Reykjavegur 1: Reykjanesviti – Eldvörp

Dags:

lau. 27. feb. 2021

Brottför:

kl. 9:30.

Þessi viðburður er liðinn.

Gangan hefst við Valahnúk á Reykjanesi og farið verður út á Öngulbrjótsnef. Þar má finna stórfenglega móbergsskúlptúra. Gengið meðfram ströndinni að Sandvíkum og yfir Reykjanesveginn að Prestastíg. Honum verður fylgt að Rauðhól og stefnan þaðan tekin á Eldvörp.

Fararstjóri er Grétar W. Guðbergsson

Verð til félagsmanna kr. 6.500 og innifalið í því er fararstjórn og rúta. Athugið að þeir sem bóka fyrirfram hafa forgang ef pláss í rútu er takmarkað.

Brottför kl. 9.30 frá bílastæði í Mjódd, vestan Breiðholtskirkju.

Til að taka þátt í ferðum Útivistar þarf að gerast félagsmaður, en þeir sem ekki eru þegar félagsmenn býðst að greiða félagsgjald kr. 8.000 og fá þá félagsskírteini og fyrstu dagsferðina í kaupbæti.

Í tilefni jarðskjálftahrinu á Reykjanesi.

Eðlilega velta margir fyrir sér göngunni um Reykjaveginn í ljósi jarðskjálftahrinunnar sem fór af stað í gær. Um það efni fylgjumst við með þeim tilmælum sem koma frá almannavörnum. Núna eru fyrirmælin sem snúa að útivist á svæðinu þessi:

Almennt um hættur á þekktum jarðskjálftasvæðum þar sem fólk er beðið um að gæta varúðar:

  • Vegna jarðskjálftahrinu á Reykjanesskaga er fólki bent á að forðast brattar hlíðar þar sem grjóthrun getur orðið og hætta á skriðuföllum getur aukist. Skriður og grjóthrun geta átt sér stað eftir stóra jarðskjálfta, líklegast á svæðum með óstöðugar hlíðar, bratta klettaveggi og laust efni, t.d. í nágrenni Kleifarvatns, Esjuna, Ingólfsfjall, Bláfjöll, Hengill, Keilir, Helgafell, Vifilsfell og fleiri þekkt útivistasvæði.
  • Skjálftar af stærð M5.5-6.5 geta átt sér stað á Reykjanesskaganum. Slíkir skjálftar geta valdið tjóni víða á áhrifasvæðinu.
  • Gas getur safnast fyrir í lægðum þegar það er logn eða hægur vindur.
  • Háir rekkar í vöruhúsum og/eða verslunum geta verið varasamir og hafa ber umferð fólks á slíku svæði í huga við jarðskjálfta.

(https://www.almannavarnir.is/frettir/jardskjalftahrina-a-reykjanesi-haettustig-almannavarna-i-arnessyslu/)

 

Í þessari göngu er ekki verið að ganga undir bröttum hlíðum sbr. fyrsta punktinn. Einnig ætti að vera ástæðulaust að hafa áhyggjur af því sem nefnt er í þriðja punkti um að gas safnist fyrir í lægðum í þeim vindi sem spár gera ráð fyrir, hætta á logni ætti ekki að vera fyrir hendi núna. Einnig er rétt að nefna að jarðfræðingar greina engan gosóróa eða vísbendingar um kvikuinnskot. Við munum að sjálfsögðu áfram fylgjast með þróun mála en eins og staðan er núna er ekki tilefni til að fella ferðina niður á þessum grunni.
(https://www.vedur.is/um-vi/frettir/skjalfti-m57-a-reykjanesi)

 

Við fylgjumst einnig með veðurspá eins og venjulega og eins og hún leit út á miðvikudaginn var tilefni til að skoða það að fella niður vegna veðurs. Spáin fyrir laugardaginn er hins vegar mun skaplegri núna þegar þetta er skrifað, heldur dregið úr vindi og engin úrkoma á áætluðum göngutíma eins og var í gær. Ef spáin breytist ekki til hins verra munum við því ekki fella niður vegna veðurs.

Verð 6.300 kr.

Nr.

2102D04
  • Suðvesturland