Ný útgáfa af bókinni um Fimmvörðuháls

23. júlí 2012

Út er komin bókin um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls eftir Sigurð Sigurðarson, en hann starfaði á árum áður mikið innan Útivistar.

Bókin er afar mikið breytt endurgerð bókar sem hann skrifað og kom út árið 2002. Síðan hafa auðvitað orðið gríðarlegar breytingar á Hálsinum. Ekki aðeins að þar hefur orðið eldgos og tvö eldfell myndast í kringum gígana heldur hefur öskufall frá Eyjafjallajökli breytt ásýnd landslags á sunnanverðum Hálsinum talsvert. Hvoru tveggja eru gerð góð skil í bókinni.

Fleira má nefna. Sá forni jökull sem hét Lágjökull og hefur legið á Fimmvörðuhálsi lengur en elstu menn muna hefur nú á síðustu árum rýrnað afar mikið. Því hefur gott fólk breytt dálítið hefðbundinni gönguleið til að komast fyrir slæma farartálma.

Brot bókarinnar en nokkuð annað en var, aukið hefur verið við myndefni og texti settur inn í myndirnar til að auðvelda lesendum að átta sig á aðstæðum.

Síðast en ekki síst fylgja góð kort bókinni. Kortin eru laus og því handhæg fyrir göngufólk. Kortagrunnurinn kemur frá Samsýn ehf. sem leggur til kortin á ja.is. Kortin vann Sigurður, setti gönguleiðir inn á þau og örnefni. Þar með eru taldir fossarnir sem eru helsta prýði gönguleiðarinnar á sunnanverðum Fimmvörðuhálsi, Skógaheiði. Myndir eru birtar af flestum þeirra sem finnast á fyrri hluta leiðarinnar og þeir bera margir hverjir nöfn.

Á nýju gönguleiðinni, frá svokölluðu Vaði (yfir Skógaá) og upp á Fimmvörðuhrygg, eru fjölmargir fossar og flúðir sem fæstir hafa augum litið. Allir eru þeir merktir inn á kortin og telst höfundi til að þeir séu alls 37. Áhöld geta þó verið um það hvað sé foss og hvað flúð. Engu að síður er Fossaleiðin, sem svo er kölluð, afar áhugaverð og óskaplega gaman að hafa gengið upp á Hálsinn og barið þá alla augum.

Norðanmegin liggur hefðbundin gönguleið norður yfir Morinsheiði og um Kattahryggi og í Bása. Einnig er hægt að fara Hvannárgilið í Bása en það er fáfarin en heillandi gönguleið.

Svona má nú lengi masa um gönguleiðina yfir Fimmvörðuháls. Hún er frábær og viðlíka gönguleið er ekki að finna annars staðar á landinu. Eða hvar annars staðar getur göngumaðurinn t.d. grillað mat efst á eldfjalli með því að nýta þann gríðarlega hita sem látlaust streymir upp úr því?

Lítil útgáfa, Kraftverk, markaðsstofa ehf., gefur bókina út. Hún fæst ekki víða, en þó á þessum stöðum: skrifstofu ferðafélagsins Útivistar, Hagkaup og Útilífi. Að auki er hægt að panta hana á netfanginu fimmvorduhals@kraftverk.is og fá hana senda í póstkröfu.