Tímamótasamstarf um vernd hálendisins

09. apríl 2014

Landvernd, Ferðaklúbburinn 4x4, Ferðafélag Íslands, Ferðafélagið Útivist og Samtök útivistarfélaga (SAMÚT) hafa undirritað samstarfsyfirlýsingu um að vinna sameiginlega að viðgangi og vexti verkefnisins Hálendið – hjarta landsins, sem Landvernd hleypti af stokkunum í september síðastliðnum. Undirskriftin fór fram á útsýnispalli Perlunnar í Öskjuhlíð í Reykjavík.

Að baki félögunum fimm standa um 30.000 félagsmenn. Hér er því að verða til afar sterkt afl í baráttunni fyrir vernd hálendisins. Nú þegar hafa safnast um 6.000 undirskriftir frá 70 löndum, en verkefnið hefur bæði íslenska og enska vefsíðu.

Markmið verkefnisins er að vinna að vernd hálendis Íslands þannig að náttúru þess verði ekki raskað frekar af mannavöldum. Félögin leggjast gegn allri stórfelldri mannvirkjagerð og áníðslu á hálendinu, svo sem uppbyggðum vegum, hótelum, umferð umfram þolmörk svæða, ofbeit, háspennulínum, borplönum og virkjunum og telja að slík mannvirki eigi ekki heima á hálendi Íslands. Sérstaklega verði gætt að vernd óraskaðra svæða og víðerna.

Verkefninu er ætlað að vekja athygli á mikilvægi þess að tryggja vernd þess einstaka landsvæðis sem hálendi Íslands er og auka áhuga almennings, fjölmiðla, þingmanna og sveitarstjórna á málefninu. Skorað er á stjórnvöld og sveitarfélög sem fara með skipulagsvald á hálendinu að tryggja að náttúru þess verði hlíft.

Samtökin sem undirrita yfirlýsingu þessa skipa hvert einn aðalmann og einn varamann í fimm manna verkefnisstjórn Hjarta landsins. Landvernd ber ábyrgð á rekstri verkefnisins og fer með daglega stjórn þess.

Samkomulagið undirrituðu Sveinbjörn Halldórsson, formaður Ferðaklúbbsins 4x4 og SAMÚT, Þórarinn Eyfjörð, formaður Ferðafélagsins Útivistar, Sigrún Valbergsdóttir, varaforseti Ferðafélags Íslands og Guðmundur Hörður Guðmundsson, formaður Landverndar.

Útivist hvetur félagsmenn sína til að sýna stuðning sinn með því að skrá sig á síðunni hjartalandsins.is

Ítarefni: Frétt á Rúv