Jónsmessuganga 17 / tjald

Dags:

fös. 23. jún. 2023 - sun. 25. jún. 2023

Brottför:

kl. 17:00 frá Mjódd

  • Tjald
Þessi viðburður er liðinn.

Ath! Fullbókað í brottför kl. 17:00 Hægt er að skrá sig með brottfaratíma kl. 18:00

Um Jónsmessuhelgina er mikið um að vera á Fimmvörðuhálsi og í Básum. Þá er hin árlega Jónsmessuganga Útivistar yfir Fimmvörðuháls. Þessi ferð er einn af hápunktunum í starfi Útivistar ár hvert og allt kapp lagt á að gera hana ánægjulega fyrir alla þátttakendur. Lagt er af stað frá Reykjavík á föstudagskvöldi og gengið yfir Hálsinn um nóttina. Á leiðinni er stoppað á völdum stöðum og boðið upp á hressingu. Í dögun á laugardegi koma göngumenn niður í Bása þar sem tími gefst til að hvílast um stund. Um kvöldið er slegið upp grillveislu og kveiktur varðeldur þar sem Útivistargleðin ríkir.

Innifalið í verði er fararstjórn, rútuferðir, flutningur á farangri í Bása, tjaldgjöld, hressing á göngunni og grillveisla á laugardagskvöldið.

Tilhögun ferðar - Fimmvörðuháls

Lagt er af stað frá Mjódd (sunnan við bíóið og vestan við Breiðholtskirkju) á föstudagskvöldi kl. 17:00 og 18:00. Ekið er austur að Skógum, en gangan hefst við Skógafoss. Gengið er upp með Skógaánni sem skartar fjölda gullfallegra fossa. Fossarnir í ánni eru á milli 30 og 40 talsins. Farið er yfir ána á göngubrú. Efst á Fimmvörðuhálsinum er skáli Útivistar og þar er stoppað til að fá hressingu fyrir síðari áfanga göngunnar.

Stuttan spöl norðan við Fimmvörðuskála eru tvö nýjustu fjöll landsins, þeir bræður Magni og Móði. Hver man ekki eftir túristagosinu vorið 2010 þegar þeir félagar mynduðust? Gengið er upp á Magna og horft yfir splunkunýtt apalhraunið sem enn rýkur úr. Það er einstök tilfinning að standa á eldfjallinu og finna hve jörðin er volg undir iljunum.

Áfram er haldið í norður og fljótlega blasir Fjallabak við í morgunbirtunni. Gengið er fram á Heiðarhornið en þaðan sést stórkostleg náttúra hvert sem litið er. Síðasti áfangi göngunnar er niður í Strákagil og þaðan heim í Bása þar sem notalegur svefnpokinn bíður þreyttra göngumanna.

Á völdum stöðum á leiðinni er göngumönnum boðið upp á hressingu, sem ævinlega er tekið fegins hendi.

Heimferð á sunnudegi   
Frá Básum er farið með rútum um kl. 13:00 á sunnudegi. Staðkunnugir fararstjórar frá Útivist sjá um leiðsögn í rútunum á heimleiðinni. Þar eru fjölmörg náttúruundur sem vert er að skoða. Á heimleiðinni er tekið stutt kaffistopp á Hvolsvelli. Áætluð koma til Reykjavíkur er á milli kl. 18:00 og 19:00. 

English version

Verð 37.000 kr.

Nr.

2306H02AT