Þessi viðburður er liðinn.
Undanfarin ár hefur Ferðafélagið Útivist staðið fyrir velheppnuðum fjölskylduferðum um Laugaveginn. Þarna hafa ungir sem aldnir slegist í för og notið sín.
Þessi Laugavegsferð er ætluð allri fjölskyldunni og sniðin að þörfum barna. Hér er því upplagt tækifæri til að kynna börnin fyrir dásemdum útivistar. Ekki er þó mælt með því að taka yngri börn en 8 ára með í ferðina.
Ekið í Landmannalaugar að morgni dags og samdægurs gengið sem leið liggur í Hrafntinnusker þar sem gist er fyrstu nóttina. Úr Hrafntinnuskeri er haldið suður eftir sléttum vestan Reykjafjalla og um Jökultungur í Hvanngil. Frá Hvanngili er gengið um slétta sanda, með Mýrdalsjökul á vinstri hönd, í Emstrur þar sem gist er í Botnaskála. Frá Emstrum liggur leiðin yfir Syðri-Emstruá á göngubrú í fallegu gili og áfram sem leið liggur um Almenninga í Þórsmörk.
Í Básum á Goðalandi bíður göngumanna grillveisla í einstöku umhverfi, en þar er gist í notalegum skála. Á heimfaradegi er farið í stutta göngu um nágrenni Bása áður en haldið er heim.
Fararstjórar: Guðrún Frímannsdóttir og Helga Harðardóttir
Innifalið: Leiðsögn, akstur, skálagisting í fjórar nætur, heit sturta í Básum auk sameiginlegrar kvöldmálatíðar síðasta kvöldið.
Fararstjórar eru Helga Harðardóttir og Guðrún Frímannsdóttir
Farþegar úr ferð sumarið 2022 sendu frá sér eftirfarandi athugasemdir að ferðalokum;
Vallý Helgadóttir: Sælir ferðafélagar. Ég er rétt komin niður á jörðina eftir frábæra ferð. Takk, aftur, fyrir samveruna og skemmtilegheitin. Takk Helga og Guðrún fyrir frábæra fararstjórn. Sjáumst, vonandi, aftur í göngu um okkar fallega og fjölbreytilega land.
Unnur Símonardóttir: Takk fyrir dásamlega ferð!! Sigurjón Óli sagði á öðrum degi “vá hvað við erum heppinn með hópinn okkar” því er ég sammála - við vorum heppin með hvort annað, fararstjóra- veðrið, aðbúnaðinn og bara allt.