Einnar nætur gönguferð í hjarta Fjallabaks, með rútu
Hellismannaleiðin er sannkölluð perla hálendisins – leið sem færir saman stórbrotna náttúru, fjölbreytt landslag og kyrrð sem erfitt er að finna annars staðar. Á þessum hluta leiðarinnar göngum við frá Leirubakka í Landsveit, þar sem Hekla gnæfir yfir sveitina, upp í hin víðáttumiklu og fallegu svæði Fjallabaks. Á leiðinni tökum við okkur næturhvíld á Rjúpnavöllum áður en við stefnum áfram í skjólgott Áfangagil, þar sem ferðin lýkur.
Þessi útgáfa Hellismannaleiðarinnar er jafn krefjandi og hún er gefandi. Hún hentar vel þeim sem vilja upplifa íslenskt hálendi í sínum hreinasta búningi, finna kyrrðina í víðáttunni og ganga í gegnum landslag sem breytist í hverju skrefi – frá sléttum hraunbreiðum og gróðursælum dölum til ólgandi áa og stórbrotinna fjallasýn. Ferðin hefst í Mjódd þar sem rúta bíður þátttakenda.
Innifalið: Rúta, gisting í eina nótt, rúta/trúss og fararstjórn
Leiðarlýsing:
Dagur 1 – Leirubakki – Rjúpnavellir (ca. 12km, 5 klst.)
Ferðin hefst á Leirubakka í Landsveit, við rætur Heklu. Fyrstu skrefin liggja í gegnum skógræktarsvæði Galtalækjarskógar og áfram meðfram Ytri-Rangá. Hér blandast saman gróður, lækir og útsýni til fjalla og veita okkur mjúkan inngang í gönguna. Leiðin er tiltölulega slétt og greiðfær, en við fylgjumst samt stöðugt með Heklu sem gnæfir yfir – alltaf til staðar eins og dyggur förunautur.
Þegar nær dregur Rjúpnavöllum tekur landslagið á sig hálendislegri svip; opnar víðáttur, melar og hraun, þar sem maður finnur hvernig kyrrðin magnast og loftið verður tærara. Kvöldinu er varið á Rjúpnavöllum.
Dagur 2 – Rjúpnavellir – Áfangagil (ca. 18,5 km, 6–8 klst.)
Á öðrum degi tökum við stefnuna inn á hálendi Fjallabaks. Leiðin liggur í Hekluvikri og gróðursælu umhverfi á víxl. Við göngum meðfram Rangá þar sem áin liðast meðfram Næfurholtsfjöllum. Förum yfir brúna yfir Rangá og stefnum við að Ófærugili en þar gætum við þurft að draga fram vaðskóna. Við fáum að njóta stórbrotinna Fossabrekkna í Ytri- Rangá þar sem áin myndar stórkostlega fossa og gljúfur.
Við göngum um hraunbreiður Sölvahrauns og fylgjum jaðri Skjólkvíarhrauns, sem myndaðist í eldsumbrotum á 20. öld og minnir okkur á kraft jarðar undir fótum okkar. Landslagið breytist ört á þessum degi, frá grænum hlíðum og árbökkum yfir í svartar hraunbreiður og ljósa sanda. Ferðin endar í Áfangagili þaðan sem rúta keyrir hópinn til Reykjavíkur.