Fylgt úr hlaði

16. desember 2016

Enn á ný lítur Ferðaáætlun Útivistar dagsins ljós. Frá stofnun félagsins árið 1975 hefur það kappkostað við að bjóða félagsmönnum sínum upp á skemmtilegar ferðir um landið. Þannig vinnur félagið að einu af markmiðum sínum, að stuðla að útivist fóks í hollu og óspilltu umhverfi.  Að hausti eftir gott ferðasumar koma ferðanefndir félagsins saman og láta hugann reika um óbyggðir landsins, rifja upp skemmtilegar ferðir fyrri ára sem gaman væri að endurtaka og velta fyrir sér mögulegum nýjungum. Þannig verður ferðaáæltun ársins til úr hugmyndum og hugarflugi þeirra félagsmanna sem hafa tekið að sér það skemmtilega viðfangsefni að skipa ferðanefndir félagsins.

 

Spennandi raðgöngur og þemagöngur í áæltun dagsferða vekur sérstaka athygli. Við höldum áfram að ganga strandlengju landsins og verður núna gengið frá Reykjavík í Hvalfjarðarbotn. Gengið verður umhverfis Esjuna í nokkrum áföngum. Einnig verður sjónum beint að landnámskonum og landnámsjarðir þeirra sóttar heim. Loks má nefna skemmtilega syrpu af fjallgöngum sem nefnist „Tindur af tindi“.

 

Í ár bætist við nýr skáli í flóru Útivistar, en félagið hefur samið við Flugbjörgunarsveitina í Reykjavík um skála sveitarinnar í Tindfjöllum.  Tindfjallasel hefur staðið óklárað um nokkurt skeið en vösk sveit Útivistarmanna lauk við byggingu skálans síðastliðið haust. Tindfjöll eru spennandi svæði fyrir útivistarfólk. Fjallamenn með Guðmund frá Miðdal í broddi fylkingar sóttu mikið í þetta skemmtilega fjallasvæði og stunduðu þar meðal annars skíðamennsku af miklum móð. Skáli af þessari stærð opnar fyrir okkur margvíslega möguleika og við erum full tilhlökkunar að njóta þess sem þetta svæði býður upp á.

 

Í náttúru Íslands eru margir einstakir staðir. Sumstaðar er náttúran viðkvæm og þolir ekki mikinn ágang. Nokkur umræða var núna á dögunum í kjölfar þess að í sjónvarpsþætti var hulunni svipt af áhugaverðum stað sem margir telja að þoli ekki mikinn ágang. Áhyggjur af því eru skiljanlegar þó auðvitað megi deila um hvort rétt sé að halda slíkum stöðum leyndum með markvissum hætti. Hér má þó benda á að þetta er örugglega ekki eina perlan á landinu sem er á vitorði fárra, sumar þeirra eru viðkvæmar en aðrar þola mun meiri umferð en nú er. Kannski ættum við frekar að hafa áhyggjur af þeim stöðum sem einmitt eru á allra vitorði og fá heimsóknir þúsunda ferðamanna. Meðan ágangurinn er óviðráðanlegur á einstaka stöðum eru fáfarnar slóðir sem þola vel aukna umferð víðsvegar um landið. Útivist hefur leitast við að leggja sitt af mörkum í þessum efnum með því að skipuleggja nýjar gönguleiðir, byggja upp gönguskála á nýjum stöðum og skapa þannig tækifæri til ferðamennsku á nýjum slóðum.

 

Tækifærin til að dreifa álaginu eru ótal mörg, en til þess þarf skynsamlega stefnumótun og stýringu ferðamála. Þrátt fyrir mikla umræðu um þau mál hefur lítið sést af aðgerðum. Svo virðist sem stjórnvöld hafi látið tækifærin fram hjá sér fara hvert af öðru. Fjármagn til innviða ferðamannastaða er mikilvægur þáttur hvað þetta varðar, en þar fór mikill tími til spillis meðan þráttað var um svokallaðan náttúrupassa. Þrátt fyrir að mikla andstöðu víðsvegar í samfélaginu við þá lausn átti að keyra hana í gegn og þegar það gekk ekki var niðurstaðan sú að gera ekki neitt.  Við verðum að vona núna við upphafi nýs kjörtímabils að stjórnvöldum takist að koma þeim málum í skynsamlegan farveg sem tryggi nauðsynlegt fjármagn og skýra og góða stefnumótun við stýringu ferðamannastraumsins.

 

Skúli H. Skúlason

framkvæmdastjóri Útivistar