Víknaslóðir

Dags:

fim. 15. júl. 2021 - sun. 18. júl. 2021

Brottför:

auglýst síðar.

  • Skáli

Hinar svokölluðu Víknaslóðir eru margrómað gönguland sem enginn verður svikinn af að skoða. Þátttakendur koma sér á eigin vegum á Bakkagerði í Borgarfirði eystri þar sem gangan hefst og líkur.

Fararstjóri er Hlín Hjartar Magnúsdóttir

1. dagur: Borgarfjörður eystri – Breiðuvík
Gengið er um Brúnavíkurskarð í Brúnavík og þaðan um Súluskarð og Kjólsvíkurvarp til Breiðuvíkur. Brúnavík er næsta vík sunnan Borgarfjarðar. Þar þóttu búsetuskilyrði góð áður fyrr en hún fór í eyði árið 1944. Í fjörunni eru fallegir líparítklettar sem vert er að skoða áður en haldið er áfram til Breiðuvíkur. Breiðavík er landnámsjörð og fór í eyði árið 1947. Hún er vel gróin og umkringd fallegum líparítfjöllum. Gist í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs í Breiðuvík. Vegalegd 15 km., hækkun 800 m.

2. dagur: Breiðavík – Húsavík
Gengið er til vesturs úr Breiðuvík í dalverpi sem liggur undir Hvítafjalli, Hvítuhnjúkum og Hvítserki. Þaðan er fallegt útsýni yfir Gæsavötn. Þegar beygt er til suðurs í átt til Húsavíkur er hinn sérkennilegi Hvítserkur á vinstri hönd með sína dökku bergganga. Skáli Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, sem gist er í, stendur innst í víkinni. Út við sjó stendur Húsavíkurkirkja, byggð 1937, en kirkjustaðurinn Húsavík var metin dýrasta jörð á Íslandi á öldum áður. Ef áhugi er fyrir því verður boðið upp á kvöldgöngu þangað, en það er um 7 km gangur fram og til baka. Vegalengd 14 km., hækkun 480 m.

3. dagur: Húsavík – Loðmundarfjörður
Gengið er yfir Nesháls í átt til Loðmundarfjarðar. Þaðan er gott útsýni yfir fjörðinn og allt til Dalatanga ef skyggni er gott. Ef veðrið leikur við okkur þennan dag geta þeir sem vilja gengið upp á Skæling sem er formfagurt fjall við hálsinn. Við þetta lengist gangan um 3,5 km og 2-3 klst. og nemur hækkunin um 400 m. Haldið er áfram göngu inn allan Loðmundarfjörð sem er fallega gróinn og má þar finna sjaldgæfar plöntur svo sem bláklukkulyng og gullkoll. Loðmundarfjörður er talinn hafa verið í byggð mest allan tíma Íslandsbyggðar en fór endanlega í eyði árið 1973. Gist er í skála Ferðafélags Fljótsdalshéraðs á Klyppsstað. Vegalengd 15 km., hækkun 440 m.

4. dagur: Loðmundarfjörður – Borgarfjörður um Kækjuskörð
Gengið er 2 km til baka frá Klyppsstað að Stakkahlíð og þaðan í norður eftir jeppavegi að Fitjum. Frá Fitjum liggur leiðin um Orustukamb þar sem fundist hafa merkilegir steingervingar. Gengið um Kækjuskörð og Kækjudal, en í Kækjudal stendur Kirkjusteinn sem talinn er vera álfakirkja samkvæmt þjóðtrú. Göngunni líkur svo við brú á Lambadalsá í Borgarfirði. Vegalengd 15 km., hækkun 800m.

Verð 68.000 kr.

Nr.

2107L10
  • Miðhálendi