Básalækurinn virkjaður

Texti: Fríða Hjálmarsdóttir
Ársrit Útivistar nr.24 (1998)

Oft hefur verið rætt um að gott væri að hafa rafmagn í Básum.  Þó hefur ekki verið vilji fyrir því að vera með einhverjar háværar rafstöðvar til ljósanotkunar.  Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar til þess að raflýsa en árangurinn var ekki sem skyldi.

Kaffinefndin í Útivist byrjaði á því að gefa vindrafstöð sem gaf ljós, en hægviðrið í Básum var henni til trafala og var árangur ekki nógu góður.  Réðst kaffinefndin þá í að kaupa sólarsellur.  Þær reyndust ágætlega svo langt sem þær náðu. Hugmyndin um að virkja Básalækinn hafði ekki verið reynd, þó að efalaust hafi fólki dottið hún í hug.  Þegar kaffinefndin ætlaði að leggja fram fé til að bæta við sólarsellum spurði Páll Ólafsson rafvirki, sem er í Básanefnd, hvort ekki væri ráð að reyna að virkja lækinn.

Á fundi með flestu kaffinefndarfólki var ákveðið að taka þátt í þessu og láta Pál leita upplýsinga um möguleika á vatnsaflstöð, sem hann vissi að framleidd var hjá Eiði Jónssyni frá Árteigi í Köldukinn.  Hafði hann samband við Eið og í næstu ferð sinni suður á land kom hann í Bása og kannaði  aðstæður.  Mat hann það svo að þetta væri vel framkvæmanlegt. Hugmyndin var lögð fyrir stjórn Útivistar og ákvað hún að gefa grænt ljós á framkvæmdir.  Var vatnsaflstöðin nú pöntuð frá Eiði og lagði kaffinefndin fram fé fyrir henni.  Síðan voru keyptir ríflega 700 m af 4” rörum frá Reykjalundi.  Páll sá um alla aðdrætti, sem var ótrúleg vinna, en hann komst að góðum kjörum á flestum stöðum.

Um mitt sumar 1997 flutti Páll rörin á bílnum sínum, hafði að auki tvær samtengdar kerrur aftan í honum og þannig fóru þessir rúmlega 700 m af rörum inn í Bása.  Þegar hugsað er til baka má segja að þarna hafi verið ráðist í hið ómögulega og það gert mögulegt.Í ágúst var síðan farin sérstök vinnuferð með hóp af svona hugsjónafólki eins og Páll er (Útivistarandinn allsráðandi).  Nú átti að koma rörunum í lækinn.Byrjað var á að sjóða rörin saman, í allt að 160 m lengjur sem síðan voru settar á misháar axlir og farið var af stað með þær meðfram læknum, eða kannski oftar ofan í læknum, því landslagið í Básum er ekki beinlínis eins og knattspyrnuvöllur!!

Smám saman lengdist röralengjan, og gekk á ýmsu þegar komið var ofar í átt að upptökum lækjarins.  Páll hafði útbúið bönd til að létta burðinn en yfir lækinn þurfti að fara mjög oft í mishæðóttu landslagi og rörin ekki neitt sérstaklega sveigjanleg.  Fengu flestir fótabað í læknum og sumir meira en það.  Þegar landslagið gerði okkur þann grikk að hafa hæðir sitt hvoru megin við laut hékk sá í miðjunni í lausu lofti.  Eða þegar fyrsti maður í röðinni var í einhverri beygjunni, þá er hægt að ímynda sér hvar sá síðasti lenti, oftast fylgdi góð bylta í kjölfarið!

Þrátt fyrir margar byltur, marbletti og auma vöðva skemmtu allir sér stórkostlega í þessu brambolti og voru ákveðnir í að hætta ekki fyrr en verkinu væri lokið og stöðin komin í gang.Um miðjan dag á sunnudegi var stöðin sett í gang og kveikt á fyrstu perunni, sem hengd var í tré fyrir ofan vélina.  Fögnuður manna var innilegur.  Síðan hefur verið gengið frá raflögnum, sett ljós í skálana og víðar og í vinnuferð haustsins var byggt yfir vatnsaflstöðina, tyrft yfir og hljóðeinangrað.  Malar ,,Básabína” eins og við kölllum hana, líkt og ánægður köttur og heyrist varla í henni.

Að lokum má geta þess að gleðilegt er til þess að vita að baráttujaxl af bestu gerð, eins og Páll er, skuli hafa gengið til liðs við Útivist og fengið meðbyr hjá því fólki sem fyrst fór fyrir því Grettistaki, sem lyft var þegar skálarnir voru byggðir  í Básum.  Þar var fyrrnefndur Útivistarandi allsráðandi.  Hann sýnir hvað hægt er að gera þegar fólk hefur trú á málefninu og ánægju af að vinna og vera með góðu og skemmtilegu fólki.  Megi svo vera áfram.