Ályktun um Sprengisandslínu

14. janúar 2014

Stjórn Útivistar ályktaði um háspennulínu yfir Sprengisand á fundi sínum þann 14. janúar s.l.

Ályktun frá stjórn Ferðafélagsins Útivistar

Stjórn Ferðafélagsins Útivistar leggst alfarið gegn fyrirhugaðir háspennulínu yfir Sprengisand.  Háspennulína með tilheyrandi háspennumöstrum þvert yfir hálendið veldur óumdeilanlega miklum skaða á þeirri einstöku víðáttu sem hálendi Íslands er.

Óspillt víðerni í náttúru Íslands eru til lengri tíma litið mikilvægustu verðmæti þjóðarinnar og gegna sífellt stærra hlutverki í ferðaþjónustu.  Því til viðbótar nýtur umtalsverður fjöldi landsmanna þess að fara á hálendið og upplifa óspillta náttúru.  Mannvirki á borð við háspennulínu er með öllu ósamræmanlegt við slíka upplifun og skerðir þau verðmæti sem þarna er að finna verulega.  Lausn á flutningi raforku milli landshluta má ekki undir neinum kringumstæðum vera á kostnað óspilltra víðerna á íslenskum öræfum. Jafnframt er ekki undir neinum kringumstæðum hægt að fallast á frekari virkjanaframkvæmdir á þessu svæði.  Nú þegar er búið að þrengja verulega að hálendinu á og við Sprengisand og er óásættanlegt að þau víðerni sem enn eru þar óspillt verði skert umfram það sem orðið er.

Fyrir hönd stjórnar Útivistar

Þórarinn Eyfjörð

formaður