Dags:
fös. 7. júl. 2023 - sun. 9. júl. 2023
Brottför:
kl. 09:00 frá Mjódd.
Jógagönguferð, þar sem blandað er saman gönguferð í fallegri náttúru og jógaæfingum, öndun og hugleiðslu, er góð leið til að kúpla sig út úr amstri hins daglega lífs og hlaða batteríin. Jóga stuðlar að betra jafnvægi bæði andlega og líkamlega og passar einstaklega vel að gera jóga úti í náttúrunni þar sem áhrifin magnast enn frekar upp.
Í sumar mun Útivist bjóða upp á jógaferð í Þórsmörk dagana 7. - 9. júlí. Lagt verður af stað með rútu frá Reykjavík snemma á föstudagsmorgni og komið í Þórsmörk fyrir hádegi. Farið verður í gönguferðir um þetta einstaklega fallega og stórbrotna landslag alla þrjá dagana; föstudag, laugardag og sunnudag og svo haldið heim eftir hádegi á sunnudeginum. Þórsmörk er einstök perla þar sem fallegt landslag, fjöll, jöklar, gljúfur, gil og gróður mynda góðan ramma fyrir gönguferðir og jógaæfingar. Jóga er gert kvölds og morgna og einnig eftir aðstæðum yfir daginn. Öllum er velkomið að taka þátt og ekki er krafist neinnar fyrri reynslu af jógaiðkun.
Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir og skálagisting.
Fararstjórar í þessari ferð eru Þórlaug Sveinsdóttir og Ragnheiður Ýr Grétarsdóttir, báðar jógakennarar og sjúkraþjálfarar.
Upplýsingar um Bása