Vitar

10. febrúar 2016

Útivist hefur valið að hafa vita sem ákveðið grunnþema í göngum í ár og ef til vill næstu ár líka.  Í tilefni af því hefur hér verið tekinn smá fróðleikur um vita.  Efnið er nánast eingöngu tekið upp úr bókinni Vitar á Íslandi eftir Guðmund Bernódusson,  Guðmund L. Hafsteinsson og Kristján Sveinsson.  Þessi bók er mikil að vöxtum,  gefin út árið 2002 og er hafsjór af fróðleik.  Tilgangurinn með þessum útdrætti er að þeir sem ekki leggja í þann lestur fái einhverja hugmynd um vita og einnig að vekja áhuga hinna á að nálgast bókina til lestrar.  

Nánast frá upphafi siglinga hafa verið reistar vörður eða önnur siglingamerki til að leiðbeina skipum.   Fyrst voru þetta vörður eða tréspírur.  Hugsanlegt er að tilgangur margra kirkjuturna hafi verið að leiðbeina skipum.   Og sú hefð að hafa turn á kirkjum sé frá því komin.   Til þess að leiðbeina skipum í myrkri var síðan farið að kveikja bál í vörðum.   Og í framhaldi af því voru byggðir sérstakir turnar til að bálið sæist lengra að.   Þetta útheimti að sjálfsögðu gífurlega mikinn eldivið og augljóslega kostaði hver viti mikið í rekstri.  Á sautjándu öld var byrjað að nota málmspegla til að magna geisla ljóssins frá bálinu.    Seint á átjándu öld voru þróaðir olíulampar með hringlaga kveik sem brenndu steinolíu.   Það var að sjálfsögðu mikil framför og einnig varð hröð þróun í smíði á linsum og speglum, fyrst og fremst vegna áhuga á stjörnufræði sem kom sér vel fyrir vitaþróunina.   Franski verkfræðingurinn Augustin Jean Fresnel hannaði svo kallaða ljósbrotslinsu sem safnaði ljósinu saman í öflugan geisla.  Slík linsa var fyrst notuð í vita árið 1823.   Í framhaldi af því var þróaður snúningsbúnaður til þess að snúa geislanum.  Það var klukkuverk sem var knúið áfram af lóði sem trekkt var upp og lóðið síðan látið síga niður vitaturninn.   Gasljós voru þróuð á nítjándu öld,  en náðu ekki útbreiðslu fyrr en svíinn Gustav Dalén  þróaði aðferð við að geyma gasið í stálflöskum.  Rafmagnsljós voru reynd, svo kölluð kolbogaljós sem gáfu mjög góða birtu,  en á nítjándu öldinni voru miklir erfiðleikar með að framleiða rafmagn og þess vegna var rafmagnið ekki notað þá.   En þegar helstu vandamál við gasljós voru leyst með aðferð Daléns urðu gasljós nær alls ráðandi í vitalýsingum.   Raflýsing í vita fór síðan að ryðja sér til rúms um miðja tuttugustu öldina.   Og eftir 1990 var farið að nota sólarrafhlöður í þeim vitum sem ekki gátu tengst rafveitum,  og var þá vitunum nánast öllum breytt þannig að þeir voru raflýstir.   Með tilkomu rafmagns var farið að setja upp svo kallaða radíóvita í vitum landsins.  Radíóvitarnir hafa þann kost að virka þó það sé dimmviðri og þar með eru þeir mun öruggari.   Radíóvitarnir eru þó meira notaðir í flugi og hefur sá háttur orðið á að flugmálayfirvöld sjá um rekstur og viðhald á radíóvitunum þó þeir séu margir staðsettir í ljósvitum.   Nú eru komin fullkomnari staðsetningar og leiðsögutæki þannig að vitarnir eru ekki eins mikilvægir og þeir voru,  en enn er látið loga á vitunum.  

Tilgangur vita er misjafn.   Sumir vitar eru svo kallaðir landtökuvitar.  Það þýðir að þeir sjást langt að og eru skipum til leiðbeiningar um að þau séu að nálgast land.  Dyrhólaeyjarviti var fyrsti landtökuvitinn sem reistur var hér á landi og mjög dæmigerður sem slíkur.   Aðrir vitar eru siglingavitar og leiðbeina skipum og hjálpa til við staðsetningu.  Allir vitar í dag hafa sérstakt kennimerki, það er ljósblossar og myrkur á milli.   Með þessu geta sjófarendur þekkt hvern vita og staðsett sig út frá honum.   Enn aðrir vitar eru til þess að vara við hættum.  Þá eru ónefndir innsiglingarvitar eða hafnarvitar til þess að leiðbeina skipum í siglingu inn á hafnir.  

Gömul sögn segir frá bónda sem var að flytja húsavið til Íslands frá Noregi.  Hann lenti í hafvillum og hét því að ef hann kæmist til lands þá skyldi hann byggja kirkju þar.   Þá þóttist hann sjá engil með ljós og stefndi hann á ljósið.  Hann náði landi í vík sem síðar var kölluð Engilsvík.  Hann stóð við orð sín og húsaviðurinn fór í að byggja kirkju þar sem nú er Strandarkirkja.  Þetta eru fyrstu heimildir um að menn hér á landi hafi nýtt ljós af landi til leiðbeiningar í siglingum.   Sennilega hefur þarna verið tunglskinsglampi á kletta,  en nýttist manninum til að komast í land.  En vitasaga Íslands byrjaði með byggingu Reykjanesvita á Valahnjúk árið 1878.   Þá voru uppi áætlanir um að byggja vita með allri vesturströndinni.   En þáverandi landshöfðingi hafði greinilega mikil völd og þó þingið samþykkti að byggja fleiri vita og fjármagna þá með sérstöku vitagjaldi á skip sem sigldu á hafnir á Vesturlandi,  þá taldi Landshöfðingi að nægilegt væri að byggja vörður og kveikja bál í þeim þegar ástæða væri til.  Ekki voru margir slíkir vörðuvitar byggðir þannig að sú lausn var ekki notuð nema á Garðskaga. 

Árið 1895 byggði Otto Wathne kaupmaður á Seyðisfirði vita á Dalatanga á eigin kostnað.   Þessi viti stendur enn og er elsta vitamannvirki á Íslandi sem enn stendur.  Þó skal tekið fram að núverandi viti á Dalatanga er nýrri.    Líklegt er að Otto hafi þarna verið að storka landsstjórninni auk þess sem viti þarna var þjóðþrifamál.   En upp úr þessu voru byggðir vitar á Garðsskaga,  í Gróttu og í Reykjavík.   Þar með fór boltinn að rúlla og fleiri vitar voru byggðir upp úr því.   Má segja að þegar nýr viti var byggður á Reykjanesi hafi orðið ákveðinn vendipunktur.   Þá hafði Thorvald Krabbe verið ráðinn landsverkfræðingur ásamt Jóni Þorlákssyni og sinnti hann vitamálum.   Og smám saman voru fleiri vitar byggðir.  Árið 1918 voru a.m.k. 23 vitar við Ísland,  en tíu árum síðar voru þeir orðnir a.m.k helmingi fleiri.  Og enn fjölgaði vitum árið 1946 var ekki langt í það að vitaljós á ströndum Íslands næðu saman.   Þvi marki var náð 1954.   Eftir það voru nokkri vitar byggðir en segja má að uppbyggingu hafi verið lokið á sjöunda áratugnum.   Þá tóku við breytingar á ljósgjöfum úr gasi yfir í rafmagn,  og á tíunda áratugnum var farið að nota sólarsellur til að framleiða rafmagn á vitana.  Með því var gasinu útrýmt úr vitunum að mestu þó gas hafi lengi verið notað sem varaafl.   Eitt var það merki frá sumum vitum sem kom að góðu gagni.  Það voru hljóðmerki.  Í þoku voru í sumum vitum knúðir þokulúðrar.   Gagnaðist það sjófarendum ekki síður en annað,  en tæpast hefur verið hægt að miða vitana mjög nákvæmlega út eftir hljóðmerkinu. 

Sjálf vitahúsin eru mismunandi.   Flestir vitaturnar á Íslandi í dag eru úr steinsteypu.   Segja má að vitarnir skiptist í þrennt.  Undirstöðu,  vitaturn og ljóshús.   Undirstaðan verður að vera þung og er gjarnan breiðari um sig en turninn.   Það er vegna þess að verulegt vindálag er á turninum og í sumum tilvikum er líka ágjöf af öldum.   Þar að auki er á sumum svæðum jarðskjálftaálag sem verður að hanna turninn fyrir.   Síðan kemur vitaturninn ofan á undirstöðuna.  Í turninum eru  geymslur fyrir gaskúta og annan búnað sem þarf að vera.   En fyrst og fremst eru þar stigar upp í ljóshúsið.  Algengast er að það séu svalir efst á turninum og ljóshúsið sett á svalirnar.   Svalirnar eru eðli málsins samkvæmt með handriðum og þau gefa oft vitunum glæsilegt yfirbragð.    Ljóshúsin eru yfirleitt 3 – 4 m há og eru gerð úr stáli,  járnsteypu eða trefjaplasti.  Einstaka hús eru gerð úr timbri en það er óalgengt.  Ljóshúsin hafa yfirleitt verið flutt inn tilbúin,  en nokkur ljóshús voru smíðuð í Járnsmiðju Ríkisins sem er væntanlega fyrirrennari þess fyrirtækis sem síðar kallaðist Landssmiðjan.   Ljóshúsin hýsa eins og nafnið bendir til,  ljósgjafa linsur og annan þann búnað sem þarf fyrir vitann.   Önnur tegund vitaturna eru stálgrindarvitar.  Þeir eru einfaldir að allri gerð,  bara stálgrind,  fjórir fætur með stífum á milli,   með ljóshúsi á toppnum.  Stigi er upp eftir grindinni og gjarnan geymsluskúr inni í miðri grindinni fyrir gasflöskur og annað.   Þessir vitar þóttu einfaldir að gerð,  en entust ekki vel og eru nú ákaflega fáir í notkun.    Þriðja gerðin er svo súluvitar,  það er þeir eru einfaldlega stálsúla sem stendur á undirstöðu með einföldu ljóshúsi á endanum.  Slíkur viti er t.d.  við Rifshöfn (Töskuviti) og á Norðfjarðarhorni.   Óvenjulegasti  vitinn og ef til vill sá fallegasti er Urðarviti á Heimaey.   Hann er steyptur pallur með ljóshúsi sem hvílir á tveimur stálstoðum.  Síðan er myndarlegur stigi upp á pallinn sem augljóslega styður við mannvirkið.  

Á afskekktum stöðum var byggt upp hús fyrir vitavörð.  Þá var oft keypt jörð við vitann þannig að vitavörðurinn gæti stundað búskap,  sem yfirleitt var sjálfsþurftarbúskapur,  4 – 5 kýr og 50 til 100 kindur.  Þetta fyrirkomulag var á Galtarvita,  Hornbjargsvita,  Siglunesi og Dalatanga og vafalaust víðar.  Margir vitaverðir eru þekktir úr sögunni svo sem Erlendur Magnússon á Siglunesi og  á Dalatanga,  Jóhann Pétursson  sem lengi var vitavörður í Hornbjargsvita,  Ólafur Jónsson sem einnig var í Hornbjargsvita,  Óskar Jakob Sigurðsson á Stórhöfða.  Vitaverðirnir höfðu þann starfa auk þess að sjá um vitann að senda veðurskeyti til veðurstofunnar og voru þannig mikilvægur hlekkur í gerð veðurspár.    Nokkrir vitaverðir voru rithöfundar jafnframt og notuðu tímann til skrifta milli þess sem þeir sinntu skyldustörfum í vitanum.  Óskar Aðalsteinn er sennilega sá sem best er þekktur af því,  en þeir eru fleiri.   Sagt var að vitavarðarstaða hafi stundum komið í stað listamannalauna og þjónað sama tilgangi.   Hætt er þó við að slík dvöl hafi tæpast hentað sumum okkar bestu rithöfunda.  Ekki er víst að Halldór Laxnes eða Þórbergur Þórðarson hefðu verið öruggir í vitavörslu.   Nú hafa stöður vitavarða allar verið lagðar niður enda eru allar forsendur breyttar.  Vitar í dag með sólarsellum og raflýsingu þurfa mun minna viðhald og eftirlit en gömlu gasljósavitarnir.  Og einnig er samgöngutækni orðin allt önnur.   Komi upp bilun í vita er tiltölulega auðvelt að komast að jafnvel afskekktustu vitum í þyrlu,  ef ekki samdægurs þá mjög fljótlega.