Langleiðin 2020 - 2023

17. desember 2019

Á þessu ári hefst Langleiðin aftur hjá Útivist en þessi raðganga mun taka fjögur ár. Langleiðin hefur tvisvar sinnum áður verið farin á vegum Útivistar, árin 2008 – 2010 og 2013 – 2015. Þá var gengið frá Reykjanestá að Langanesi um 730 km á 34 og 33 göngudögum. Árin 2016 – 2019 tók svo raðgangan „Horn í Horn“ við og var þá gengið frá Hvalnesvita við Eystra-Horn í Lóni um Lónsöræfi, yfir hálendið, um Strandir og inn á Hornstrandir að Horni í Hornvík. „Horn í Horn“ leiðin var um 780 km löng og var gengin á 33 göngudögum.

Á síðasta ári luku sjö Útivistarfélagar við að krossa landið á vegum Útivistar með því að ljúka báðum þessum raðgöngum. Búast má búast við að raðgangan „Horn í Horn“ verði endurtekin að þessari Langleið lokinni og fleiri bætist í hóp þeirra sem hafa krossað landið.

Að þessu sinni verður Langleiðin gengin í gagnstæða átt frá því sem áður var, þ.e. frá Fonti á Langanesi að Reykjanestá á Reykjanesskaga. Fyrri Langleiðir tóku þrjú ár en það var mögulegt því fyrsti fjórðungur leiðarinnar, Reykjanestá að Hagavatni við Langjökul var farinn í dagsgöngum frá mars og fram eftir sumri. Núna mun Langleiðin standa í fjögur ár þar sem engar dagsgöngur verða á lokakaflanum heldur verður öll raðgangan gengin í 4. – 8. daga leggjum. Gist verður í skálum ef þeir eru á heppilegum stöðum á leiðinni en annars í tjöldum. Farangurinn verður trússaður á milli svefnstaða nema um Þjórsárver þar sem bera þarf allan farangur.

Áætlaðir leggir Langleiðarinnar:

2020              Fontur – Heljardalsfjöll – Grímsstaðir Fjöllum

2021              Jökulsá á Fjöllum – Nýidalur

2022              Nýidalur – Þjórsárver – Kerlingarfjöll

2023 Hagavatn – Reykjanestá