Sumaráskorun Útivistar 2021

Dags:

lau. 22. maí 2021 - mán. 24. maí 2021

Brottför:

Þessi viðburður er liðinn.

sumaráskorun-þemamynd.jpegSumaráskorun Útivistar 2021

Einungis 2 laus pláss!

Taktu þátt í Sumaráskorun Útivistar 2021 Hvítasunnuhelgina 22. - 24. maí 2021 þegar gengið verður frá Strandarkirkju, upp Hlíðarskarð, þaðan inn á Selvogsgötu alla leið í Hafnarfjörð á einum degi.  Leiðin er á bilinu 38-40 kílómetrar svo áskorunin er verðug! Skráning hefst 1. mars klukkan 12:00.

Brottför er áætluð 6:15 frá Hafnarfirði laugardaginn 22. maí en vissara er að halda sunnudegi og mánudegi lausum ef fresta þarf brottför vegna veðurs.  Hér er um að ræða verðuga áskorun sem reynir á úthald og gönguþol þátttakenda.  Öflugt teymi fararstjóra Útivistar kemur að skipulagi og framkvæmd ferðarinnar en henni má skipta í þrjá hluta.

Fyrsti hluti:
Rúta ekur þátttakendum frá Hafnarfirði að Strandarkirkju.  Um 7 kílómetra leið frá Strandarkirkju eftir vegi að Hlíðarskarði þar sem fyrri drykkjarstöð er staðsett og farangri er trússað.  Fyrsti hlutinn er einfaldur og hraðgengur og þátttakendur eru hvattir til að bera sem minnstan farangur með sér á þessum hluta.

Annar hluti:
Um 16 kílómetra leið frá Hlíðarskarði niður Grindarskörð.  Leggurinn hefst með löturhægri uppgöngu en svo tekur við rösk heiðarganga niður í Grindarskörð.  Þar er seinni drykkjarstöð og geta þátttakendur fengið trússað allt að 1,5 kílói pr. þátttakanda en drykkjum, búnaði og farangri er trússað þangað á reiðhjólum.

Þriðji hluti:
Um 15 kílómetra leið frá Grindarskörðum í Hafnarfjörð.  Leiðin er greiðfær og svo gott sem laus við hækkun.  Ferðin endar við íþróttahúsið við Strandgötu þar sem þátttakendur hafa aðgang að salerni og boðið verður uppá léttar veitingar til að fagna góðum ferðalokum.

Erfitt?
Já. Um ákaflega langa göngu er að ræða með fjögurra skóa gráðun og ætluð reyndari félagsmönnum til að skora á sig.  Fyrirkomulag ferðarinnar er þó með þeim hætti að auðvelda þátttakendum að ljúka við áskorunina þar sem hægt verður að flytja nesti og drykki á tvo staði á gönguleiðinni til að minnka burð.  Ertu ekki félagsmaður?  Ekkert mál - þú skráir þig bara í leiðinni!

Undirbúningur:
Þátttakendur í Sumaráskorun Útivistar þurfa að vera í góðu, líkamlegu formi og stunda reglubundna hreyfingu.  Tvær undirbúningsferðir verða fyrir áskorunina þar sem þátttakendur ganga 26 km. leið á jafnsléttu innanbæjar.  Að auki er undirbúningsfundur þar sem farið verður ítarlega yfir ferðaáætlun, tilhögun ferðarinnar, nauðsynlegan búnað, næringu og þess háttar. Viðburðirnir eru:

2. maí 2021: Undirbúningsferð 1
9. maí 2021: Undirbúningsferð 2
17. maí 2021: Undirbúningsfundur

Nauðsynlegt er að mæta í a.m.k. aðra undirbúningsferðina og á undirbúningsfundinn

Fararstjórar Sumaráskorunar Útivistar eru Guðmundur Örn Sverrisson og Hanna Guðmundsdóttir.

Aðstoðarfararstjórar eru: Guðrún Svava Viðarsdóttir og Kristjana Kristjánsdóttir en auk þess kemur fjöldi öflugra sjálfboðaliða að þessu spennandi verkefni.

Þátttökugjald eru 12.900 krónur á mann og innifalið í því er rúta, fararstjórn og skipulag, farangursflutningar, undirbúningsferðir, undirbúningsfundur og léttar veitingar að ferð lokinni.

Verð 12.900 kr.
Verð 12.900 kr.

Nr.

2105D00