Tindfjallahringur

Dags:

fim. 20. júl. 2023 - sun. 23. júl. 2023

Brottför:

kl 18 frá Olís við Rauðavatn

  • Skáli

Tindfjallahringurinn er skemmtileg ný hringleið eða þríhyrningsleið þar sem gengið er milli þriggja skála. Ekið að kvöldi á eigin bílum að eyðibýlinu Fossi á Rangárvöllum, brottför kl 18.

Bærinn stendur ofan við Keldur við upphaf Fjallabaksleiðar syðri. Þangað er fært fyrir alla bíla en aka þarf rólega síðasta spölinn. Þar verður tekinn góður kvöldmatur og notalegur nætursvefn.

Fyrsta göngudaginn er gengið Hungurfit. Þetta er drjúgur spotti eða rúmir 27 km. Undirlag er gott en þar sem vegalengdin er drjúg er vissara að taka daginn snemma. Vaða þarf yfir Eystri-Rangá á móts við Lambadal.

Næsta dag er gengið úr Hungurfitjum í Tindfjallasel. Þessi dagleið er rúmir 18 km. Stefnan er tekinn á hrygg nokkurn sem leiðir okkur alla leið uppá Blesárjökul. Hryggurinn er brattur og hár en ekki illfær þó hann sé ekki frýnilegur að sjá. Þegar á toppinn er komið tekur við jökulbreiða og gott að smella nettum broddum undir skóna til að tryggja gott grip. Stefnan tekin á Sindra og þaðan upp með Ásgrindum. Tindfjallajökull þveraður á móts við Saxa og stenfan tekin niður í skála.

Á lokadegi ferðarinnar verður gengið frá Tindfjallaseli og aftur að Fossi. Við kveðjum Tindfjöllin og tökum stefnuna á víðáttumikla sléttu sem heitir Hraun. Gengið sunnan við Vörðufell í átt að dal nokkrum sem kallast Góðidalur. Vaða þarf yfir Fiská við eyðibýlið Rauðnefsstaði og Eystri-Rangá aftur vaðin áður en komið er að Fossi. Vegalengd dagsins er um 18 km. en liggur niður í móti. Áætlaður komutími að Fossi, þar sem bílarnir bíða, er um kl 18.00 og lýkur ferðinni þar.

Innifalið í verði er fararstjórn, flutningur á farangri milli skála og allar skálagistingar.

Fararstjóri er Steinar Sólveigarson

Verð 64.000 kr.

Nr.

2307L11