Viðgerðir á stígum á Goðalandi

14. desember 2011

Í sumar hefur verið unnið umtalsvert átak í viðhaldi á göngustígum á Foldum á Goðalandi, ofan við Bása.  Gönguleiðin á Fimmvörðuháls liggur þar um og eins og nærri má geta er álag á göngustíga þar mikið. 

Verkefnið er samstarfsverkefni Vina Þórsmerkur og Skógræktar ríkisins, en að Vinum Þórsmerkur standa Útivist, FÍ, Farfuglar, Kynnisferðir, Skógræktin og Rangárþing eystra.  Verkefnið hefur notið stuðnings frá Ferðamálastofu, Pokasjóð, Vinnumálastofnun og sjálfboðaliðahópum frá Umhverfisstofnun.  Kynnisferðir sáu um flutning hópanna og Útivist veitti þeim aðstöðu í Básum.

stigavinna.jpg

stigavinna2.jpg

Erfitt er að koma efni til stígaviðgerða upp með stígnum enda um einstigi að fara og engin ökutæki sem komast upp brekkurnar í Goðalandi. Því var gripið til þess ráðs að leita eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar við að flytja efni upp á s.k. Foldir sem eru ofan Kattahryggja sem margir kannast við.  Þyrla Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, fluttu kurl, greinar og timbur upp á fjall. Gátu þeir nýtt tækifærið til að æfa krókflug á þyrlu eða sling eins og það er kallað meðal Gæslumanna. Skógræktarmenn og aðrir aðilar verkefnisins eru afar þakklátir fyrir aðstoð Landhelgisgæslunnar við verkið.