Kvennahópur Útivistar

13. janúar 2014

 

Undangengin 7 ár hafa farastjórarnir Jóhanna Benediktsdóttir og Kristjana Kristjánsdóttir staðið fyrir kvennaferð á sumri hverju á vegum Útivistar. Hafa þetta verið 3. til 5. daga göngur. Í fyrstu ferðunum voru hefðbundnar leiðir farnar eins og Sveinstindur-Skælingar, Strútsstígur og Laugavegurinn en undanfarin 4 ár hefur kvennahópurinn sótt í sig veðrið og haldið sig á Hornströndum.

Farastjórar hafa ákveðið að á sumri komanda verður gert meira fyrir hópinn og ætlunin er að fara eina ferð í mánuði frá maí til septemberloka. Hópurinn byrjar á því fara dagsferðir í maí og júní á Reykjanes og sunnanvert Snæfellsnes. Fyrir þær ferðir sækjum við okkur fróðleik frá heimamönnum sem hafa verið með okkur í Kvennaferðunum.  Í júlí heldur hópurinn í löngu ferðina á Hornstrandir og í ágúst verður helgarferð í Dalakofann.  Við endum svo sumarið á dagsferð á Kistufell í Esju eða á Búrfell í Grímsnesi eftir verðri og vindum.

Skráningargjald í hópinn eru 20.000 krónur. Allar konur eru velkomnar í hópinn og innifalið er árgjald Útivistar,  4 blöð af Útiveru og afslættir í útivistarverslunum.

Verðinu í einstaka dagsferð er stillt í hóf og verður 3.000 krónur. Safnast er saman í einkabílum og ekið að upphafsstað göngu.

31.05               Reykjanes: Brauðstígur - Árnastígur - Prestastígur

28.06               Snæfellsnes: Miklaholtssel - Hafursfell - Núpuskarð                                             

11-17.07         Strandir: Ingólfsfjörður – Reykjarfjörður  

29-31.08         Dalakofi bækistöðvarferð

27.09               Kistufell í Esju eða Búrfell í Grímsnesi    

 

Hornstrandaferðin að þessu sinni verður farin þann 11. júlí. Sameinast verður í bíla og ekið í Norðurfjörð þar sem gist verður í húsi og borðað saman um kvöldið. Daginn eftir er ekið í Ingólfsfjörð og bílar skildir eftir og þar hefst hin eiginlega ganga.  Gengið verður frá Ingólfsfirði til Reykjarfjarðar á 4 dögum (trúss). Í ferðinni er gengið með dagpoka og gist í tjöldum. Strandlengjan verður þrædd með skemmtilegum útúrdúrum eins og alltaf í þessum ferðum og áhersla lögð á að njóta en ekki að þjóta. Dagleiðirnar eru þægilega langar eða frá 9 – 17 km. Í Reykjarfirði verður gist í húsi í tvær nætur, hópurinn mun ganga á 5. degi yfir í Þaralátursfjörð, fyrir nesið og til baka. Boðið verður upp á sund og sögulegan fróðleik af heimamönnum í Reykjarfirði. Hópurinn siglir til Norðurfjarðar þann  17. júlí  og ekur heim á leið. 

Myndir út kvennaferðum