Einnar nætur gönguferð í litadýrð og víðáttum hálendisins, með rútu/trússi
Haldið er með rútu árla laugardags frá Mjódd til Áfangagils, þar sem við munum hefja göngu snemma laugardags, gist í Landmannahelli og svo endað á sunnudegi á Landmannalaugum.
Leiðin er fjölbreytt og falleg, með hverju skrefi breytast litir og landslag: frá rauðum og gulum rhyólítfjöllum yfir í svartar hraunbreiður, græn gróðurbelti og hrikalegar árgljúfur. Hér finnur göngumaður fyrir því hversu lifandi og fjölbreytt íslenskt hálendi getur verið.
Innifalið: Rúta, gisting í eina nótt, trúss og fararstjórn
Dagur 1: Áfangagil - Landmannahellir (ca. 22,5 km, 8–10 klst.)
Ferðin hefst í Áfangagili, þar sem svartar sandbreiður og móbergsfellin Valafell og Valahnúkur marka upphaf leiðarinnar. Gengið er yfir svarta sanda áður en rauðleitur gígur Valagjá blasir við, um 3 km langur sprengigígur sem gefur landslaginu sterkan lit.
Eftir það tekur við vað yfir Helliskvísl – oft auðfært, en stundum þarf að vaða upp að hnjám. Þar á eftir liggur leiðin um hraunbreiðu Lambafitjahrauns (1913) og áfram í átt að Lambaskarði. Við fylgjum gróðursælum hlíðum Herbjarnarfells og Hellisfjalls þar til við komum að Landmannahelli (590 m.y.s.). Þar ætlum við að halla höfði eftir langann göngudag.
Dagur 2 : Landmannahellir - Landmannalaugar (ca. 17 km, 6–7 klst.)
Við leggjum af stað frá Landmannahelli og göngum meðfram hlíðum fjallsins Löðmundar og Löðmundarvatns, þar sem sterkir litir andstæðna, öskunnar og grænna hlíða, prýða landslagið.
Leiðin heldur áfram yfir í Dómadalinn, þar sem hrjóstrugt en stórbrotið útsýni opnast. Við tökum síðan stefnuna upp Uppgönguhrygg, sem býður upp á víðáttumikið útsýni áður en gengið er niður í Vondugilsaura. Að lokum förum við yfir Laugahraun og inn í hjarta Landmannalauga, þar sem litbrigði fjallanna, gufustrókar og jarðhiti gefa ferðinni dramatískan og eftirminnilegan endi. Þar bíður rúta eftir okkur til að flytja okkur í höfuðborgina.