Landvernd, Útivist, Ferðaklúbburinn 4x4, Samtök útivistarfélaga (SAMÚT) og Ferðafélag Íslands hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau segja náttúrupassa og gjald á einstaka staði vega stórlega að almannarétti um frjálsa för fólks um landið. Yfirlýsingin fer hér á eftir:
"Undirrituð samtök taka undir að víða þurfi að efla innviði og þjónustu til að forða ferðamannastöðum og náttúruperlum frá skemmdum og ágangi. Í þeim tilgangi er ásættanlegt að innheimta gjald af ferðamönnum sem renni til uppbyggingar og reksturs á slíkum stöðum, þ.m.t. til fræðslu, landvörslu og öryggismála.
Samtökin telja hinsvegar að náttúrupassi og gjald inn á einstaka staði vegi stórlega að almannarétti um frjálsa för fólks um óræktað land. Samtökin vara sérstaklega við hugmyndum um að girða af náttúruperlur í þeim tilgangi að taka gjald af svæðum og hefta þannig för almennings. Samtökin leggjast gegn áformum sem stangast á við þennan mikilvæga rétt fólks til að njóta landsins.
Í samráðshópi um náttúrupassa á vegum iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafa útfærslur annarra hugmynda en náttúrupassans ekki fengist ræddar. Samtökin telja að fara beri leiðir sem ekki brjóta á almannaréttinum, t.d. blandaða leið hóflegs komu- eða brottfarargjalds og breytinga á gistináttagjaldi og/eða virðisaukaskatti. Það er skýr krafa samtakanna að þessar leiðir verði útfærðar í samráðshópnum á sama tíma og náttúrupassinn og síðan verði endanlegar ákvarðanir teknar um leiðir til gjaldtöku ferðamanna.
Samtökin hafa fullan skilning á því að málið er brýnt en hvetja ráðherra, landeigendur og aðila í ferðaþjónustunni að sameinast um að tryggja að sú mikilvæga stefnumótun sem nú er í gangi tryggi vernd almannaréttarins og að litið verði gaumgæfilega á aðferðir sem tryggja það.
Landvernd, Ferðafélagi Íslands, Ferðaklúbbnum 4x4, Samtökum útivistarfélaga (SAMÚT) og Útivist"