Tindfjöll – Hellismannaleið

Dags:

mán. 12. júl. 2021 - lau. 17. júl. 2021

Brottför:

kl. 8:00

  • Skáli

Í ár vígjum við nýja gönguleið um ótroðnar slóðir. Gengið er um Tindfjöll og ofanverða Rangárvelli að Rjúpnavöllum. Þaðan liggur leiðin um hina rómuðu Hellismannaleið. Spennandi valkostur fyrir þá sem vilja prófa eitthvað nýtt.

Fararstjóri er Páll Arnarson

1. dagur: Tindfjallaskáli (680 m)
Ekið inn Fljótshlíð og gengið í Tindfjallasel þar sem gist verður fyrstu nóttina. Eftir að hópurinn hefur komið sér fyrir í skálanum verður dagurinn nýttur til að skoða umhverfið.
2.dagur: Tindfjallaskáli – Foss við Eystri Rangá
Frá Tindfjallaskála er gengið í vestur og stefnan tekin á bæinn Foss við Eystri-Rangá. Leiðin liggur sunnan megin við Vörðufell og stefnan tekin á Litla Bláfell. Síðan er farið um Fremra-Kálfatungugil, niður Góðadal, Stigagil og Markagil og komið að eyðibýlinu Rauðnefsstöðum, en það fór í eyði eftir Heklugosið 1947. Farið á vaði yfir Eystri Rangá að eyðibýlinu Fossi þar sem er gist í uppgerðu bæjarhúsinu. Vegalengd 18,5 km.

3. dagur: Foss – Rjúpnavellir
Gengið er frá Fossi á Rjúpnavelli. Þetta er nokkuð löng dagleið en hækkun er óveruleg. Gengið er um Skógarhraun, Herjólfsheiði og Dagverðarnesheiði hjá Pálssteinshrauni. Þá er stefnan tekin á Suðurhraun sunnan megin við Fálkahamar og stefnt í norður meðfram Hálsfjalli. Gengið er yfir Norðurhraun á milli Bjólfells og Tindgilsfells fram hjá Selvatni og ofan Næfurholts. Farið yfir Ytri- Rangá og gljúfrin við brúna skoðuð. Þaðan liggur leiðin upp með ánni að Rjúpnavöllum þar sem gist er. Vegalengd 28 km

4. dagur: Rjúpnavellir – Áfangagil
Frá Rjúpnavöllum liggur leiðin í Áfangagil og er þá komið inn á svokallaða Hellismannaleið. Fyrir þá sem vilja er hægt að ljúka göngunni í Áfangagili en jafnframt er boðið upp á framhald göngunnar um Hellismannaleið sem leið liggur í Landmannalaugar. Frá Rjúpnavöllum er gengið vestan við Ytri-Rangá á grónu landi þar til komið er að göngubrú þar sem farið er yfir ána. Þar er farið yfir Ófærugil sem er gott yfirferðar öfugt við það sem nafnið gefur til kynna. Þá er komið að Fossabrekkum og er þar gott að hvílast um stund og njóta fegurðarinnar. Áfram liggur leiðin meðfram Sauðafellsöldu og að jaðri Skjólkvíahraunsins frá 1970 en þá tekur við Sölvahraun. Stikaða leiðin liggur fram hjá gömlu fjárbyrgi sem er að mestu komið undir sand. Þaðan er gengið upp á Öldu sem er hluti Valafells og loks niður í Áfangagil þar sem er gist. Vegalengd 18,5 km.

5. dagur: Áfangagil – Landmannahellir
Gengið er á sandi og vikri framan af. Mikilvægt er að fylla á vatnsbrúsa í upphafi ferðar því aðeins er hægt að fylla á brúsa einu sinni á leiðinni, þ.e. við Hellishvísl um miðbik göngunnar. Gengið er upp brekkuna á Valafellsöldu en í góðu skyggni sést þaðan vel til Heklu og Búrfells. Hestalda blasir við og eldstöðvarnar í Skjólkvíum sem og Rauðaskál austan við þær. Gengið er niður ölduna og um svarta sanda á milli Valafells og Valahnjúka. Það svæði hefur stundum verið nefnt Dauðadalur af gönguhópum þar sem þarna er ekki stingandi strá að sjá. Leiðin liggur því næst um Valaskarð á milli Valafells og Valahnúka. Áfram er haldið fyrir enda Valahnúka þar sem sveigt er til suðurs, Dyngjuleiðin þveruð og gengið að Helliskvísl. Vel má drekka vatn úr Hellishvísl þótt það geti verið eitthvað jökulblandað. Kvíslina þarf að vaða þó að í einhverjum tilfellum sé hægt að stikla yfir hana. Síðan er gengið yfir Lambafitarhraun sem rann úr gíg á Heklusprungunni árið 1913. Þá er gengið í átt að Sauðleysum og eftir Lambaskarði sem liggur á milli Sauðleysa og Hrafnabjarga. Þegar kemur fram á brúnina er komið inn á Friðland að Fjallabaki. Gengið er yfir síðasta sanddalinn á þessari dagleið að Herbjarnarfelli og Herbjarnarfellsvatni. Þaðan er stutt í skálann við Landmannahelli. Vegalengd 22,5 km.

6. dagur: Landmannahellir – Landmannalaugar
Gengið er af stað upp á Hellisfjall en þar er komið að gatnamótum. Okkar leið liggur hér í átt að Löðmudarvatni en hin leiðin liggur upp á Löðmund. Síðan liggur leiðin að Löðmundarvatni að Lifrafjöllum og upp á Dómadalsháls þar sem útsýnið er yfir Lifrafjallavatn ef skyggni er gott. Gengið eftir hálsinum, yfir veginn um Dómadalsleið og gengið upp Mjógil og upp á Stórhöfða. Því næst er gengið um Háölduhraun að Uppgönguhrygg niður Háöldugil að Vondugiljum þar sem þarf að vaða nokkra læki. Síðasti spölurinn er um Laugahraun inn í Landmannalaugar þar sem rúta bíður hópsins. Vegalengd 16 km.

Verð 98.000 kr.

Nr.

2107L07
  • Miðhálendi