Everesthópur

Síun
 • Dags:

  lau. 30. jan. 2021 - fös. 31. des. 2021

  Brottför:

  Göngulýsingar fyrir Everest hópinn

  Athugið að áætlun einstakra ferða getur breyst en aldrei til verri vegar. Miðað er við að ferðir séu síðasta laugardag hvers mánaðar, en geta færst til með tilliti til veðurspár.

  10.8. Hengill – Vörðu-Skeggi – kvöldferð

  Gangan hefst í Dyradal og gengið inn Klungrin. Þaðan er farið upp norðurhlíð Vörðu-Skeggja og upp á topp. Gengin verður hringleið og komið niður í Marardal og aftur að upphafsstað göngunnar.

  Mesta hæð er 805m, gönguhækkun er um 500m. Göngulengd er um 12 km og göngutími um um 5 klst.

  28.8. Heiðarhorn – Skarðshyrna – dagsferð

  Ægifagurt útsýni er af Skarðsheiði sem lætur engan ósnortinn. Gangan hefst rétt við bæinn Efra-Skarð og þaðan liggur leiðin hjá Skessusæti á Skarðshyrnu. Frá henni er gengið norður eftir hryggnum á Heiðarhornið. Þaðan verður svo gengin stutt leið til að berja augum norðurhlíðar Skarðsheiðar og Skessuhorn. Gengið er niður í Skarðsdal á bakaleiðinni og að upphafsstað göngu.

  Mesta hæð er 1054m, gönguhækkun er um 1100 m. Göngulengd er um 11 km og göngutími um 8 klst.

  24.-26.9. Strútur – Mælifell – helgarferð

  Fjallabak syðra er heimur út af fyrir sig. Farið er á föstudegi og gist í skála Útivistar við Strút. Á laugardeginum er gengið á Strút sem er rétt hjá skálanum en hann er 968m hár. Að fjallgöngu lokinni fara þeir sem vilja í Strútslaug áður en haldið er aftur í skálann (3 klst aukakrókur sem ef vel þess virði). Á sunnudegi verður gengið á Mælifell (799 m) áður en haldið er heim á leið. 

  Mesta hæð er 968 m, gönguhækkun er um 600 m. Göngutími er um 7 klst á laugardeginum. Gengið er á Mælifell á leiðinni heim á sunnudeginum. 

  30.10. Hvalfell – dagsferð

  Hvalfell myndaðist í gosi undir jökli, það stíflaði dalinn svo að ofan við það er djúpt og mikið vatn, Hvalvatn. Flest örnefni á þessu svæði vitna í hvali, hverju sem það sætir. Frá Stóra-Botni í Botnsdal liggur leiðin upp með Botnsá að austanverðu að fossbrún hæsta foss landsins, Glyms. Þaðan verður stefnt á topp Hvalfells. Af fjallinu er ágætis útsýni og gaman að kíkja af austurbrún þess yfir Hvalvatn. Farið niður aftur að vestanverðu í Hvalskarð milli Hvalfells og Botnssúlna. 

  Vegalengd 13-14 km. Mesta hæð 852 metrar en hækkun 800 m. Göngutími 6 klst.

  27.11. Hátindur- Hábunga - Skálatindur-Laufskörð -dagsferð

  Gangan hefst í Grafardal þaðan sem leið liggur upp á Hátind. Af Hátindi er gengið til norðurs á Hábungu sem er hæsti punktur Esjunnar. Kíkt yfir í Kjós og Hvalfjörð. Þaðan er stefnan tekin á ógnvekjandi Laufskörðin og eftir vestasta Móskarðshnjúknum niður að Skarðsá þar sem göngunni líkur við bílastæði.

  Mesta hæð er 914m, gönguhækkun er um 900m. Göngulengd er um 15 km og göngutími er um 6-7  klst.

  11.12. Heiðarból við Selfjall – stutt dagsferð

  Gangan hefst á bílastæði rétt fyrir ofan Waldorfskólann í Lækjarbotnum. Gengið er yfir Selfjallið í Heiðarból. Þar verða haldin litlu jólin og uppskeruhátíð Everest gönguhópsins. Frá Heiðarbóli er gengið niður í sumarbústaðalandið og að upphafsstað göngu.

  Mesta hæð er 269m, gönguhækkun er óveruleg. Göngulengd er um 4 – 5 km og heildartími um 3 klst.

  Fararstjórar eru Guðrún Svava, Ásta Þorleifs og Hrönn Baldurs.

  • Verð:

   24.500 kr.
  • ICS


1 / 19

Skælingar