Jógaferð í Þjórsárdal

Dags:

lau. 4. júl. 2020 - mán. 6. júl. 2020

Brottför:

auglýst síðar.

  • Skáli
Þessi viðburður er liðinn.

Þriggja daga jógaferð um Þjórsárdal. Jóga kvölds og morgna og eftir stað og stund yfir daginn.

Dagur 1: Reykjavík - Þjórsárdalur - Hólaskógur.

Lagt af stað úr Reykjavík á eigin bílum kl. 8:30. Ekið austur í Þjórsárdal. Gengið um dalinn Hallslaut, Skriðufell, Seljatungnafoss og nágrenni. Eftir gönguferðina er keyrt í skálann í Hólaskógi þar sem er gist. Vegalengd um 10-12 km. Hækkun/lækkun um það bil 200m.

Dagur 2: Hólaskógur - Háifoss - Granni - Stöng - Gjáin - Hólaskógur.

Keyrt upp að Háafossi og Granna frá Hólaskógi. Gengið niður eftir Fossánni að Stöng, inn í Gjána og áfram í bílana. Vegalengd um 15 km. Hækkun 200 m, lækkun 300 m.

Dagur 3: Hólaskógur - Búrfell - Reykjavík

Pakkað og gengið frá eftir morgunjóga. Ekið að Búrfelli. Gengið á fjallið eða í kringum það eftir veðri. Að því loknu verður ekið heim á leið. Hækkun/lækkun að hámarki 500 m. Vegalengd um 10 km.

Nánari lýsing:

Farið er á eigin bílum eða sameinast í bíla. Í ferðinni mun verða sameiginlegur matur sem fararstjórar og þátttakendur ákveða á undirbúningsfundi. Allir hjálpast að við undirbúning, matargerð og frágang. Boðið verður upp á jóga bæði kvölds og morgna og eftir stund og stað yfir daginn. Hver og einn kemur með jógadýnu fyrir sig.

Þjórsárdalur er ein af földum perlum landsins. Undanfarin ár hefur mikið verið gert í skógrækt og teygir skógur sig nú langt upp í hlíðar dalsins. Landslag er fagurt og fjölbreytilegt, litrík fjöll, fallegar ár og mikilfenglegir fossar sem og mikið af sögulegum minjum.

Fyrsta dag ferðarinnar verður gengið um skógræktarsvæðið í Hallslaut, í kringum Skriðufell og Seljatungnafoss skoðaður. Á öðrum degi munum við skoða einn af hæstu fossum landsins, Háafoss sem er 122m hár og nágranna hans, fossinn Granna. Gengið verður niður eftir Fossá heim að sögualdabænum Stöng og þaðan áfram inn að einum fallegasta stað landsins, Gjánni. þar fellur Rauðá fram í tveimur fallegum fossum. Þriðja og síðasta daginn verður gengið um Búrfell, annaðhvort upp á fjallið eða í hlíðum þess.

Ef færi gefst verða fleiri perlur dalsins skoðaðar svo sem Hjálparfoss og Þjóðveldisbærinn.

Fararstjórar: Þórlaug Sveinsdóttir og Ragnheiður Ýr Grétarsdóttir, báðar sjúkraþjálfarar, jógakennarar og leiðsögumenn.

Verð 28.000 kr.

Nr.

2007L05
  • Suðurland