Blundar fararstjóri í þér?

03. febrúar 2016

Ferðafélagið Útivist er félagsskapur áhugafólks um ferðalög í Íslenskri náttúru. Það þýðir meðal annars að fararstjórar Útivistar eru fyrst og fremst áhugafólk sem tekur að sér fararstjórn í því skyni að njóta þess að ferðast í góðum, sjálfum sér og öðrum til ánægju. Hlutverk fararstjóra er þá að vera fremstur meðal jafningja, nota reynslu sína og þekkingu til þess að koma hópnum öruggustu leiðina á leiðarenda, vera tilbúinn til að bregðast við þeim viðfangsefnum sem upp kunna að koma og gera sitt til að ferðin verði sem ánægjulegust. Reynsla í ferðamennsku nýtist vel í þessu hlutverki, en einnig er margvísleg þekking mikilvæg.

Hjá mörgum sem tekið hafa þátt í hópferðum og notið í þeim góðri leiðsögn reyndari ferðafélaga, vaknar þörf fyrir að auka reynslu sína og færa ferðamennskuna upp á nýtt stig. Tilvalin leið í því er að fara á fararstjóranámskeið hjá Útivist. Á hverjum vetri stendur Útivist fyrir fjölbreyttum námskeiðum sem miða að því marki að gera þátttakendur færa um að taka að sér fararstjórn í hópferðum, hvort heldur er lengri gönguferðum, dagsferðum, jeppaferðum eða öðru. Meðal þess sem farið er yfir á fararstjóranámskeiðum má nefna rötun, kortalestur og meðferð staðsetningatækja, skyndihjálparnámskeið og fjarskiptanámskeið. 

Ef þú ert í þeirri stöðu að hafa kynnst útivist og ferðamennsku og vilt reyna þig á nýjum verkefnum í ferðamennskunni er upplagt að hafa samband við skrifstofu Útivistar fyrir mánudaginn 8. febrúar. Hægt er að hafa samband við skrifstofuna alla virka daga frá kl. 12 til 17 í síma 562 1000 eða með tölvupósti á skuli@utivist.is.