Útivist 10 ára

Texti: Sigurþór Þorgilsson
Ársrit Útivistar nr. 11 (1985)

Aðdragandi að stofnun
Á öndverðu ári 1975 mæltu sér mót nokkrir ferðafélagar og áhugafólk um ferðalög og holla útivist til skrafs og ráðagerða um stofnun öflugs félags er orðið gæti stoð og hvatning öllum þeim er hefðu sömu áhugamál.  Þarna var saman kominn hópur með dýrmæta reynslu í ferðalögum um Ísland, staðgóða þekkingu á ferðamálum almennt og framar öllu trú á gildi þess að stunda holla útiveru, þekkja og virða náttúru Íslands, sögu og menningu.
Margir höfðu um árabil verið félagar í Ferðafélagi Íslands og sumir haft þar ábyrgðarstörf með höndum, svo sem framkvæmda- og fararstjórn, viðhald, smíði og endurnýjun skála o.fl.

Kynni þeirra og samstarf við hugsjónamennina, frumkvöðlana, marga þjóðkunna atorkumenn sem með stofnun þess félags laust fyrir 1930, skipulögðu og hvöttu til ferða Íslendinga um sitt eigið land var hér dýrmætt veganesti.  Lög og framkvæmd þeirra hjá hinu nýja félagi hlaut því um margt að draga dám af Ferðafélagi Íslands.  Það má einnig ljóst vera, að markmið og leiðir hlutu stórt séð að verða þau hin sömu, byggð á sama grunni, ferðast á sömu slóðir og margir þátttakenda félagar í báðum félögunum.  En hugmyndin að stofnun slíks félags á Íslandi er komin frá samskonar félögum á hinum Norðurlöndunum og víðar.  Það má því til sanns vegar færa, að Ferðafélag Íslands hafi með gifturíkri starfsemi sinni rutt veginn fyrir Útivist.  Áhugi fyrir að stunda holla útiveru og löngun til þess að kynnast náttúru landsins, jafnt öræfum sem byggðu bóli, hefur vaxið frá því er áður var, er naumast var ferðast um óbyggðir eða milli landshluta nema í brýnum erindum.  Það hefur og komið í ljós, að full þörf var fyrir annað hliðstætt félag hér á þéttbýlissvæðinu.  Það sýnir hin mikla þátttaka í ferðum beggja félaganna, félagatal og starfsemin öll.

Félagið Útivist var stofnað 23. mars 1975.  Enda þótt eyktarmark það sem nú er hugað að í lífi og starfi hins unga félags gefi ekki tilefni til hugleiðinga um stórafrek, hefur starfsemin tvímælalaust markað spor, orðið mörgum lífsfylling í gráum hversdagsleik-anum, aukið skilning og virðingu fyrir náttúru Íslands, en fyrst og fremst orðið heilsubót, andleg og líkamleg.  Það þykir rétt að staldra við og líta yfir farinn veg, festa á blað bresti og sigra bernskuáranna á meðan þeir vara og standa oss svo ljóslifandi fyrir hugskotssjónum.

Stofnun, lög og stjórn
Hér hefur lítillega verið rakinn aðdragandi að stofnun Útivistar, en framámenn um stofnunina höfðu boðað til stofnfundar sunnudaginn 23. mars 1975, í Lindarbæ í Reykjavík.   Á fundinum voru mættir 54.  Til stofnfundarins höfðu áhugamenn verið boðaðir, en fundurinn ekki auglýstur.  Var ætlunin, að sá hópur yrði síðan leiðandi afl innan félagsins, úr honum yrði valin stjórn og kjarni sem kæmi starfseminni í gang og sæi um vöxt og viðgang.
Einar Þ. Guðjohnsen setti fundinn og skipaði fundarstjóra Bergljótu Líndal og fundarritara Jón I. Bjarnason.  Einar, sem jafnframt var frummælandi og aðalhvatamaður að stofnun félagsins rakti nokkuð aðdraganda að boðun fundarins, tilgang félagsins í stórum dráttum svo og hugsanlegt skipulag.  Lögð voru fram drög að lögum fyrir félagið, þau lesin og kynnt lið fyrir lið.  Gátu nú fundarmenn melt í hugskoti sínu fyrir umræður, félagsstofnunina, tilgang og innihald laganna.  Umræður urðu langar og fjörugar.   Var nú borið undir fundinn, hvort stofna skyldi hið nýja félag.  Fundarmenn voru því meðmæltir allir sem einn.
Lög félagsins sem einnig voru samþykkt samhljóða skulu hér birt með lagfæringu síðari tíma eða eins og þau hljóða þegar þetta er skráð.

1. gr.
Félagið nefnist Útivist, og tilsvarandi á erlendum málum: Outdoor Life, Friluftsliv o.s.frv.  Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.

2.gr.
Tilgangur félagsins er að stuðla að útivist fólks í hollu og óspilltu umhverfi.

 3. gr.
Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að: a) Gefa út rit, sem hvetji fólk til ferðalaga og hollrar útivistar.  b) Stuðla að ferðum (einkum gönguferðum) um Ísland og önnur lönd.  c) Hafa vinsamlegt samband við aðra aðila sem vinna að skyldum verkefnum utanlands eða innan.  d)  Koma upp gistiskálum, sem auðvelda ferðir og útivist á Íslandi.  e)  Láta yfirleitt til sín taka mál, sem snerta ferðalög og útivist, eftir því sem stjórn og félagskjarni (samanber 4. gr.) sjá ástæðu til hverju sinni.

4. gr.
Félagsmenn kjósa 25 manna félagskjarna, sem hefur það hlutverk að standa vörð um stefnu og stjórnun félagsins.  Aðalfundur kýs 6 menn til vara í félagskjarnann og ganga þeir upp sem aðalmenn sjálfkrafa eftir þeirri röð sem þeir eru kjörnir í, ef sæti losnar í félagskjarnanum.  Vilji menn segja sig úr félagskjarnanum, skal það gert skriflega.  Halda skal minnst þrjá félagskjarnafundi milli aðalfunda.  Sá félagskjarna-maður, sem ekki mætir á neinn félagskjarnafund á milli aðalfunda fellur úr kjarnanum sjálfkrafa, nema um lögleg forföll sé að ræða, enda séu þau boðuð.  Félagskjarninn kýs úr sinum hópi fimm aðalmenn í stjórn félagsins: Formann, ritara, gjaldkera og tvo meðstjórnendur. 

Kosning aðalmanna skal vera skriflega.  Þá skal kjósa þrjá varamenn í stjórnina.  Annar meðstjórnenda gegnir embætti varaformanns og er hann kjörinn á fyrsta stjórnarfundi.  Kjörtímabil stjórnarinnar er eitt ár, og/eða á milli aðalfunda.  Stjórnarkosning fer fram strax og við verður komið að afloknum aðalfundi.  Varamenn skal boða til stjórnarfunda.  Stjórnin ber ábyrgð gagnvart félagskjarnanum og sér hún um daglega rekstur félagsins og getur ráðið til þess starfsfólk, eins og þurfa þykir.  Forfallist stjórnarmaður kýs félagskjarninn annan í hans stað.  Lögum félagsins verður ekki breytt nema af félagskjarnanum.  Afl atkvæða ræður á félagskjarnafundum, enda hafi allir verið boðaðir og helmingur félagskjarnans sé mættur, að öðru leyti setur félagskjarninn sér starfsreglur.

5. gr.
Félagar geta allir orðið. Árgjald verði ákveðið af kjarnanum hverju sinni.  Félagsmenn, sem greitt hafa árgjald sitt, fá ,,ÚTIVIST” rit félagsins frítt.  Aukafélagar geta fengið inngöngu í félagið og notið hlunninda þess, annarra en að fá rit félagsins.  Kjarninn ákveður gjald þeirra.  Kjarninn getur ennfremur ákveðið, hvort velja skuli heiðursfélaga, sem verði gjaldfrjálsir.

6. gr.
Aðalfundur skal haldinn fyrir marslok ár hvert, og verði þar gefin skýrsla um starfsemi félagsins, og lagðir fram endurskoðaðir reikningar þess.  Þar geta félagsmenn borið fram tillögur sínar um félagsmál.  Hljóti þær meirihluta atkvæða á fundinum verður þeim vísað til kjarnans til ákvörðunar.  Aðalfundur kýs einn endurskoðanda og annan til vara.  Löggiltur endurskoðandi sé einnig fenginn til að endurskoða reikninga félagsins.

7. gr.
Félaginu verði ekki slitið nema allur kjarninn sé því samþykkur, enda hafi aðalfundur félagsins samþykkt það áður og þess verið getið í fundarboði.  Jafnframt verði tekin ákvörðun um hvernig eignum félagsins skuli ráðstafað, enda renni þær til hliðstæðs félags eða stofnunar á sama svæði.

8. gr.
Ákvæðum annarrar greinar um tilgang félagsins og sjöundu greinar um félagsslit má ekki breyta.

Samkvæmt 4. gr. laganna lá nú næst fyrir á fundinum að kjósa 25 manna félagskjarna og 6 til vara.  Skyldi kjarninn strax að loknum stofnfundi halda sinn fyrsta fund og kjósa 3 menn í stjórn félagsins.  Seinna var svo bætt við 2 meðstjórnendum og 3 til vara.

Kjarninn var skipaður eftirtöldum, skráðum í þeirri röð er rituðu nöfn sín í gerðabók.

Einar Þ. Guðjohnsen,    Sólveig Kristjánsdóttir,         
Jón I. Bjarnason,    Bergsteinn Jóhannesson,
Friðrik Daníelsson,    Ísak Hallgrímsson,
Tryggvi Halldórsson,    Jóhannes Ellertsson,
Guðrún Þórðardóttir,    Nanna Kaaber,
Þór Jóhannsson,    Kolbrún Jónsdóttir,
Ragnar Sæmundsson,   Óttar Kjartansson,
Magna Ólafsdóttir,    Þorleifur Guðmundsson,
Steinunn Stephensen,   Ólafur Sigurðsson,
Ragna Kemp,     Vilhjálmur H. Vilhjálmsson,
Unnur Marinósdóttir,    Pétur Sigurðsson,
Karl Sigurðsson,     Ásbjörn Magnússon.
Jóhanna Traustadóttir,

Alls voru þetta 25 félagar.  Samkvæmt fyrstu drögum 4. greinar skyldi kjarninn velja sjálfur félaga í stað þeirra sem féllu út úr kjarna.  Seinna var greininni breytt meira í lýðræðisátt og skyldi aðalfundur kjósa 6 menn til vara í félagskjarnann sem sjálfvirkt kæmu þar inn.  Endurskoðandi var kjörinn Stefán Nikulásson og til vara Guðjón Jónsson.

Að loknum aðalfundinum hélt kjarninn fyrsta fund sinn og tók fyrir dagskrána:
1. Stjórnarkjör.
2. Önnur mál.

Kosnir voru 3 menn í stjórn Útivistar:
  Einar Þ. Guðjohnsen,
  Jón I. Bjarnason,
  Þór Jóhannsson.

Undir önnur mál var rætt um stofngjald, félagsgjöld og aukafélagsgjöld.  Félagar kosnir í kjarna skyldu greiða stofngjald kr. 5000.00.  Almennt félagsgjald skyldi vera kr. 2000.00.  Hér er að sjálfsögðu átt við svokallaðar ,,gamlar krónur”.  Í félagsgjaldinu skyldi innifalin árbók félagsins og réttur félaganna til ferða á lægra verði en utanfélagsmenn greiddu.  Aukafélagsgjald skyldi ákveðið síðar.  Rætt var um brottfararstað í ferðum félagsins og hefur hann alla tíð síðan verið á plani Umferðar-miðstöðvarinnar að vestanverðu.  Að lokum var rætt um nefndir, sem þyrfti að koma á fót, ýmis störf sem þyrfti að inna af hendi svo sem samningu ferðaáætlunar, ritstörf o.fl.  Var kjarnafundi síðan slitið.

Hélt nú hin nýkjörna stjórn sinn fyrsta fund og tók fyrir eftirfarandi:

1. Verkaskipting stjórnar.

2. Fréttatilkynning í fjölmiðlum og stofnun félagsins.
Stjórnin skipti þannig með sér verkum, að Þór Jóhannsson var kjörinn stjórnarformaður, Jón I. Bjarnason ritari og Einar Þ. Guðjohnsen meðstjórnandi og skyldi hann jafnframt gegna framkvæmdastjórastarfi í félaginu.  Ritaranum Jóni I. Bjarnasyni var falið að koma fréttatilkynningu um félagsstofnunina í fjölmiðla.
Föstudaginn 4. apríl birtu fjölmiðlar, blöð og útvarp, fréttina.  Var þar getið um hinn lokaða stofnfund, heiti félagsins og stjórnina.  Birtir voru kaflar úr lögunum, getið um tilgang og markmið og endurskoðendur nefndir.  Tekið var fram, að til þess að geta orðið félagi þyrfti að fá meðmæli frá félagsmanni, en því ákvæði var fljótlega breytt.  Í lok fréttarinnar var þess getið að félagið hyggðist fara hina fyrstu göngu sína sunnudaginn 6. apríl.  Skyldi ganga á Keili og skoða umhverfi hans.  Ekið skyldi til óbrynnishólmans Höskuldarvalla og komið við hjá Hvernum eina og fleiri markverðum stöðum.  Reyndur fararstjóri, fróður vel og manna kunnugastur á þessum slóðum, Gísli Sigurðsson, skyldi leiða gönguna.

Þar með voru framtíðaráform Útivistar mörkuð, a.m.k. um sinn eða þar til að lögum yrði breytt, en strax á aðalfundinum vildu menn vita hvernig 4. greinin yrði í framkvæmd.  En á öllum aðalfundum síðan hefur verið rætt um þessa grein laganna og hefur sýnst sitt hverjum.  Skiptast menn nokkuð í tvo hópa, með eða á móti valdsviði kjarnans.  Má segja að báðir hafi nokkuð til síns máls.  En greinin um kjarnann hefur staðið svo til óbreytt í tíu ár.
Nú skal vikið að þessari lagagrein og framkvæmd hennar.  Hlutverk kjarnans er, eins og segir í grein 4, að standa vörð um stefnu og stjórnun félagsins.  Í stórum dráttum má segja að í framkvæmd séu hin árlegu, hefðbundnu afskipti aðalfundar af málefnum félagsins og þá um leið stjórnunarleg afskipti látin í hendur kjarnans.  Þetta hefur sína kosti og ókosti.  Kostirnir eru bestir fyrir stjórnina sem ekki þarf að leita til aðalfundar um framkvæmd eða breytingu heldur kalla til kjarna um ákvörðun, hvenær sem þurfa þykir.  Einnig má telja það kost, að félagar, sem eru oft árum saman í kjarnanum, eru málefnum félagsins og hinum daglega rekstri kunnugri en hinn almenni félagi, sem aðeins tekur þátt í ferðum og mætir á aðalfundi.  Ókostirnir eru helstir, að of fáir taka ákvörðun fyrir of marga.  Aðalfundur er gerður hlutlaus, með því að samþykkt hans er ekki endanleg í veigamestu málefnum félagsins, kjöri stjórnar og lagabreytingum, sem hvort tveggja skal framkvæmt af hinum 25 félagsmönnum í kjarnanum.  Þar taka 25 félagsmenn ákvörðun fyrir hina nærri 2000.  Þar að auki setur kjarninn sér starfsreglur sjálfur og öllum samþykktum aðalfundar skal vísað til hans til ákvörðunar.  Valdatími kjarnans tekur yfir mörg ár og einu afskiptin sem aðalfundur hefur honum viðkomandi er að kjósa til hans varamenn.  Mörgum félagsmönnum finnst að hlutleysi hins almenna félaga sé of varanlegt.  Um þetta hefur verið fjallað margsinnis utan félags og innan, en þrátt fyrir kjörnar laganefndir og góðan vilja stjórnar og kjarna stendur 4. greinin svo til óbreytt frá stofnfundi.  Þá má spyrja hvað valdi.  Því er helst til að svara, að samvinna stjórnar og kjarna hefur verið góð.  Í báðum eru starfsfúsir félagar ætíð tilbúnir til starfa, en að mörgu var að hyggja í hinu unga félagi, fjárvana, því ætíð hefur gjaldi í ferðum verið stillt svo í hóf, að kostnaður og gjald jafnist nánast út.  Sum árin hefur orðið fjárhagslegur halli á rekstrinum.  Hefur þá tiltölulega þröngur hópur félagsmanna, stjórn og kjarnafólk, hlaupið undir bagga með peningagjöfum, ábyrgðum og ómældri sjálfboðavinnu.  Annríki hefur verið mikið og vaxið með ári hverju, eins og lesa má í þessari afmælisgrein, svo að endurskoðun laga um kjarna og aðalfund hefur hreinlega vikið fyrir annarri starfsemi.

Enginn sjóður var myndaður eða fjárframlög innt af hendi af félagsmönnum á stofn-fundinum 23. mars utan stofngjaldsins sem kjarninn innti af hendi.  Allt fé til starfsins var því að koma jafnhliða því sem starfsemin hófst.  Stofnfundurinn og félagsstofn-unin var í raun framkvæmd kringum áformin ein með að bakhjalli áhugasama og vinnufúsa félaga.

Hin fyrstu verk nýkjörinnar stjórnar voru margþætt og þurfti að hraða nokkuð, því að senn leið að vori og ,,ferðavertíðin” framundan.  Nauðsynlegt var að finna húsnæði fyrir skrifstofuhald og fundi sem væri það miðsvæðis í Reykjavík að eigi þyrfti að leggja lykkju á leið sína.  Vel þótti því til takast, þegar húsnæði fékkst leigt að Lækjargötu 6a, en þar hefur Útivist haft aðsetur í 10 ár.  Hafa Útivistarfélagar bætt það og lagfært og gert hið vistlegasta.  M.a. hefur verið útbúið gott fundarherbergi sem hlotið hefur nafnið ,,Gíslabúð” til heiðurs hinum mikla og gjöfula velunnara félagsins, Gísla Albertssyni.  En nokkuð af húsnæðinu hefur félagið leigt út frá sér.  Sótt var um starfsleyfi til ráðuneytis og viðurkenningu á tilveru félagsins sem ferðafélags, samkvæmt 8. gr. laga um ferðamál, nr. 4 frá 1969.

Jákvætt svar við þeirri málaleitan barst stjórninni 13. maí 1975, þar sem Útivist fær staðfestan tilverurétt sinn og samþykki sem ferðafélag í skilningi nefndra laga.

Ferðaáætlun fyrir árið var þegar í undirbúningi og kom litlu síðar út litprentuð að upplagi fimm þúsund eintök.  Unnið var að söfnun efnis í fyrsta ársritið, skyldi það vera blandað efni sem það og hefur verið ætíð síðan.  Laun framkvæmdastjórans voru ákveðin, að hann var eini starfsmaður félagsins sem greidd voru laun auk starfsfólks sem síðar var ráðið á skrifstofu.  Þingað var um leiðir til þess að auka félagatöluna, en allir fastir félagsmenn greiða árgjald, félagsgjald.  Gegn greiðslu árgjaldsins fá félagsmenn ársritið og helgar- og sumarleyfisferðir með afslætti, svo sem stofnfundurinn ákvað.   Félagsgjaldið er í raun eina tekjulind félagsins.  Með því er greiddur kostnaður við útgáfu ritsins Útivist, laun framkvæmdastjórans og skrifstofu-kostnaður.

Félagar bera númer á félagaskrá eftir þeirri röð sem þeir ganga í félagið.  Félagi nr. 1 í félagaskránni er Einar Þ. Guðjohnsen og er talan komin yfir 2300 í númeraröðinni, en að frádregnum þeim er fallið hafa úr er félagatalan 1850.
Stjórn Útivistar gerði sér strax grein fyrir því, að ekki yrði ferðast með hópa um landið á öllum tímum árs, nema að gisting í húsi væri tryggð.  Það var því snemma samið við skólastjórnir og stjórnir hreppsfélaga um helgarafnot af skólahúsnæði og félagsheimilum víðs vegar, þegar þau annars stóðu auð.   Hefur samvinna við ráðendur þeirra húsa verið með ágætum.  Síðast en ekki síst var Ferðafélagi Íslands skrifað bréf, strax í maí 1975, með beiðni um afnot af húsnæði félagsins í óbyggðum.  Hefur slíkt leyfi ætíð síðan verið fúslega veitt, gegn sanngjörnu gjaldi, þegar félagið hefur ekki sjálft þurft að hafa afnot af skálum sínum.

Allur daglegur rekstur, svo og skipulag allt tengt félaginu, innan þess og utan, mæddi svo til eingöngu á framkvæmdastjóranum fyrstu sex árin eða þar til Einar Þ. Guðjohnsen sagði starfi sínu lausu í október 1981, að störfum var dreift á fleiri hendur.  Útivist á Einari mikið að þakka.  Auk þess að vera í forsvari fyrir stofnun félagsins og aðalhvatamaður þar naut Útivist í öndverðu þekkingar hans, reynslu og dugnaðar.  Strax fyrstu árin tókst Einari að stuðla að og skipuleggja lengri eða skemmri ferðir tveggja til fimm þúsunda farþega árlega.  Í fjölmörgum ferðunum var hann einnig fararstjóri.  Hann ritstýrði ársriti félagsins, safnaði saman efni í það og bjó til prentunar fyrstu 6 árin, ásamt Jóni I. Bjarnasyni.  Ferðamál í þágu lands og þjóðar hafa lengi verið Einar Þ. Guðjohnsen hjartans mál og hefur hann í ræðu og riti lagt þar margt gott til.  Þegar Einars naut ekki lengur við gengu félagarnir í störfin fyrst í stað, án þess að nýr framkvæmdastjóri yrði ráðinn.  Nokkrir unnu í ígripum á skrifstofunni eða þar til að ráðinn var fastur starfskraftur.  Þeir sem gripu í  þau störf í lengri eða skemmri tíma voru: Elín Gunnarsdóttir, Þórunn Christiansen og Erla Jóhannesdóttir.

Síðan tók Kristján M. Baldursson sem áður hafði verið í fararstjórn á vegum félagsins að sér skrifstofustjórn, ásamt því að vera áfram einn af aðalfararstjórum félagsins.  Yfir háannatímann á sumrin hefur verið ráðinn aðstoðarmaður á skrifstofu, og gegndi Guðbjörg Gunnarsdóttir því starfi sl. sumar.

Störf skrifstofustjóra og aðstoðarfólks hans eru margþætt.  Auk þess að vera ætíð til taks og veita allar upplýsingar um ferðir og allt þeim tilheyrandi þarf að útvega farartæki og fararstjóra, sjá um gistingu og selja farmiða, auk hins almenna skrifstofu-halds.  Oft er mikill erill á slíkri skrifstofu.  Utan skrifstofutíma veitir sjálfvirkur símsvari allar nauðsynlegar upplýsingar.

Árið 1981 var fjölgað í stjórn félagsins og lögum breytt til þess að svo mætti verða.  Stjórnarmenn eru nú 5 talsins og 3 til vara.  Með hinum fjölmörgu fundum sínum, sem frá stofndegi eru nú orðnir 140 talsins, hefur stjórnin lagt félaginu til ómælda fórnfúsa vinnu, þar sem teknar hafa verið ákvarðanir um daglegan rekstur svo og mál er komið hafa upp og þurft hefur að leysa.  Kjarnafundir skyldu vera minnst 3 milli aðalfunda, en í seinni tíð hafa þeir orðið fleiri.  Til funda með stjórn eru oft boðaðir forsvarsmenn nefnda þeirra, er annast hafa hin ýmsu málefni fyrir félagið.
Aðeins einn af þeim þremur, sem upphaflega voru kjörnir í stjórn félagsins, hefur setið í stjórn öll 10 árin. Er það stjórnarformaðurinn Þór Jóhannsson.  Fyrsti og eini framkvæmdastjóri félagsins sagði starfi sínu lausu árið 1981 eins og áður er getið.  Fyrsti ritari félagsins, Jón I. Bjarnason, lést í febrúar 1983.  Jóns heitins var minnst í ritinu Útivist 1983.

Stjórnarformaðurinn hefur innt af hendi mikið og gott starf fyrir Útivist.  Auk þess að hafa setið og stjórnað svo til öllum stjórnarfundum frá upphafi, hefur hann leitt byggingarstarfið í Básum og unnið þar hörðum höndum sem aðrir.  Þegar erfiðleikar hafa steðjað að og vandamál komið upp, eins og gerst hefur á þessum anna- og umbrotatíma hjá hinu unga félagi, hafa málin verið til lykta leidd með rósemi og yfirvegun undir stjórn formannsins Þórs Jóhannssonar.  Stjórn Útivistar skipa: Formaður Þór Jóhannsson, varaformaður Jóhanna Boeskov, ritari Gísli Svanbergsson, gjaldkeri Óli G.H. Þórðarson, meðstjórnandi Ragna Kemp.  Varamenn í stjórn eru Jóhanna Sigmarsdóttir, Ingibjörg S. Ásgeirsdóttir og Hörður Kristinsson.

Landnám og skálabygging
Á stofnfundinum 23. mars mátti strax heyra hver áhrif 3. greinin í lögunum hafði á hugi fundarmanna, en í henni, d-liðnum segir, að tilgangi sínum hyggist félagið ná m.a. með því að koma upp gistiskálum sem auðvelda ferðir og útivist á Íslandi.  Létu fundarmenn í ljós þá skoðun sína, að fyrst af öllu yrði hugað að landnámi í Þórsmörk. Virtust óskir manna þegar tímar liðu fara saman í því máli, þótt nokkuð væri á reiki skoðanir á staðarvali innan Merkurinnar.  Útivist gat í raun sætt sig við hvaða gróður-reit sem bauðst væri hann aðgengilegur.  En með tilliti til þess farartálma sem Krossá er, þótti mörgum það viturlegt að stefna að landi sunnan Krossár, í Goðalandi.  Gat þar verið um tvennt að ræða, gróðurreitin vestan við Strákagil eða dalverpið Bása milli Réttarfells og Bólfells.  Gönguleiðir eru þar nokkrar, en flestar á brattann að sækja.  Vestan Krossár er aftur fjölbreyttara gönguland, sérstaklega á láglendi.  Nú er það svo enn þann dag í dag að fjöldi manna, utan félags og innan, telur ferð yfir Krossá óæskilega og vill gjarnan eiga þess kost að gista í húsi sunnan hennar.

Það varð því að ráði að Skógrækt ríkisins var skrifað þegar í maí mánuði 1975 og beðið um aðstöðu fyrir félagið í Goðalandi.  Sumarið leið og ekki barst svar frá Skógrækt ríkisins, hvorki játandi né neitandi.  Munu útivistarmenn hafa verið eitthvað tvístígandi yfir ákvörðuinnni, svo og að æskilegra þótti að eiga aðgang að kjörlendingu til göngu norðan Krossár.  Var nú skrifuð önnur umsókn og farið fram á umráðarétt yfir Stóraenda og Litlaenda, skógi vöxnum dalverpum sem skerast inn að Tindfjöllum.  Skyldu  framkvæmdastjóri og ritari félagsins jafnframt fara á fund skóg-ræktarstjórans og ræða við hann um slíkt húsbóndavald með skálabyggingu í huga.  Var ætlunin að uppgræðsla og hefting landbrots yrði byrjunin á landnáminu.  Gegn landverndaraðgerðunum skyldi Útivist fá tjaldleyfi ókeypis.  Nú var fordæmi fyrir slíkri úthlutun lands í Þórsmörk sem er umráðaréttur F.Í. í Langadal og Farfugla í Slyppugili.
Eftir nokkurt fundarhald með skógræktarstjóra Hákoni Bjarnasyni varðandi Stóraenda, var í fyrstu gefin munnleg staðfesting á umráðaréttinum, en síðan staðfest með bréfi 17. maí 1976 svohljóðandi:

,,Skógrækt ríkisins veitir hér með félaginu Útivist leyfi til tjaldvistar á Stóraenda,  uns annað verður ákveðið og felur félaginu umsjón með þessu dalverpi þannig, að það getur leyft eða bannað öðrum tjaldstæði þar.  Hefur félagið með því húsbóndarétt á Stóraenda á sama hátt og Ferðafélag Íslands í Langadal.”

Stóriendi í Þórsmörk hefur margt til síns ágætis.  Þar mun vera skýlla en víða annars staðar á svæðinu.  Jarðvegur er þar þykkur, sums staðar nokkrir metrar á þykkt.  Í norðlægum áttum hefur fokmold frá norðurafréttunum fallið niður í lygnunni sunnan Tindafjalla sem rísa 557 metra yfir sjó.  Dalverpið er svo til alvaxið skógi og liggur vel við sól.  Þar er og vel vaxinn skógarlundur með greni og furu sem Skógrækt ríkisins plantaði á sínum tíma.

Átti nú þessi vinalega gróðurvin eftir að verða óska- og framtíðarland Útivistar í Þórsmörk?  Það töldu að minnsta kosti landnemar í Útivist, er efnt var til sérstakrar landnámsferðar í Stóraenda í júní 1978.  Lagt var upp með tjöld til gistingar, áburð, fræ og áhöld.  Íslenski fáninn var reistur á hólnum austan lækjarins og unnið að hreinsun og sáningu.  Salernishús var sótt yfir í Bása og reist á staðnum og sléttað og sáð fyrir tjaldstæði.  Athugað var hugsanlegt stæði fyrir skála.  Íslenska sumarið skartaði sínu fegursta þessa helgi og þótti landnemunum landnámsferðin sérstaklega vel heppnuð.  Nú þyrfti hið bráðasta að fara að hugsa fyrir húsi.  Menn voru nokkuð sammála um að stærð skála skyldi stillt í hóf.  Helst ætti skálinn að vera ein hæð með svefnpalli.  Skyldi efnt til happdrættis með vinninga í ferðum félagsins til fjáröflunar.  Gerist nú margt í senn í skálamálunum.  Tillaga um skála berst frá Önnu Kristínu Þórsdóttur arkitekt.  Ólafur Sigurðsson er beðinn að gera uppdrátt að skála fyrir Stóraenda.  Sú tillaga að 65 m2 skála barst að hausti 1976.  Á sama tíma bjóðast félaginu nokkur gömul hús ýmist til kaups eða gefins.  M.a. býður Örlygur Hálfdánar-son húsið að Vesturgötu 40 að gjöf.  Húsið var járnklætt timburhús, ein hæð, um 50m2, byggt á hlöðnum kjallara.  Skyldi Útivist sjá um að flytja húsið burtu.  Var Ólafur Sigurðsson arkitekt beðinn um að meta húsið og dæma um flutningshæfni þess.  Stjórn Útivistar og arkitektinn voru sammála um, að fengur væri að húsinu.  Reyndist það við skoðun með heillega viði og panelklæðning að innan nokkuð vel farin.  Hafði verið búið í húsinu til skamms tíma.  Var ákveðið að taka tilboði Örlygs.  En í stað þess að flytja húsið inn í Þórsmörk, var nú fengin heimild Borgarstjórnar Reykjavíkur til þess að setja húsið niður á lóð við Umferðamiðstöðina og skyldi nýta það sem skrifstofuhúsnæði fyrir félagið.  Til þessa kom aldrei og var gengið frá hugmyndinni um yfirtöku þessa húss.  Bauðst nú annað hús einnig einlyft, hafði það staðið á horni Sólvallagötu og Bræðraborgarstígs og þurfti að víkja fyrir stóru húsi.  Húsið var falt fyrir 800 þúsund gamlar krónur og var í eigu hjónanna Björns Magnússonar og Sigrúnar Kaaber.  Létu þau setja nýtt járn á þakið og smíða efnis-mikla stálgrind undir það nokkru stærri en grunnflötur þess.  Skyldi húsið þjóna sem sumarhús með verönd.  Húsið stóð við vélsmiðjuna Keili við Kleppsmýrarveg.  Kaup voru nú gerð og húsið flutt til geymslu upp á Ártúnshöfða.

Hallgrímur Benediktsson húsasmíðameistari var fenginn til þess að yfirfara og laga húsið og búa það til flutnings inn í óbyggðir.  Var þetta fyrsta en ekki hið síðasta verk Hallgríms í húsbyggingarsögu félagsins.
Nú gerðu stjórnendur Útivistar sér grein fyrir því, að hús sem hýsti 10-15 manns væri vart endanlegt takmark félagsins á húsnæði í Þórsmörk, svo vinsæll sem staðurinn reynist til útivistar.  Það var því hugað að stærri byggingu, nýrri eða gamalli.  Var jafnframt rætt um að selja húsið af Bræðraborgarstígnum og leggja andvirði í annað stærra hús.  Tillaga kom um að fá leyfi fyrir húsið í Landmannalaugum.  Leitað var tilboða í stærri hús bæði ný og gömul.  Rætt var við forráðamenn Húsasmiðjunnar um kaup á fleka- og einingahúsi með sérstökum lánakjörum.  En nú hafði verið myndaður skálasjóður með kr. 137.500.  Önnur teikning að skála í Þórsmörk barst frá Ólafi Sigurðssyni, en skálinn þótti of viðamikið mannvirki til að byrja með.  Til kaupa á nýju húsi var félagið fjárvana, en til þess að afla fjár var kosið í fjáröflunarnefndir, karlanefnd og kvennanefnd.  Nokkrir félagar hlupu hér undir bagga með fjárframlögum, þar má nefna Gísla Albertsson, Rögnu Kemp og Þorleif Guðmundsson.

Stjórn Útivistar fylgir nú eftir áformum sínum með landnám og skálabyggingu í Þórsmörk.  Viðræður halda áfram við nýskipaðan skógræktarstjóra Sigurð Blöndal sem fellst á nauðsyn þess að félagið fái land fyrir skála í Þórsmörk.  Viðræður við hann leiddu í stuttu máli til þess, að Útivist fékk úthlutað 3000 m2 landi fyrir skála í Básum á Goðalandi.  Skilyrði fyrir byggingu á svæðinu var að sjálfsögðu, að heimild til byggingar fengist hjá jarðanefnd Rangárvallasýslu svo og hreppsnefnd Fljótshlíðar-hrepps.
Var nú landnámið í höfn, en hafði í raun farið tvisvar yfir Krossá og Krossáraura.
Vart verður gert upp á milli þessara tveggja sælureita í Þórsmörk, Stóraenda og Bása.  Þó er landrými allmiklu meira í Básum og aðkoman stórum betri, þar sem ekki þarf að fara yfir Krossá.  Auk þess þóttu vatnsból í Stóraenda ótrygg og stæði fyrir hús óaðgengilegt.

Básar eru vel gróin dalverpi sem ganga til suðurs í fjalllendið Goðaland.  Svæðið afmarkast af Réttarfelli að vestan, Bólfelli að austan og Útigönguhöfða í suðri og suðaustri.  Svæðið opnast til norðurs með tvo útverði sinn til hvorrar handar, sem er Bólhaus að austan og Hattur að vestan.  Birkiskógur og kjarr vaxa upp í miðjar hlíðar á svæðinu og eykur á fjölbreytni gönguleiða bæði á láglendi á Krossáraurum og í dala- og giljadrögum Goðalands.  Fyrir fjallgöngur er Goðaland kjörlendi.  Fögur útsýn er til norðurs og norðvesturs úr Básum, þar sem við blasir norðurfjalllendi Þórs-merkur með Rjúpnafelli, Tindafjöllum og Langadal, Slyppugili, Litlaenda og Stóraenda.  Sem kóróna yfir sköpunarverkinu gnæfir hvítur Tindfjallajökull með hnjúkunum Ými og Ýmu.  Veðursæld er og mikil í Básum.  Þar er og dýrmæt perla, Básalækurinn, sem liðast milli kjarri vaxinna bakka.

Um þetta leyti fær stjórn Útivistar upplýsingar um húsið að Grettisgötu 5, sem skyldi rífa og fjarlægja.  Samningur var gerður um eignaraðild að viðum þess.  Húsið var hæð og ris með porti og stóð á hlöðnum kjallara 65 m2 að flatarmáli.  Lítið er vitað um forsögu þessa húss framyfir það sem í ljós kom við rif þess.  Fyrrum íbúi, sem átti leið hjá þegar þeir feðgar Eiríkur Eiríksson og Eiríkur Símon Eiríksson voru að rífa húsið tjáði þeim, að það hefði verið ákaflega kalt.  Í ljós kom að engin einangrun var í húsinu, aðeins pappalag á milli þilja.  Menn geta sér til um, að húsið hafi verið innflutt, líklega norskt.  Allt efnið tilreitt í Noregi og sett upp samkvæmt teikningum og merkingum.  Það sem olli vangaveltum og furðu var, að hús skyldi reist á Íslandi, þar sem hvergi var að finna nagla í grind utan eins sex þumlunga nagla í hverri sperrutá á lausholtunum.  Allur burðarviðurinn voru heil tré, tilhöggvin sem kallað er.  Allir viðirnir voru merktir saman með rómverskum tölum, lausholt og bitar með hökum, sem féllu í sína gróp á samsetningarstaðnum.  Stoðirnar voru allar lausar, en grópaðar í grindina, lásuð saman með fleyg á milli til festingar.  Stafnar voru báðir stífaðir og tekið hálft í hálft í krossinum.  Húsið var allt klætt á grindina með 1 ½ þumlungs plægðum viði 6 og 8 þumlunga breiðum.  Gólfborð voru einnig úr plægðum viði, 1 ¼ þumlungs þykkum.  Húsið var klætt að innan með panel, strigalögðum.  Hvergi var fúa að finna í húsinu enda voru menn sammála um að vel hefði blásið um viði þess.  Stjórn Útivistar tók nú lán í nafni félagsins til þess að standa undir kostnaði við efni og flutning.  Gengu stjórnarmenn í ábyrgð fyrir láninu, en kostnaður við efnið komið í Bása reyndist 2 milljónir króna.  Hér lagði kvenna-nefnd fram fjármagn svo og nokkrir einstaklingar þar á meðal Gísli Albertsson, Þór Jóhannsson, Jón I. Bjarnason og Bergljót Líndal.

Ólafur Sigurðsson arkitekt teiknaði húsið að nýju með þeim breytingum, að lengd þess var aukin um 5,5 metra og kvistur og þakgluggar settir á rishæðina.  Skyldu nýir gluggar með tvöföldu gleri koma í stað þeirra gömlu.  Grunnflötur skálans var nú kominn í 86 m2.  Hluta efnisins, aðallega klæðningunni að innan var komið í geymslu í Reykjavík, en annað efni af Grettisgötu 5 beið þess að verða flutt í Bása.

Helgina 4.-6. júlí 1980 var farið í hina fyrstu byggingarferð í Bása undir stjórn formannsins Þórs Jóhannssonar, en hann var jafnan byggingarstjóri í öllum bygg-inga ferðum í Bása eftirleiðis.  Skyldi skálinn staðsettur, grafið, hæð tekin á grunni og slegið upp fyrir steyptum undirstöðum.  Ólafur Sigurðsson arkitekt mældi út stærð og hæð samkvæmt teikningunni, sem nú hafði fengið samþykkt byggingaryfirvalda.  Skálanum var fundinn staður undir Bólfelli, svo sem heimild fyrir byggingunni kvað á um, nánar tiltekið á sléttum bala fast við rætur fellsins að vestanverðu.  Skyldu gaflar vísa nokkurn veginn í norður og suður með inngangi á suðurgafli.   Var nú hafist handa með gröftinn, og mátti lesa jarðsöguna í litbrigðum jarðvegsins þar sem skiptust á fokmold, aska og vikur.
Ekki tókst að grafa niður á fasta undirstöðu, því þegar búið var að grafa skurð, einn metra á dýpt, var járnkarli stungið niður án þess að fastur botn fyndist.  Var styrkur undirstöðunnar endurreiknaður og ákveðið að skálinn skyldi standa á steyptum ,,fljótandi” undirstöðum, sem væru járnbentar, 1 metri á dýpt og 25 cm þykkar.  Fengin var grafa með skúffu til þess að flytja möl til undirstöðu fyrir mótin, sem voru smíðuð í flekum og stungið niður, skorðuð og stífuð af.  Að kvöldi sunnudags 15. júlí var steypubifreið frá Hvolsvelli komin á staðinn og steypt.  Á tveimur helgum hafði öll þessi vinna verið innt af hendi og þótti vel að verki staðið.

Þegar hér var komið sögu hafði húsinu af Bræðraborgarstígnum ekki verið ráðstafað.  Það var því ákveðið að húsið skyldi flytja inn í Bása og nota sem eldunar-, matar- og svefnskála fyrir vinnandi Útivistarfólk, en ætlunin var að stefna þangað hópum til vinnu allar helgar frá júlíbyrjun 1980 uns húsið yrði fokhelt, lokað og frá gengið fyrir veturinn. 

Áður en lengra er haldið er rétt að greina frá skipulagi  byggingar og vinnuferðanna.  Nauðsynlegt þótti að bæta við mönnum í byggingarnefndina því að nú var aðeins annar eftir af þeim 2, sem skipaðir voru 1975.  Byggingarnefnd skipa nú 9 menn.  Þeir eru:  

Þór Jóhannsson, formaður, byggingarstjóri
Hallgrímur Benediktsson, byggingarmeistari, yfirsmiður,
Arnold Bjarnason,
Markús Sveinsson,
Óli G. H. Þórðarson,
Trausti Sigurðsson,
Halldór Garðarsson,
Tómas Óskarsson og
Sigurþór Þorgilsson.

Á byggingarfundum eru skipulagðar byggingar- og vinnuferðir.  Nokkuð er afmarkað fyrirfram hvað skuli unnið, ákveðin efniskaup og þeim skipt á nefndina.  Reynt er að sjá út fyrirfram þörf fyrir smiði, aðstoðarfólk og fólk, sem tekur að sér einstök störf.  Síðast en ekki síst er ráðið matreiðslufólk, sem sér um útvegun fæðis og eldunina.  En fljótlega kom í ljós að skrínukostur og eldun í tjöldun víðs vegar reyndist óheppileg fyrir margra hluta sakir.
Félagar í vinnuferðum hafa verið frá 10 og upp í 35, en stöku sinnum hafa færri farið í slíkar ferðir, annaðhvort til lagfæringar eða til þess að undirbúa komu stærri hóps til vinnu.  Öll vinna Útivistarfélaga hefur verið unnin endurgjaldslaust.  Þannig hafa engin vinnulaun verið greidd við byggingarframkvæmdir í Básum, ef frá er skilin aðkeypt vinna með stórvirkar vélar.  Mikið og óeigingjarnt starf hefur því Útivistar-fólk innt af hendi fyrir félagið.  Margt unnið samfellt svo til hverja helgi, sem unnið hefur verið.  Lagt með sér efni og áhöld og verið reiðubúið til undirbúnings og snúninga hvenær sem þörf hefur krafið.  Þá má geta þess, að marga máltíðina hefur þetta sama fólk lagt með sér til alls hópsins í vinnuferðunum.  Konur sem karlar hafa gengið jafnhliða til verks, eftir því sem hver hefur treyst sér til og enda þótt Útivist hafi notið dýrmætrar vinnu fagmanna hefur vinna allra hinna verið engu þýðingar-minni.  Til þess að létta alla smíðavinnu hefur rafstöð verið leigð í flestar byggingar-ferðir.  Sögun, borun, heflun og slípun hefur því verið rafvædd.  Verður vart séð að verkinu hefði miðað svo vel ef rafmagns hefði ekki notið við.  Oftast var unnið um helgar við skálabygginguna.  Undantekningarlítið var lagt af stað frá Reykjavík kl. 20 á föstudegi og komið í Bása 23 –24 miðað við sumarfærð.  Kl. 8 að laugardagsmorgni, að loknum morgunverði, hófust menn handa í samvinnu eða einir sér og unnu samfellt allan laugardaginn til kl. 20 – 21 með hléum rétt meðan matast var.  Eftir þann tíma hafði hver og einn kvöldið til eigin ráðstöfunar.  Sumir tóku sér langar göngur.  Oftast var skipulögð Útivistarkvöldvaka með fluttu efni, hljóðfæraleik og söng til kl. 24 að allir gengu til náða.  Kl. 8 að sunnudagsmorgni hófust störf að nýju og unnið til kl. 14, að tekið var til við samantekt og hreinsun.  En mikil áhersla var lögð á snyrtilegan frágang á svæðinu að lokinni helgarvinnunni.  Kl. 16 – 17 að sunnudeginum var lagt af stað heim og komið að Umferðarmiðstöðinni kl. 19 –20.

Flutningur efnis af Grettisgötu 5 og hússins af Bræðraborgarstíg í Bása gekk vel, nema hvað heila húsið reyndist of breitt fyrir Þjórsárbrú.  Þurfti að saga af þakskeggi þess, svo að haldið yrði áfram.  Var húsinu komið fyrir u.þ.b. 30 m frá grunni skálans í Básum.  Hallgrímur Benediktsson, trésmíðameistari, var ráðinn yfirsmiður við bygginguna.  Hann hófst handa í miðjum júlí, strax og efniviðurinn var kominn á staðinn og hefur ætíð síðan stjórnað allri trésmíðavinnu bæði í Básum og á skrifstofu félagsins og innt af hendi ómetanlegt starf fyrir Útivist.  Hann hefur og jafnan verið ein aðaldriffjöðurin við byggingarframkvæmdirnar.

Efnið var nú allt flokkað og því staflað svo aðgengilegt yrði til uppsetningar.  Gestaþraut kom upp á staðnum, er setja skyldi saman máttarviðina á nýja grunninum.  Hverjum bita og hverri stoð í burðarviðum hússins varð að koma fyrir á sínum upp-runalega stað, hvert hak í stoð og bita varð að falla nákvæmlega í sitt fals, ætti húsið ekki að rísa sem ótrygg spilaborg.  Fyrst varð að finna út, eftir hvaða reglu hinar rómversku tölur voru skornar á enda máttarviðanna, þar sem rómversk tala átti ekki ætíð við sömu tölu á samskeytunum.  Nú hefði verið gott að njóta aðstoðar þeirra feðga, Eiríkanna, sem rifu húsið.  Allt gekk þetta nú upp að lokum.  Stóð þá gamla húsgrindin með göflum á báðum endum grunnsins með 5,5 m lengingu í miðju úr nýjum burðarviðum.

Eftir að vinnupallar höfðu verið reistir kringum húsið, loft- og gólfbitum komið fyrir, sperrur festar og gluggar settir á hliðar og gafla voru fánar settir upp á mæni hússins og risgjöld haldin.  Jóhannes Ellertsson gaf veglega fánastöng, sem endanlega var sett niður á svokölluðum Fánahól norðan við skálann.
Var nú hafist handa við að klæða skálann að utan.  Eldri klæðning hússins var rist í tvennt og látin mynda langbönd á skálann fyrir lóðrétta klæðningu.  Tvöfalt pappalag var heft á böndin og unnið af kappi við uppsetningu á vatnsklæðningunni, sem var nýr borðviður 1x6 þumlungar, vel fúavarinn.  Klætt var eftir reglunni eitt borð á tvö.  Grafið var fyrir undirstöðu skorsteins, slegið upp mótum og hann steyptur upp fyrir efra gólf.  Skyldi skorsteinninn þjóna ofni í skála og eldavél í eldhúsi.

Mestur hluti gólfviðarins af Grettisgötu 5, sem nokkuð var slitinn orðinn, var nýttur til klæðningar á þak.  Smíðaður hafði verið vesturkvistur á húsið með góðum glugga, samkvæmt teikningunni.  Þar skyldi vera rúmt opnanlegt fag fyrir útgöngu í brunastiga af rishæðinni.
Senn leið að hausti 1980 og því nauðsynlegt að loka skálanum vel fyrir snjó og regni, en allt kapp hafði verið lagt á það starf áður en vond veður gengu í garð.  Skorsteinn hafði verið steyptur upp úr þaki.  Tvöfaldur pappi og bárujárn var nú lagt á þak, tekið úr fyrir þakgluggum og vatnsrennur festar.  Tvöfalt gler var sett í alla glugga.  Nú reyndist erfitt að dvelja í tjöldum vegna þess hve áliðið var orðið og allra veðra von.  Í matarskálanum voru því sett upp rúm, þar sem fámennir vinnuhópar gátu gist.

Kostnaður var orðinn talsverður vegna efniskaupa og félagið því með nokkurn skuldabagga.  Greiddir reikningar vegna skálans í Básum á árinu og aðrir sem vitað var um voru komnir í 11 milljónir.  Tekið var víxillán í Landsbanka Íslands, þrjár milljónir króna eða 30 þúsund nýkrónur, gengu stjórnarmenn í ábyrgð fyrir láninu.  Gísli Albertsson bætti þá enn við gjöf sína.

Happdrættið sem í gangi var skyldi gefa rúmar 4 milljónir.  Samþykkt var að gefa félagsmönnum kost á að fá nefndan bás í skálanum nafni sínu gegn ákveðnu framlagi.  Þau sem lögðu fram greiðslur í þessu augnamiði voru Gísli Albertsson, Bergljót Lín-dal, Jón I. Bjarnason og Þór Jóhannsson.
Skálabyggingin var nú orðin veðhæf í því ástandi sem hún var í, fullfrágengin að utan.  Hún fékk því þinglýsingu sem fasteign Útivistar og var þá hægt að leysa stjórnarmenn undan kvöð og ábyrgð með því að veðsetja skálann fyrir nýjum lánum.

Útivistarfólk var ekki aðgerðarlaust þótt vetur gengi í garð.  Áframhaldandi smíði og vinna innanhúss var undirbúin í Reykjavík.  Keypt var panelklæðning á veggi í sal, plægður viður á gólfin og allt lakkað og búið undir flutning.  Panelklæðningin gamla úr húsinu Grettisgötu 5 var nú tekin og sandblásin, gerð brúnleit með léttum loga, lökkuð margsinnis og búin til flutnings.  Í desember 1980 var allt efnið flutt í Bása.

Fyrsta vinnuferðin á árinu 1981 var farin í mars.  Byrjað var á að einangra og klæða þakhæðina að innan.  Kom þar panellinn góði sem fékk eldmeðferðina að fullum notum og setur hann sinn sérstaka baðstofustíl á loftið.  Einangrað var með 10 cm glerull í hólf og gólf.  Nýju panelborðin sem lökkuð höfðu verið um veturinn voru klædd lárétt á alla veggi skálans á neðri hæðinni, eldhús, anddyri og herbergi fararstjóra.  Sérstök eldvarnarklæðning var sett í loft í eldhúsi.  Stóru límtré, 18x8 þumlunga, var nú komið fyrir undir endilöngu lofti skálans, sem burði fyrir gólfið á rishæðinni.  Gólfborðin úr plægðri furu voru lögð bæði uppi og niðri og lökkuð margsinnis.  Var nú komið að innréttingu skálans og afar mikils virði að hún yrði í senn hagnýt og þægileg.  Var myndaður innréttingasjóður með framlagi Rögnu Kemp og Óla G. H. Þórðarsonar.

Lovísu Christiansen innanhússarkitekt var falið að skipuleggja og teikna allar innréttingar í skálann.  Skyldu fást sem allra flest svefnrými, þó þannig að vel færi um alla en rými yrði ekki spillt.  Lovísa skipulagði svefnbálka á tveimur hæðum, svo sem tíðkast í slíkum skálum.  Efra rúm meðfram vegg, tvíbreitt, með þægilegu stigi og handriði fyrir uppgöngu.  Neðri rúm sem voru tvö komu síðan þvert við það efra eða út frá vegg með bili á milli.  Með þessu fyrirkomulagi var í mörgu tilliti komið til móts við þarfir þeirra, sem gista slík hús.  Einstaklingur fær rúm til svefns einn og óháður, án þess þó að binda tvíbreitt rúm.  Fullorðið fólk, sem óskar að hvílast sér, fær hér stakt neðra rúm.  Með fyrirkomulaginu eykst einnig svefnrými.

Setja má fjöl með dýnu á milli neðri rúmanna, þar sem hjón með barn eða börn fá sameiginlegan svefnstað.  Síðast en ekki síst, er hér komið til móts við Útivistarfólk, þegar það að lokinni vel heppnaðri göngu heldur kvöldvökur sínar.  Helmingur neðri rúmanna, sem nú standa út fyrir efra rúmið, mynda fleiri þægileg sæti í salnum en annars væri, með hinu hefðbundna fyrirkomulagi.  Gólfrými í miðjum salnum má einnig eftir sem áður nýta til sæta eða þess sem fram fer hverju sinni, þar sem matar-borði ásamt sætum var komið fyrir við glugga á vesturhlið í salnum.  Almenn ánægja er með þetta fyrirkomulag.

Lovísa teiknaði einnig stigann upp á efri hæðina, sem er hringstigi upp úr anddyri skálans.  Stigi þessi hefur dálitla sérstöðu í byggingarsögunni.  Hann er myndaður utan um feikimikinn staur, sem ber þrepin uppi.  Andstætt við allt annað timbur skálans kom staurinn sjálfur til landsins.  Hann vísaði sér sjálfur veginn í Bása, með því að liggja við fætur Útivistarfólks á gönguferð á Selatöngum, sem sá í hendi sér notagildi hans.  Staurinn fannst rekinn á sandfjörunni austan við Nótahelli.  Fjaran tilheyrir landnámsjörðinni Ísólfsskála við Grindavík.  Hjónin Ísólfur Guðmundsson og Hertha Guðmundsson gáfu Útivist staurinn.  Reyndist hann lengri en Útivist hafði þörf fyrir og var hann því sagaður á staðnum og bóndanum á Ísólfsskála færður afgangurinn.  Kominn í Bása reyndist staurinn lengri en not voru fyrir í hringstiganum.  Að tillögu Hallgríms Jónassonar var afganginum stungið á enda niður á hlaði skálans.  Skyldi hann vera tákn ræðustóls og mynda samastað er leiðsögumenn gefa fyrirmæli sín í upphafi göngu og stoð ræðumanna á mannfundum.  Um staurinn kvað Hallgrímur.

                               Sjávar rekinn risa staur,
                               rúinn svip og berki. 
                               Síberíu gamall gaur, 
                               gegnir nýju verki.

Smíði á húsgögnum, borðum og stólum í skálann annaðist Tómas Óskarsson í samráði við Lovísu Christiansen.  Kvennanefndin lagði fram fjármagn til efniskaupa.  Einnig smíðaði Tómas fatahengi í anddyri skálans.  Unnur Bjarnadóttir gaf til skálans sjúkra-börur og sjúkrakassa.

Gestir skálans í Básum veita athygli mikillis stofuprýði sem er nær tveggja metra hár ofn.  Tilkomu þessa kjörgrips í Bása má þakka slæmri frammistöðu Laxárvirkjunar á sínum tíma.  Þau hjónin Ragna Kemp Lúðvíksdóttir og Guðmundur Tómasson sem bjuggu að Helgamagrastræti 23 á Akureyri keyptu ofninn 1943 og komu honum fyrir miðsvæðis í húsi sínu, þar sem illt var að treysta á hið ótrygga rafmagn til hitunar.  Ofninn var kynntur með kolum og viði og er svo einnig gert í Básum.  Rögnu Kemp svo og börnum þeirra hjóna þótti ofninn best kominn í hinum nýja skála og gáfu hann Útivist.  Með jafn góðri meðferð og hjá gefendum gæti ofninn bætt við sig aldri skálans.
Meðal Útivistarfólks ber ofninn nafnið Kempan.  Frú Ragna Kemp er einn þeirra mörgu félaga Útivistar sem hafa með framlögum, gjöfum og vinnu stutt og styrkt starfsemi félagsins og ætíð verið reiðubúnir til aðstoðar.  Félagið stendur í mikilli þakkarskuld við hana og alla þessa tryggu félaga.

Ofninum góða fylgir lítil saga um gjöf til félagsins, þar sem Hitaveita Reykjavíkur og þá líklega óbrigðul frammistaða hennar stuðlaði að gjöfinni.  Góður félagi í Útivist og starfsmaður danska sendiráðsins í Reykjavík, Nanna Kaaber, vissi að í kjallara sendi-ráðshússins að Hverfisgötu voru birgðir af kolum, sem skyldi grípa til þegar hitaveitan brygðist, en átti nú að fjarlæga.  Nanna fékk því til leiðar komið að Útivist fengi kolin gefins, gegn því að annast sekkjun og flutning.  Þar kynntust nokkrir félagarnir kola-vinnu, eins og hún gerðist á dögum kolanna.  Eftir að hafa sekkjað 85 sekki eða rúm 3 tonn af kolum, borið þau upp úr kjallara sendiráðsins voru félagarnir reynslunni ríkari, en þeir reyndust með öllu óþekkjanlegir vegna kolaryksins.

Við innréttingu skálans voru vinnuhópar ekki eins háðir veðri og áður, þar sem mest var unnið innan dyra.  En oft var harðsótt að komast í Bása.  Iðulega tafði slæm færð, oftast snjókoma, svo að ekki var farið nema fetið.  Var þá oft áliðið nætur þegar komið var í náttstað í Básum.  Í einni slíkri ferð, er lagt var af stað kl. 20 að föstudegi svo sem venja var, byrjaði snjókoman og ófærðin u.þ.b. miðja vegu frá Stóru-Mörk.  Þrátt fyrir keðjur á öllum hjólum á dugmiklu farartæki miðaði afar hægt.  Við nátt-myrkrið bættist iðulaus hríð, svo ekki sást móta fyrir götuslóða.  Varð að ganga á undan og leita að slóð með snjó í hné á sléttlendinu.  Margan krókinn varð að taka, því farvegir allir voru djúpir og svellbólgnir og sáust auk þess illa.  Alla nóttina var brotist áfram, og margsinnis sat farartækið fast í skafli eða óséðum svellbólgnum far-vegi.  Það var þreyttur en sigurglaður vinnuhópur, sem náði að komast í Bása kl. 10 að morgni laugardags.  Farangur og allt efni var látið bíða í bílnum, svefnpokarnir teknir inn og ákveðið að sofa til kl. 14.00.  Vinnuhelgin var þó að mestu framundan, aðeins svefntíminn hafði farið forgörðum.  Náðist að mestu að vinna áætlað verk, sem var að setja upp og festa svefnbálka með rúmstæðum, svefn- og setubekkjum, járna hurðir og koma þeim upp.

Snemma kom í ljós að mikill vatnsagi mæddi á lóð og grunni skálans.  Virtist eins og stöðugt síaðist grunnvatn undan Bólfelli og sæti í og við grunn skálans og næði ekki að renna burtu.  Enda þótt vel hafi verið gengið frá einangruðu gólfi í salnum, með loftrásum og rakaheldnum plötum, þótti ótækt að vita af þessu vatni þarna og láta það sitja.  Jón I. Bjarnason tók að sér að skipuleggja og stjórna framræslu við skálann.  Reyndust þetta einar stærstu jarðframkvæmdir á staðnum.

Í skurðgröftinn var fengin vélgrafa, sem gróf djúpan skurð meðfram skálanum Ból-fellsmegin og síðan tvo skurði hvoru megin við skálann frá skurðendunum alla leið niður í Básalæk.  Á staðinn var fenginn 12 tonna vörubifreið með tvöfalt afturdrif.  Vinnufúst og dugmikið Útivistarfólk fyllti vörupall bifreiðarinnar af hnullungs grjóti í tugi ferða, þannig að hundruð tonna af grjóti var raðað í skurðina upp undir svarðarlínuna.  Holræsi var síðan gert með því að leggja zinkplötur yfir og tyrfa síðan þar á ofan.  Grjótið var allt sótt í farveg Strákagilslækjarins.  Síðan vita menn ekki annað en að skálinn standi á þurru.  Að minnsta kosti hafði framræslan mikil áhrif á hinn raka lóðarskika, sem liggur í vestur frá skálanum og er nú orðið hið ákjósanleg-asta heimatún.

Salernis- og hreinlætismál hafa lengi verið vandamál á fjölmennum tjaldstöðum í óbyggðum.  Mörgum ferðamanninum eru hinir hefðbundnu kamrar þyrnir í augum og Útivistarfólk er sammála um að þeir séu óþarfir og óæskilegir meðan tíðarfar gefur kost á rennandi vatni.  Var því fljótlega að tillögu og tilmælum Skógræktar ríkisins, eftir að aðkallandi vinnu við skálann lauk, farið að huga að teikningu og stað fyrir hreinlætisaðstöðu.  Staðurinn var fljótlega fundinn í rjóðri vestan Básalækjar og Ólafur Sigurðsson arkitekt beðinn að teikna.  Húsið var haft úr sama efni og aðalskál-inn og í stíl við hann, tvískiptur, fyrir herra og dömur, þrjár salernisskálar og þrjár handlaugar hvoru megin ásamt gashituðum sturtum.  Trépallur er vestan við húsið og liggja tröppur þar að.  Húsið stendur á tólf niðurgröfnum staurum.  Bráðabirgða safnþró, gefin af Hitaveitu Selfoss, var komið fyrir í barði neðan hússins.  Allt var gert til þess að mannvirkin féllu sem best við ósnert landið.  Aðstaða þessi, sem er meðal þeirrar betri í óbyggð á Íslandi, er talin fullnægjandi fyrir allan þann fjölda fólks, sem gæti hugsanlega gist Básasvæðið, þar í talið tjaldfólk og skálafólk. 
Eins og allir sem áður hafa gist Bása varð Útivistarfólk að taka neysluvatn úr Básalæknum.  Það var svo sem engin frágangssök svo tær og hreinn sem hann var,  samansafn tærra linda úr hlíðum Goðalands.  Vatn úr honum tekið á gistisvæðinu var samt orðið að yfirborðsvatni.  Og með síaukinni gestakomu í Bása var erfitt að setja reglur um notkun lækjarins svo öruggt væri.  Það var því nokkuð snemma hugað að uppsprettu.  Góð lind fannst í hlíðinni milli Votupalla og Innri-Básaskarðs um 500 m frá skálanum.  Þaðan var síðan leidd slanga eftir lækjardrögunum alla leið á gistisvæðið.  Húsin þrjú hafa fengið rennandi lindarvatn og á tjaldsvæðin hafa verið settir upp stálvaskar og kranar til afnota fyrir tjaldbúa.

Með síðustu verkum við skálann var smíði palls sunnan og vestan við húsið, þar sem jarðvegur var fjarlægður, grafið fyrir staurum sem bera uppi pallinn og síðan klætt með hefluðum viði.
Dagana 5. – 7. ágúst 1983, eina óveðurshelgina á því sumri, var efnt til sérstakrar vígsluhátíðar í Básum.  Milli tvö og þrjú hundruð manns tóku þátt í hátíðahöldunum.  Var skálinn fullskipaður gestum og fjölmargir gistu í tjöldum.  Skyldi Básaskáli ásamt mannvirkjum vígður og svæðið helgað gestum og gangandi til afnota.  Stóru hring-tjaldi var komið fyrir á svæðinu, þar sem hátíðagestir fengu nokkuð afdrep.  Lovísa Christiansen leiddi hátíðahöldin, en margar ræður voru haldnar og ljóð flutt.  Formaður Útivistar, Þór Jóhannsson lýsti byggingu skálans, aðdraganda hennar og framkvæmd allri.  Þakkaði hann öllum þeim mörgu félögum, sem með vinnu, framlögum, gjöfum og sérþekkingu sinni höfðu gert skálabygginguna að veruleika.

Það hefur lengi tíðkast að fjallaskálar og önnur mannlaus gistihús í óbyggðum standi ólæst og þá helst í þeim tilgangi að hraktir ferðamenn eigi þar aðgang að, ef eitthvað á bjátar.  Húsin gista þá oft fámennir hópar, sem margra hluta væri betra og hagkvæmara að gistu minna húsnæði en 100 manna skála eins og Básaskála.  En þar sem reynsla hefur sannað, að fólk er á ferð um svæðið á nær því öllum tímum árs og að Básaskáli hefur nú þegar verið lífgjöf hrakinna ferðalanga, var ákveðið að fá leyfi fyrir áframhaldandi tilvist litla hússins af Bræðraborgarstígnum.  Gistirýmið verður nýtt á sumrin til gistingar fyrir Útivistargesti, en til þess að geta lokað Básaskála yfir veturinn verður litla húsið hafa opið allt árið.  Hentugri og einfaldari hitun sem flestir ættu að geta ráðið við er komið þar fyrir.
Þegar til átti að taka með lagfæringu og endurnýjun gamla hússins, reyndust viðir þess og fúnir til þess að um lagfæringu gæti orðið að ræða.  Var því teiknað nýtt hús. Ólafur Sigurðsson arkitekt teiknaði húsið, einlyft, með svefnbálkum fyrir 16 – 18 og afþiljuðum hluta þess fyrir húsvörð.  Húsið er tilbúið til notkunar á afmælisárinu og fer vel á því að ljúka með því húsbyggingarframkvæmdum í Básum.

Vart verður skilið svo við byggingarsöguna að ekki verði nefndur frekar þáttur kvennanefndar þar.  Þeim fjármunum sem safnast hafa með kaffisölu á myndakvöldum félagsins hafa þær varið beint til byggingarstarfsins á ýmsan máta.  Á sama hátt styrktu þær með starfsemi sinni byggingu og frágang ,,hjáleigunnar” í Básum.  Þá hafa þeir Þorleifur Guðmundsson og Ásbjörn Sveinbjarnarson stutt þá framkvæmd með fjárframlögum.

Ritið ,,Útivist”
Með þessu ársriti, sem er það ellefta í röðinni, hefur Útivist fylgt eftir markmiðum sínum að gefa út rit, sem hvetji fólk til ferðalaga og hollrar Útivistar.

Ritið hefur í mörgu tilliti verið sambærilegt árbókum Ferðafélags Íslands enda uppruni og tilgangur sá hinn sami, að með ferðalýsingum ýmissa staða verði vakinn áhugi landsmanna á ferðalögum um eigið land og að ritið þjóni sem heimild um hvers konar íslenska náttúru og henni tengd fyrirbæri margbreytileg.  Fylgt hefur verið þeirri stefnu allan áratuginn, að hvert rit innihaldi fjölbreytt blandað efni, vel afmarkað og upplýsandi, ríkulega myndskreytt og létt aflestrar.  Auk þessa hefur ritið þjónað sem upplýsingamiðill um félagstengd mál, birt hagnýtar upplýsingar varðandi ferðalög og búnað, útilífsrétt almennings og umgengisskyldur, uppdrætti landslags, greinar um látna félaga, ljóð o.fl.  Afmælisritið, sem nú kemur út, er í engu frábrugðið hinum fyrri að efni og innihaldi, nema að því er varðar þessa afmælisgrein.

Öll ársritin eru hvert öðru lík að ytra formi.  Brotið hefur verið A-5, en efnið aukist jafnt og þétt eða frá 72 bls. í fyrstu bókinni 1975, upp í 144 bls. mest 1983 og 1984.  Kápur ritsins tvö síðustu árin hafa verið plasthúðaðar, sem gefur betri endingu, varnar óhreinindum og hefur auk þess forsíðumyndinni gljáandi áferð.  Ætíð hefur þess verið gætt að upplag sé nokkru hærra en félagatalan hverju sinni og hefur það hlutfall haldist nokkuð.  1984 voru prentuð 2500 eintök á móti félagatölu 1850.  Tiltölulega lítill hluti félaga virðist binda inn rit sem þessi.  Fyrir aðra sem ekki setja ritin í band er skurður bókarinnar kærkominn.  Þeir fá bókina í hendur tilbúna til notkunar.  Við skurðinn tapast ótrúlega lítill hluti af jöðrum bókarinnar, um 2 mm.  Þeir, sem óska að binda ritin inn eiga þess kost að fá ritin óskorin, þar sem nokkur hundruð eintök eru ætíð látin óskorin.  Skorna bókin er samt engu síðri til bókbands.  Jafnan hefur í ritunum verið gnótt litmynda oftast skarpar og litríkar myndir.  Hafi orðið að birta mynd daufa í skerpu og lit hefur það einungis verið fyrirmyndarinnar og frásagnarinnar vegna.  Höfundar greina í ritunum 10 eru orðnir 43, þar af hafa nokkrir skrifað fleiri en eina grein og sumir margar.  Flestar greinar í ritunum á Hallgrímur Jónasson, níu talsins, Jón Jónsson hefur skrifað fjórar greinar og aðrir færri.  Nær því allar greinarnar eru jafnhliða ferða- og leiðarlýsingar og því hentugar til uppsláttar.  Þær eru frá nær öllum landshlutum um afmörkuð svæði, sem höfundar hafa kynnst náið, auk greina sérfróðra manna um jurtir, steina og dýr.  Efnisyfirlit og höfundaskrá fyrir öll ritin má lesa í þessu afmælisriti.  Alls hafa birst 64 greinar á tímabilinu.  Auglýsingar til tekjuöflunar hafa fylgt ritinu frá upphafi.  Reynt hefur verið að stilla í hóf fjölda þeirra og hafa margir hinir sömu auglýst í öllum ritunum.

Mikið verk er að safna saman efni í ritin, ef vanda skal til verks.  Reynt hefur verið að birta helst frumsamin ritverk, en þó hefur ekki verið komist hjá að birta efni áður flutt í útvarpi eða prentað í öðru riti.  Í þeim tilfellum hafa greinarnar verið auknar og endurbættar að efni og innihaldi og myndskreyttar.  Ritstjóri hefur hverju sinni lagt metnað sinn í að vanda val efnisins og frágang allan.  Nokkrar greinanna hafa vísindalegt gildi og verið nýttar sem slíkar.  Flestir höfundanna eru störfum hlaðnir og fórna frístundum til þeirra starfa.  Það er því eðlilega nokkur tröppugangur á því að ná efninu saman til undirbúnings prentunar í tæka tíð.  Ritstjórn þarf því að hafa ,,í hand-raðanum” marga höfunda, sem leita má til  í forföllum annarra.  Þeim mun brýnna er þetta sem greinunum fjölgar og fjölbreytnin eykst í ritunum.  Ekki hefur ætíð tekist að koma ritinu út á hentugum tíma, það er að vori í apríl-maí, nokkru áður en ,,ferðaver-tíðin” hefst.  Ætíð hefur þó ritið náð að koma út fyrir lok ársins sem það tilheyrir.
Þar sem tekjur félagsins eru bundnar útkomu og dreifingu ritins er nauðsynlegt að koma reglu á útkomuna.  Má einnig geta sér til um, að óregluleg útkoma geri inn-heimtu alla örðugri og óstöðuga og að fleiri falli út af félagsskránni af þeim sökum.  Í raun þyrfti ætíð að liggja fyrir efni í annað rit, þegar eitt er prentað.  Ennþá, þegar þetta er skrifað, má fá öll ritin keypt.  Eintökum fyrsta ritsins fækkar þó óðum.  Starf að útkomu ritsins er með þeim þýðingarmestu í starfi félagsins.  Ritstjórnin, svo og höfundar allir hafa unnið endurgjaldslaust.

Eftirtaldir hafa verið í ritstjórn Útivistar eða ritstjórnar:
Einar Þ. Guðmundsson og Jón I. Bjarnason, árin 1975-81.
Jón I. Bjarnason, ritstjóri, Lovísa Christiansen og Sigurþór Þorgilsson árið 1982.
Sigurþór Þorgilsson og Hörður Kristinsson árið 1983.
Ingibjörg Ásgeirsdóttir, ritstjóri, Einar Haukur Kristjánsson, Gunnar Gunnarsson, Lovísa Christiansen, Nanna Kaaber, Svanur Pálsson árið 1984.

Ferðir
Sá sem ferðast um Ísland gangandi, ríðandi eða akandi, skilur vel að áhugamenn sameinist um þessi áhugamál sín.  En spyrja má hvað hvetji hóp áhugamanna til þess að hefja áróður fyrir og skipuleggja ferðalög og útiveru þúsunda manna, án þess að hafa af því nokkurn fjárhagslegan ábata eða vera hvattur til þess á einn eða annan hátt.  Efni 3. gr. laga Útivistar um markmið félagsins segir m.a., að stuðlað skuli að ferðum, einkum gönguferðum, um Ísland og önnur lönd og hafa vinsamlegt samband við aðra aðila, sem vinna að skyldum verkefnum utanlands og innan.
Að Útivist varð annað og meira en lokaður ferðaklúbbur má rekja til þeirra áhrifa er samskipti við íslenska náttúru hefur á hvern þann sem af henni töfrast.  Verkefnið, að leyfa öðrum að njóta með er í senn hvetjandi og heillandi, en um það snýst öll starfsemin.  Árangurinn og ánægjan við að fylgja fram þessu markmiði er Útivistar-fólki næg umbun fyrir erfiðið.  Hversu víðförlir sem menn annars eru, verða þeir vart ósnortnir eftir að hafa kynnst töfrum Íslands í hreinu lofti friðsældar og frelsis, þar sem andstæðurnar í formi frosts og funa, skins, skúra og síbreytilegra ljóshrifa gefa fjöllum, jöklum, vötnum, hraunum og söndum í endalausri margbreytni líf er grópast svo í vitundina sem órofa heild, að ekki gleymist síðan.  Allur fjöldinn sem ferðalög stundar sér til sálu- og heilsubótar leitar slíkra stunda, þar sem góður fararstjóri staldrar við og býður hópnum að njóta dýrðarinnar.

Farþegarnir sem Útivist hefur flutt að lang mestu á vit íslenskrar náttúru eru orðnir 45 þúsund á þessum tíu árum.  Einkennandi fyrir ferðirnar er fjölbreytileikinn.  Menn geta valið sér ferð um strönd, fjöll og dali og allt þar á milli, lengri eða skemmri göngur.  Til áfangastaðanna er haldið með flugvélum, bifreiðum, snjóbílum, bátum, hestum, á skíðum eða fótgangandi, stundum með mörgu af þessu í sömu ferðinni.  Til þess að mæta kröfum og þörfum sem allra flestra eru ferðirnar skipulagðar þannig, að velja má milli eins dags ferða, helgarferða og sumarleyfisferða.  Eins dags ferðir eru allar miðaðar við að farið sé frá Reykjavík að morgni og komið aftur að kvöldi.  Þá eru einnig farnar kvöldferðir í nánasta umhverfi í steinaleit og tunglskinsgöngur.  Í boði eru milli 120 og 130 eins dags ferðir, þar sem akstri er stillt í hóf, en gengið um kjörsvæðið meðan dagur endist.  Mikil fjölbreytni er í boði í ferðum þessum, sem sjá má á því, að þær ná yfir allan þann hluta landsins, sem markast af Þjórsárósum, Gull-fossi og Borgarfirði vestra.  Mun láta nærri að boðnar séu dagsferðir um flesta hina áhugaverðustu staði í landsfjórðungnum öllum.  Reykjanesfólkvangnum er þó gerð lang mest skil, enda fjölbreytnin þar mikil.  Hefur Útivist lagt mikla áherslu á að kynna og draga fram sérkenni þessa svæðis, með því að bjóða fararstjórn sérfróðra manna um sögu og náttúru þess, svo og með því að fá fræðimenn til þess að skrifa greinar um afmarkaða hluta fólkvangsins í ritið Útivist.   Ásamt náttúrulýsingum benda þeir á minjar og örnefni tengd sögunni og lýsa gönguleiðum.  Þannig velur Útivist árlega ákveðið kjörsvæði til kynningar og skoðunar í nánara ljósi.

Dagsferðirnar hafa verið mjög vinsælar, þar sem þátttaka hfur reynst til jafnaðar yfir 30 í ferð, en flestir þátttakendur í dagsferð hafa orðið 540 í Viðeyjarferð um sólstöður, en er gengið var frá Umferðamiðstöðinni í Reykjavík um Öskjuhlíð og Fossvog eftir endilöngum Fossvogsdalnum í fólkvanginn í Elliðaárdal voru þátttakendur 260.  Athygli vekur, að hægt skuli að ganga eftir endilangri Reykjavík í náttúrulegu umhverfi að öllu leyti ósnertu nema að því er varðar hina kærkomnu skógarreiti í Öskjuhlíð, Fossvogi og Elliðaárdal. Eini farartálminn á þessari leið er Kringlumýrar-brautin og þarf lögregluvernd til þess að komast þar yfir.


Tíminn sem ætlaður er í dagsferðirnar fer nokkuð eftir fjarlægð þeirra staða sem heimsóttir eru hverju sinni.  Þannig er farið af stað kl. 8:00 að morgni í Brúarárskörð og Skálholt, kl. 9:00 í steinaleit á Skarðsheiði, kl. 10:30 í Marardal og Hengil, kl. 13:00 í berjaferð í Grafning og kl. 20:00 í Jónsmessunæturgöngu og allar tunglskins-göngur, svo að dæmi séu gefin.  Flestar eru dagsferðirnar í boði yfir sumarmánuðina maí, júní, júlí og ágúst en fæstar í skammdeginu.  Á afmælisárinu 1985 eru farnar sérstakar eins dags afmælisferðir, þar sem í sumum hverjum er boðið upp á kakó og meðlæti.  Í öllum ferðum Útivistar sjá þátttakendur annars um mat sinn sjálfir, nema þegar félagið býður til pylsu- eða grillveislu og þegar þorrablót eru haldin.  Erfitt er að gera sér grein fyrir hverjar eins dags ferðirnar eru vinsælstar svo jöfn sem þátttakan er í þeim.  Miklu fremur má segja að veður og veðurútlit ráði mestu um þátttökuna.  Þó eru ávallt nokkrir sem hvorki víla fyrir sér veður né veðurútlit og mæta ætíð til göngu búnir til þess að mæta öllu veðri og vel nestaðir.

Í þessum hinum styttri ferðum er nokkur munur á þátttöku eftir árstíðum.  Þannig eru göngur í dagsferðum að vetri til mun fámennari en slíkar að sumri til og hausti er sól-stöðugöngur, fjöruferðir, haustlitir og haustkyrrð heilla.  Þörfina fyrir tengsl manna við náttúru og tilbreyni frá daglegu amstri má sjá á því, að nærri lætur, að tveir þriðju hlutar allra farþega Útivistar notfæra sér þessa þjónustu.  Útivist hefur lagt áherslu á, að í dagsferðum séu gönguleiðir valdar svo, að öll fjölskyldan geti sameiginlega tekið þátt í ferðunum, þar sem ungir og aldnir innan fjölskyldunnar njóti saman útiverunnar.  Börn í fylgd fullorðinna greiða ekki fargjald.

Í helgarferðunum er haldið til öllu fjarlægari staða og ná þær ferðir til allra landshluta að undanteknum Austfjörðum.  Taka slíka ferðir 2 – 5 daga eftir því hvert haldið er og á hvaða tíma ferðin er farin.  Þannig bætast við dvalardagar um páska, hvítasunnu, verslunarmannahelgi og áramót.  Lang oftast er farið í slíkar ferðir á föstudagskvöldi kl.20:00.  Með því að nýta föstudagskvöldið til aksturs að gististað, nýtist laugardagurinn allur til útivistar.  Þátttakan í helgarferðunum eykst með hverju árinu af ýmsum ástæðum.  Framboð á ferðum hefur aukist.  Náttstaðir verða sífellt betri með ýmsum þægindum, þar sem gist er í eða við félagsheimili, skóla eða vel búna fjallaskála.  Þykir gönguglöðum mönnum og konum að vonum það bæta á vellíðan er göngu lýkur að geta baðað sig, legið í heitum potti og synt í sundlaug.  Vegir í óbyggðum og til þeirra eru alltaf að batna, svo að stöðugt stækkar hringurinn og fjölgar um leið stöðunum, sem helgarferðirnar ná til.  Síðast en ekki síst má þakka aukna þátttöku, skipulagi ferðanna, fararstjórum og uppákomum á vel skipulögðum kvöldvökum, sem eru orðinn hefðbundinn þáttur í Útivistarferðum.  Síðan Básar í Þórsmörk urðu svo vel búinn náttstaður sem raun er á orðin hefur farþegum þangað fjölgað stöðugt.  Er aðstaðan orðin slík í Básum, að þar er nú kjörinn sumardvalarstaður til lengri tíma.  Þar er nú fastráðinn skálavörður yfir sumartímann.  Því starfi gegndu ýmsir Útivistarfélagar fyrstu sumrin þar til Bergþór Kárason og Guðríður Jónsdóttir tóku að sér vörsluna.  Er svo komið að leiðir rúmlega helmings allra helgarfarþega hjá félaginu hafa legið í Þórsmörk og gefur þátttakan stjórn félagsins vísbendingu um, að svo vel hafi til tekist í Básum, að vert sé að huga að öðru svæði fyrir slíka aðstöðu.

Enda þótt boðin sé gisting í húsi í flestum helgarferðum eru ávallt nokkrir sem kjósa að dvelja í tjöldum sínum einkum yfir sumartímann, búa sér lítið heimili í rjóðri á lækjarbakka, sofna og vakna við fuglasöng og lækjarnið.  Öllum sem ferðast með  Útivist er heimilt að taka með sér nauðsynlegan viðlegubúnað í farangur sinn þótt til boða standi gisting í húsi.

Ýmsar ,,sérferðir” tilheyra helgarferðunum.  Má þar nefna ferðir sem farnar hafa verið af sérstöku tilefni, þar sem ekki er lögð áhersla á lengri og styttri göngur heldur dvalið við annað.  Berjaferðir eru ætíð farnar á hverju hausti þegar berjaspretta leyfir.  Bátsferðir í Breiðafjarðareyjar eru einnig vinsælar.  Snjóbílaferðir á Vatnajökul, í Grímsvötn og Mávabyggðir.  Fjallaferðir á skíðum og flug norður fyrir heimskauts-baug.  Ein vinsælasta nýjungin, sem bryddað var upp á strax á fyrstu starfsárunum, eru ferðir í kræklingafjöru.  Hitunartæki eru þá ætíð höfð meðferðist og kræklingur soðinn og snæddur að vild á staðnum, auk þess sem menn birgja sig upp til heimilis-nota.
Fyrsta sunnudag hvers nýbyrjaðs árs hefur frá upphafi verið farið kirkjuferð.  Er þá valin kirkjustaður þar sem haldin er helgistund eða jafnvel tekið þátt í almennri messu, og þá jafnframt farin gönguferð um nágrennið, ýmist á undan eða eftir.

Á stórafmælum heiðursfélaganna hafa verið farna sérstakar afmælisferðir.  Oftast hafa þær tengst ferðum um Snæfellsnes, þar sem gist hefur verið á Lýsuhóli.  Að lokinni bílferð og göngu um Nesið er viðhaft sameiginlegt borðhald, þar sem heiðursgesturinn situr í öndvegi á meðan að til heiðurs honum er mælt.  Einn þeirra heiðursfélaganna skal hér nefndur sem fulltrúi allra hinna og þá um leið fyrir slíka afmælisferð.  Er það Gísli Albertsson.  Gísli er einlægur stuðningsmaður hollrar útivistar og ferðalaga.  Hann hreifst snemma af hugsjónum ungmennafélaganna og var trúr þátttakandi í leik þeirra og starfi í sínu byggðarlagi, Skagafirðinum.  Gísli er aðdáandi söngs og íþrótta en hlaup var uppáhaldsíþrótt hans.  Vann Gísli afrek í þeirri grein.  Markmið og tilgangur félaga á borð við Útivist höfða til hans, þar sem er að finna hluta hinna gömlu hugsjóna og hvatt er til að efla sálarkraft og líkamsþrek, tengjast landi og náttúru, virða og dá hvort tveggja.  Gísli Albertsson á oft leið á skrifstofu félagsins að Lækjargötu 6a, til þess að sjá og heyra hvað er að gerast og efst er á baugi.  Hann hefur með hvatningu og fjárframlögum til byggingarstarfsins í Básum verið Útivist ómetanleg stoð.

Síðast en ekki síst skulu nefndar vörðuferðirnar sem farnar voru til heiðurs tveimur heiðursfélögum Útivistar þeim Eyjólfi Halldórssyni og Hallgrími Jónassyni.  Báðir hafa þessir heiðursmenn um áraraðir verið leiðtogar og fræðarar í ferðum um Ísland.  Eyjólfur er mikill aðdáandi íslenskrar náttúru.  Hann hefur ferðast vítt og breitt um landið og verið fararstjóri til fjölda ára.  Ljósmyndun hefur verið hans hjartans áhugamál enda á hann nú eitt hið fjölbreyttasta safn landslagsmynda.  Af myndum Eyjólfs má greina hve glöggt auga hann hefur fyrir myndmótífum.  Margar myndir hefur Eyjólfur lagt til í ritið Útivist og fjölmörg myndakvöld hafa myndir Eyjólfs litað tjaldið frá þeirri fyrstu til þeirrar síðustu öllum til yndis sem á horfðu.  Eyvavarða var hlaðin á Kili af fjölmennum hópi félaga.

Hallgrímur Jónasson er landsþekktur sem kennari, rithöfundur og ferðagarpur.  Snemma tók hann miklu ástfóstri við landið og tileinkaði sér sérstaklega sögu þjóðarinnar.  Allt sítt líf hefur hann verið að miðla öðrum sem kennari, rithöfundur og leiðsögumaður í ferðum um Ísland.  Margir hafa notið leiðsagnar hans og fræða gegnum árum, þar sem hann með lifandi frásögn sinni tengir söguna byggð eða óbyggð, sem farið er um hverju sinni.  Svo sem áður er frá greint hefur Hallgrímur skrifað fjölmargar greinar í ritið Útivist.  Tilefni þess að þessar vörðuferðir voru farnar var lítil vísa er hrökk af munni Hallgríms í öræfaferð.

                         Vel af grjoti veðurbörðu
                         væri ég tengdur mínu landi,
                         ef mér hlæði einhver vörðu
                         uppi á miðjum Sprengisandi.

Hallgrímsvarða var hlaðin á Sprengisandi, nálægt Fjórðungsöldu, þar sem landsfjórð-ungarnir mætast.  Þar er útsýn við og fögur til allra átta.

Þannig hefur Útivist reist þessum tveimur heiðursfélögum minnisvarða, sem tengir þá landi sínu á táknrænan hátt, svo sem þeir sjálfir kusu og verðskulda.  Útivist mun halda þessum vörðum við og staldra þar við með ferðahópa um Kjöl og Sprengisand.

Öllu viðameiri en helgarferðirnar eru sumarleyfisferðirnar, sem taka 4 – 10 daga hver ferð.  Ná þær til sérstæðra, fáfarinna staða, sem valdir hafa verið með tilliti til náttúru-fegurðar, fjölbreytilegs eða hrikalegs landslags og gönguleiða.  Í þessum ferðum, sem margar hverjar eru bakpokaferðir, þ.e.a.s. að viðlegubúnaður, göngutjöld og matur er borinn milli náttstaða kemst ferðalangurinn í nánari tengsl við landið, kynnist því betur, eykur þrek sitt og þol og safnar fjársjóði sem yljar í minningunni.  Í öðrum slíkum ferðum er tjaldað á einum stað og gengið út frá tjaldstað alla dagana.  Þannig er t.d. ferð í Lónsöræfi, þar sem flogið er til Hornafjarðar, farið með bílum á Illakamb og tjaldað á flötinni fyrir neðan kambinn.  Á hverjum degi er valin ný gönguleið slík að fjölbreytni, að varla er ein gönguleið annarri lík.  Sérstakra vinsælda njóta Horn-strandaferðirnar.  Þar er náttúrufegurð mikil, landið friðlýst að stórum hluta og því gróður og dýralíf milli jökuls og strandar fjölskrúðugt, sem í árdaga Íslandssögunnar.  Útivist hefur skipulagt 8 – 10 fjölbreytilegar ferðir á Hornstrandir hin síðari sumur.  Hálendisferðirnar eru fjölbreyttar og ekki eins skipulagðar frá ári til árs, t.d. er ýmist boðin ferð til þess að skoða hina stórbrotnu Lakagíga með því að nálgast þá að sunnan upp frá Skaftártungu eða með kláfferð yfir Skaftá að norðan.  Með tilbreytingunni er komið til móts við félaga og aðra, sem oft sækja á sama svæðið.  Til sérferða má telja hestaferðirnar og jöklanámskeiðin.  Hestaferðirnar á Arnarvatnsheiði eru skipulagðar í samvinnu við Arinbjörn Jóhannsson bónda að Brekkulæk í Miðfirði.  Þær ferðir hafa sérstöðu að því leyti, að hann leggur til auk hestanna allan mat, viðlegu- og veiðibúnað.  Til jöklaferðanna þarf sérbúnað.  Í ritinu Útivist, nr. 8, má í grein eftir Ingo Wershofen lesa um þennan búnað.

Ferðanefnd Útivistar leitar að og er stöðugt vakandi fyrir nýjum leiðum, eftir því sem aðstæður bjóða og reynsla gefur tilefni til. Ljóst er að unglingar geta verið virkir þátttakendur í starfi sem hrífur hugi þeirra og þeim annars stendur til boða.  Útivist hefur búið jarðveginn fyrir slíka starfsemi með því að stofna sérstakan ,,klúbb” þar sem þeim gefst tækifæri á að verða virkir þátt-takendur í hinum ýmsu starfsþáttum félagsins.  Hafa ferðir verið farnar og vinna skipulögð í félagslífinu með þátttöku þeirra.  Útivist væntir mikils af þessu starfi.

Að lokum skulu hér nefndar ferðir Útivistar með Íslendinga á erlendri grund og erlenda ferðamenn á Íslandi.

Á árunum 1976-1981 stóð Útivist fyrir og skipulagði ferðir fyrir 100-200 Íslendinga til nágrannalandanna, Færeyja, Noregs, Írlands og Grænlands, þar af langflesta til Grænlands.  Á sama tíma eða frá 1975-1981 hafa milli 1000-2000 útlendingar, flestir franskir, notið sérskipulagðra ferða um Ísland.  Vegna óstöðugs verðlags og þar af leiðandi erfiðleika við að áætla kostnað fram í tímann lögðust ferðir útlendinganna niður um 1981.  Haldist verðlag stöðugt er ekkert til fyrirstöðu með að hefja þessar ferðir að nýju.  Þá eru útlendir oftlega með á farþegaskrá í hinum skipulögðu hefbundnu ferðum.

Enda þótt notuð hafi verið ýmis samgöngutæki til þess að komast til og frá áfangastað, hefur þó bifreiðin flutt langflesta.  Frá fyrstu ferð árið 1975 og þar á eftir ölli þessi 10 ár, hefur fyrirtæki Jóhannesar Ellertssonar, Vestfjarðaleið, annast farþegaflutninga fyrir félagið.  Hefur samvinna við Jóhannes og bifreiðastjóra hans verið með ágætum og þeir hafa reynst bæði traustir og úrræðagóðir þegar á hefur reynt.  Marga glímuna hafa þeir háð við ófærð og byl í haust og vetrarferðum og ávallt skilað farþegum heilum heim.  Jóhannes Ellertsson hefur reynst Útivist hjálpar-hella á ýmsa grein.  Þegar þurrð hefur orðið í sjóði sem oft hefur borið við er biðlund, skilningi og lipurð að mæta hjá Jóhannesi, og drjúgan stuðning hefur hann veitt byggingarstarfinu í Básum.

Fararstjórar hjá Útivist eru orðnir nokkuð margir.  Nöfn þeirra eru orðin á annað hundrað, sem farið hafa eina ferð eða fleiri.  Val á fararstjóra í hinar ýmsu ferðir ræðst oft af kunnugleika þeirra á viðkomandi landshluta.  Margir hafa þeir reynslu í farar-stjórn og höfðu sumir öðlast þá reynslu áður en Útivist var stofnað.  Nokkrir hafa sótt námskeið og öðlast leiðsögumannaréttindi.  Þeir fararstjórir, sem flestar ferðir hafa farið eru eftirtaldir: Jón I. Bjarnason, Einar Þ. Guðjohnsen, Kristján M. Baldursson, Þorleifur Guðmundsson, Gísli Sigurðsson, Sólveig Kristjánsdóttir, Ingibjörg S, Ásgeirsdóttir, Lovísa Christiansen og Einar Egilsson.

Hér með lýkur þessari afmælisgrein.  En rými í bókinni fyrir hana er fórnað á kostnað annars upplýsandi efnis um íslenska náttúru og útilíf, en skrifin má þó réttlæta, sé hugsað fram í tímann til seinni ára.
Vér ætlum og vonum að líf og starf Útivistar fylgi kynslóðum og að það sem vér höfum nú byrjað á sé aðeins lítið upphaf.  Lítið brot af því sem hér hefur verið tíundað er skráð fyrir.  Leitað hefur verið í smiðju til félaganna og þeir ýmist fengnir til þess að staðfesta eða tína fram úr hugskoti sínu atburði, atvik tengd starfseminni þessi 10 ár.  Þegar tímar líða gleymist atburðarás sé hún ekki skráð og erfitt myndi reynast að skrá sögu fyrstu 10 áranna að 50 eða 100 árum liðnum.  Vér ætlum m.ö.o. að flytja upplýsingar og boð til þeirra Útivistarfélaga, sem um ókomna daga kunna að bera uppi merki félagsins.  Vér trúm að samantekt sem þessi hafi sögulegt gildi og sé þar með réttlætanleg.
Hér skal þakkað öllum þeim mörgu félögum, sem upplýst hafa og staðfest ýmislegt sögu félagsins viðkomandi.  Stjórn Útivistar skal þakkað lán á gerðabókum og skjölum félagsins.