Nú er liggur fyrir ferðaáætlun Útivistar árið 2024.
Ferðablaðið okkar er komið út á vefformi og er hægt að lesa það hér á vefnum Félagar munu fá það sent til sín í pósti á nýju ári en það mun einnig liggja í helstu útivistarbúðum, á sundstöðum og víðar.
Gylfi Jónu Arnbjarnarson formaður fylgdi áætluninni úr hlaði:
Ferðaáætlun Ferðafélagsins Útivistar fyrir árið 2024 liggur nú fyrir. Að vanda leggjum við mikinn metnað í að auðvelda einstaklingum að njóta sín í íslenskri náttúru og umfram allt að gera það í hópi góðra vina. Mikil áhersla er því lögð á fjölbreytni í framboði á ferðum til að þær höfði til sem flestra. Um leið leggjum við okkur fram um að taka tillit til ólíkra þarfa félagsmanna og þátttakenda.
Að vanda er áhersla okkar á hefðbundnar ferðir að Fjallabaki, frá Sveinstindi að austan og vestur að Dalakofa, þar sem Strútur myndar ákveðna miðju. Allt þetta svæði býður upp á mjög fjölbreytt tækifæri til að njóta samveru úti í náttúrunni hvort sem það er á göngu, í hjólaferðum, í ferðum á breyttum og óbreyttum jeppum, eða á skíðum. Takist okkur að skapa tækifæri fyrir uppbyggilega samveru fólks með ólíkan bakgrunn í okkar fallegu náttúru á þann hátt að allir njóti sín er okkar markmiði náð.
Fyrir utan þessa hefðbundnu þætti í starfsemi okkar erum við einnig með aðra nálgun til að njóta samveru með góðum vinum í náttúrunni. Þar má nefna þemaferðir í Bása, helgarferðir, gönguferðir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins, raðgönguna Horn í Horn og áhugaverðar gönguskíðaferðir. Tindfjallasel er komið í fullt gagn og þar í kring verður boðið upp á fjölbreyttar ferðir bæði sumar og vetur. Það er von mín að þessi áætlun okkar fyrir árið 2024 mæti væntingum félagsmanna og þátttakenda.