Hvaða tuð er þetta um almannarétt!

17. mars 2014

Í umræðum síðustu daga og vikna um hugmynd atvinnumálaráðherra um svokallaðan náttúrupassa til fjármögnunar á umbótum á fjölförnum ferðamannastöðum hefur hugtakið almannaréttur örlítið skotið upp kollinum.  Útivistarfélög ásamt Landvernd hafa lagst gegn náttúrpassa á þeim forsendum að þessi hugmynd gangi gegn almannarétti sem kveðið er á um náttúruverndarlögum.  Fyrir mörgum er þetta sjálfsagt óttalegt tuð í þessum félagasamtökum, allavega hef ég orðið þess var að margir sjá ekki samhengið í þessu.  Hér sé verið að láta fólk borga fyrir úrbætur á fjölförnum ferðamannastöðum og það sé ekkert athugavert við að þeir sem heimsæki staðina borgi fyrir þann átroðning sem er af þeirra völdum og túristarnir komi ekki til með að kippa sér neitt upp við það.  Sjálfsagt alveg rétt, en það eru mikilvæg hliðaráhrif sem við höfum áhyggjur af.

Í núgildandi lögum um náttúruvernd segir:

„Almenningi er heimil för um landið og dvöl þar í lögmætum tilgangi“

Í lögunum eru svo settar fram ákveðnar takmarkanir, svosem um för um ræktað land og að fólki beri að sýna af sér tillitsemi gagnvart þeim sem nýta landið, en megin reglan er að almenningi er heimil för um landið og óheimilt sé að setja á það takmarkanir, nema nauðsyn krefji til að vernda landið.  Takmarkanirnar eru þó þannig að þær eru algildar, þ.e. það er ekki hægt að setja takmarkanir á suma (þá sem borga) og aðra ekki.  Segja má að með þessum ákvæðum séu settar ákveðnar takmarkanir á eignarétt á landi sem tryggja að hægt sé að ferðast um landið óháð eignarhaldinu.  Almenningur er því ekki háður duttlungum einstakra landeiganda við að komast um landið.  Það ætti að vera hverjum manni ljóst hversu mikilvægur þessi réttur er, nú sem fyrr.

Þennan rétt hafa útivistarfélög þurft að verja í gegnum árin.  Hann byggir á fornum norrænum rétti og er hluti af menningu okkar.  Þannig má finna ákvæði um þennan rétt almennings í Jónsbók.  Þá er hann mjög tengdur tilfinningu landsmanna fyrir landinu, við lítum svo á að náttúra landsins sé sameign okkar og almannarétturinn er trygging okkar fyrir að því að fá að njóta þessarar sameignar.  Margoft hefur verið gerð atlaga að þessum rétti og við endurskoðun náttúruverndarlaga hefur jafnan þurft að verja hann kröftuglega.  Iðulega lendir ferðafólk í að brotið sé á þessum rétti.

Almennt má þó segja að íslenskir bændur hafi í gegnum áratugina og aldirnar haft ríkan skilning á þessum rétti og samskipti útivistar- og ferðafólks við bændur jafnan verið góð.  Á síðustu árum hafa orðið breytingar á eignarhaldi á landi og verður að segjast eins og er að við það hefur borið æ meira á tilhneigingu landeiganda til að loka jörðum sínum fyrir ferðafólki, jafnvel svo að heilu dölunum hefur verið lokað.  Það nýjast í þessu tengist umræðunni um gjaldtöku á ferðamannastöðum þar sem landeigendur sjá núna þann möguleika að hafa umtalsverðar tekjur af landareign sinni með því að selja aðgang að þeirri náttúru sem þar er að finna.

Í umræðunni hefur málum verið stillt upp með þeim hætti að við stöndum frammi fyrir vali á milli tveggja valkosta, annars vegar gjaldtöku landeiganda hist og hér um landið, hins vegar að taka upp náttúrupassa.  Ef við skoðum hvað felst í náttúrupassanum kemur hins vegar í ljós að eðli þessara tveggja leiða er sú sama og annað útilokar ekki hitt.  Það að ríkisvaldið taki upp náttúrupassa sem gildi á ákveðin svæði kemur engan vegin í veg fyrir að einstakir landeigendur sjái meiri gróðavon í að standa utan við náttúrupassann og rukka ferðafólk fyrir aðgang að sínu landi upp á eigin spýtur.  Raunar má segja að tilkoma náttúrupassans gefi einmitt grænt ljós á það því með honum gengur ríkisvaldið fram með fordæmi fyrir því að gera almenningi skylt að borga fyrir aðgang að náttúrunni.  Við teljum að það stangist á við ákvæði náttúruverndarlaga, en þegar ný lög eru sett sem ganga þvert á þennan rétt er komin alveg ný staða í málið.  Meðan ríkisvaldið setur með lögum nýjar takmarkanir á för almennings um náttúru landsins er ekkert sem hindrar einstaka landeiganda að gera hið sama.  Þar með er almannaréttur raunar orðinn ógildur. 

Ég myndi ekki horfa í að greiða 1000 krónur á ári til verkefna til verndunar Íslenskri náttúru.  Ég hef fullan skilning á þörfinni fyrir úrbætur á ýmsum fjölförnum ferðamannastöðum og að það kosti fjármagn.  Um þetta eru allir sammála.  Ég er hins vegar ekki tilbúinn til að fallast á leið sem hefur þá hliðarverkun að almannaréttur á Íslandi falli úr gildi og verði ómerkur.  Landeigendur eða aðrir geta selt ferðamönnum margvíslega þjónustu, svosem tjaldstæði, aðgang að snyrtingu, leiðsögn, veitingar eða hvað annað sem eftirspurn er eftir, en þegar greiðslan er fyrir aðgang að landsvæðinu og náttúrunni gengur það óhjákvæmilega þvert á þær hugmyndir um almannarétt sem norrænir menn fluttu með sér til landsins við landnám og hefur verið í gildi allar götur síðan.

 Skúli H. Skúlason
Framkvæmdastjóri Útivistar