Reykjavegur – er öllu óhætt?

10. febrúar 2020

Núna í kjölfar jarðhræringa á Reykjanesi er eðlilegt að spurningar vakni hvort óhætt sé að ganga um svæðið. Við búum í landi sem einkennist af eldvirkni og þurfum því iðulega að taka mið af því í okkar daglegu athöfnum.

Fyrst ber að nefna að almannavarnir hafa ekki séð ástæðu til að rýma svæðið. Um 5000 manns eru daglega á ferð um það svæði sem um er að ræða, þ.e. nágrenni fjallsins Þorbjarnar. Enn er gestum hleypt í Bláa lónið og fjöldi fólks er daglega að störfum á þessum slóðum. Komi nýjar upplýsingar eða fyrirmæli frá almannavörnum verður að sjálfsögðu tekið mið af því, bæði í ferðum Útivistar og væntanlega hjá öðrum sem þarna fara um.

Eins og fram hefur komið í fréttum geta þeir jarðfræðilegu atburðir sem núna eiga sér stað á Reykjanesi staðið yfir með einum eða öðrum hætti svo árum eða jafnvel áratugum skiptir og alls óvíst er hvort þeim fylgi eldgos. Þannig hefur Haraldur Sigurðsson jarðfræðingur spáð því að þarna verði eingöngu um kvikuinnskot að ræða. Lífið heldur áfram á meðan, svo fremur sem frekari vísbendingar um hugsanlegt eldgos komi ekki fram.

Útivist mun fylgjast vel með þróun mála og jafnframt gera varúðarráðstafanir í göngum á svæðinu. Þær felast meðal annars í því að vera í sambandi við jarðfræðinga áður en farið er af stað og jafnframt hafa rútu í nágrenni við göngumenn. Þannig verði hægt að bregðast fljótt við ef fyrirmæli um rýmingu koma meðan á göngu stendur.

Við byrjum að ganga Reykjaveginn nú á laugardag.