Útivist á tímum kórónaveiru

12. mars 2020

Einhverjir kunna að spyrja sig hvort ástæða sé til að fella niður skipulagðar göngur Útivistar í ljósi útbreiðslu covid-19 eða kórónaveirunnar. Stutta svarið við því er að við förum að tilmælum Landlæknisembættisins og höldum áfram að lifa lífinu.

Sem stendur hefur ekki verið sett á samkomubann né hömlur á að fólk komi saman, þó svo einhver félög og skipuleggjendur mannamóta hafi ákveðið að fresta samkomum. Útivist og hreyfing utan dyra er holl bæði fyrir sál og líkama og líkamleg nálægð á göngu er í flestum tilfellum ekki mikil. Við teljum að meðan ekki eru settar frekari hömlur á að fólk komi saman sé útivist og holl útivera af hinu góða. 

Þó beinum við því til þeirra sem eru í sóttkví vegna covid-19 veiru, eru smitaðir eða hafa komið frá skilgreindum hættusvæðum síðustu 2 vikur að mæta ekki í skipulagðar göngur. Sama gildir um þá sem sýna flensueinkenni. Ennfremur minnum við alla á að fylgja leiðbeiningum um sýklavarnir.

13.03.2020. Nú hefur verið sett á samkomubann og verða áhrif þess á starfsemi Útivistar skoðuð á næstu dögum. Þó má benda á að í flestum tilvikum er fjöldinn í göngum vel innan þeirra marka sem sett eru í samkomubanninu og aðstæður úti í náttúrunni allt aðrar en í innan húss.