Snæfellsjökull þveraður

16. júní 2013
Á Miðþúfu

Það var hress nítján manna hópur sem lagði upp frá skrifstofu Útivistar eldsnemma þann 15. júní í fylgd þriggja fararstjóra. Hér var á ferð Everest-hópur Útivistar á leið í göngu þar sem Snæfelljökull skyldi þveraður, lagt upp frá þjóðveginum suðvestan hans, gengið yfir Þúfurnar og endað á Jökulhálsi.

Veðrið var nú ekki alveg í samræmi við spána, fór eitthvað lítið fyrir sólskininu sem lofað hafði verið. Sumir töldu sennilegt að bjartara væri vestur á Snæfellsnesi, aðrir töldu það ósennilegt. Það fór enda svo að eina breytingin var sú að skýjahæð lækkaði stöðugt og þegar komið var að upphafsstað var komin súld!

Það reyndist raunar erfitt að sannfæra bílstjórann um að hann væri kominn að þeim stað þar sem gangan skyldi hafin – raunar tók það tvö hundruð metra eða svo. Kannski skiljanlegt, þarna var ekkert sem benti til þess að gott væri að hefja göngu á Snæfellsjökul – sem sást auðvitað ekki í þokunni. Það er enda ljóst að ef ekki hefði verið GPS-ferill með í för þá hefði ferðin fengið snubbóttan endi – aldrei verið lagt af stað.

Vegna aðstæðna og einsleits landslags (mosavaxið hraun svo langt sem augað eygði – þ.e.a.s. 50 metra!) sóttist ferðin frekar hægt, það þurfti oft að kíkja á GPS-tækið. Sumir voru svartsýnir á veðrið á toppnum þótt einn fararstjóranna stæði á því fastar en fótunum að í 800 metra hæð myndi komið upp úr skýjum.

Þegar þessi fullvissa hans virtist ekki lengur megna að sannfæra fólk var gripið til þess ráðs að nota tengingu sumra göngumanna við háloftin og fékkst það staðfest hjá áhöfn United Airlines flugs 991 að toppurinn á jöklinum stæði vissulega upp úr skýjum. Við þessar fréttir jókst traust fólks á spádómshæfileikum fararstjóra, enda byrjaði fólk svo að varpa skugga í 790 metrum – og sólin byrjaði að skína í 800!

Í tæplega 1000 metra hæð var tekin nestispása enda síðasti séns að setjast á fast land, ofar snjór svo langt sem augað eygði. Þó er raunar enginn jökull þarna á suðvesturhlið fjallsins, það er hægt að fara alla leið á Vesturþúfu í 1425 metra hæð án þess að ganga á jökli. Þangað lá enda leið hópsins (raunar í línum síðustu 300 hæðarmetrana, það sparaði fararstjórunum burðinn á þeim!).

Af Vesturþúfu sást svo yfir að Miðþúfu og síðan inn eftir öllu Snæfellsnesi. Þótt einhver ský væru sjáanleg innar á nesinu var ekki skýhnoðra að sjá í nánd við jökulinn. Eftir nokkra dvöl þarna – og margar myndir með Miðþúfu í bakgrunni – var svo lagt af stað í átt að henni. Á leiðinni sást að uppi á Miðþúfu voru göngumenn, það var auðvitað ljóst að þangað myndi þessi vaski hópur líka fara. Það munu alla vega flestir hafa klöngrast upp á hnúðinn efst á þúfunni – sumum reyndist svo raunar erfiðara að komast niður en upp!

Eftir langa dvöl þarna á þaki Snæfellsness var svo lagt af stað beint í átt að rútunni, hún hafði sést í u.þ.b. 500 metra hæð á Jökulhálsi. Gengið var í línum og reyndist full ástæða til, þarna varð á vegi okkar eina opna sprungan sem við sáum – og aðstæður erfiðar því brattinn var svo mikill að erfitt var að fóta sig. Allir komust þó heilir niður af jöklinum og að rútunni – það gekk hins vegar erfiðlega að fá fólk inn í bílinn, svo gott var veðrið. Að lokum var þó lagt af stað í bæinn og komið þangað upp úr tíu um kvöldið eftir frábæran dag á fjöllum.

Fararstjórar voru Leifur Hákonarson, Reynir Þór Sigurðsson og Unnur Jónsdóttir. 

Leifur Hákonarson skrifaði ferðasögu. Myndir má sjá hér.