nóttina.
Skálinn við Sveinstind
Dagur 5.
Frá skálanum er gengið á fjallið Sveinstind og útsýnisins notið. Þaðan er gengið niður að veginum að Langasjó þar sem rútan tekur hópinn og flytur til byggða.