Göngur um Þjóðlendur

07. júní 2024

Lýðveldismerki10.jpgÍ tilefni af 80 ára lýðveldisafmæli og að starfi óbyggðanefndar er að ljúka verður efnt til gönguferða um þjóðlendur og að þjóðlendulínu sem marka ytri mörk hálendisins. Samstarf um þetta er á milli forsætisráuneytisins og ferðafélaga.

Flestar ferðir Útivistar í sumar eru um þjóðlendur.  Má þar nefna ferðir um Laugaveginn, Sveinstind - Skælinga, Strútsstíg, Fimmvörðuháls, Dalastíg, Umhverfis Kerlingarfjöll, Horn í Horn, ferðir í Bása, sumarferð jeppadeildar, ferðir við Tindfjöll, Kjalvegur hinn forni, ferðir á Grænahrygg og svo má lengi telja.

Um þjóðlendur.


Þjóðlendur eru landsvæði þar sem íslenska ríkið er eigandi lands og hvers konar landsréttinda og hlunninda sem ekki eru háð einkaeignarrétti. Um þjóðlendur gilda lög nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.
Forsætisráðherra fer með málefni þjóðlendna skv. forsetaúrskurði. Leyfisveitingarhlutverkinu í þjóðlendum er skipt milli forsætisráherra annars vegar og hlutaðeigandi sveitarstjórna hins vegnar. Leyfi ráðherra þarf fyrir nýtingu vatns- og jarðhitaréttinda og vindorku innan þjóðlendna. Öll önnur nýting á landi og landsréttindum innan þjóðlendna er háð leyfi hlutaðeigandi sveitarstjórnar. Þó þannig að sé nýtingin heimiluð til lengri tíma en eins árs þarf jafnframt samþykki ráðherra skv. 3. mgr. 3. gr. laga nr. 58/1998. Samþykki ráðherra þarf til að nýta námur og önnur jarðefni innan þjóðlenda óháð tímalengd.
Nánar má lesa um þjóðlendur hér https://www.stjornarradid.is/verkefni/rekstur-og-eignir-rikisins/eignir-rikisins/thjodlendur/ Óbyggðanefnd er sjálfstæð úrskurðarnefnd og meginhlutverk hennar er að rannsaka og skera úr um hvaða svæði eru utan eignarlanda en slík svæði eru að undangenginni rannsókn úrskurðuð þjóðlendur. Einnig úrskurðar nefndin um óbein eignarréttindi innan þjóðlendna. Óbyggðanefnd hefur skipt landinu í 17 svæði og tekið eitt til meðferðar hverju sinni. Nefndin hefur lokið umfjöllun sinni um 15 af 17 svæðum og 95% af flatarmáli meginlandsins alls (svæði 1–10C), þar af tæplega 99% af miðhálendinu eins og það var skilgreint í svæðisskipulagi miðhálendisins. Aðeins á eftir að kveða upp úrskurði á svæði 11 sem eru Austfirði og svæði 12 sem eru eyjar og sker umhverfis landið. Nefndin gerir ráð fyrir að kveða upp úrskurði á svæði 11 í sumar. Á svæði 12 hefur óbyggðanefnd hefur framlengt kröfulýsingarfrest aðila til 2. september 2024.
39,2% lands sem óbyggðanefnd hefur lokið málsmeðferð á teljast til þjóðlendna en 60,8% eru eignarlönd, að teknu tilliti til endanlegra niðurstaðna dómstóla. Af þeim hluta miðhálendisins sem óbyggðanefnd hefur lokið málsmeðferð á eru tæplega 86% þjóðlendur en rúmlega 14% eignarlönd.
Frekari upplýsingar um störf óbyggðanefndar má skoða hér https://obyggdanefnd.is/

Þjóðlendumörk má finna á þessu korti